Lifandi Saga

Kona sem hermaður í 17 ár

Cornelius Hubsch kunni að beita hnefunum og hinir hermennirnir litu á hann sem jafningja. Þessi hugprúði ungi maður þagði hins vegar yfir leyndarmáli sem kostað gat fólk lífið á 18. öld.

BIRT: 13/12/2022

Óbreytti hermaðurinn Cornelius Hubsch hafði barist í spænska erfðastríðinu (1701- 1714) í sjö ár en um var að ræða átök sem kostað höfðu hundruð þúsunda lífið.

 

Sultur og hörmungar einkenndu líf þýska hermannsins en veturinn 1712 steðjuðu reyndar að honum aðrar ógnir en einungis sverð og fallbyssukúlur óvinarins. Hubsch var um fram allt smeykur um að upp um hann kæmist.

 

Örfáum dögum áður hafði Hubsch lent í slagsmálum við hermenn frá Hessen og var hann látinn ganga svipugöngin í refsingarskyni. Refsingin fór þannig fram að herdeild Hubschs stillti sér upp í tvær raðir og var hinn dæmdi látinn hlaupa nakinn niður að mitti milli tveggja raða af mönnum er börðu hann með bareflum.

Einungis þessi mynd af Catharinu Linck - klædd einkennisbúningi - hefur varðveist til þessa dags.

Tilhugsunin um barsmíðar var í sjálfu sér nógu skelfileg en Hubsch vissi jafnframt að liðsforinginn myndi rífa utan af honum jakkann og bera efri hluta líkama hans til þess að höggin lentu beint á sjálfu holdinu. Þegar það yrði gert kæmi í ljós að Cornelius Hubsch var í raun og veru kona.

 

Brjóstverjan huldi brjóstin

Cornelius Hubsch fæddist sem stúlkan Catharina Margaretha Linck hinn 15. maí árið 1687. Hún kom í heiminn í þorpi einu í grennd við Leipzig í austurhluta Þýskalands. Móðirin var „hermannskona frá Erfurth“, samkvæmt kirkjubókum en sennilega hefur verið um að ræða kurteislega útgáfu af sannleikanum, sem sé að móðirin hafi verið vændiskona og faðirinn óþekktur.

 

Catharina Linck varði fyrstu árum ævi sinnar á munaðarleysingjahæli en þegar hún var 14 ára að aldri bauðst henni vinna við að framleiða hnappa.

 

Hvers vegna Catharina ákvað að dulbúa sig sem karlmann þegar hún nálgaðist fullorðinsárin er ekki vitað. Hugsanlega hefur skýringin einfaldlega verið sú að körlum buðust langtum fleiri tækifæri í lífinu en konum.

 

Karlar réðu á heimilunum, þeir nutu virðingar í samfélaginu og gátu lært iðn en öllu þessu voru konur útilokaðar frá. Karlmenn gátu gerst hermenn og fyrir þá var ríkuleg þörf í Þýskalandi í þá daga sem líkja mátti við bútasaumsteppi gerðu úr sjálfstæðum konungsríkjum, hertogadæmum og greifadæmum.

Þvottur með þvottabretti og sápu var eitt þeirra erfiðisverka sem konum bauðst að starfa við.

Húsmæður þræluðu og púluðu 

Konurnar þurftu að erfiða við matseld, barnauppeldi, þrif og akurvinnu. Þær höfðu fá réttindi og margar þeirra létust af barnsförum.

Enginn getur láð konum á 18. öld að óska þess að hafa fæðst sem karl. Konur í öllum stéttum þjóðfélagsins voru karlmönnum háðar, fyrst föðurnum og síðar meir eiginmanninum. Giftar konur máttu ekki eiga eignir og lagalega voru þær eins og börn; ef þær hugðust undirrita samning eða koma fram fyrir rétti urðu þær að hafa samþykki eiginmannsins.

 

Krafa þessi var skráð í þýsk lög um kvenréttindi. Konur urðu jafnframt að sætta sig við erfiði alla daga, auk þessara skertu réttinda þeirra. Fæðingar voru lífshættulegar og þar sem flestar konur eignuðust mörg börn þekktu flestar þeirra konur sem dáið höfðu af barnsförum.

 

Auk þess að gæta bús og barna þurftu flestar konur jafnframt að taka þátt í akuryrkjunni og að gæta húsdýranna. Margar neyddust enn fremur til að sinna annarri vinnu til að bæta fjárhag fjölskyldunnar. Störf þvottakvenna, saumakvenna og vefara þóttu við hæfi fyrir konur.

Líkt og aðrar Evrópuþjóðir gerðu, sendu þýsku ríkin málaliða í spænska erfðastríðið. Stríðið braust út árið 1701 og náði til stórra hluta meginlandsins.

 

Árið 1705 skráði Catharina Linck sig sem sjálfboðaliða í her kjörfurstadæmisins Hannovers og lagði land undir fór með fótgönguliðinu til Hollands í því skyni að berja á Frökkum. Hún tók upp nafnið Anastasius Beuerlein, klippti hárið stutt og hélt af stað með framhlaðning sinn og sverð.

 

Í herbúðunum bjuggu hermennirnir þröngt í sexmanna tjöldum og Catharina Linck þurfti verulega á hyggindum sínum að halda til að dylja kyn sitt. Til þess að enginn gæti séð brjóst hennar, gekk hún með brjóstverju en um var að ræða eins konar brynju sem þakti efri hluta búksins.

 

Brjóstverjur voru annars yfirleitt notaðar af riddurum á 18. öld en málmplötuna sagði hún verja sig gegn byssukúlum, ef einhver spurði.

 

Það segir sig sjálft að hinir hermennirnir pissuðu standandi og til þess að gera eins og þeir, útbjó Catharina leðurhorn með opi í báða enda. Þegar konunni varð mál ýtti hún breiðari endanum upp í þvagrásaropið, stakk horninu út gegnum buxurnar og pissaði eins og karlmaður.

Catharina Linck klæddist lausum einkennisbúningum 18. aldar og gat auðveldlega falið hver hún er. Að pissa standandi var aftur á móti vandamál.

Þegar hinir hermennirnir fóru á hóruhús slóst Catharina í för með þeim en hún hafði sjálf útbúið gervigetnaðarlim úr leðri sem hún hafði meðferðis til þess að hið sanna eðli hennar kæmi ekki í ljós.

 

„Á meðan hún gegndi herþjónustu leigði hún margar vændiskonur sem hún æsti upp með gervilim sínum“. Stundum hljóp hún margra kílómetra leið í því skyni að næla í fagra konu sem hún eyddi öllu sparifénu í“, sögðu furðu lostin vitni síðar meir.

 

Prestur stöðvaði hengingu

Catharina Linck lék hlutverk sitt sem gamalreyndur hermaður með góðum árangri í þrjú ár en þá fór hún að fá leið á hörmungum stríðsins. Hún gerðist liðhlaupi í lok maí árið 1708 en þar sem auðvelt var að bera kennsl á rauða jakka hermannanna frá Hannover var hún tekin höndum og dæmd til dauða með hengingu.

 

Stuttu áður en hún skyldi ganga upp að höggstokknum komst Catharina að raun um að eina leið hennar út úr þessum hremmingum væri að uppljóstra um kyn sitt. Þegar kallað var á prestinn sem átti að biðja síðustu bænina með Catharinu, fletti hún upp um sig og beraði brjóst sín.

 

Catharina Linck hvíslaði að prestinum í trúnaði að hún væri af góðri fjölskyldu komin og bað hann um að lofa sér því að fjölskylda hennar fengi aldrei vitneskju um að hún hefði látið lífið ærulaus í gálganum. 

 

Lygasaga hennar hreif á prestinn sem kallaði til liðsforingja og lét stöðva aftökuna. Catharinu var sleppt úr varðhaldi nokkrum vikum síðar. 

Liðhlaupar voru oft hengdir fyrir augum samherja sinna.

Hún var rekin úr herdeildinni en þar með hafði hún ekki sagt skilið við hermennskuna. Ekki er vitað fyrir víst hvort Catharinu skorti fé eða hana þyrsti í ný ævintýri en svo mikið er víst að hún gekk til liðs við þrjár aðrar herdeildir í spænska erfðastríðinu.

 

Síðasta hluta stríðsins kallaði hún sig Cornelius Hubsch en þá gegndi hún herþjónustu í hessíska hernum. Árið 1714 lenti hún í slagsmálum ásamt nokkrum félögum sínum úr hessísku herdeildinni. Í refsingarskyni fyrir að spilla friði og ró var hún dæmd til að hlaupa svipugöngin en konunni tókst að komast hjá því að uppljóstra um kyn sitt með því að stinga af áður en dóminum var framfylgt.

 

Stríðinu lauk ári síðar og enginn sýndi liðhlaupanum nokkurn áhuga. Þegar friður komst á í Evrópu íklæddist Linck fötum handverksmanns og ferðaðist frá einum bæ til annars þar sem hún starfaði sem prentari og litari.

 

Vorið 1717 kom hún til verslunarbæjarins Halberstadt sem liggur miðja vegu milli Hannover og Berlínar. Þar tók hún upp nafnið Anastasius Lagrantius Rosenstengel og fékk vinnu við að framleiða sokka en bærinn Halberstadt var einmitt þekktur fyrir þá iðngrein.

Tengdamóðir Lincks þráði að eignast barnabörn.

Linck kynntist brátt 19 ára gamalli stúlku. Unglingsstúlkan hreifst af handverksmanninum glæsilega og tilfinningarnar voru endurgoldnar.

 

Þær gengu í hjónaband örfáum mánuðum síðar. Hjónavígslan fór fram 12. september árið 1717 í Pálskirkjunni í Halberstadt. Þær lifðu hamingjusamar saman en Linck og tengdamóður hennar fór að semja sífellt verr eftir því sem mánuðirnir liðu.

 

Gamla frú Mühlhahn þráði að eignast barnabörn og fór því reglulega að spyrja dóttur sína um frammistöðu eiginmannsins í hjónasænginni. Til þess að fá frið frá tengdamóðurinni lugu konurnar því að henni að unga eiginkonan hefði orðið ólétt en stuttu síðar misst fóstur. Frá þessu greindu þær harmi slegnar. Parið notfærði sér þessa lygasögu alls þrisvar.

 

Brátt fór hamingja hjónanna að dvína. Hvort um var að kenna afskiptasemi tengdamóðurinnar eða erfiðu lífinu á 18. öld er ekki vitað fyrir víst en hjónin voru farin að rífast um peninga. Og þegar upp úr sauð, sló Linck konu sína utan undir. 

Linck sem var ofurölvi, svaraði spurningunni með því að pissa á tengdamömmu. 

Þær fáu heimildir sem fyrirfinnast um ævi Linck greina jafnframt frá því að hún hafi reynt að selja brúðkaupsbúnað eiginkonunnar og að fengist hafi 80 ríkisdalir fyrir vandaðan sængurfatnaðinn en það jafngilti heilum mánaðarlaunum þýsks embættismanns.

 

Sala þessi olli mikilli reiði hjá eiginkonu Lincks og móður hennar og þegar sögusagnir um ólögmæti hjónabandsins komust á kreik í Halberstadt, lét Linck sig hverfa ásamt brúðinni ungu.

 

Meig á tengdamömmu

Næstu árin voru hjónin stöðugt á flakki og lifðu á betlum og þeirri litlu vinnu sem bauðst á hverjum stað. Öðru hvoru sneru þau þó aftur til tengdamömmu sem fór að krefja þau svara um það hvort Linck í raun og veru væri karlmaður.

 

Hún gekk meira að segja svo langt að fylla Linck í því skyni að komast til botns í málinu. Linck sem var ofurölvi, svaraði spurningunni með því að pissa á tengdamömmu. Síðan tóku hjónin til fótanna.

 

Stuttu síðar varð Linck aftur á móti að viðurkenna að hún gæti ekki séð eiginkonu sinni farborða og skildi hana því eftir hjá tengdamóðurinni.

Þegar Linck birtist seinna í Halberstadt til þess að hitta eiginkonu sína var tengdamóðurinni hins vegar nóg boðið. 

Mjög margir fylgdu Vizzani til grafar, því fólk taldi hana hafa andast er hún varði skírlífi sitt.

Lesbísk ítölsk kona hyllt eftir andlátið

Konur í karlafötum vöktu yfirleitt reiði í Evrópu á 18. öld en Catarina Vizzani var þó undantekning. Eftir að hafa gengið í karlmannsfötum í átta ár var hún heiðruð eftir andlát sitt sem vænleg fyrirmynd annarra kvenna.

Catarina Vizzani var barn á árunum upp úr 1720 og lærði bæði að lesa, skrifa og sauma út. Þegar hún var 14 ára gömul lenti hún í ástarsambandi með útsaumskennara sínum. Þegar samband þeirra uppgötvaðist og hneyksli vofði yfir konunum strauk hún frá bænum, klædd karlmannsfötum og tók upp nafnið Giovanni Bordoni.

 

Bordoni kom sér upp gervigetnaðarlim úr leðurhólki sem troðinn var út með klútum og með þann útbúnað tókst henni að forfæra mýmargar konur. Þetta gjálífi tók skyndilegan enda þegar Bordoni felldi hug til ungrar frænku prests nokkurs. Frændinn var strangur uppalandi og setti sig upp á móti sambandi stúlknanna með þeim afleiðingum að þær hlupust á brott.

 

Útsendarar prestsins höfðu uppi á parinu og skutu Bordoni í fótinn. „Ungi maðurinn“ særðist illa og farið var með hann í klaustur. Þar trúði hann einni nunnunni fyrir raunum sínum og tjáði henni að hann óskaði þess að vera greftraður í konufötum. Á höfðinu vildi hún bera krans til marks um að hún væri hrein mey.

 

Sagan breiddist út og andans menn streymdu til kirkjunnar til að hylla sakleysi Vizzani. Óháð því hvað hún hefði brotið af sér sem karl þá væri skírlífi hennar sem konu óumdælt, sögðu þeir.

Á meðan dóttir hennar var veik og í engu standi til að verja maka sinn kallaði ekkjufrúin á sterkbyggða vinkonu sína og saman réðust konurnar á Linck. Sverðið sem Linck bar ætíð á sér risti óvart upp buxur þeirrar grunuðu og í ljós kom að eiginmaðurinn var í raun réttri kona.

 

Tengdamóðirin hrifsaði öskureið til sín gervigetnaðarliminn og pissuhornið og arkaði niður í dómshúsið með sönnunargögnin. Þar kærði hún þennan svokallaða tengdason sinn fyrir ólifnað.

 

Ákæran var alvarleg, því refsað var fyrir afbrigðileg kynmök, þ.e. ólifnað milli tveggja einstaklinga af sama kyni, með dauðarefsingu. Eiginkonan unga þóttist ekkert hafa vitað um hið rétta kynferði eiginmannsins. Hún hélt fram sakleysi sínu og sagðist vera ung og ekkert vita um karla.

 

Annar þáttur ákærunnar olli réttinum verulegum vandræðum, því í skilningi biblíunnar var varla hægt að skilgreina samlíf kvennanna sem ólifnað þar sem þær hefðu ekki sameinast í holdi, heldur einungis stuðst við „líflausan leðurhólk“, líkt og fram kom í skjölum málsins.

 

Að lokum beindi rétturinn úrskurðinum til konungsins. 

Friðrik Vilhjálmur 1. af Prússlandi var þekktur fyrir að vera kólerískur.

Friðrik Vilhjálmur 1. af Prússlandi sá aumur á brúðinni ungu og dæmdi hana til þriggja ára fangavistar og í kjölfarið í útlegð.

 

Konungurinn sýndi Linck hins vegar enga náð. Hún var hálshöggvin 7. nóvember árið 1721 og líki hennar síðan kastað á bál. Í Pálskirkjunni þar sem Linck og Catharina á sínum tíma höfðu gengið í hjónaband bætti presturinn þessari athugasemd í kirkjubækurnar:

 

„Hinn svokallaði herra er í raun réttri trúlaus kona sem gerst hefur sek um skelfilega synd og ólifnað“.

 

Catharina Linck var síðasta konan í Evrópu sem var líflátin fyrir þá sök að vera lesbísk.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen

© Universitäts- und Landesbibliothek Sachsen-Anhalt. © Heritage Images/Getty Images. © Wilhelm von Zimburg. © Print Collector/Getty Images. © Samuel van Hoogstraten. © DE AGOSTINI PICTURE LIBRARY/Getty Images. © Huis Doorn.

Maðurinn

Valda börn hraðari öldrun foreldranna?

Maðurinn

Af hverju eru karlar líkamlega sterkari en konur?

Maðurinn

Af hverju eru karlar líkamlega sterkari en konur?

Menning og saga

Frjálslyndar konur Egyptalands hneyksluðu alla

Menning og saga

Frjálslyndar konur Egyptalands hneyksluðu alla

Lifandi Saga

Grimmsævintýri: Bönnuð börnum

Heilsa

Blóðflokkur þinn kann að hafa áhrif á hvort þú færð heilablóðfall snemma á lífsleiðinni

Lifandi Saga

Víkingarnir voru kynþokkafullir kvennabósar

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Humar var hundafæða

Heilsa

Vísindamenn finna óvænt samband milli tannholdsbólgu og tiltekins sjúkdóms

Náttúran

Hvernig er móteitur gert?

Læknisfræði

Pasteur bjargaði heiminum frá hundaæði

Lifandi Saga

Áður en til fangelsisrefsingar kom hljóðaði dómurinn upp á: Kvalir og niðurlægingu

Lifandi Saga

Hver lagði eld að Róm?

Maðurinn

Af hverju var Elísabet drottning grafin í blýkistu?

Alheimurinn

Er jörðin kúla?

Maðurinn

Táningar eru forritaðir til að hætta að hlusta á það sem mamma segir

Tækni

Einvígi: Hvort krefst minni orku –einfalt uppvask eða uppþvottavél?

Lifandi Saga

Humar var hundafæða

Heilsa

Vísindamenn finna óvænt samband milli tannholdsbólgu og tiltekins sjúkdóms

Náttúran

Hvernig er móteitur gert?

Læknisfræði

Pasteur bjargaði heiminum frá hundaæði

Lifandi Saga

Áður en til fangelsisrefsingar kom hljóðaði dómurinn upp á: Kvalir og niðurlægingu

Lifandi Saga

Hver lagði eld að Róm?

Maðurinn

Af hverju var Elísabet drottning grafin í blýkistu?

Alheimurinn

Er jörðin kúla?

Maðurinn

Táningar eru forritaðir til að hætta að hlusta á það sem mamma segir

Tækni

Einvígi: Hvort krefst minni orku –einfalt uppvask eða uppþvottavél?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Svona mikið vatn ættir þú að drekka á dag

Maðurinn

Svona mikið vatn ættir þú að drekka á dag

Náttúran

Fólk fer oft ekki rétt að köttunum sínum

Náttúran

Fólk fer oft ekki rétt að köttunum sínum

Maðurinn

Af hverju borðum við ekki gras?

Náttúran

Af hverju velta hundar sér í blautu rusli?

Maðurinn

Hversu margt tónlistarfólk þjáist af heyrnarskerðingu?

Læknisfræði

Hvenær byrjuðu læknar að nota eter?

Vinsælast

1

Heilsa

Blóðflokkur þinn kann að hafa áhrif á hvort þú færð heilablóðfall snemma á lífsleiðinni

2

Maðurinn

Af hverju var Elísabet drottning grafin í blýkistu?

3

Maðurinn

Vísindamenn leggja fram ný gögn: Hversu skaðlegt sjónvarpsgláp getur verið fyrir börn

4

Maðurinn

Rautt ljós getur leitt af sér betri sjón

5

Lifandi Saga

Áður en til fangelsisrefsingar kom hljóðaði dómurinn upp á: Kvalir og niðurlægingu

6

Maðurinn

Af hverju eru karlar líkamlega sterkari en konur?

1

Maðurinn

Af hverju var Elísabet drottning grafin í blýkistu?

2

Maðurinn

Vísindamenn leggja fram ný gögn: Hversu skaðlegt sjónvarpsgláp getur verið fyrir börn

3

Maðurinn

Rautt ljós getur leitt af sér betri sjón

4

Lifandi Saga

Áður en til fangelsisrefsingar kom hljóðaði dómurinn upp á: Kvalir og niðurlægingu

5

Maðurinn

Af hverju eru karlar líkamlega sterkari en konur?

6

Maðurinn

Táningar eru forritaðir til að hætta að hlusta á það sem mamma segir

Lifandi Saga

Frelsisstyttan átti að hrópa til borgaranna

Lifandi Saga

Ótrúlegur dagur í flugstjórnarklefanum: Flugmaðurinn sogaðist út um gluggann

Maðurinn

Mannfólkið hefur kysst í 4.500 ár

Lifandi Saga

Hvaða land hefur oftast farið í stríð?

Maðurinn

Þarmabakteríurnar  lækka líkamshitann

Heilsa

Lífsnauðsynlegt næringarefni sem lítið er vitað um

Maðurinn

Krullað hár kælir höfuðið

Tækni

Hvernig virkar C14-greining?

Tækni

Framtíðin séð í baksýnisspegli 

Menning og saga

Ólíkar þjóðir í Evrópu á ísöld

Náttúran

Hunangsfluguna skortir flugtækni

Tækni

Græna afleysingin fyrir Concorde 2025

Humar var hundafæða

Áður en humar fór að sjást á matseðlum fínna veitingahúsa flokkaðist hann undir lélegan dósamat og var jafnframt notaður sem áburður á akrana. Að því kom að skelfiskur þessi varð sjaldséður vegna ofveiða og þá ávann hann sér nýtt orðspor sem hnossgæti.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is