Lifandi Saga

Júdas- sem aldrei verður fyrirgefið

Í hátt í 2.000 ár hefur kristið fólk fyrirlitið Júdas Ískaríot – lærisveininn sem seldi Jesú fyrir poka af silfurpeningum. En jafnvel verstu óbótamenn eiga sér aðdáendur. Á fyrstu öldum eftir dauða Jesú ögruðu áhangendur Júdasar öðrum með morðum og kynlífssvalli.

BIRT: 01/06/2023

Meðal kristinna er tæpast til nokkurt skammaryrði sem kemst í hálfkvisti við „Júdas“.

 

Í hátt í 2.000 ár hefur nafnið verið notað um allra verstu svikarana, þá sem bregðast jafnvel sjálfsögðustu grundvallarreglum – rétt eins og lærisveinninn Júdas gerði þegar hann innsiglaði örlög Jesú með kossinum fræga í Getsemane-garði, að því er biblían segir.

Með gríðarlegri vinnu tókst að bjarga megninu af Júdasarguðspjallinu. Um 90% handritsins reyndust læsileg.

Guðspjallið var nær ónýtt þegar viðgerð hófst.

Skúrkur eða gleymd hetja?

Það vakti sannarlega athygli þegar bandaríska tímaritið National Geographic opinberaði „Júdasarguðspjall“ árið 2006.

 

Endurfundið rit frá 4. öld gerði nú kleift að lesa nýja framsetningu atburðanna sem leiddu til krossfestingarinnar.

 

„Mót-biblía“, sögðu sumir en kirkjan tók guðspjallinu af talsverðri tortryggni.

„Þeir munu allir standa í skugga þínum, því þú fórnar þeim manni sem ég hefi íklæðst.“
Útdráttur úr Júdasarguðspjalli: Jesús ræðir við Júdas um svikin sem munu gera hann æðstan lærisveinanna.

En jafnvel verstu svikarar eiga sér fylgjendur og það sýnir saga Júdasar.

 

Á fyrstu öldum kristninnar áttu fylgjendur hans sér sérstakan söfnuð og hann var hylltur í riti sem kallaðist Júdasarguðspjall. Þar er hann sagður mikilvægastur allra lærisveina Jesú.

 

Skömmu fyrir píslarvættisdauða sinn á krossinum á Jesús að hafa sagt honum í trúnaði að hinir lærisveinarnir stæðu í skugga hans.

Í Júdasarguðspjalli veitir Jesús Júdasi aflausn af verkum sínum.

Lærisveinar nákvæmlega valdir

Þrátt fyrir tíða notkun nafns Júdasar sem skammaryrðis hafa trúarbragðasagnfræðingar litlar upplýsingar um hinn fallna lærisvein úr nýja testamentinu.

 

Kenninafnið – Ískaríot – vísar líklegast til þess að hann hafi verið upprunninn í Kerioth, bæ í suðurhluta Júdeu.

 

Biblían greinir ekki frá því hvernig Júdas komst í hóp lærisveinanna en Jesús valdi fylgisveina sína mjög vandlega.

„Komið og fylgið mér og ég mun láta yður menn veiða.“ 
Jesús við veiðimennina Andrés og Símon Pétur.

Af frásögnum er að sjá að Jesús hafi á guðdómlegan hátt vitað hverja hann ætti að velja og á sama hátt vissu hinir útvöldu að þeir skyldu fylgja honum.

 

Biblían segir frá því hvernig Jesús hitti bræðurna tvo, Andrés og Símon (sem síðar nefndist Símon Pétur), þar sem þeir voru að veiða fisk í Genesaretvatni. Hann sagði þeim að leggja frá sér fiskinetið.

 

„Komið og fylgið mér og ég mun láta yður menn veiða,“ sagði hann.

 

Samkvæmt Matteusarguðspjalli (4. 19-20) yfirgáfu bræðurnir starf sitt og fjölskyldur til að fylgja honum.

 

Júdas er nefndur um 40 sinnum í guðspjöllunum og rétt eins og aðrir lærisveinar slóst hann í för með farandprédikaranum Jesú sem kenndi þeim.

 

„Hann skipaði þá tólf er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika, með valdi til að reka út illa anda,“ eins og segir í Markúsar guðspjalli (3, 14-15).

 

Júdas stal úr sjóðnum

Á tímum Jesú voru lönd gyðinga í Júdeu og Galíleu hersetin af Rómverjum sem ekki skiptu sér mikið af daglegu lífi fólks í héraðinu Palestínu – en innheimtu aftur á móti gríðarháa skatta sem steyptu sumum í botnlaust skuldafen.

 

Margir ungir menn sem ekki sáu sér neina framtíð, slógust í för með farandprédikurum sem á þessum tíma fóru um landið. Þessir menn yfirgáfu fjölskyldur sínar og afsöluðu sér öllum arfi; þess í stað varð söfnuðurinn eins konar fjölskylda, þar sem menn héldu hópinn og deildu því litla sem þeir höfðu.

 

Fámennur hópur Jesú lifði eftir þessu fyrirkomulagi og hlutverk féhirðis féll Júdasi í skaut.

,,Þetta sagði hann ekki af því að honum væri annt um fátæka, heldur af því að hann var þjófur
Guðspjallamaðurinn Jóhannes um hinn þjófótta Júdas.

Upplýsingarnar um þetta eru eitt af því fáa sem biblían segir um Júdas og þessar upplýsingar þjóna þeim eina tilgangi að lýsa fúlmennsku hans. Júdas stal sem sé úr kassanum.

 

Guðspjallamaðurinn Jóhannes segir frá því að í vikunni fyrir hina örlagaríku páskahátíð hafi Jesús og lærisveinunum verið boðið til málsverðar í Betaníu sem nú er úthverfi í Jerúsalem.

 

Fyrir máltíðina smurði kona ein fætur Jesú með vellyktandi smyrslum. Athöfnin var hefðbundin og tákn um undirgefni en Júdasi þótti konan fara illa með smyrslin og æsti sig.

 

„… húsið fylltist af ilmi smyrslanna. Þá segir Júdas Ískaríot, einn af lærisveinum hans sem síðar varð til þess að svíkja hann: Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?

 

En þetta sagði hann ekki af því að honum væri ant um fátæka, heldur af því að hann var þjófur: og með því að hann hafði pyngjuna, tók hann það sem í hana var látið.“ (12. kafli, vers 3-6).

 

En smápeningar voru ekki nóg fyrir hinn gráðuga Júdas.

„Ég drýgði synd. Ég sveik saklaust blóð“, sagði Júdas við æðstuprestana.

Líf fyrir 30 silfurpeninga

Þegar Jesús reið inn í Jerúsalem á asna til að halda upp á pesach (páskahátíð gyðinga), hóf hann markvissa baráttu gegn æðstuprestum gyðinga í borginni.

 

Strax daginn eftir komu sína til borgarinnar velti Jesús um koll söluborðum í forgarði musterisins og síðan prédikaði hann fyrir íbúum og varaði við hinum skriftlærðu.

 

Júdas vissi að æðstuprestarnir og yfirmenn musterisvarðanna voru búnir að fá sig fullsadda af þessum trúaða uppreisnarsegg – og nú eygði hann þann möguleika að komast yfir talsverða peninga.

 

„Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú,“ segir Lúkas (22, 4).

 

Æðstuprestarnir lögðu fram 30 silfurpeninga – ekkert stórfé á mælikvarða þess tíma í Jerúsalem, peningarnir hefðu dugað fyrir þræl eða jarðarskika. En Júdas var ánægður með kaupin „Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann.“ (Matteus 26, 16).

„Ég drýgði synd. Ég sveik saklaust blóð“. En þeir svöruðu: „Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“
Samkvæmt Nýja testamentinu sér Júdas eftir svikum sínum.

Tækifærið kom þegar Jesús og lærisveinarnir borðuðu kvöldverð.

 

„Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig,“ sagði Jesús hreint út (Matteus 26, 21). Eins og til að beina gruninum frá sér spurði Júdas sakleysislega:

 

„Rabbí, ekki er það ég?“ (Matteus 26, 25).

 

Júdas vissi að Jesús myndi síðar um kvöldið fara í Getsemanegarðinn til að biðja. Hann yfirgaf þess vegna hópinn snemma og sótti þá menn sem áttu að handtaka Jesú.

 

Meðan Jesús baðst fyrir, sofnuðu lærisveinarnir ítrekað. Þegar hann vakti þá í þriðja sinn hafði hann óhugnanlegar fréttir: „Sá er í nánd er mig svíkur.“ (Markús 14, 42).

 

Áður en Jesús náði að ljúka máli sínu gekk Júdas til hans og heilsaði honum með kossi.

Þessi kærleiksríka heilsun var fyrirframákveðið merki og nú stigu vopnaðir menn fram úr myrkrinu. Þeir drógu Jesús með sér til yfirheyrslu, fyrst hjá æðstuprestunum og svo rómverska landstjóranum í Jerúsalem, Pontíusi Pílatusi sem dæmdi hann til dauða.

 

Júdasi komu silfurpeningarnir ekki að neinu gagni. Meðan Jesús hékk á krossinum á föstudaginn langa, endaði Júdas ævi sína í skömm. Hann iðraðist gerða sinna og sneri aftur til musterisins til að skila peningunum.

 

„Ég drýgði synd. Ég sveik saklaust blóð“. En þeir svöruðu: „Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.“

 

Í örvæntingu sinni fleygði Júdas peningunum inn í musterið. Æðstuprestarnir tíndu þá upp en vildu ekki setja þá í fjárkistuna, því þetta voru blóðpeningar.

 

Júdas tók afleiðingum gerða sinna: „Síðan fór hann og hengdi sig.“ (Matteus 27, 4-5).

„Ég hef drýgt synd er ég sveik saklaust blóð,“ sagði Júdas. Skömmu síðar hengdi hann sig.

„Ég hef drýgt synd er ég sveik saklaust blóð,“ sagði Júdas. Skömmu síðar hengdi hann sig.

Barátta um kenningar

Samkvæmt nýja testamentinu reis Jesús upp frá dauðum á þriðja degi (á páskadag) og lærisveinarnir fengu að sjá hann. Næstu 40 dagar fóru í trúarfræðslu áður en sonur Guðs steig upp til himna.

 

Tíminn var þó ekki nægur til að skapa fullþróuð trúarbrögð og á næstu áratugum urðu til margvíslegar túlkanir á orðum og gerðum Jesú. Fólk sem hafði hitt Frelsarann – eða bara heyrt frá honum sagt – setti fram eigin kenningar um hina kristnu trú.

 

Einn slíkra manna var Símon sem hafði viðurnefnið „Töframaðurinn“.

„Gefið mér einnig þetta vald, að hver sá sem ég legg hendur yfir, fái heilagan anda.“
Töframaðurinn Símon reyndi að kaupa heilagan anda af postulunum.

Um 60 e.Kr. vakti hann mikla eftirtekt fyrir kraftaverk sín (eða töfrabrögð) í bænum Samaríu norður af Jerúsalem. Íbúarnir voru svo hrifnir að þeir kölluðu hann „kraft Guðs“.

 

Á þessum tíma höfðu einhverjir af íbúunum tekið trú og verið skírðir en þeir höfðu ekki í sér heilagan anda. Þess vegna komu postularnir Pétur og Jóhannes þangað til að leggja hendur sínar yfir hina skírðu.

 

„Töframaðurinn“ áttaði sig strax á því að með heilögum anda bjuggu postularnir yfir miklu kraftmeiri töfrum en hann sjálfur og hann gerði tilraun til að kaupa andann:

 

„Gefið mér einnig þetta vald, að hver sá sem ég legg hendur yfir, fái heilagan anda.“

 

En samkvæmt Postulasögunni (8, 18-21) vísaði postulinn Pétur beiðni hans á bug:

 

„Þrífist aldrei silfur þitt, né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé. Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.“

 

Í þessum orðum fólst dýpri spásögn en Pétur gat grunað, því trúarbragðasagnfræðingar telja nú Símon „Töframanninn“ fyrsta þekkta dulspekinginn eða „gnostikerann“. Orðið er komið úr grísku og merkir innsæi. Af innsæi sínu reiknuðu dulspekingar út að til hlytu að vera tveir guðir:

 

 • Guð gamla testamentisins sem hafði skapað jörðina. Sá guð sem hafði skapað svo spilltan heim, fullan af óréttlæti, sulti og sjúkdómum, hlaut að vera illur að áliti dulspekinganna.

 

 • Hinn guðinn, hinn sanni guð, hafði skapað alheiminn. Dulspekingarnir leituðust við að yfirgefa sitt jarðneska hulstur til að komast til þessa guðs í himinhæðum.

 

Á árunum eftir dauða Jesú tókst lærisveinum hans að útbreiða kenningar sínar til hluta af Palestínu, Tyrklandi og Grikklandi en dulspekingarnir eignuðust líka mikinn fjölda áhangenda. Og sumir þeirra höfðu not fyrir Júdas í þessari nýju trú.

Á fjórðu öld mátu kirkjufeðurnir öll handrit skrifuð af fylgismönnum Jesú.

Hin sönnu guðspjöll valin

Fjöldi guðspjalla neyddi yfirmenn kirkjunnar til að taka í taumana. Af um 40 guðspjöllum komust aðeins fjögur í nýja testamentið.

Eftir dauða Jesú útbreiddu fylgismenn hans gríðarlegan fjölda frásagna um ævi hans. Um 180 e.Kr. gengu a.m.k. 40 guðspjöll milli manna. Sumir höfundar höfðu farið frjálslega með og skáldað upp rit sem þeir skrifuðu í nafni einhvers postulans.

 

Í tiltektarskyni valdi Ireneus biskup fjögur guðspjöll sem hann taldi sönn. Ireneus hafði séð hvert það gat leitt einstaka söfnuði að halda sig einungis við eitt guðspjall. Þess vegna valdi hann Markúsar-, Lúkasar-, Matteusar- og Jóhannesargjuðspjöll úr öllum fjöldanum.

 

Þessa ákvörðun hans staðfestu kirkjufeðurnir, þegar þeir ákvörðuðu innihald nýja testamentisins undir lok 4. aldar.

 

Alls hlutu 27 rit náð fyrir augum þeirra en dulspekiritin voru meðal þeirra sem látin voru fjúka.

Ákvarðanir teknar á járnöld stýra guðsþjónustum í kirkjum nútímans.

Júdas reis upp sem vinur Jesú

Dulspekingarnir litu á það sem sitt hlutverk að berjast gegn hinum illa guði og öllu því sem hann hafði skapað. Meðal þess voru boðorðin tíu, þar sem gyðingum var m.a. bannað að borða svínakjöt, fremja morð og drýgja hór.

 

Frá sjónarhóli dulspekinganna fólu boðorðin tíu í sér heilmikið vopnabúr sem mátti nota gegn hinum illa guði. Af þessu leiddi að þeir sem harðastir voru í trúnni borðuðu svínakjöt, drápu fólk og stunduðu kynsvall til að ná til hins sanna guðs.

 

Í Tanak (útgáfu gyðinga af gamla testamentinu) fundu dulspekingarnir ýmis vopn gegn hinum illa skapara; t.d. höggorminn sem freistaði Evu í aldingarðinum Eden og Kóra sem reyndi að gera uppreisn gegn Móse, þegar gyðingar flúðu þrældóminn í Egyptalandi.

Fleiri rit fóru í ruslið

Forguðspjall Jakobs fjallar um Maríu, móður Jesú. Foreldrar hennar eru of gamlir til að eignast börn en engill heimsækir þau.

Bernskuguðspjallið lýsir uppvexti Jesú. Hann hefur enga sjálfsstjórn sem barn og margir bíða bana af kraftaverkunum. Á endanum vekur hann alla til lífsins.

Pétursbréfin segja frá postulanum Pétri, m.a. átökum hans við Símon „Töframann“ og síðar krossfestingu hans í Róm.

Guðspjall Maríu Magdalenu lýsir henni sem nánasta lærisveini Jesú. Fullyrt er að hann hafi elskað hana meira en hina.

Svikarinn Júdas fékk sérstakan sess hjá dulspekingum vegna þess að hann hjálpaði Jesú að komast úr sínu jarðneska hylki.

 

Kristna dulspekiafbrigðið rataði til Alexandríu, hinnar stóru hafnarborgar í Egyptalandi sem sá Rómverjum fyrir korni.

 

Allt frá dögum Ptolemeusar konungs (um 280 f.Kr.) hafði bæði háskóli og gríðarstórt bókasafn verið í borginni. Í Alexandríu úði og grúði af lærðum mönnum og þeir tóku öllum nýjum heimspekihugmyndum fagnandi.

 

Í hafnarborginni fundu dulspekingarnir frið á sama tíma og kristindómurinn klofnaði: Aðeins hundrað árum eftir dauða Jesú voru áhangendur hans sundraðir í fjölda ósáttfúsra sértrúarhópa og klofningsbrot sem skrifuðu sín eigin guðspjöll og börðust hver gegn öðrum. Hvað Jesús hafði í rauninni sagt og hvað var hreinn skáldskapur varð æ óskýrara.

 

Um þetta leyti tóku söfnuðir að velja fyrstu prestana og biskupana; einn þeirra tók að sér það hlutverk að bjarga hinni sönnu kenningu: Ireneus sem var biskup í rómversku borginni Lugdunum (nú Lyon) skrifaði um 180 e.Kr. fimm binda verk um villutrúarmenn.

 

Hann taldi upp hundruð sértrúarsöfnuða, m.a. karpokratíanera sem tilbáðu mynd af Jesú sem – að þeirra sögn – var máluð af Pontíusi Pílatusi.

 

Í villutrúarriti Ireneusar var einnig getið um hinn ofstækisfulla dulspekisöfnuð Kainíta sem tilbað bróðurmorðingjann Kain úr gamla testamentinu.

 

„Þeir halda því fram að engill hvetji þá til hvers konar syndugra og viðbjóðslegra gjörninga,“ skrifaði Ireneus.

 

Innblástur til þessa vafasama lífernis fengu Kainítar frá hinum fallna lærisveini Júdasi, að áliti biskupsins:

 

„Þeir segja að Júdas, svikarinn, hafi haft sérstaka vitneskju, að hann einn en ekki hinir hafi þekkt sannleikann og hafi þess vegna tekið leyndardóminn að baki svikunum á sig. Þeir segja að allir hlutir á himni og jörðu séu endurleystir. Til stuðnings þessari kenningu vitna þeir í uppskáldaða frásögu sem þeir kalla Júdasarguðspjall.“

 

Lýsing Ireneusar á guðspjallinu er eitt af því fáa sem trúarbragðasagnfræðingar vita um þennan Júdasarsöfnuð sem sneri trúnni á haus með því að tilbiðja versta svikara kristindómsins. En þrátt fyrir allar viðvaranir kirkjunnar náðu Kainítar að fjölga fylgjendum sínum.

 

Á 4. öld þurfti Salamis, biskup á Kýpur, enn að vara við áhrifum þeirra.

 

„Þeir halda því fram að Júdas hafi vitað allt um þessi mál. Þeir gefa líka til kynna að hann hafi verið einn af fjölskyldunni. Að þeirra sögn hafði hann öðlast meiri viðurkenningu en aðrir. Þetta gengur svo langt að þeir hafa gefið út rit sem þeir kalla Júdasarguðspjall.“

Gyðingahatur vegna Júdasar

Illur, kjarklaus og ágjarn – síðan á miðöldum hefur svikarinn Júdas verið notaður sem afsökun fyrir ofsóknum gegn gyðingum.

Gyðingahatarar hafa öldum saman nýtt sér biblíupersónuna Júdas til að útskýra og réttlæta hatur sitt á gyðingum. Samkvæmt biblíunni fékk svikarinn 30 silfurpeninga fyrir að benda á Jesú – sögn sem hefur stutt þá kenningu að gyðingar séu bæði ágjarnir og samviskulausir.

 

Kirkjufaðirinn Hieronymus sem um aldamótin 400 þýddi biblíuna á latínu, sló því föstu að bölvun Júdasar hvíldi jafnframt á öllum gyðingum.

 

„Hverjir haldið þið að séu synir Júdasar? Júðarnir – því að nafnið Ískaríot stendur fyrir peninga og lausnargjald,“ skrifaði hann.

 

Í miðaldalist var Júdas oft sýndur í gulum klæðum, þeim lit sem kirkjan hafði úthlutað gyðingum. Rautt hár er líka einkennandi og allt síðan í fornöld hefur það verið tengt ýmsum neikvæðum einkennum í fari fólks.

 

Þau rök að gyðingar hafi tekið Jesú af lífi er enn notuð af and-semítum um allan heim og sú ásökun – studd orðum biblíunnar – hefur verið látin réttlæta ofsóknir, morð og síðast en ekki síst helförina miklu.

 

Frásögn biblíunnar af Júdasi er, sagði ísraelski rithöfundurinn Amos Oz í blaðaviðtali 2017, „Tjernobyl and-semíta á Vesturlöndum.“

Áróður nasista gegn gyðingum (eða júðum öðru nafni) átti sér aldagamla forsögu.

Áróður nasista gegn gyðingum (eða júðum öðru nafni) átti sér aldagamla forsögu.

Búið spil, Júdas

Það var ekki fyrr en í lok 4. aldar sem þaggað var niður í þessum villutrúarmönnum dulspekinnar með ógnunum og dauðadómum.

 

Síðasta björgunarvon dulspekinganna fólst í því að grafa Júdasarguðspjallið niður í eyðimörkina í Egyptalandi eða fela eintök í hellum. Eitt eintak af Júdasarguðspjalli endaði í grafhýsi nálægt þorpinu Qarara, 250 km suður af Alexandríu.

 

Þar átti þetta dýrmæta handrit að liggja þar til heimurinn væri tilbúinn að skilja Júdas.

 

En sá dagur kom aldrei og þar kom að enginn hafði lengur hugmynd um felustaðinn. Næstu 15 aldirnar gegndi Júdas hlutverki versta skúrks í sögu kristninnar.

 

Leó 1. páfi sem var í embætti um miðja 5. öld sagði Júdas „versta og ólánsamasta mann sem nokkru sinni hefur verið uppi.“

 

Allar miðaldir var Júdas iðulega notaður sem myndefni á kalkmyndum og kom líka við sögu í passíuleikum – sem kirkjan notaði til að sýna þjáningar Jesú og dauða. Í hinum guðdómlega gleðileik ítalska skáldsins Dantes frá 14. öld, þar sem segir frá himnaríki, helvíti og hreinsunareldinum, er Júdas að finna í allra neðsta hluta helvítis.

 

Ekkert benti til að Júdasi yrði nokkru sinni fyrirgefið. En þá birtust fréttir sem enginn hafði vænst.

Júdasarguðspjall var geymt í frystikistu í Ohio

Í meira en 1.600 ár lá guðspjallið óhreyft í egypskri gröf. Papýrusarkirnar tóku ekki að morkna fyrr en eftir að gröfin var opnuð.

Á áttunda áratug síðustu aldar fundu egypskir bændur Júdasarguðspjallið í hellisgröf en það áttu eftir að líða áratugir þar til forverðir og textasérfræðingar fengu loksins leyfi til að bjarga þessum hálfmorknuðu papýrusörkum.

 

Bændurnir seldu handritið fornmunasala í Kairó, Abdalla Arian sem árum saman reyndi að selja það fyrir þrjár milljónir dollara. Í hreinni gremju leigði hann öryggishólf hjá Citibank á Long Island við New York.

 

Í 16 ár morknaði handritið í geymsluhólfinu. Að lokum gerði svissneska listakaupkonan Frieda Nussberger-Tchacos Arian tilboð upp á 200.000 dollara. Þótt ritið væri nú illa á sig komið, seldi hún það áfram til papýruskaupmannsins Bruce Ferrini í Ohio árið 2000.

 

Ávísun Ferrinis upp á 1,5 milljónir dollara reyndist innistæðulaus en hann neitaði að skila handritinu. Þess í stað geymdi hann það í frystikistunni, þar sem bæði papýrus og blek skemmdust enn meira.

 

Eftir langvinna baráttu fékk Nussberger-Tchacos guðspjallið loks aftur frá Ohio og kom nú leifum handritsins til Maecenas-stofnunarinnar í Sviss og þar tóku menn höndum saman við National Geographic um að bjarga þessum koptíska texta og þýða hann.

 

Bók með 62 síðum

Upphaflega var guðspjallið 31 blað í leðurbandi. Kolefnisgreining sýnir að það var skrifað á árabilinu 220-340 e.Kr. Textinn er á máli kopta en að líkindum þýddur úr grísku.

 

Erfiðar viðgerðir

Þegar Júdasarguðspjallið komst loks í hendur forvarða líktist það helst kökudeigi og var komið í meira en þúsund brot. Hver stakur bútur var forvarinn til að textasérfræðingarnir gætu raðað þeim saman líkt og púsluspili.

 

Innihaldið

Í handritinu er lýst samtölum Júdasar og Jesú sem sagði hann verða hataðan að eilífu fyrir svikin. Og svo setur Jesús fram spádóm: Illi sköpunarguðinn og hroðvirknisleg sköpun hans mun hrynja.

Guðspjallið fundið

Þann 9. apríl 2006 var hið glataða Júdasarguðspjall án fyrirvara birt í bandaríska tímaritinu National Geographic. Þá höfðu sérfræðingar varið mörgum árum í að gera við og þýða hið morknaða papýrushandrit sem fannst í gröfinni í Qarara – og loksins fékk Júdas að tala:

 

„Þetta eru hin leynilegu boð sem Jesús flutti Júdasi Ískaríot á átta daga tímabili, þremur dögum fyrir páskahátíð gyðinga.“ Þannig hljóðaði inngangurinn að guðspjallinu.

 

Í handritinu er farið fljótt yfir sögu varðandi þau ár sem Jesús hafði starfað sem farandprédikari í fylgd lærisveinanna.

„Allir lærisveinarnir sögðu: Við erum ekki nógu sterkir. En þá skorti hinn andlega kjark – alla nema Júdas Ískaríot.“
Útdráttur úr guðspjallinu: Jesús bendir lærisveinunum á að þeir trúi á rangan guð.

Það sem hér var lögð áhersla á var það sem þeim Jesú og Júdasi hafði farið á milli allra síðustu dagana. Samkvæmt guðspjallinu valdi Jesús hann til að veita honum innsýn í mikinn vísdóm. Öfugt við hina lærisveinana sem Jesús gerir grín að, þekkir Júdas nefnilega hið sanna eðli Jesú; hann veit að Jesús hefur tengsl við guðdóminn.

 

Og Jesús svarar: „Komdu með mér, burt frá hinum og ég mun veita þér innsæi í dulmögn ríkisins.“

 

Bað um hjálp við dauða sinn

Í þessum samræðum segir Jesús frá „stórum og ósýnilegum anda sem engin augu hafa séð, ekkert hjarta skilið og sem enn hefur ekki verið nefndur neinu nafni.“

 

Hann gefur Júdasi til kynna að allt síðan á dögum Adams og Evu hafi fólk notað líkama sem jarðneskt hulstur sem aðeins lifir um takmarkaðan tíma. Aðeins þeir sem þekki vísdóminn og dulmögnin, geti frelsað sig úr þessu holdlega hulstri og orðið að hreinum anda.

 

Jesús er nú reiðubúinn að yfirgefa hinn jarðneska líkama en til að öðlast endurlausn þarf hann hjálp Júdasar. Þetta hlutverk á að veita Júdasi alveg sérstaka stöðu meðal lærisveinanna.

 

„Þeir munu allir standa í skugga þínum, því þú fórnar þeim manni sem ég hefi íklæðst,“ segir Jesús sem greinilega mætir dauða sínum af stökustu ró.

 

Jesús dregur þó ekki dul á að hinir muni ekki styðja aðgerðir Júdasar. „Þú verður úthrópaður og þér útskúfað,“ segir hann hreint út. Og í draumi sér Júdas hina lærisveinana grýta sig.

„Skrifarar musterisins gengu til Júdasar. Hvað ert þú að gera hér? Ert þú ekki lærisveinn Jesú? Hann svaraði eftir óskum þeirra. Síðan fékk Júdas peninga og framseldi þeim hann.“
Útdráttur úr Júdasarguðspjalli: Júdas svíkur Jesú.

Guðspjallið endar á því að Júdas yfirgefur Jesús og fer til musterisins. Þar hittir hann fyrir skriftlærða menn og þeir spyrja hvort hann sé ekki einn af lærisveinum Jesú:

 

„Eftir það fékk Júdas peninga og framseldi þeim hann.“

 

Svikinn af eigin guðspjalli

Birting Júdasarguðspjalls 2006 var sannkölluð æsifrétt. Margir litu á ritið sem eins konar biblíkuvalkost sem gæti aukið skilning og varpað nýju ljósi á kenningar Jesú og atburðarás páskanna. En það var þó eitthvað sem ekki gekk upp:

 

Í guðspjallinu er greint frá því innsæi sem Júdas hafði og talað er um líkama Jesú sem forgengilegt hulstur. Þetta sýndi að guðspjallið var upprunnið meðal dulspekinga og þar með var ekki hægt að gefa því sem haft var eftir Jesú neitt vægi.

 

Þegar athyglin dvínaði og rykið settist var Júdas því aftur kominn í sitt gamalkunna hlutverk – sem versti skúrkur síðustu 2.000 ára.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN , TORSTEN WEPER

© Ed Suba Jr./AP/Ritzau Scanpix,© Shutterstock,© Fine Art Photographic/Getty Images,© Zev Radovan/Bridgeman Images, Bridgeman Images,© Granger/F1online,

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

NÝJASTA NÝTT

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Lifandi Saga

Hvers vegna hættu karlar að ganga með hatt?

Lifandi Saga

Versti óvinur skógareldanna

Vinsælast

1

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

5

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

6

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

1

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

2

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

3

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

4

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

5

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

6

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Maðurinn

Göngutúr heldur heilanum heilbrigðum

Menning og saga

5 fornleifafundir sem raskað hafa sögu mannsins

Tækni

Allir vildu eiga pýramída

Maðurinn

Svo hættuleg er loftmengun fyrir lungun

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Heilsa

Bakteríurnar þrífast vel í handklæðinu þínu

Lifandi Saga

Voru víkingarnir húðflúraðir?

Menning

Þess vegna verða konur þreyttar á (sumum) körlum

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Heilsa

Hinn týndi hlekkur milli krabbameins og mataræðis ef til vill fundinn

Heilsa

Vísindamenn: Miklir kostir þess að nota stigann frekar en lyftuna.

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Þegar ég skoða laufblöð trjáa tek ég eftir því hversu ólík þau eru í raun og veru. Er það tilviljun eða hefur lögun blaðsins hlutverk?

Náttúran

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is