Kl. 8.15 þann 6. ágúst sáu íbúar í Hiroshima ægilegan ljósblossa á himni.
Skömmu síðar heyrðist ærandi gnýr og risastórt sveppalagað ský reis upp í um 12 km hæð yfir japönsku borginni.
Bandaríkjamenn höfðu varpað atómsprengju með sama krafti og um 16.000 tonn af TNT yfir Hiroshima til að knýja fram uppgjöf Japana.
Rannsóknir hafa sýnt að um 9 af hverjum 10 Japönum sem voru innan eins km radíuss frá staðnum þar sem sprengjan sprakk, hafi drepist samstundis.
Eyðilegging sprengjunnar var samt nokkuð afmörkuð, því í 5 km fjarlægð voru góðar líkur á að fólk lifði sprenginguna af.
Nánast allar byggingar í Hiroshima innan 2,5 km frá sprengjustaðnum jöfnuðust við jörðu.
Talið er að um 140.000 manns af 350.000 íbúum hafi látist í kjölfar atómsprengjunnar yfir Hiroshima.
Á næstu árum dóu fjölmargir vegna sára sinna.
Margir hlutu örkuml og einu ári síðar fundu vísindamenn fyrsta krabbameinið í manni. Þau áttu eftir að verða æði mörg.
Áætlað er að um 60.000 hafi látist úr geislunarveiki á næstu áratugum.