Lifandi Saga

Krossferðaherinn sigraður með timburvögnum

Þegar presturinn Jan Hus er brenndur á báli 1415 gera fylgjendur hans í Bæheimi uppreisn. 80.000 kaþólskir krossferðariddarar reyna að bæla uppreisnina niður – en eineygður herforingi stendur keikur með nýtt og öflugt stríðstól.

BIRT: 29/07/2023

Mánuðum saman hefur presturinn Jan Hus – á íslensku alltaf nefndur Jóhann Húss – setið fanginn í köldum og saggasömum klefa í klausturturni utan við Konstanz í Þýskalandi. Þessi bæheimski (tékkneski) guðfræðingur er sakaður um villutrú og í byrjun júní 1415 er loks komið að réttarhöldum til að ákvarða örlög hans.

 

Jóhann Húss kom til Konstanz í skjóli friðhelgi Sigismundar konungs af Ungverjalandi og að sjálfsögðu sýnir hann fyrirlitningu sína á svikum konungsins.

 

„Í konungsríkinu Bæheimi auðsýndu margir og voldugir háttsettir menn mér velvild. Að sjálfsögðu hefði ég getað verið um kyrrt í skjóli þeirra,“ segir hann.

 

Ákæruskjalið gegn prestinum er langt: Hann viðurkennir ekki páfann sem fulltrúa Guðs á jörðinni, hann segir aflátsbréfin tákn um græðgi og spillingu og hann telur að guðsþjónustur í Bæheimi eigi að fara fram á tékknesku.

„Ef þú ert svo vitfirrtur að halda áfram þessari villutrú, skal ég sjálfur bera eld að bálkestinum undir þér!“
Sigismundur konungur við Jóhann Húss

Beinn í baki og af allri þeirri reisn sem hann getur sýnt eftir fangavistina, hlýðir hann á ákærurnar, áður en hann tætir í sig röksemdir bæði biskupa og kardínála. En hann talar fyrir daufum eyrum og Sigismundur konungur segir:

 

„Ef þú ert svo vitfirrtur að halda áfram þessari villutrú, skal ég sjálfur bera eld að bálkestinum undir þér!“

 

Þann 6. júlí 1415 er komið að því að dómurinn verði kveðinn upp. Nú getur ekkert bjargað Húss frá bálinu annað en að sverja sig frá orðum sínum og ritum. En hann heldur fast við skilning sinn á kirkjunni og er dæmdur fyrir villutrú.

 

Það er hlutverk Sigismundar að tilkynna dóminn og til málamynda biðja kirkjunnar menn konunginn um að þyrma lífi villutrúarmannsins en hann réttir einum af hertogum sínum veldissprotann og segir: „Gerðu við hann það sem villutrúarmaður á skilið.“ Hertoginn lætur ekki bíða að tilkynna úrskurðinn:

 

„Brennið hann!“

 

Með því að taka Jóhann Húss af lífi vonast bæði kirkjunnar menn og Sigismundur konungur til að uppræta þann uppreisnarsöfnuð í Bæheimi sem Jóhann Húss veitti forstöðu. Villutrúarbrennan í Konstanz reynist þess í stað kveikjan að 15 ára trúarstríði í Mið-Evrópu.

Jafnvel þegar eldurinn teygði sig í fætur Jóhanns Húss, neitaði hann að játa sig sekan um villutrú.

Jóhann Húss varð píslarvottur

Þegar Jóhann Húss var brenndur á báli sumarið 1415 hafði hann í meira en áratug prédikað endurbótahugmyndir sínar og gagnrýni á kirkjuna í konungsríkinu Bæheimi, þar sem nú er Tékkland. Hann hóf að kenna í háskólanum í Prag árið 1398 og tók snemma upp hanskann fyrir enska umbótasinnann John Wycliffe sem gagnrýndi páfann og forréttindi kirkjunnar manna.

 

En þar lét hann ekki staðar numið. Hann krafðist líka þjóðarsjálfstæðis og aðskilnaðar frá Þýsk-rómverska keisaradæminu ásamt uppgjörs við græðgi kirkjunnar og sölu aflátsbréfa.

 

Einkum voru það þjóðernis- og sjálfstæðishugmyndir Húss sem hrifu samlanda hans. Bæheimur var hluti af Þýsk-rómverska keisaradæminu og Þjóðverjar gegndu margvíslegum valdaembættum í landinu. Margir þeirra höfðu keypt embætti sín eða fengið þau í gegnum víðtæka spillingu. Fylgismenn hans voru nefndir hússítar og þá var að finna í öllum stéttum í Bæheimi, allt frá bændum upp í aðalsmenn.

Hugmyndir Jóhanns Húss höfðu mikla þýðingu fyrir Martein Lúther og mótmælendatrúna.

Eftir að Jóhann Húss var tekinn af lífi sendu fylgismenn hans í Bæheimi frá sér yfirlýsingu sem undirrituð var með innsiglum 452 aðalsmanna. Þar voru gerðir Sigismundar konungs og kirkjuþings fordæmdar með hvössu orðalagi. Hússítar slógu því föstu að hinir háu kardínálar færu með „lygar eins og svikulir óvinir konungsríkis okkar og þjóðar og eru sjálfir illviljaðir villutrúarmenn og meira að segja synir Djöfulsins sem er faðir allra lyga.“

 

Konungur og kirkja svöruðu tafarlaust með því að bannfæra 452 aðalsmennina og lýsa yfir að þeir væru „stuðningsmenn villutrúar“.

 

Sigismundur hafði engan áhuga á samningum en hafði þetta að segja: „Gerið það lýðum ljóst í Bæheimi og Þýskalandi að við getum varla beðið þess dags þegar við drekkjum öllum hússítum.“

 

Fáum árum síðar var lagt upp í fyrstu krossferðina gegn villutrúarmönnum í Bæheimi.

Réttarhöldin gegn Jóhanni Húss á kirkjuþinginu í Konstanz stóðu í mánuð. Presturinn varði sig sjálfur en guðfræðileg rök hans féllu í grýttan jarðveg.

Alvarlegur klofningur innan kirkjunnar

Árið 1378 lenti kaþólska kirkjan í kreppu af áður óþekktri stærðargráðu, þegar svo hörð átök urðu um kosningu nýs páfa að tveir voru kjörnir. Annar páfinn sat í Róm en hinn í Avignon. Aðskilnaðurinn mikli, eins og tímabilið er nefnt, skók sjálfan grundvöll kirkjunnar og árið 1409, þegar ná átti samkomulagi um einn, nýjan páfa, varð niðurstaðan sú að þeir urðu þrír.

 

Á sama tíma blossuðu umbótahugmyndir Jóhanns Húss upp og náðu miklu fylgi í Bæheimi en hugmyndir hans fólu í sér grundvallargagnrýni á uppbyggingu kirkjunnar.

 

Kirkjuþing var haldið í Konstanz í Þýskalandi (1414-18) til að leysa aðskilnaðinn mikla enda var sjálfur grundvöllur kirkjunnar að veði. Þingið átti að leysa úr deilum um páfann en jafnframt þurfti að berja niður öll frávik frá kaþólskum rétttrúnaði.

 

Á heildina litið tókst kirkjuþinginu ágætlega til. Páfarnir þrír voru settir af og nýr páfi, Marteinn 5. kjörinn. Til viðbótar var Jóhann Húss dæmdur fyrir villutrú og brenndur á báli. En umbótahugmyndir hans lifðu áfram í leynum og heilli öld síðar urðu þær Marteini Lúter mikill innblástur í þeim siðaskiptum sem hann stóð fyrir.

 

„Ég fékk ekki skilið hvaða ástæða var til að brenna á báli svo merkilegan mann sem útlistað hafði hina helgu texta af slíkri elju og hæfni,“ skrifaði Lúter um Jóhann Húss.

Eineygður foringi hússíta

Hafi Jóhann Húss verið penni hússítanna, var Jan Zizka sverðið. Sagnfræðingar vita fátt um uppvaxtarár hans annað en að hann fæddist inn í landeigendafjölskyldu í suðurhluta Bæheims um 1360 en fluttist til Prag um tvítugt. Ungur hafði hann misst annað augað og í Prag fékk hann viðurnefnið Zizka sem einfaldlega merkir eineygður á tékknesku.

 

Árið 1409 var Zizka í lífvarðasveitum Wenzels 4. Bæheimskonungs og um það leyti kynntist hann Jóhanni Húss og umbótahugmyndum hans. Þessi prestur var gæddum miklum persónutöfrum og snjall ræðumaður og stórir hlutar hirðarinnar hrifust með – ekki síst Zizka sem var ákafur fylgismaður.

Jan Žižka bar ávalt lepp fyrir blinda auganu. Samkvæmt tékkneskri goðsögn missti hann augað í orrustunni við Tannenberg (1410), en í dag telja sagnfræðingar að það hafi gerst fyrr.

Fjölmargir fylgjendur Húss fylltust róttækni þegar fregnir bárust af aftöku trúarleiðtogans og jafnvel þótt Wenzel konungur gætti varfærni í orðum og gerðum og reyndi umfram allt að forðast trúarlega borgarastyrjöld í ríki sínu sauð upp úr þann 30. júlí 1419.

 

Nokkrir hússítar höfðu verið handteknir og til að fá þá látna lausa marseraði Zizka ásamt fjölmörgum fylgjendum til ráðhússins í Prag. Þar var steini kastað út um glugga og meira þurfti ekki til. Hópurinn réðist til inngöngu undir forystu Zizka og hertók ráðhúsið.

 

Hússítar streymdu um gangana og í bræði sinni köstuðu þeir borgarstjóranum, dómaranum og fjölmörgum borgarstjórnarmönnum út um glugga og margir þeirra létu lífið á götusteinunum.

 

Árásin á ráðhúsið í Prag vakti Venzel konungi svo mikla reiði að hann fékk hjartaáfall og dó. Nákomnasti erfingi krúnunnar var enginn annar en Sigismundur Ungverjakonungur, erkióvinur bæheimsku hússítanna. Þar með voru hússítastríðin hafin.

Kaþólsku prestarnir fluttu messuna á óskiljanlegri latínu en hússítaprestar prédikuðu á tékknesku, m.a. um dómsdag.

Hússítarnir vildu snúa aftur til hugsjóna Jesú

Umbótahugmyndir hússíta gengu þvert gegn fjölmörgum grundvallaratriðum í kaþólskri hefð. Rétt eins og Lúter 100 árum síðar, vildi Jóhann Húss og fylgjendur hans færa trúna nær biblíutextunum.

Allir áttu að fá að súpa á víninu

Kaþólskir: Þótt gömul kristin rit tilgreindu að bæði víni og brauði skyldi útdeilt til allra við altarisgöngu, fengu prestarnir einir að súpa á víninu. Með því móti skyldi staða prestsins undirstrikuð.

 

Hússítar: Samkvæmt orðum Biblíunnar vildu hússítar að allir fengju bæði brauð og vín við altarið. Þvert gegn kaþólskri hefð tóku þeir því að láta alla dreypa á víninu árið 1414.

Prestar áttu að vera fátækir

Kaþólskir: Öldum saman hafði kirkjan safnað miklu ríkidæmi og valdi. Þetta var rökstutt þannig að ríkidæmið skyldi notað til að lofsyngja Jesú Krist.

 

Hússítar: Eitt af meginatriðum í boðskap Jóhanns Húss var að snúa kirkjunni til baka til auðmýktar og einfaldleika. Kirkjan átti að losa sig við gull, eðalsteina og jarðeignir til að prestarnir gætu fylgt í fótspor Jesú og lifað í fátækt.

Spillingin boðaði dómsdag

Kaþólskir: Þótt dómsdagur, þegar Jesús átti samkvæmt Biblíunni að snúa aftur, væri inngróinn hluti trúarinnar, skeytti kirkjan lítið um það á síðmiðöldum. Öllu fremur vildu menn að kirkjan væri þungamiðja samfélagsins.

 

Hússítar: Einkum taborítahreyfingin var gegnsýrð af dómsdagstrúnni. Taborítar álitu að spillingin innan kirkjunnar væri tákn þess að dómsdagur væri í nánd. Þeir litu á baráttu sína sem uppgjör við Djöfulinn fyrir endurkomu Jesú.

Krossferð gegn villutrú

Uppreisn hússíta leiddi af sér trúarlega ringulreið. Kaþólikkar og hússítar ofsóttu hverjir aðra og manndráp voru mikil á báða bóga. Meðal kaþólskra gat ásökun um villutrú ein og sér dugað til koma karlmönnum, konum og jafnvel börnum í gálgann.

 

Og í Prag, þar sem Zizka hélt sig, braust út hörð borgarastyrjöld. Götur borgarinnar urðu að vígvöllum konungshollra kaþólikka og hússíta. Stór borgarhverfi urðu eldi að bráð og báðir hóparnir lögðu allt kapp á að ná víggirtum stöðvum á sitt vald.

 

En hússítar í Prag klofnuðu þegar íhaldssamari armur hreyfingarinnar – svonefndir utraquistar – ákvað að semja við kaþólikka. Í framhaldinu yfirgáfu utraquistar virki sem Zizka hafði náð á sitt vald. Í nóvember 1419 flúði Zizka í bræði sinni frá Prag ásamt öðrum taborítum, hinum róttæka armi hreyfingar hússíta.

„Kirkjan er ekki aðeins orðin að stjúpmóður, heldur ófreskju sem étur sín eigin afkvæmi.“
Hússítapresturinn Jan Zelivsky 1420

Í Róm vildi Marteinn 5. páfi taka hart á öllum klofningstilraunum innan kirkjunnar. Þann 17. mars 1420 lýsti hann yfir krossferð gegn villutrúarmönnum í Bæheimi til Plzen. Hússítar bjuggu sig undir stríð og talsmenn þeirra spöruðu ekki stóru orðin.

 

„Kirkjan er ekki aðeins orðin að stjúpmóður, heldur ófreskju sem étur sín eigin afkvæmi,“ þrumaði presturinn Jan Zelivský.

 

Skömmu eftir krossferðaryfirlýsingu páfans settust hersveitir kaþólikka um Plzen og Zizka neyddist til að viðurkenna vonlausa stöðu sína. En þessi eineygði maður hafði mikla stríðsreynslu og hafði bæði verið leiguhermaður og leiðtogi ræningjaflokka. Það var því eðlilegt að hann veldist til forystu í hernaði taboríta og honum tókst á skömmum tíma að ná samningum við hershöfðingja kaþólikkanna.

 

Gegn því að yfirgefa Plzen fékk Zizka leyfi til að flytja lið sitt til Tabor í suðurhluta Bæheims en þar voru taborítar fjölmennastir. 400 manna herlið lagði því af stað með 12 hestvagna sem hlaðnir voru vistum og vopnum. Loforðið um friðsamlega för brutu kaþólikkar hins vegar, enda voru loforð gefin villutrúarmönnum ekki bindandi samkvæmt kaþólskum lögum.

Andspyrna hússíta gegn kaþólsku krossferðunum varð fljótt mikilvæg þjóðarsaga í Bæheimi. Myndskreytt hér í tékknesku handriti seint á 15. öld.

Timburvagnar riddurum ofviða

Um hádegisbil 25. mars voru hússítarnir utan við bæinn Sudomer og Zizka hershöfðingi sá til um 2.000 óvinariddara sem stefndu til hússítanna. Hússítaherinn var staddur á flatlendi í víðáttumiklum dal sem fljót rann eftir og hvergi unnt að finna neina náttúrulega varnargarða. Zizka þurfti nú að spila af fingrum fram til að lifa af.

 

Á örskömmum tíma tókst honum að stilla hestvögnunum tólf upp á þröngu svæði milli stíflu og mýrlendis. Timburvagnar voru í stríði einkum notaðir til flutninga og einungis í undantekningartilvikum reynt að mynda með þeim varnarlínu og þá oftast sem örþrifaúrræði. En nú fyrirskipaði Zizka að vögnunum yrði stillt upp líkt og færanlegu virki og þeir festir saman með keðjum til að verjast áhlaupum riddaranna. Í hverjum vagni kom hann fyrir lásbogaskyttum og mönnum vopnuðum framhlaðningum. Á bak við vagnana tóku aðrir sér stöðu, þar á meðal konurnar og vopnuðust hverju því sem mögulega væri unnt að beita.

 

Ziska gerði sér vonir um að stígurinn milli stíflunnar og mýrlendisins virkaði sem trekt sem kæmi í veg fyrir að riddararnir gætu ruðst fram í stórum hópum. Þegar vagnarnir hefðu stöðvað framrásina beið bændaherinn vopnaður kornskurðarverkfærum og öðru sem brúklegt var.

Í höndum Jan Žižka urðu kerrurnar að hervirkjum sem gátu staðið af sér stóra heri.

Hershöfðingjanum tókst með naumindum að stilla upp þessari vörn þegar árásin kom. Um þúsund riddarar gerðu áhlaup en þeim tókst ekki að ryðja sterkbyggðum vögnunum frá. Svæðið framan við vagnana varð blóðvöllur þar sem riddararnir voru brytjaðir niður hundruðum saman með uppskeruverkfærum, lásbogum og blýkúlum.

 

Í örvæntingu reyndi riddaraliðið að fara út í mýrina til að ráðast á hússítana frá hlið en hestarnir sátu fastir og riddararnir þurftu að ösla áfram fótgangandi og voru brytjaðir niður eins og aðrir.

 

Þessi orrusta stóð yfir klukkutímum saman og þegar sólin settist hafði riddaraherinn ekki lengur neina yfirsýn. Í skjóli myrkurs tókst Zizka að komast undan með lið sitt. 400 manna her hins eineygða hershöfðingja hafði með einungis 12 hestvagna og léleg vopn, unnið sigur á 2.000 manna riddaraliði. Á einum degi hafði hann breytt stríðslist miðalda.

Timburvagnar líta sakleysislega út en þeir voru nógu sterkir til að standast áhlaup þungvopnaðra riddarasveita.

Vagnavörnin dugði í nærri heila öld

Vagnar hafa alla tíð verið notaðir í stríði, þó einkum sem flutningatæki, stríðsvagnar eða sem lokatilraun til varnar en Jan Zizka flutti þá fram í fremstu víglínu og þeir urðu mikilvægasta hergagnið í herstjórnarlist hans.

 

Það rann upp fyrir hershöfðingjanum að með því að mynda varnarvígi úr styrktum timburvögnum gat hann eyðilagt sterkasta vopn riddaraliðsins, hið sameinaða áhlaup.

 

Sérstyrktir vagnar reyndust riddurum sem harðasti steinmúr og þeir urðu að stöðva hesta sína. Þannig var komið í veg fyrir að þeir gætu ruðst inni í raðir fótgönguliðanna á harðastökki.

 

Vagnavörn Zizka var haldið áfram eftir dauða hans en varð þó ekki mjög langlíf. Strax í byrjun 16. aldar voru skotvopn orðin nógu öflug til að kúlurnar brutu sér auðveldlega leið gegnum timbrið og um leið varð alveg gagnslaust að verjast í timburvagni.

Vagnar Zizka voru varnarvirki á hjólum

Jan Zizka bylti hernaðartækni miðalda með svo einföldu fyrirbrigði sem hestvögnum. Hershöfðinginn lét breyta þeim í eins konar stríðsvagna og þannig urðu þeir færanleg varnarvirki sem stóðust áhlaup riddaraliðs.

Timbrið stóðst bæði riddara og kúlur

Upphaflega voru stríðsvagnar hússíta bara venjulegir hestvagnar en með tímanum voru þeir þyngdir og styrktir til muna. Rammgerð smíði og sterkur plankafleki með skotgötum varði hermennina gegn lensum og byssuskotum.

Skotvopn felldu brynjaða riddara

Hússítar náðu að nýta frumstæð skotvopn samtímans til hins ýtrasta. Í vögnunum beittu þeir framhlaðningum, frumstæðum haglabyssum sem á 30-40 metra færi komust gegnum brynju riddara.

Stórir skildir lokuðu rifum

Mjóar rifur milli vagnanna notuðu hermenn hússíta til að komast fram fyrir vagnana og til baka. Rifurnar voru varðar stórum skjöldum sem voru meira en 150 cm á hæð.

Fallbyssur skutu að fjandmönnum

Í sumum skotgötum voru fallbyssuhlaup og úr þeim var skotið kúlum eða grjóti. Riddarar sem komu of nálægt urðu fyrir ógnvekjandi drífu smásteina og málmbrota.

Vagnar Zizka voru varnarvirki á hjólum

Jan Zizka bylti hernaðartækni miðalda með svo einföldu fyrirbrigði sem hestvögnum. Hershöfðinginn lét breyta þeim í eins konar stríðsvagna og þannig urðu þeir færanleg varnarvirki sem stóðust áhlaup riddaraliðs.

Timbrið stóðst bæði riddara og kúlur

Upphaflega voru stríðsvagnar hússíta bara venjulegir hestvagnar en með tímanum voru þeir þyngdir og styrktir til muna. Rammgerð smíði og sterkur plankafleki með skotgötum varði hermennina gegn lensum og byssuskotum.

Skotvopn felldu brynjaða riddara

Hússítar náðu að nýta frumstæð skotvopn samtímans til hins ýtrasta. Í vögnunum beittu þeir framhlaðningum, frumstæðum haglabyssum sem á 30-40 metra færi komust gegnum brynju riddara.

Stórir skildir lokuðu rifum

Mjóar rifur milli vagnanna notuðu hermenn hússíta til að komast fram fyrir vagnana og til baka. Rifurnar voru varðar stórum skjöldum sem voru meira en 150 cm á hæð.

Fallbyssur skutu að fjandmönnum

Í sumum skotgötum voru fallbyssuhlaup og úr þeim var skotið kúlum eða grjóti. Riddarar sem komu of nálægt urðu fyrir ógnvekjandi drífu smásteina og málmbrota.

Zizka kom Prag til bjargar

Eftir þetta afrek við Sudomer kom Zizka til Tabor sem hetja og hússítar álitu að hann hlyti að hafa verið útvalinn af Guði. Skömmu síðar var hann gerður að yfirhershöfðingja hússíta.

 

Undir stjórn Zizka varð borgarastyrjöldin í Bæheimi enn blóðugri. Hann fór með menn sína í stutta leiðangra út frá Tabor í þeim tilgangi að valda skelfingu meðal kaþólikka í nágrenninu. Í hvert sinn sem honum tókst að koma andstæðingunum á óvart voru fjölmargir stríðsfangar teknir af lífi til að hefna fyrir dráp kaþólikka á hússítum.

 

Í einni þessara ferða voru teknir sex fangar og taborítar buðust til að þyrma lífi eins þeirra gegn því að hann tæki hina fimm af lífi – tilboð sem kaþólikkinn þáði án tafar.

“Ef þið viljið viðhalda lögum Guðs, komið okkur þá til bjargar og með eins marga menn og þið mögulega getið safnað”.
Árið 1420 grátbáðu utraquistar taboríta um að bjarga þeim frá Sigismundi konungi.

Meðan hershöfðinginn vann hverja smáorrustuna á fætur annarri með taborítum í Suður-Bæheimi, var Sigismundur konungur kominn inn í landið úr norðri með um 20.000 þýska málaliða.

 

Þann 16. maí barst Zizka bréf frá utraquistum í Prag, þar sem þeir grátbáðu hann um að koma borginni til bjargar þar eð her Sigismundar ógnaði henni.

 

Án umhugsunar safnaði hershöfðinginn liði sínu saman og lagði af stað til norðurs með um 9.000 manns. Sigismundur náði ekki að senda herflokka til að stöðva hann á leiðinni og það voru ekki liðnir nema fjórir dagar þegar Zizka kom með her sinn til Prag eftir 90 kílómetra göngu.

 

Þessi þaulreyndi stríðsmaður hófst strax handa við að styrkja varnir borgarinnar, ekki síst við aðfangaleið borgarbúa sem hann þóttist vita að Sigismundur myndi ráðast á. Þessum undirbúningi var naumlega lokið þegar herir Sigismundar komu til Prag. Krossfarar víða að í Evrópu höfðu nú bæst í hópinn og nú stóð um 80.000 manna her utan við borgina.

Eftir glæsilegan sigur Jan Žižka á kaþólikkum á Vítkov-hæðinni var svæðið nefnt Žižkov eftir hershöfðingjann. Það er í dag hluti af miðborg Prag.

Rétt eins og Zizka hafði gert ráð fyrir réðist Sigismundur á varnarvirki á Vitkovhæð en þau tryggðu aðflutninga til borgarinnar. Konungurinn lét sér það ekki fyrir brjósti brenna að hermenn hans þurftu að ganga meðfram síki utan við virkisvegginn og hinum megin við þá leið var snarbrött hlíð og langt fall.

 

Þessi flöskuháls vóg upp kosti stærri hers þannig að mun fámennara varnalið gat haldið aftur af árásarmönnum langtímum saman og þrautþjálfuðum hermönnum vannst því tími til að koma til bjargar. Zizka lét hermenn sína ráðast á aftasta hluta riddaraliðsins þar sem örvænting braust út.

 

Fleiri en 200 riddarar lentu fram af brúninni og féllu niður brattann þar sem dauðinn var vís. Krossferðariddararnir misstu að vísu ekki nema um 500 manns í orrustunni en ósigurinn leiddi til þess að æ fleiri kaþólikkar misstu trú á herstjórnarhæfni Sigismundar og þann 30. júlí, rúmum tveimur vikum eftir þessa orrustu, leystist riddaraherinn upp.

Fimm krossferðir dugðu ekki til

Hússítastríðin stóðu í 15 ár frá 1419 til 1434. Hússítar í Bæheimi þurftu stöðugt að verjast innrásum kaþólskra krossferðariddara og Sigismundi konungi sem krafðist þess að villutrúin yrði að fullu upprætt.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Vildi tryggja Bæheim

Árásin á Prag hafði sameinað hússítafylkingarnar tvær en það bandalag varð ekki langlíft. Taborítar vildu fullan aðskilnað frá kaþólsku kirkjunni ásamt uppgjöri við hórdóm, matgræðgi, tilhald í klæðaburði og drykkjuskap en utraquistar vildu í rauninni bara fá að iðka sína trú í friði innan kaþólsku kirkjunnar.

 

Zizka yfirgaf Prag og beitti nú hervaldi sínu til að tryggja alger yfirráð taboríta í öllum borgum, smábæjum og þorpum í Bæheimi. Þegar her hans sat um Rabí-virkið varð hann fyrir ör sem skaddaði heilbrigða augað. Hann lifði af en var nú nánast alveg blindur.

 

En þótt sjónlaus væri virtist það ekki hafa nein áhrif á hernaðarlist hans og sigurgangan hélt áfram.

 

Sigismundur hafði þó síður en svo gefið upp vonina um að frelsa Bæheim úr höndum villutrúarmanna. Fyrir hans tilstuðlan var kallað til annarrar krossferðar og haustið 1421 réðist hann inn í Bæheim frá Ungverjalandi með 40.000 manna her. Herinn tók stefnuna á silfurnámubæinn Kutná Tora og á leiðinni var ráðist af mikilli hörku á nánast hvert einasta þorp. Karlmennirnir voru drepnir og konunum nauðgað.

Sigismundur konungur var sonur hins heilaga rómverska keisara, Karls IV, og barðist mestan hluta ævinnar við að yfirtka hásæti föður síns. Hann var loks krýndur keisari árið 1433 - fjórum árum síðar dó hann.

Zizka var meistari hreyfanleikans og honum tókst að ná til Kutná Hora á undan Sigismundi. Hershöfðinginn hafði einungis 10.000 hermenn en nú var hann með meira en 100 vagna sem riddurum kaþólikka hafði reynst ógerlegt að sigrast á. Með borgina að baki var aðfangaleiðin tryggð og Zizka stillti vögnunum upp í stóran og þéttan hring framan við borgarmúrana – eins konar vagnavirki.

 

En þegar her Sigismundar kom að borginni þann 21. desember, sviku borgarbúar Zizka. Stór meirihluti borgarbúa var þýskur og íbúarnir vildu fremur yfirráð kirkjunnar. Þeir sendu því sinn eigin her gegn Zizka sem nú var skyndilega umkringdur óvinum.

 

Nú voru góð ráð dýr. Vagnavirki hússíta var nú statt í umsátri og matarbirgðir takmarkaðar enda hafði Zizka treyst á aðföng frá borginni. En Zizka ákvað að bíða ekki eftir næsta leik óvinanna.

 

Eini veiki punkturinn

Í skjóli nætur stillti hann vögnum sínum upp í tvær raðir og fór sem hljóðlegast. Markmiðið var eini veiki punkturinn í herbúnaði andstæðinganna, tjaldbúðir konungsins sjálfs. Þegar vagnalestin var komin inn í miðjar búðirnar, þar sem allir voru í fastasvefni hófst skothríðin. Fallbyssur og framhlaðningar hússíta skutu allt hvað af tók yfir svefndrukkna kaþólikka.

 

Samstundis komst vagnalestin aftur á hreyfingu og nú rigndi örvum lásboganna yfir riddarana meðan byssurnar voru hlaðnar aftur.

 

Aftur námu vagnarnir staðar og ný skothríð dundi yfir í náttmyrkrinu. Örvæntingarópin gullu í herbúðum kaþólikka. Enginn hafði reiknað með árás að næturlagi og fallbyssuskotin voru svo hávær að engu var líkara en eldi og brennisteini frá helvíti rigndi niður yfir búðir Sigismundar.

 

Algerlega samkvæmt áætlun tókst Zizka að brjóta sér leið gegnum herbúðir og her óvinanna og allur her hans komst undan.

 

Sigismundur slapp sjálfur lifandi en var svo óttasleginn að hann þorði ekki að veita Zizka eftirför. Næstu daga horfði hann aðgerðalaus upp á her hússíta gera hverja árásina á fætur annarri á liðssveitir kaþólikka og að lokum var svo komið að Sigismundur neyddist til að hörfa með herinn til baka inn í Ungverjaland.

Upp úr miðjum 1420 hófu Hussítar að ráðast inn í löndin umhverfis Bæheim til að letja þá frá því að senda hermenn í krossferðirnar gegn þeim. Hér reyndist vagnavirkið líka vel.

Pestin tók Zizka

Þegar utanaðkomandi óvinir höfðu verið sigraðir leið ekki á löngu áður en átök brutust út milli hússítahreyfinganna tveggja og árið 1423 voru þessi átök orðin að hatrammri borgarastyrjöld.

 

Zizka sneri nú taborítahersveitum sínum gegn utraquistum og einnig gegn þeim fagnaði hann sigri og gat nú sameinað alla hússíta undir merki sínu. Í friðarsamningum sem nú fóru í hönd var Zizka æðsti leiðtogi hússíta.

 

Taborítar höfðu á prjónunum að stækka yfirráðasvæði sitt til muna en fljótlega eftir að þær hernaðaraðgerðir hófust veiktist hinn 64 ára gamli hershöfðingi af pestinni. Jan Zizka lést þann 11. október 1424 og hafði þá á langri ævi aldrei tapað orrustu. Á banasænginni er sagt að hann hafi beðið fylgismenn sína að súta húð sína og nota á stríðsbumbu þannig að hann gæti haldið áfram að leiða þá í orrustum.

Dauði Zizka stöðvaði ekki hússíta en þeir misstu mikilvægasta leiðtogann.

Í ritverki sínu „Historia Bohemica“ skrifaði höfundurinn sem síðar varð Píus 2. páfi, um dauða Zizka að „sá sem engin lifandi hönd fékk eytt, var slökktur af fingri Guðs.“

 

Ziska hafði þjálfað hermenn sína vel og þótt hann væri sjálfur ekki lengur í forystu var hervald hússíta öflugt. En eftir níu ára borgarastyrjöld fengu utraquistar nóg og tóku höndum saman við kaþólikka. Án herstjórnarlistar hins mikilhæfa stjórnanda voru taborítar endanlega sigraðir þann 30. maí 1434.

 

Eftir 15 ára blóðugar styrjaldir og fimm krossferðir voru hússítar loks þvingaðir aftur undir vald kaþólsku kirkjunnar. Næstu átta áratugina var þessi hreyfing að mestu gleymd, allt þar til þýski munkurinn Marteinn Lúter tók upp mörg af baráttumálum hennar. Og hreyfing Lúters varð svo öflug að á endanum klauf hún kirkjuna í tvennt.

Orrustan við Lipany árið 1434 endaði hræðilega fyrir taboríta. Allir helstu leiðtogar hreyfingarinnar voru drepnir og skömmu síðar sundraðist hinn róttæki söfnuður.

Svik mörkuðu endalok taborítanna

Taborítar héldu áfram að vinna sigra í hernaði eftir dauða Jans Zizka. Eftir 14 ára stríð og fimm misheppnaðar krossferðir voru kaþólikkar neyddir að samningaborðinu 1433 en taborítar harðneituðu öllum málamiðlunum og ekkert varð úr samningum.

 

Utraquistar voru sáttfúsari og vildu gjarnan semja frið og ljúka þessu endalausa stríði. Árið 1434 sáu þeir fram á endurnýjað stríð og fengu nóg. Þeir sviku því taboríta og gerðu bandalag við kaþólikka. Í orrustunni við Liparny lagði bandalagsherinn á flótta. Taborítar töldu sigur í höfn og tóku vagna sína í sundur. Flóttinn var þó aðeins herbragð og án vagnavirkisins voru taborítar brytjaðir niður.

 

Sigismundur konungur sagði eftir orrustuna að „aðeins íbúar Bæheims gætu sigrað íbúa Bæheims“.

 

Í þakklætisskyni fyrir hjálpina fengu utraquistar fáeinar undanþágur frá ströngustu hefðum kaþólskra og máttu t.d. útdeila víni til almennings við altarisgöngu.

 

15 ára trúarbragðastríð hafði leikið Bæheim grátt. Fyrir stríð voru íbúarnir nærri 3 milljónir en helmingi færri í stríðslok. Margir bæir og þorp voru rústir einar.

LESTU MEIRA UM HÚSSÍTTASTRÍÐIN

Victor Verney: Warrior of God: Jan Žižka and the Hussite Revolution, Frontline Books, 2009

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Jonas Terney Arason og Bue Kindtler-Nielsen

Darren Tan,© Imageselect Heritage,© C.G. Voorhelm Schneevoogt,© Peter Horree/Imageselect,© Jan Vilímek,© Walters Art Museum & Album/Fine Art Images/Imageselect,© Jenaer Kodex,© ΑΩ institut,© Ludek,Weapons and Warfare & Shutterstock,© Petr Bonek/Imageselect,© Albrecht Dürer,© Tomasz Gmerek,© Album/Ritzau Scanpix,© Album/Fine Art Images/Imageselect,

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Heilsa

Hinn týndi hlekkur milli krabbameins og mataræðis ef til vill fundinn

Heilsa

Vísindamenn: Miklir kostir þess að nota stigann frekar en lyftuna.

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Lifandi Saga

60 aðalsmenn drukknuðu í skít

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Náttúran

Skógareldar geisa um gjörvallan hnöttinn

Alheimurinn

Hin dulda hlið tunglsins

Náttúran

Hver er hæsta tala sem hefur fengið nafn?

Náttúran

Taumhald á gróðureldum: Skógareldar

Lifandi Saga

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Vinsælast

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

3

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

4

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

5

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

6

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

1

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

2

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

3

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

4

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

5

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

6

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Lifandi Saga

Hve fjölmennir eru rússnesku minnihlutahóparnir í Austur-Evrópu?

Lifandi Saga

Afþreying í gegnum tímann: Allt frá skylmingabardögum til sirkustrúða

Maðurinn

Þannig kemstu í gegnum þrep sorgarinnar

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Maðurinn

Síðbúnar kvöldmáltíðir gera þig þyngri og svangari

Maðurinn

Hvernig grær brotið bein?

Maðurinn

Öfgar persónuleikans: Úthverfur eða innrænn persónuleiki

Alheimurinn

Hvað verður um orkuna frá sólarljósinu? 

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Fimmta frumbragðtegundin, úmamí, er nýjasta, en ekki endilega sú síðasta, bragðtegundin á lista yfir frumbragðtegundir. Lesið greinina og öðlist nýja vitneskju um frumbragðtegundirnar fimm og bragðskyn okkar.

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is