Jól

Jólin í ljósi sögunnar: 22 staðreyndir um jólin

Hvers vegna klæðist jólasveinninn rauðu? Af hverju höldum við jól 24. desember? Hvers vegna voru nasistar mótfallnir jólunum? Fáið svör við þessu og ýmsu öðru í sögulegu jólagreininni okkar.

BIRT: 27/12/2022

Af hverju höldum við jól á röngum degi?

Í kringum árið 300 ákváðu kristilegir kirkjunnar menn að Jesús hefði fæðst þann 25. desember. Við Norðurlandabúar aðgreinum okkur hins vegar frá öðrum hlutum heimsins með því að fagna fæðingardegi hans 24. desember.

 

Þessi Norðurlandasiður stafar frá þeim tíma þegar við áttum ekki klukkur. Nýr dagur hófst fyrir vikið við sólsetur en ekki á miðnætti, líkt og nú er raunin.

 

Í Hávamálum segir m.a. „Að kveldi skal dag leyfa“.

 

Norðurlandabúar héldu í þennan sið og halda fyrir bragðið jól kvöldið fyrir 25. desember.

 

Í öðrum hlutum heimsins eru kristnir menn heldur ekki svo vissir um tímasetningu jólanna, því enginn veit alveg fyrir víst hvenær Jesús á að hafa fæðst.

 

Margir sagnfræðingar sem stundað hafa rannsóknir á efni Biblíunnar segjast hafa komist að raun um að Jesús hafi fæðst að vori, sennilega í mars.

 

Aðrir sem byggja athuganir sínar á sögulegum atburðum og fólki sem nafngreint er í Biblíunni segjast geta reiknað út að Jesús hafi í raun fæðst sex árum áður en við teljum.

 

 


 

Hver er uppruni jólasveinsins?

Hefðinni samkvæmt á jólasveinninn að halda til á Grænlandi, Norðurpólnum eða einhvers staðar í norðanverðu Finnlandi. En ef við viljum í raun og veru komast að því hverjir voru fyrirmyndir að jólasveininum, þá þurfum við að leita langt sunnar á hnettinum.

 

Sennilega var fyrsta fyrirmyndin að jólasveininum biskupinn heilagur Nikulás sem lifði í bænum Mýra á 4. öld, þar sem nú er Tyrkland.

 

Nikulás öðlaðist sess í kirkjusögunni fyrir þær sakir að hann var einstaklega gjafmildur og gaf gjafir sínar helst án þess að nokkur yrði þess var. Sem dæmi má nefna að hann á að hafa sett smápeninga í skó fátæklinga að nóttu til og þaðan stafar sá siður að setja skó út í glugga, í von um að finna í þeim gjafir á jóladagsmorgun.

 

Heilagur Nikulás skipaði afar mikilvægan sess í kaþólsku kirkjunni en þar sem hann var jafnframt verndardýrlingur sæfarenda viðhélst virðingin fyrir nafni hans einnig í Hollandi, þar sem reyndar ríkti mótmælendatrú en þar gengur hann undir heitinu „Sinterklaas“.

 

Hollendingar sem fluttu vestur um haf tóku hefðina með sér til Bandaríkjanna á 19. öld og þar varð hann að þeim Santa Claus sem við þekkjum svo vel í dag.

 

Seinna meir opnuðu fornleifafræðingar gröf heilags Nikulásar í ítalska bænum Bari og í ljós kom að jólasveinninn sögufrægi var fíngerður, örgrannur maður, ekki nema 150 cm á hæð.

 

Þrátt fyrir að upprunalegi dýrlingurinn hafi ekki líkst kröftuglega byggðum jólasveininum í dag, þá skipar hann enn mjög mikilvægan sess í löndum kaþólikka þar sem dánardags hans er minnst með miklum veisluhöldum hinn 6. desember ár hvert.

 

——————————————————

Hefur jólasveinninn ávallt verið rauðklæddur?

Jólasveinninn hefur ekki alltaf verið klæddur eins og hann er í dag. Fyrir einungis einni öld var hann einatt sýndur klæddur dökkri skikkju og þegar borgarastyrjöldin geisaði í Bandaríkjunum á árunum 1861-65 birti tímaritið Harper’s Weekly mynd af honum þar sem hann minnti á smágerðan álf.

 

Smávaxni maðurinn studdi af heilu hjarta stríðsrekstur Norðurríkjanna gegn Suðurríkjunum og var hann látinn bera bláan frakka með hvítum stjörnum, í rauð- og hvítröndóttum buxum, í takt við tímann.

 

Blár litur táknaði von allt frá fyrstu tíð kirkjunnar. Fyrir bragðið voru jólasveinar þess tíma gjarnan látnir klæðast dökkbláu en þetta er einmitt sami litur og rússneski jólasveinninn Frosti afi kaus helst að ganga í.

Þannig túlkaði Coca Cola jólasveininn.

Rauði klæðnaðurinn kom fyrst fram fyrir alvöru í Bandaríkjunum í upphafi 20. aldar.

 

Þá mátti sjá myndir af jólasveininum í rauðum klæðum, með hvítum loðbryddingum og þessi samsetning hefur sennilega átt þátt í því að gosdrykkjaframleiðandinn Coca Cola hóf að nota jólasveininn í auglýsingum fyrirtækisins.

 

Auglýsingaherferðinni var ætlað að breyta þeirri útbreiddu skoðun að Coca Cola væri einungis sumardrykkur. Teiknarinn Haddon Sundblom var ráðinn í það verk að skapa jólasvein fyrirtækisins og honum tókst svo vel til, að ekki einvörðungu breyttist Coca Cola í heilsársdrykk, heldur njörvaði hann niður, í eitt skipti fyrir öll, hugmyndir manna um það hvernig jólasveinninn skyldi líta út.

 

——————————————————

Var til jólasveinn í Sovétríkjunum?

Samkvæmt rússneskri hefð er það Babúska sem kemur með jólagjafirnar. Sagan segir að hún hafi hafnað boði þriggja vitringa fyrir tvö þúsund árum um að ferðast til Betlehem og í refsingarskyni hafi hún verið dæmd til þess að ráfa um hvíldarlaus í leit sinni að Jesúbarninu. Jólin í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni eru haldin 7. janúar og þann dag færir hún rússneskum börnum gjafir.

 

Jólin sköpuðu tiltekinn vanda í augum kommúnistanna þegar nýrri þjóðfélagsskipan var komið á í kjölfar byltingarinnar 1917. Allt það sem bara þótti minna á trú skyldi afnumið úr lífi Sovétmanna og fyrir vikið voru jólatré sett á bannlista og gerð var tilraun til að láta Babúsku lúta í lægra haldi fyrir Frosta afa (Ded Moroz).

Frosti afi og aðstoðarstúlkan hans Snæstúlkan, koma hér fram á Jolkahátíð í Lýðræðishöllinni í Austur-Berlín, jólin 1976.

Ded Moroz hafði verið hluti af rússnesku hefðinni frá því löngu fyrir byltingu en var nú gerður að aðalpersónunni í veraldlegu jólunum sem færð voru til gamlárskvölds.

 

Frosti afi þótti hæfa vel nýjum aðstæðum með því að hafa á sér afar takmarkað kristilegt yfirbragð en hann bæði reykti og drakk vodka, auk þess sem hann var yfirleitt með hina ungu fallegu Snegurichka í eftirdragi, þ.e. Snæstúlkuna.

 

Sovétmenn gleymdu hins vegar Babúsku ekki svo glatt. Jólatréð breyttist í nýárstré og Babúska lifði áfram í meðvitund þjóðarinnar. Þegar Sovétríkin voru opinberlega leyst upp 26. desember 1991 sneri Babúska aftur og sömu sögu er að segja af jólagjöfunum.

 

Ekki leið á löngu áður en hún fékk að finna fyrir verulegri samkeppni frá jólasveini Vesturlandanna sem hélt innreið sína í rússneskt þjóðfélag, ásamt öðrum bandarískum áhrifum.

 

——————————————————————

Af hverju eru grenitré notuð sem jólatré?

Óvíst er um uppruna jólatrésins en ýmislegt þykir benda til þess að hefðin eigi rætur að rekja til Þýskalands og Eystrasaltslandanna. Þetta skýrir jafnframt hvers vegna einmitt grenitré urðu fyrir valinu en þetta var að sjálfsögðu mjög algeng trjátegund í þessum hluta af Evrópu.

 

Í Þýskalandi má segja að kirkjan hafi ýtt frekar undir hefðina. Þetta átti sér stað með notkun persónunnar Bónifatíusar (um 672-754) sem var af engilsaxnesku efnafólki í Englandi kominn. Hann gerðist munkur í óþökk föður síns og leit á það sem köllun sína að boða trúna í Þýskalandi, þar sem kristin trú stóð einkar höllum fæti.

 

Þjóðsagan segir hann hafa fellt grenitré í stórum skógi í Thüringen og notað þríhyrnda lögun trjánna til að sýna íbúum á staðnum fram á undirstöðugildi heilagrar þrenningar, þ.e. guð, soninn og heilagan anda.

Hefðbundið grenijólatré.

Bónifatíus átti mikilli velgengni að fagna með trúboð sitt og varð síðar meir þekktur sem postuli Þýskalands en þess má geta að Thüringen er einmitt eitt þeirra svæða þar sem fyrst er vitað um jólatré. Sá siður breiddist út að taka tréð inn í stofuna og láta það hanga úr loftinu með toppinn niður.

 

Farið var að skreyta trén miklu síðar.

 

Bónifatíus mætti skapara sínum árið 754 þegar stigamenn myrtu hann þar sem hann stundaði trúboð í Fríslandi.

 

——————————————————————

Hverjir settu rafljós á jólatréð?

Sú hefð að koma fyrir kertum á jólatréð á rætur að rekja til Þýskalands á 17. öld og um það bil tveimur öldum síðar var hefðin endurbætt með nútímatækni. Þremur árum eftir að Edison fann upp rafmagnsperuna fékk einn vina hans nefnilega stórgóða hugmynd.

 

Edward Hibberd Johnson var aðstoðarframkvæmdastjóri í Edison-rafljósafyrirtækinu í New York og rétt fyrir jólin 1882 kom hann fyrir jólatré í stofunni sinni með 80 rauðum, hvítum og bláum rafmagnsperum.

 

Dagblöðin í New York trúðu þessu ekki og héldu að um væri að ræða óvandaða auglýsingabrellu og neituðu að skrifa um jólatré Johnson-fjölskyldunnar. Sagan um tréð barst hins vegar til eyrna ritstjóra dagblaðs sem gefið var út í Detroit og sendi ritstjórinn blaðamann alla leið til New York í því skyni að berja viðundrið augum. „Þetta var ótrúleg sjón,“ ritaði blaðamaðurinn í blaðið, en fréttinni fylgdi sú skýring að hver pera hefði verið á stærð við valhnetu.

 

Hrifningin átti sér engin takmörk. Tæknin að baki var hins vegar afar flókin og nýju jólaljósin komu fyrst á markað árið 1890. Fimm árum seinna komust þau svo í tísku þegar forsetinn Grover Cleveland lét setja upp fyrsta rafljósaprýdda jólatréð í Hvíta húsinu sem skreytt var rösklega eitt hundrað perum.

 

Þegar þarna var komið sögu var það þó einungis efnafólk sem hafði tök á að skreyta tré sín með rafljósum, því kringum aldamótin 1900 kostaði það verulegar upphæðir að prýða eitt jólatré með rafmagnsljósum og gera má ráð fyrir að upphæðin fyrir hvert tré hafi numið því sem samsvarar um 300.000 íslenskum krónum í dag.

 

Rafmagnsljós á jólatré voru orðin tiltölulega algeng kringum 1930 þegar almenningur loks fór að hafa efni á þeim.

 

——————————————————————

Var undanfari jólatrésins píramídi?

Á miðöldum fór að verða vart við sérlega skreytingu sem í Þýskalandi og hluta af Suður-Evrópu, kann að hafa litið út fyrir að vera undanfari jólatrésins.

 

Um var að ræða smíði sem samanstóð af mörgum hringlaga eða áttstrendum plötum sem komið var fyrir hverri ofan á annarri, líkt og um væri að ræða lagköku. Á hverri „hæð“ mátti sjá persónur úr Biblíunni og jötu Jesúbarnsins, allt skreytt blómum og pappírsræmum.

 

Þegar fram liðu stundir komu fram á sjónarsviðið fullkomnari gerðir með eins konar hreyfli efst sem snerist ásamt hluta af samsetningunni sem fór í hringi af sjálfsdáðum.

Á miðöldum minntu jólatré meira á píramída en tré.

Árið 1801 tók fyrirbærið aftur á móti verulegum breytingum sem jók mjög svo á vinsældir þess. Þetta sama ár lauk herför Napóleóns í Norður-Afríku og frönsku hersveitirnar sneru heim aftur. Meðferðis höfðu þeir teikningar af píramídunum í Gaza í Egyptalandi sem strax var farið að fjölfalda og öðluðust teikningar þessar vinsældir um gjörvalla Evrópu.

 

Í Þýskalandi áttaði fólk sig á því að egypsku mannvirkin minntu á jólaskreytingar heima fyrir og þær urðu í kjölfarið einnig grennri að ofanverðu.

 

Fyrir bragðið var farið að kalla píramídana jólapíramída og þeir öðluðust í kjölfarið auknar vinsældir. Merkingatengslin lágu í augum uppi, þótti fólki, því Landið helga var einmitt að finna í grennd við píramídana.

 

——————————————————————

Hvers vegna var farið að gera gervijólatré?

Uppruni jólatrésins er óljós en þeirra er fyrst getið í sögulegum heimildum á 15. öld, þar sem nú er að finna Eistland og svo tæpri öld síðar í Norður-Þýskalandi.

 

Þjóðverjar höfðu nefnilega tileinkað sér notkun jólatrjáa í svo miklum mæli að það horfði til vandræða.

 

Á þessum tíma voru engin jólatré ræktuð sem slík, heldur var toppurinn skorinn ofan af stórum trjám.

 

Trén lifðu afskurðinn af en hættu eðlilega að hækka og fyrir vikið var ekki lengur unnt að nota þau fyrir timburiðnaðinn. Afleiðingin gerði vart við sig með stórum ónýtanlegum skógum og timburskorti.

Skortur á lifandi trjám olli aukinni eftirspurn eftir gervijólatrjám.

Mörg þýsk fylki reyndu að beita lagasetningu til að sporna við vandanum og var sem dæmi bannað með lögum að vera með meira en eitt tré á hverju heimili.

 

Þetta leysti vandann að einhverju leyti en í kringum 1845 kom fram á sjónarsviðið nýr kostur sem átti eftir að koma þýsku skógunum til bjargar en hér er átt við jólatré úr fjöðrum.

 

Gæsir voru vinsæll jólamatur í Þýskalandi og fjaðrirnar var svo hægt að þræða upp á sterklegan stálþráð.

 

„Greinarnar“ voru festar á stofn og þegar búið var að lita allt „tréð“ grænt, minnti það mjög svo á lifandi grenitré. Ekki nóg með það, heldur var hægt að endurnýta „tréð“ frá ári til árs.

 

——————————————————————

Hvar er aðventukransinn upprunninn?

Aðventukransar eiga rætur að rekja til ársins 1839, þegar þýski guðfræðingurinn Johann Hinrich Wichern kynnti þá til sögunnar í tengslum við trúboðsstarf sitt.

 

Aðventukrans Wicherns var því frábrugðinn krönsunum eins og við þekkjum þá í dag, því auk þess að vera prýddur fjórum stórum kertum, einu fyrir hvern sunnudag í aðventu, var á honum einnig að finna mörg lítil rauð kerti.

 

Fjöldi litlu kertanna var breytilegur, allt eftir því hve margir virkir dagar voru frá fyrsta sunnudegi í aðventu fram á aðfangadagskvöld.

 

Wichern notaði gamalt vagnhjól í fyrsta aðventukransinn sinn sem gefur til kynna að honum hafi verið kunnugt um eldri hefðir þegar hann innleiddi þennan sið.

 

Kransahefðin er nefnilega þekkt í gömlum heimildum þar sem táknfræði hjólsins er getið.

 

Á miðöldum var aðventukransinn látinn tákna hjól ársins sem allt fram á dimmasta dag ársins hafði snúist heilan hring og var nú í þann veg að færa mönnunum aftur birtu og yl.

 

Kertaljósahefðin á rætur að rekja aftur í heiðni þegar mesta skammdeginu var fagnað með sólstöðuhátíðum sem færðu fólki birtuna á nýjan leik.

Nútíma aðventukransinn úr greni er táknrænn fyrir þyrnikórónuna sem Jesús bar við krossfestinguna.

Wichern léði aðventukransinum nútímalega merkingu, þó svo að það hafi ekki gerst samstundis.

 

Í kringum árið 1860 þakti hann hjólið með greni og þótti beitt grenið minna á þyrnikórónuna sem Jesús bar þegar hann var krossfestur.

 

Wichern léði litum kertanna jafnframt mikla merkingu en hann valdi hvít kerti sem tákn um sakleysi og rauð lét hann svo tákna ást eða kærleika. Hér lenti hann þó í vandræðum.

 

Margir kirkjunnar menn töldu nefnilega að kertin ættu að vera fjólublá, því það væri kirkjunnar litur fyrir aðventuna.

 

Allar götur síðan hafa aðventuhefðir skipst í tvennt.

 

——————————————————————

Hver sendi fyrstu jólakortin?

Sir Henry Cole var önnum kafinn maður. Hann vann miklar umbætur á ensku póstþjónustunni og var með mikil áform um stóra Victoria & Albert safnið í London. Hann rak ennfremur verslun sem seldi skrautmuni fyrir heimili fólks og hann kynntist mörgu fólki í gegnum alla þessa margbreytilegu starfsemi.

 

Sir Henry Cole kveið þess vegna einum þætti jólanna: Honum var það nánast ógerlegt að skrifa jólakveðjur til allra sem hann þekkti. Jólakort voru reyndar til en þau voru handunnin og kostuðu offjár.

Fyrsta jólakort í heimi.

Þá fékk Henry Cole enn eina stórgóðu hugmyndina. Árið 1843 fékk hann listamann til að teikna jólakort sem hann lét prenta í eitt þúsund eintökum. Kortin vöktu hins vegar reiði fólks, því í stað þess að láta myndirnar sýna hversu fallegt væri að gefa þeim fátæku gjafir, sýndi ein myndin t.d. konu gefa lítilli stúlku sopa af rauðvínsglasi. Þetta vakti mikla reiði meðal sómakærra Englendinga.

 

Umtalið sem kortin ollu varð þó sennilega kveikjan að því að margir fengu þá hugmynd fyrir næstu jól að prenta og selja jólakort.

 

Margir álitu að um væri að ræða tískudellu sem deyja myndi út en raunin varð sú að jólakort nutu síaukinna vinsælda.

 

——————————————————————

Hvaðan kemur glögg?

Fyrstu sögulegu heimildir um glögg eiga rætur að rekja aftur til 15. aldar en samkvæmt þeim komst í tísku á þýskum herragörðum við ána Rín að hita upp rauðvín, bæta við ýmiss konar kryddi og drekka sem „glühwein“ til að orna sér á rökum vetrarkvöldum. Siðurinn breyttist smám saman í jólahefð og öðlaðist vinsældir í stórum hluta af Norður-Evrópu.

Glögg var fyrst drukkið á 15. öld.

Heimildir herma að Bretar hafi haft yfir að ráða einkar áþekkum drykk sem nefndist conditum paradoxum sem útleggst sem „kryddið sem kemur á óvart“. Í matreiðslubókinni „De re coquinaria“ (Um listina að elda) frá 5. öld er að finna lýsingu á því hvernig Rómverjar útbjuggu sitt „glögg“:

 

  • 8 lítrum af hunangi er hellt í málmfötu og 1 lítra af víni bætt saman við.

 

  • Blandan er hituð upp varlega við lágan hita á meðan hrært er stöðugt með hrísvendi.

 

  • Þegar blandan nær suðu er köldu víni bætt saman við og fatan látin kólna. Þetta er endurtekið tvisvar til þrisvar.

 

  • Næsta dag heldur ferlið áfram og bætt er við 110 grömmum af steyttum pipar, 3,5 grömmum af furukjörnum, 3,4 grömmum af lofnarblómi og saffrani, ásamt 17 grömmum af ristuðum döðlukjörnum.

 

  • Þá er enn bætt við víni þar til blandan verður léttfljótandi.

 

  • Í lokin er svo bætt út í um 10 lítrum af léttvíni og ef drykkurinn er of sterkur á bragðið er mælt með að bæta út í hann glóandi kolum!

 

Drykkur þessi kann að hafa verið undanfari glöggsins. Þetta mikla magn hefur ugglaust hæft svallveislunum þar sem vitað er að Neró keisari neytti drykkjarins.

 

Verði ykkur að góðu!

 

——————————————————————

Hver fann upp heitið á Rúdolf með rauða nefið?

Nöfnin á hreindýrum jólasveinsins eru oft sögð stafa frá Clement Clarke Moore.

 

Sá var prófessor í austurlenskum og grískum tungumálum við háskólann sem seinna varð að Kólumbíuháskólanum í New York.

 

Hann er talinn hafa ort ljóðið „Heimsókn Heilags Nikulásar“ árið 1823 en þar koma nöfn allra hreindýranna fyrir.

 

Það má með sanni segja að níunda hreindýrið hafi öðlast meiri vinsældir en öll hin en með því er vitaskuld átt við Rúdólf með rauða nefið.

 

Stórverslunin Montgomery Ward í Chicago dreifði ár hvert ókeypis litabókum meðal barna viðskiptavinanna. Árið 1939 var hins vegar þröngt í búi hjá fyrirtækinu og nauðsynlegt að spara.

 

Fyrirtækið samdi fyrir vikið við einn af starfsmönnunum, Robert L. May, um að teikna myndir í litabók ársins.

Ævintýrið sívinsæla um Rúdolf með rauða nefið er rifjað upp meðal barna um hver jól.

Hugmyndina að Rúdolf fékk teiknarinn frá Litla ljóta andarunganum eftir H.C. Andersen en hreindýrin í hópnum sneru öll baki við Rúdolf sökum þess að hann var með rautt nef.

 

Sagan af Rúdolf var sögð í stuttum kvæðum og er hún myndskreytt með teikningum sem ætlunin var að börnin lituðu sjálf. Í stuttu máli sagt sló sagan af Rúdolf rækilega í gegn.

 

Montgomery Ward lét dreifa um 2,4 milljón eintökum af heftinu og þrátt fyrir pappírsskort vegna síðari heimsstyrjaldarinnar sem enn átti eftir að geisa í nokkur ári, höfðu verið prentuð rösklega sex milljón eintök árið 1946.

 

Robert L. May hafði tryggt sér öll réttindi fyrir Rúdolf, svo segja má að hann hafi hagnast mjög vel þegar farið var að gefa heftið út aftur eftir stríð.

 

——————————————————————

Hvers vegna á að kyssast undir mistilteini?

Rómverski sagnfræðingurinn Plíníus eldri (u.þ.b. 23-79) sagði frá því að keltneskir drúídar hafi tínt mistiltein af eikartrjám.

 

Plíníus var jafnframt náttúruvísindamaður og vissi að hvít ber mistilteinsins eru eitruð, sé þeirra neytt í miklu magni en hann heillaðist einnig af trú drúídanna á lækningamátt plöntunnar.

Mistilteinn hefur verið álitinn vera frjósemistákn allar götur frá því í fornöld.

Þegar drúídar tíndu mistiltein breiddu þeir hvítan dúk undir tréð til þess að mistilteinninn glataði ekki mætti sínum ef hann snerti jörðu.

 

Þeir notuðu svo mistilteininn í tengslum við sérstakar fórnir og hengdu hann jafnframt upp í dyraopum þar sem hann gegndi annars vegar hlutverki frjósemistákns og hins vegar varði íbúa hússins gegn illum öflum.

 

Kirkjan bannaði lengi vel alla notkun mistilteins, sökum fyrri tengingar við heiðni. Siðurinn hélst hins vegar lifandi á meðal almennings og þar sem fólk trúði statt og stöðugt á frjósemisgildi mistilteinsins myndaðist sá siður að fólk skyldi kyssast í dyraopum. Líklegt þykir að siðurinn hafi orðið til á síðmiðöldum.

 

Vinsældir og útbreiðsla þessa siðar náði þó hámarki á 19. öld Viktoríutímans, sennilega fyrir þær sakir að heppilegt þótti að hægt væri að fylgjast með öllu kossaflangsi þegar það átti sér stað fyrir augum allra.

 

Enn einn siðurinn náði fótfestu: Þegar karlmaður hafði stolist til að kyssa stúlku undir mistilteininum átti hann að tína af honum berin og henda þeim. Þegar mistilteinninn hafði glatað öllum berjum sínum hafði hann misst töframáttinn.

 

Um þetta leyti var einnig farið að tengja mistiltein við jólin. Á Viktoríutímanum var lögð rík áhersla á að jólin skyldu snúast um kærleika og vináttu og þar sem líta mátti á fæðingu frelsarans sem frjósemistákn var brautin að kirkjunni rudd.

 

Þetta varð til þess að kirkjan tók mistilteininn í fulla sátt, þó svo að notkun hans hafi strangt til tekið ekki flokkast undir kristilegar hefðir.

 

——————————————————————

Er það satt að Jóakim frændi hafi hatað jólin?

Þegar Disney-teiknarinn Carl Barks fékk það verkefni að semja jólasögu, leitaði hann fanga í bókmenntunum. Aðalpersónan skyldi vera gamall nískupúki sem hataði jólin eins og pestina.

 

Slíka fyrirmynd fann hann í „Jólaævintýri“ Charles Dickens frá árinu 1842, þar sem nirfillinn Skröggur frændi afgreiðir allt jólatal með orðunum „Bull, þvættingur!“ Skröggur varð með öðrum orðum kveikjan að aðalpersónu teiknimyndarinnar „Jólin á Bjarnarfjalli“ frá árinu 1947 sem fjallaði um aldraða, geðvonda önd sem kallaðist Jóakim aðalönd.

 

Jóakim aðalönd, eins og hann heitir á íslensku, bjó einsamall í risastórri höll á Bjarnarfjallinu og líkt og oft á við um Skota var hann alger nirfill sem hafði megna óbeit á eyðsluseminni sem honum fannst einkenna jólin. „Þessi hálfvitalega árstíð, þegar allir elska náungann!“ hreytti hann út úr sér.

Jóakim aðalönd var upprunalega ætlaður sem óvinur jólanna.

Carl Barks hafði í hyggju að nota persónuna til marks um glæfralegu óráðsíuna sem einkenndi Bandaríkin eftir síðari heimsstyrjöld og í raun og veru hafði hann einungis hugsað sér að persónan skyldi koma fram sem óvinur jólanna í þetta eina skipti.

 

Segja má að bandarískur almenningur hafi tekið persónunni fagnandi og Barks áttaði sig á möguleikunum sem fólust í þessari nýju persónu.

 

Hann yngdi Jóakim fyrir vikið verulega upp og gerði hann hressilegri og þannig má segja að jólin hafi orðið kveikjan að einni vinsælustu teiknimyndapersónu allra tíma, þ.e. Jóakim aðalönd.

 

——————————————————————-

Hvernig tengjast jólin þakkargjörðarhátíðinni?

Árið 1939 voru Bandaríkin enn ekki orðin þátttakandi í seinni heimsstyrjöld en forsetinn, Franklin D. Roosevelt, fylgdist áhyggjufullur með framgangi stríðsins. Hann átti jafnframt fullt í fangi með að ráða niðurlögum efnahagskreppunnar sem leikið hafði efnahag þjóðarinnar grátt allan 4. áratuginn.

 

Þetta ár bar þakkargjörðarhátíðina upp á 30. nóvember sem gerði það að verkum að bandarískir neytendur hefðu einungis 20 daga til að sinna öllum jólainnkaupum.

 

Stjórnendur fyrirtækja lögðu þess vegna til að þakkargjörðarhátíðin yrði flutt fram um eina viku eða til 23. nóvember. Þannig gæfist fólki betri tími fyrir jólagjafainnkaupin, veltan myndi aukast og hjól efnahagslífsins byrja að snúast.

 

Forsetinn samþykkti tillöguna en hún hafði hins vegar í för með sér víðtæk mótmæli. Þúsundir borgara urðu öskuillir.

 

Dagatalsframleiðendur þurftu að prenta á nýjan leik allt dagatalsupplagið fyrir árið 1940 og þetta myndi hafa það í för með sér að margir framleiðendur yrðu gjaldþrota því ekki tækist að prenta nýju dagatölin í tæka tíð fyrir jólasöluna.

 

Eigendur smáverslana mótmæltu að sama skapi: „Ef stórverslanir yfirfyllast af fólki sökum þess hve skammur tími gefst í jólagjafainnkaup, þá kæmi hluti viðskiptavinanna yfir í litlu búðirnar,“ ritaði eigandi hattaverslunar Arnolds í New York í bréfi sem stílað var á forsetann.

 

Tveimur árum síðar þótti einsýnt að tilfærsla þakkargjörðarhátíðarinnar hefði hvorki gagnast efnahag þjóðarinnar né jólaversluninni. Hátíðin var fyrir vikið flutt aftur í sömu vikuna og verið hafði áður og allar götur síðan hefur þakkargjörðarhátíðin verið haldin fjórða fimmtudag í nóvember.

 

Japanir gerðu árás á Pearl Harbour í desember 1941 og þar með voru Bandaríkjamenn orðnir þátttakendur í stríðinu. Við þetta fóru hjól atvinnulífsins skyndilega að snúast, atvinnuleysi minnkaði til muna og efnahagskreppunni lauk. Allar götur síðan hefur jólasala staðið í miklum blóma í Bandaríkjunum.

Dagsetning þakkargjörðarhátíðarinnar var færð fram um eina viku árið 1939 til að rýmka fyrir jólaverslun.

Hvað höfðu nasistar á móti jólunum?

Gjafapappír með arísku myndefni og smákökuform með lögun hakakrossins, til þess að þýskar húsmæður gætu borið slíkt sætmeti á borð um jólin. Nasistar gerðu hvað þeir gátu til að tileinka sér jólin allan 4. áratuginn og lögðu áherslu á að breyta táknmyndum og venjum jólahátíðarinnar þannig að jólin féllu betur að hugmyndafræði nasista.

 

Þetta reyndist ekki eins auðvelt og í fyrstu sýndist, því aðalpersóna jólanna, frelsarinn sjálfur, var strangt tiltekið gyðingur. Nasistarnir reyndu að komast hjá þessum vanda með því að fjarlægja allt kristilegt táknmál úr jólahaldinu.

 

Nasistar losuðu sig t.d. við þýska jólasveininn, heilagan Nikulás sem hafði þann sið að færa börnum góðgæti þann 6. desember. Norræni guðinn Óðinn leysti hann af hólmi en hann þótti hæfa betur heimssýn nasistanna.

Járnkrossar urðu aldrei vinsælt jólatrésskraut.

Þá gerðu stjörnurnar á jólatrjánum að sama skapi usla en til voru tvær vafasamar útgáfur af þeim, annars vegar fimmarma stjarnan sem þótti minna um of á tákn kommúnismans og hins vegar sexarma útgáfan sem minnti mjög svo á Davíðsstjörnu gyðinganna.

 

Nasistarnir gerðu tilraun til að fá Þjóðverja til að hengja járnkrossa á jólatré sín í staðinn en þessi tegund skrauts öðlaðist engar vinsældir og þjóðin hafði sínar íhaldssömu hugmyndir um hvernig halda skyldi alvöru jól.

 

Jóladagatölin voru einnig vandkvæðum bundin. Nasistar bönnuðu jóladagatöl með myndefni en þess í stað skyldi hver gluggi hafa að geyma slagorð nasista. Súkkulaði eða annað sælgæti í hólfum á bak við dagsetningarnar var þó enn leyfilegt.

 

Andóf gegn jóladagatalshefðinni hófst svo fyrir alvöru á stríðsárunum. Skortur var á pappa og pappír og nasistaforingjar tóku fyrir vikið ákvörðun um að hætta skyldi allri framleiðslu á jóladagatölum.

 

Þegar svo þýski stórframleiðandinn, Richard Sellmer, hóf aftur sölu jóladagtala árið 1946 var það gert með stuðningi Bandaríkjamanna.

 

Dwight D. Eisenhower sem var hæstráðandi yfir bandarísku hersveitunum í Evrópu var ljósmyndaður ásamt barnabörnum sínum þar sem þau opnuðu glugga á jóladagatali og mynd þessi var notuð í herferð sem hafði þann tilgang að losa Þjóðverja undan ánauð nasismans.

 

Nýju jóladagatölin urðu samstundis vinsæl.

 

——————————————————————————

Var friður um jólin í skotgröfunum?

„Klukkan sex stöðvaðist allt og alger þögn ríkti,“ ritaði ónafngreindur enskur hermaður í dagblaðið The Times hinn 1. janúar 1915. Hann var staðsettur við víglínuna í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöld og lýsti því þegar bardagarnir við Þjóðverja staðnæmdust fyrirvaralaust rúmri viku fyrir aðfangadagskvöld.

 

„Við sátum umhverfis bálið allt kvöldið og um klukkan ellefu þetta kvöld tilkynnti liðsforingi í fótgönguliðinu okkur að allir bardagar skyldu stöðvaðir og að mennirnir ætluðu að hittast á milli skotgrafanna,“ segir í lýsingum Englendingsins. Þetta átti síðar eftir að verða skráð í bækur sögunnar sem „jólavopnahléð“.

 

Hermaðurinn lýsti því þegar hermenn beggja fylkinga mættust á einskismannslandi næsta morgun. Þýsku hermennirnir skelltu látlaust saman hælunum og voru yfirmáta kurteisir en enginn sagði neitt, því hvorugur aðili talaði tungumál hins.

 

Að lokum steig Þjóðverji nokkur fram sem búið hafði í fáein ár í Bandaríkjunum og bauðst til að túlka fyrir mennina. Þeir skiptust síðan á sígarettum og litlum gjöfum og einn þýski hermaðurinn bað Englending um að senda mynd af sér til frænku sinnar í Liverpool.

 

„Flestir Þjóðverjar eru kátir og glaðir og það virðist svo fáránlegt að vera að berjast við þá,“ skrifaði annar breskur hermaður í sama dagblað.

 

Þegar jóladegi lauk um miðnætti hófust bardagarnir á nýjan leik og víglínan einkenndist af ofbeldi aftur. Þegar breska herforingjaráðið frétti af mörgum óundirbúnum vopnahléum sendu þeir öskuillir út fyrirskipanir þess eðlis að öll umgengni við óvininn væri stranglega bönnuð.

 

Þegar hermenn við víglínuna gerðu tilraun til að endurtaka leikinn um jólin 1915, tókst þeim í mjög fáum tilvikum að koma á friði yfir jólin.

Í Frakklandi, við vesturvígstöðvarnar í desember 1914. Þýskir hermenn gleymdu um stund hörmungum stríðsins og héldu jól við víglínuna í Frakklandi.

Fögnuðu Rómverjar jólunum?

Árið 217 fyrir Krist lutu Rómverjar nokkrum sinnum í lægra haldi fyrir Hannibal, hinum þekkta herforingja frá Karþagó. Rómverjum veitti ekki af svolítilli uppörvun og fyrir bragðið var ákveðið að efna til mikilla hátíðahalda í Róm þann 17. desember.

 

Hátíðin þótti takast með þvílíkum ágætum að hún var endurtekin árið á eftir og þar með hafði verið lagður grunnur að nýrri hefð, Satúrnusarhátíðinni.

 

Hátíðin óx stöðugt þegar fram liðu stundir. Skemmtanahaldið teygði sig yfir heila viku, allt fram til 23. desember, þegar Rómverjar fögnuðu vetrarsólstöðum, stysta degi ársins. Hátíðin fékk jafnframt á sig nýjan brag.

 

Minningin um að hafa lotið í lægra haldi fyrir Hannibal fölnaði smám saman í meðvitund Rómverjanna og þess í stað einblíndu þeir á betri tíð með blóm í haga og hlökkuðu til langra sumardaga.

 

Á þessum sama tíma varð samneyti manna með frjálslegra sniði en verið hafði. Þegar farið var í veislur var ekki nauðsynlegt lengur að klæða sig í tóga-skikkjur og þrælar höfðu enn fremur leyfi til að skemmta sér og hegða sér eins og frjálsir menn.

Það varð meira að segja algengt að efnaðir Rómverjar bæru fram mat fyrir þræla sína, á meðan þeir allir svolgruðu í sig víni og skemmtu sér.

 

Sérstakur siður fór að gera sífellt meira vart við sig en hann fólst í því að gefa gjafir sitt á hvað. Gjafirnar voru iðulega vaxkerti sem hugsanlega hafa átt að tákna vetrarsólstöðurnar.

 

Rithöfundurinn Seneca kvartaði undan því að „almenningur gleymdi sér yfir nautnunum“ og á fyrstu öld eftir Krist sagði lögmaðurinn og stjórnmálaskörungurinn Plíníus yngri frá því að hann hefði læst sig inni í vinnuherbergi sínu á meðan annað heimilisfólk sletti úr klaufunum á Satúrnusarhátíðinni.

 

Ágústus keisari gerði tilraun til að stytta hátíðahöldin niður í þrjá daga og Kalígúla reyndi að takmarka þau við fimm daga. Rómverjarnir kærðu sig hins vegar kollótta: Þeir skemmtu sér af öllum lífs- og sálarkröftum í heila viku. Siðurinn með að gefa vaxkerti og aðrar gjafir lifði fram á 4. öld, allt þar til kristni öðlaðist útbreiðslu.

 

Sagnfræðingar telja fyrir vikið að sumar jólahefðirnar kunni að eiga rætur að rekja til Rómverja.

 

——————————————————————————–

Hvers vegna urðu jólin að þjóðarhátíð í Japan?

Kristni barst til Japan þegar Portúgalir lögðu grunninn að fyrstu verslunarstöðinni þar árið 1549. Trúboðar bættust í hópinn og hófust handa við að breyta þessu nýja landi í kaþólska þjóð. Þeir höfðu hins vegar ekki erindi sem erfiði og enn þann dag í dag aðhyllist aðeins um einn hundraðshluti japönsku þjóðarinnar kristna trú.

 

Jólin urðu fyrir bragðið hátíð örlítils minnihluta og þegar kom að því að kristni var bönnuð árið 1612 héldu svokallaðir „kakure kirishitan“ (hinir leyndu kristnu) áfram að halda hjól.

Jólaljós í Tókýó.

Þannig var þessu farið fram í byrjun 20. aldar þegar Japan opnaðist smám saman gagnvart vestrænum áhrifum og íbúarnir fengu áhuga á jólahefðum, þó einkum bandarískum.

 

Jólin voru þess vegna það fyrsta sem látið var fjúka þegar Japanir urðu þátttakendur í síðari heimsstyrjöld eftir árásina á Pearl Harbour árið 1942. Jól voru skilgreind sem þáttur af Ameríkuvæðingunni og þess vegna bönnuð.

 

Bandaríkjamenn voru í fararbroddi hvað snerti enduruppbygginguna í Japan eftir stríð og menningarlegur „styrkur“ var m.a. fólginn í Hollywood-kvikmyndum, þar sem jólin höfðu á sér rómantískan blæ.

 

Þar með var áhugi Japana vakinn og skömmu eftir stríðið urðu jólin svo hluti af japönsku þjóðlífi aftur en án þess að trúmálum væri blandað inn í þau. Jólin urðu að veraldlegri þjóðarhátíð sem fól í sér jólatré og gjafir sem urðu tákn um nýja tíma.

 

——————————————————————————–

Hafa jólin nokkurn tímann verið bönnuð?

Oliver Cromwell var einráður sem æðsti verndari Englands, Írlands og Skotlands frá árinu 1653 til dánardags árið 1658. Allan þann tíma áttu jólin undir högg að sækja.

 

Lýðveldissinnarnir voru í hæsta máta ósáttir við það að Englendingar fögnuðu jólahátíðinni sem í þeirra augum hafði breyst í tilgangslaust ofát á kalkúni, tertum og plómubúðingi – sem skolað var niður með óheyrilegu magni af jólaöli.

 

Fylgismenn Cromwells álitu hátíðahöldin vera runnin undan rifjum kaþólsku kirkjunnar og reyndu allt hvað þeir gátu til að beina jólahaldinu í hófsamari átt. Tólf daga fasta, með flugeldum og kynferðislegu lauslæti, var lögð af.

 

Hinn 25. desember var gerður að ofur hefðbundnum virkum degi og jólunum skyldi helst fagnað með því að fasta í kyrrð og ró. Ýmis ný lög voru samþykkt og meira að segja anganin af jólamat út um eldhúsglugga varð refsiverð.

 

Margt þykir hins vegar benda til þess að Englendingar hafi ekki sætt sig við þessi boð og bönn. Gefin voru út nafnlaus rit sem mæltu með því að fagna mætti trúarlegum og veraldlegum jólum og til eru frásagnir af leynilegum jólaguðsþjónustum og jólahaldi á heimilunum.

Í raun og veru þykir vafasamt að Cromwell hafi sjálfur aðhyllst meinlætalifnaðinn sem átti að ríkja um jólin. Hann hafði nefnilega yndi af dansi og tónlist og þegar dóttir hans gifti sig vantaði ekkert upp á að gestirnir gætu skemmt sér ærlega.

 

Þess vegna freistast margir til að halda að það hafi ekki verið Cromwell sjálfur sem vildi að jólin yrðu lögð niður í þeirri mynd sem áður einkenndi þau.

 

——————————————————————————–

Kom Viktoría drottning jólunum til bjargar?

Iðnbyltingin gerði það að verkum að mjög miklar breytingar áttu sér stað í Evrópu á 18. öld.

 

Nýjar framleiðsluaðferðir, upprunnar í Englandi, breiddust út um allt meginland Evrópu og atvinnulíf vænkaðist, fjármagn jókst og efnahagur fór batnandi. Nú var ekki lengur ráðrúm fyrir helgidaga og hefðir og einkum jólin áttu undir högg að sækja.

Þetta átti allt eftir að breytast þegar hin unga Viktoría drottning gekk að eiga Albert prins árið 1840. Hann átti rætur að rekja til miðbiks Þýskalands, þar sem jólahefðir voru í heiðri hafðar.

 

Albert prins flutti þýsku hefðirnar með sér til ensku hirðarinnar og fyrsta jólatréð var sett upp árið 1841 í Windsor. Prinsinn innleiddi enn fremur þann sið að konungsfjölskyldan skiptist á jólagjöfum.

 

Allt þetta hugnaðist drottningunni, því hamingjuríkt fjölskyldulíf samræmdist vel siðferðiskennd hennar og hún áttaði sig á að þannig mætti uppræta svallveislurnar sem tíðkuðust hjá hástéttinni um jólin.

 

Drottningin var þeirrar skoðunar að verkamannastéttin hefði gott af að halda fjölskyldujól.

Hún bauð þess vegna blaðamönnum tímaritsins „The Illustrated London News“ í heimsókn í höllina til að berja augum jólaskreytingarnar í konunglegu hýbýlunum.

 

Þar sem drottningin og fjölskylda hennar nutu ómældra vinsælda og virðingar meðal almennings leið ekki á löngu áður en enska þjóðin var farin að líkja eftir jólahefðunum í höllinni.

 

Á þessum tíma hafði iðnbyltingin hafið innreið sína og farið var að fjöldaframleiða jólagjafir sem meira að segja verkalýðurinn hafði efni á að kaupa.

 

——————————————————————————–

Var Fort Christmas jólavirki?

Árið 1832 hugðist Bandaríkjastjórn flytja semínóle-indíánana búferlum frá verndarsvæðinu í norðurhluta Flórída sem þeim hafði verið úthlutað níu árum áður. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem hreyft var við indíánum þessum en nú fýsti hvíta manninn enn og aftur að komast yfir land þeirra og ríkisstjórnin bauð rauðskinnunum nýtt verndarsvæði lengst vestur í Arkansas.

 

Þetta varð kveikjan að öðru semínóle-stríðinu sem átti eftir verða eitt blóðugasta indíánastríðið sem geisað hafði. Um 40.000 hermenn tóku þátt í stríðsrekstrinum sem stóð yfir frá 1835 til 1842 og átti eftir að kosta ríkisstjórnina í Washington alls 40 milljónir dala sem var óheyrileg upphæð í þá daga. Alls 1.500 hermenn týndu lífi, svo og óþekktur fjöldi indíána.

 

Á jóladag árið 1837 mætti 800 manna herlið einum 400 indíánum. Hermennirnir voru ginntir til að halda út á fenjasvæðið við Okeechobee-stöðuvatnið og hermennirnir sem þekktu ekki staðhætti áttu í mesta basli með að berja á indíánunum sem voru á heimavelli.

 

Þetta gerði það að verkum að breyta þurfti öllum stríðsundirbúningi: Stríðið skyldi nú háð með aðstoð 200 virkja sem reist voru á bardagasvæðunum. Eitt þeirra reis við Okeechobee-stöðuvatnið og gekk það undir heitinu Jólavirkið (Fort Christmas) sökum þess að það var byggt í kringum hátíðarnar.

 

Jólavirkið og flest hin virkin voru reyndar aldrei tekin í notkun. Stríðið færðist nefnilega suður á bóginn og þess má geta að þriðja semínóle-stríðið (1855-58) dugði ekki heldur til að reka ættbálkinn frá Flórída, þar sem síðustu semínóle-indíánarnir höfðu búsetu.

 

Flest virkin voru rifin niður aftur en Jólavirkið fékk að standa óáreitt og hýsir í dag lítið safn nærri bænum Christmas sem er útbúinn jólaskreytingum allt árið um kring, nafni sínu til heiðurs.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Hans Henrik Fafner

Shutterstock,© Flickr/Jim,© Wikimedia Commons/Gerbil,© Wikimedia Commons/Osvaldo Gago,© Wikimedia Commons,

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Heilsa

10 matvæli með meira C-vítamín en appelsínur

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

Náttúran

Hvernig veit fræ að það eigi að spíra? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Vinsælast

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

4

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

5

Maðurinn

Þráhyggja tekur heilann í gíslingu

6

Saga

Af hverju ráða Bandaríkin yfir Guantanamo?

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

4

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

5

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

6

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Hve lengi höfum við fengið sumarfrí?

Maðurinn

Þessi tvö efni geta átt þátt í að lækka líffræðilegan aldur okkar

Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Menning og saga

Múmía hræddi líftóruna úr vörðum

Náttúran

Topp 5: Hvaða könguló er stærst?

Náttúran

Tuttugu arma sædýr fannst við suðurskautið

Maðurinn

Styrktu alla þrjá þætti greindarinnar

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Maðurinn

10 óvanalegar tegundir af fælni

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Sumir virðast vera fæddir undir lukkustjörnu en hjá öðrum virðist heppnin vera nánast yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Hvorki eldingar, flugslys, öfundsjúkir keppinautar eða kjarnorkusprengjur gátu bugað þessa heppnu einstaklinga.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is