Árið 1492 sagði Kólumbus áhöfn sinni að ferðin yfir Atlantshafið tæki einungis þrjár til fjórar vikur. Siglingin átti þó eftir að taka minnst helmingi lengri tíma og níutíu manna áhöfn hans hótaði ítrekað að gera uppreisn um borð og snúa skipinu við.
Ástæðan var fyrst og fremst sjókort sem Kólumbus hafði meðferðis, kort sem stjörnufræðingurinn Paolo Toscanelli frá Flórens hafði sent honum árið 1474.
„Fyrirhuguð ferð er ekki einungis gerleg heldur er hún jafnframt trúverðug og mun í sannleika sagt færa þér virðingu og ómælt fé“, lofaði Toscanelli í bréfi sínu.

Á sjókorti Toscanellis var urmull af ímynduðum eyjum en hins vegar vantaði heimsálfuna Ameríku alveg á kortið. Á kortinu hér má sjá hvernig heimsálfunni hefur verið komið fyrir undir korti Toscanellis (í gráum lit).
Flórensbúinn hafði, líkt og Kólumbus, fyrst reynt að útskýra fyrir konungi Portúgals að skip gætu siglt í vesturátt til að komast til Indlands, umfram það að sigla alla leiðina suður fyrir Afríku.
Skeikaði um 15.600 km
Toscanelli hafði vitneskju sína frá einum helsta landfræðingi fornaldarinnar, Strabon (63 f.Kr.-24 e.Kr.) en verk hans voru enduruppgötvuð á 15. öld. Kort Toscanellis hafði einnig að geyma heiti eyja sem enginn á fornöld kunni skil á, auk þess sem hann reiknaði stærð Asíu ranglega út og gerði heimsálfuna 8.000 km of langa.
Kólumbus áleit fyrir vikið fjarlægðina frá Kanaríeyjum til Chippangu en það heiti notaði Marcó Póló yfir Japan, nema einungis 4.400 km. Kort Toscanellis sýnir urmul eyja á leiðinni þar sem hann gæti fengið vistir.
Raunveruleg vegalengd milli Kanaríeyja og Japans er í raun tæpir 20.000 km þannig að Chippangu var sýnt þar sem Mexíkó er í raun.

Þegar Kólumbus lenti á Bahamaeyjum í Karíbahafi sendi hann sennilega vinsamlega hugsun til Toscanelli, sem hafði þrátt fyrir allt gefið honum kjark til að fara yfir Atlantshafið.
Kólumbus áleit eyna Antillia, miðja vegu til Chippangu, myndu reynast sér gagnlega. Á miðöldum voru sagðar sögur um Antillia sem sjö biskupar áttu að hafa flúið til þegar múslímar lögðu Spán undir sig á 8. öld.
Þegar Spánverjar gerðu Kólumbus út í könnunarleiðangurinn fann hann aftur á móti aldrei þessa goðsagnakenndu eyju sem kallaðist Antillia en rakst hins vegar á eyjarnar á Karíbahafi. Kólumbus var sannfærður um að eyjarnar væru hluti af Indlandi og nefndi íbúana þess vegna indíána.