NÝTT MET – 21 vikna gamalt fóstur lifir af!
Heimsmetabók Guinness hefur formlega skráð Curtis Means sem það barn heims sem hefur lifað af eftir stystu meðgönguna. Móðirin hafði verið ólétt í aðeins 21 viku og degi betur þegar hún fæddi tvíbura. Læknarnir töldu að möguleikar tvíburanna til að lifa af væru minna en eitt prósent og aðeins Curtis lifði af.
Hann vó 420 grömm þegar hann fæddist, u.þ.b. sjöunda hluta af meðalþyngd fullburða barns.
Hér geturðu lesið um hvað læknar geta gert til að bjarga börnum sem fæðast of snemma.
Camille vó aðeins 920 grömm þegar hún fæddist rösklega þremur mánuðum fyrir tímann. Þegar þarna var komið sögu, árið 1992, höfðu fæst sjúkrahús yfir að ráða nógsamlegri tækni til að bjarga lífi barna sem fæddust þetta snemma.
Þetta tiltekna stúlkubarn var lánsamt því læknarnir við Sainte-Justine háskólasjúkrahúsið í Montreal höfðu skömmu áður tekið upp nýja aðferð við meðhöndlun óþroskaðra lungna snemmbura.
Meðhöndlunin bjargaði lífi hennar og nú í dag er hringurinn í þann veginn að lokast hjá Camille, því hún er nú doktorsnemi við sama sjúkrahús og hún fæddist á. Doktorsverkefni hennar fjallar um síðari afleiðingar barna sem fæðst hafa allt of snemma, líkt og átti við um hana sjálfa.
Ár hvert fæðast 15 milljón börn fyrir áætlaðan fæðingardag en það svarar til 10% allra nýbura heimsins. Alls 14 milljónir þeirra lifa og er ástæðan sú að læknum hefur farið verulega fram í að bjarga börnum sem fæðst hafa of snemma, í gegnum fyrsta erfiða tímabilið fyrir utan móðurlífið.
Örfáar vikur skipta sköpum fyrir líkur barns á að lifa
Mörkin sem segja til um hvort barn geti lifað það af að fæðast of snemma eru miðuð við 22. viku og eftir það aukast líkurnar bratt með hverri vikunni. Eftir 34. viku eru jafnmiklar líkur á að barnið lifi og ef það hefði fæðst á settum tíma, í 39. viku. Upplýsingarnar stafa frá Svíþjóð, þar sem allt of snemma fædd börn eiga hvað mestar líkur á að lifa. Líkurnar á hvort börn lifi það af að fæðast of snemma sveiflast um fimm til tíu prósent frá einu landi til annars.
Ekki nóg með að líkurnar á að barn lifi hafi aukist til muna, heldur hafa mörkin fyrir því hve snemma á meðgöngu börn þola að fæðast einnig færst til og sama máli gegnir um getuna til að lifa. Mörkin eru nú miðuð við 22. viku, þ.e. næstum fjórum mánuðum fyrir setta fæðingu.
Þessi lífsbjargarmeðferð gagnast sífellt fleiri kornabörnum því hlutfall barna á heimsvísu sem fæðast fyrir tímann eykst með hverju árinu. Sú staðreynd að sífellt fleiri börn fæðast fyrir tímann og svo hin staðreyndin að sífellt fleiri þeirra lifa það af, gefur sérfræðingum alveg nýtt tækifæri til að rannsaka langtímaafleiðingar þess að fæðast löngu fyrir áætlaðan tíma.
Þetta vekur þó einnig foreldra og lækna til umhugsunar um hvort ástæða sé til að bjarga lífi þeirra sem fæðast löngu fyrir tímann þegar þau eigi á hættu að lifa lífi sem einkennist af alvarlegum fötlunum.
Kornabarn sem vó 245 g lifði
Í flestum löndum um allan heim eykst tíðni snemmbura með ári hverju. Í Bandaríkjunum telst tíðnin hækka sem nemur einum hundraðshluta á hverjum áratug.
Ástæðan er á heildina litið óþekkt en læknum er þó kunnugt um nokkra áhættuþætti sem auka líkurnar á að barn komi í heiminn of snemma.
Sem dæmi má nefna sýkingar, streitu og sálræn áföll á meðgöngu, auk langvinnra sjúkdóma móður, á borð við sykursýki og of háan blóðþrýsting.
Camille Girard-Bock fæddist rösklega þremur mánuðum fyrir tímann. Í dag stundar hún sjálf rannsóknir á börnum sem fæðast of snemma.
Meðganga varir að öllu jöfnu 39 vikur og er barn talið hafa fæðst tímanlega ef það fæðist í viku 38 til 42.
Eigi fæðing sér stað í vikum 33 til 37 er heili barnsins enn í örum vexti og viðkvæmur fyrir birtu og hljóðum, auk þess sem lungun geta verið svo stíf að öndun reynist torveld.
Læknar geta þó í flestum tilfellum unnið bug á þessum vandamálum þannig að barnið eigi nánast sömu möguleika á að lifa af og börn sem fæðast á réttum tíma.
Hættan eykst ef börn fæðast í 28. til 32. viku. Á því tímabili er hætt við að lungun leggist saman við fyrsta andardrátt, auk þess sem aukin hætta er á heilablæðingum.
Eigi fæðingin sér stað í viku 22 til 27 er sagt að barnið hafi fæðst löngu fyrir tímann og í þeim tilvikum eru lungu og heili það óþroskuð að barnið getur ekki lifað utan gjörgæslu.
Þegar bandaríska stúlkubarnið Saybie fæddist í 23. viku á árinu 2018 og vó einungis 245 grömm, tókst læknum engu að síður að bjarga lífi hennar með nútímalegum aðferðum sem hjálpuðu barninu að anda.
Líkurnar á að börn sem fæðast fyrir tímann geti lifað hafa aukist verulega á undanförnum árum. Þróunin þekkist ekki hvað síst í Svíþjóð, þar sem hvað mestar líkur eru á að bjarga lífi barna sem fæðast fyrir tímann.
Fæðing fyrir tímann ögrar öllum líkamanum
Þegar barn fæðist fyrir tímann ráða líffærin ekki við allt sem þeim er ætlað að gera utan móðurlífsins. Þetta kann að leiða til bráðra þarmakvilla eftir fæðingu en að sama skapi er hætt við að barnið fái astma ellegar þurfi að glíma við námsörðugleika síðar á lífsleiðinni.
Þarmaveggurinn skemmist af völdum sýkingar
Um tíu hundraðshlutar allra barna sem fæðast fyrir 32. viku þjást af þarmadrepsbólgu sem leiðir til þess að hluti þarmaveggjarins deyr. Ástæðuna má sennilega rekja til óþroskaðs þarmakerfis, í bland við slælega blóð- og súrefnistilfærslu, svo og sýkingu.
Viðkvæm lungu auka hættu á astma
Lungun þroskast gegnum alla meðgönguna og börn sem fæðast fyrir tímann eiga á hættu að fá öndunarerfiðleika. Slæleg lungnastarfsemi kann enn fremur að hafa áhrif á frekari þroska lungnanna og auka líkur á að börnin veikist síðar meir af astma eða lungnateppusjúkdómi (KOL).
Sjónhimnulos leiðir af sér skerta sjón og blindu
Þroski æðanna í viðkvæmri sjónhimnu augans kann að vera í hættu ef barn fæðist fyrir tímann. Afleiðingarnar kunna að lýsa sér sem blæðingar, æðavöxtur í augnhlaupinu og sjónhimnulos sem leiðir af sér skerta sjón eða blindu.
Meðferð til bjargar barninu skemmir heyrnina
Börn sem fæðast fyrir tímann fá oft sýklalyf og vatnslosandi lyf til að vernda þau gegn sýkingum og lungnavanda. Efni þessi kunna að trufla ofurnæm skynhárin og vökvastreymið í kuðungi innra eyrans og geta leitt til heyrnarskerðingar.
Óþroskaður heili lendir í námsörðugleikum
Hlutar heilans eru ekki fullþroskaðir í börnum sem fæðast fyrir tímann. Á fyrsta æviári getur barnið átt á hættu að fá heilalömun og flogaveiki og síðar á lífsleiðinni er hætt við að það lendi í námsörðugleikum og atferlisvanda.
Í rannsókn sem gerð var á árinu 2019 bar barnalæknirinn Mikael Norman, við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, saman börn sem fæddust mjög snemma á árunum 2004-2007 annars vegar og 2014-2016 hins vegar. Meðal þeirra barna sem fæddust í 22. viku jukust líkurnar á að barnið lifði til eins árs aldurs úr 4% fyrir fyrra tímabilið og upp í 20% áratugnum síðar.
Sömu líkur fyrir börn fædd í 23. viku meðgöngu jukust úr 29% upp í 44%. Þegar á heildina er litið lifa 59% barna sem fæðast í 22.-26. meðgönguviku nú í Svíþjóð.
Ekki nóg með að börnin lifi, heldur lifa þau í auknum mæli án nokkurs meins. Í kanadískri rannsókn sem tók til 50.000 barna, fæddum fyrir 33. viku, kom t.d. í ljós að hlutfall þeirra sem lifðu án alvarlegra fylgikvilla jókst úr 57% árið 2004 upp í 71% árið 2017.
Stíf lungu valda andþyngslum í börnunum
Flest líffæri barna eru algerlega eða nánast fullþroskuð löngu áður en kemur að settum degi og hafa einungis þörf fyrir meiri tíma til að stækka.
Þetta horfir þó öðruvísi við hvað áhrærir lungun og ein mikilvægasta ástæða þess að svo mörg börn lifa það af að vera fædd of snemma er sú að læknum gefst nú betur að aðstoða börnin við að draga andann.
Síðustu mánuðina af meðgöngu þróast lungun frá því að vera alveg stíf yfir í það að verða mjúk og sveigjanleg, þannig að þau geti þanist út þegar börnin anda að sér og dregist saman þegar þau anda frá sér.
Litlu loftsekkirnir í lungunum, lungnablöðrurnar, þar sem súrefnisupptaka fyrir blóðið á sér stað, þróa jafnframt verndarhimnu sem kemur í veg fyrir að þau falli saman þegar loft tæmist úr þeim.
Til að undirgangast þetta þroskaferli hafa lungun þörf fyrir yfirborðsvirkt efni (lungnablöðruseyti), sem samanstendur af fituefnum og próteinum.
Lungnablöðrurnar byrja smám saman að mynda seytið í 23. viku og næstu vikur á eftir mýkir það lungun smám saman. Ef svo barnið fæðist fyrir tímann hefur seytið ekki haft nægilegan tíma til að virka, með þeim afleiðingum að lungun eru stíf og barnið þarf að verja allri orku sinni í að draga andann.
Meðhöndlun þessi minnkaði dánaráhættu um alls 40 hundraðshluta og nú til dags er aðferðinni oft beitt í fyrirbyggjandi skyni, áður en barnið lendir í andnauð. Auk þess hefur læknum tekist að þróa varfærnislega aðferð við að gefa nýburum þessum súrefni, án þess að viðkvæm öndunarfærin skaddist.
Fyrirburafæðingum fækkaði í í faraldrinum
Í maí 2020 birtu Ríkisspítalinn í Kaupmannahöfn niðurstöður úr rannsókn sem getur varpað ljósi á fjölgun fyrirburafæðinga.
Rannsakendur báru saman fjölda afar ótímabærra fæðinga á tímabilinu 12. mars til 14. apríl árið 2020, þegar Danmörk var meira og minna lokuð vegna kórónuveirufaraldursins, við sama tímabil fimm árin þar á undan.
Þrátt fyrir að engar breytingar hafi orðið á fjölda nýbura lækkaði hlutfall fyrirburafæðinga verulega – úr tiltölulega stöðugu hlutfalli upp á 0,22 prósent. af öllum fæðingum 2015-2019 aðeins 0,02 prósent.
Þetta samsvarar 90 prósenta lækkun, sem að mati rannsakenda kann að stafa af meiri áherslu á hreinlæti og þar af leiðandi færri sýkingum.
Smurning kemur í veg fyrir að lungun leggist saman
Að öllu jöfnu mynda lungu barna sem fæðast eftir 23. viku mýkjandi seyti sem nefnist lungnablöðruseyti en um er að ræða flókna blöndu próteina og fituefna. Seyti þessu er ætlað að koma í veg fyrir að fíngerðar lungnablöðrur lungnanna, þar sem súrefnið kemst út í blóðið, leggist saman þegar barnið andar frá sér. Börnum sem fæðast fyrir tímann er gefið slíkt seyti.
Lungnablöðrur
A
Yfirborðsspenna vatnsins (bláir punktar) veldur því að lungnablöðrur dragast saman.
B
Lungnablöðruseytið (hvítir punktar) minnkar spennuna og lungnablaðran heldur lögun sinni.
Önnur aðferð til að styrkja lungnastarfsemina er sett í gang strax meðan á meðgöngunni stendur og er alvanalegt að beita henni ef óléttar konur sýna þess einhver merki að fæðing geti farið of snemma af stað.
Læknar gefa þá mæðrunum sterahormón sem kallast barksterar en þeir finna sér leið inn í fóstrið og styðja við þroska litla líkamans. Hormónameðferð þessi gagnast enn fremur gegn þremur alvarlegum fylgikvillum sem gjarnan fylgja fæðingum sem fara af stað of snemma.
Hættan á lífshættulega þarmakvillanum NEC sem felur það í sér að gat myndast á þarmana, minnkar um helming og hormónarnir draga jafnframt verulega úr hættu á að barnið veikist af lífshættulegum sýkingum fyrstu tvo dagana utan móðurlífsins.
Síðast en ekki síst styrkja hormónarnir einnig þroska heilans, svo hættan á heilablæðingu minnkar um helming. Alls dregur hormónameðferðin úr hættu á að barnið andist stuttu eftir fæðingu sem nemur 32 af hundraði.
Fleiri spjara sig illa í skóla
Líkt og lungun, þroskast heilinn einnig alla meðgönguna og þegar um fulla meðgöngu er að ræða er hann fyllilega undir líf utan móðurlífsins búinn.
Á síðasta hluta meðgöngunnar þrefaldast þyngd heilans og yfirborð hans breytist frá því að vera slétt yfir í þessar dæmigerðu fellingar sem einkenna heilabörkinn.
Heili og lungu þroskast hægt
Þó svo að hjarta fósturs sé nánast fullþroskað í 8. viku, halda heilinn og lungun áfram að þroskast allt fram að eðlilegum fæðingardegi í 39. viku. Þessi tvö líffæri eru fyrir bragðið í mestri hættu þegar börn fæðast of snemma.
15. vika
Heilinn byrjar að fá á sig endanlega lögun og smám saman má greina vel þekkta lögunina með stóra heilanum og litla heila. Heilinn starfar hins vegar ekki sem skyldi á þessu stigi.
16. vika
Lungun byrja að mynda lungnaberkjur sem greinast í sífellt minni berkjur. Ef barnið fæðist fyrir þennan tíma geta lungun engan veginn tekið upp súrefni.
23. vika
Lungun fara að mynda litlu loftholrúmin, lungnablöðrurnar. Þær framleiða seyti sem mýkir lungun. Ef barnið fæðist fyrir þennan tíma þarf það aðstoð við að draga andann.
25. vika
Heilinn myndar sérhæfðar heilastöðvar þar sem heilafrumurnar eiga í nánu samstarfi. Fæðist barn fyrir tímann er aukin hætta á flogaveiki og blindu.
28. vika
Heilafrumurnar verða huldar fitulagi sem hraðar taugaboðunum til muna. Ef barnið fæðist fyrir tímann eykst hættan á námserfiðleikum.
Ólíkt umhverfið utan móðurlífsins hefur áhrif á þessa þróun sem getur haft í för með sér ýmiss konar heilaskaða.
Einn algengasti og alvarlegasti fylgikvillinn eftir fæðingu allt of snemma er heilalömun sem fyrirburum sem fæðast mjög snemma er hundraðfalt hættara við en öðrum nýfæddum börnum.
Margar aðrar tegundir af heilaskaða geta leitt af sér þroskatruflanir sem komið geta í ljós síðar á lífsleiðinni og sem erfitt getur verið að greina á fyrsta æviskeiði barnsins.
Í rannsókn sem gerð var árið 2010 fylgdust vísindamenn með 400.000 skoskum skólabörnum svo árum skipti og fundu greinilegt samhengi milli þarfar fyrir sérkennslu annars vegar og fæðingarviku barnanna hins vegar.
Þörfin fyrir sérkennslu síðar meir jókst um 15% fyrir hverja viku sem barnið fæddist fyrir settan tíma. Miðað við börn sem fæddust á réttum tíma var börnum sem fæddust í 24. viku ellefu sinnum hættara við að fá þörf fyrir sérkennslu einhvern tímann á skólagöngunni.
Fylgst er með súrefnisupptöku blóðsins í súrefnismæli. Því meiri sem súrefnisupptakan er, þeim mun minni rauða birtu drekkur húðin í sig.
Aðrir sérfræðingar hafa jafnframt sýnt fram á auknar líkur á námsvanda meðal barna sem fæðast fyrir tímann en börnin geta að sama skapi lent í vanda á ýmsum öðrum sviðum síðar meir.
Þetta er eitt af því sem doktorsneminn Camille Girard-Bock hefur átt þátt í að sýna fram á, í samstarfi við starfsfélaga sína við Sainte-Justine háskólasjúkrahúsið í Montreal, þar sem hún sjálf fæddist í 26. viku, alls 14 vikum fyrir settan dag.
Sjálf finnur hún ekki fyrir neinum vandamálum sem takmarka möguleika hennar á að lifa því lífi sem hún hefur kosið sér en rannsókn hennar frá árinu 2020 leiddi í ljós að ekki voru allir jafn heppnir og hún.
Camille Girard-Bock hefur tekist að sanna að fólk sem fæðist mjög snemma, þ.e. fyrir 29. viku, er með þykkara blóð með fleiri rauðum blóðkornum á fullorðinsárum en þeir sem fæðast á réttum tíma. Þetta hefur m.a. í för með sér aukna hættu á blóðtappa og heilablæðingum.
Varfærnisleg lofttilfærsla styrkir lungun
Áður fyrr var börnum gefið súrefni með vélrænum búnaði, eins konar öndunarvél. Mikill þrýstingur olli hins vegar álagi á lungu barnanna og nú til dags nota læknar þess í stað varfærnislegri aðferð sem kallast síblástur í nef (CPAP) en hún felur í sér að börnunum er gefið upphitað rakt loft sem aukalegu súrefni hefur verið bætt í en þetta styrkir lungnastarfsemina.
1.
Stöðugur, vægur yfirþrýstingur sér til þess að barnið geti auðveldlega andað að sér.
2.
Sami þrýstingur veitir væga mótstöðu þegar andað er frá sér og þetta styrkir lungun.
Kaffi minnkar dánaráhættuna um helming
Margar gerðir meðhöndlunar sem bjarga börnum sem fæðst hafa of snemma krefjast háþróaðrar lækningatækni en í ljós hefur komið að sáraeinföld aðferð hefur undraverð áhrif á börnin.
Bandarísk rannsókn sem gerð var á árinu 2013 leiddi þannig í ljós að koffínmeðferð fyrstu dagana eftir fæðingu minnkar um helming hættuna á andláti og langvinna lungnasjúkdóminum BPD (ens.: bronchopulmonary dysplasia).
Í rannsókn sem gerð var í Kanada árið 2019 var einnig sýnt fram á vænleg áhrif koffíns á þennan lungnasjúkdóm en þar tókst að sama skapi að sýna fram á 33% minni hættu á ýmsum taugaskemmdum og þroskafrávikum fram að tveggja ára aldri.
Lyf í úðaformi hlífir lungunum
Fram til þessa hafa læknar gefið börnum mýkjandi efnið lungnablöðruseyti með því að koma hollegg fyrir í lungum þeirra. Þessi aðferð er áhættusöm og hætt við að hún skaði lungnavefinn. Fyrir vikið gera vísindamenn nú tilraunir með mýkingarefnið í úðaformi og láta barnið anda því að sér um leið og súrefninu.
1.
Mýkingarefninu er komið fyrir á himnu alsettri fíngerðum götum og er himnan látin sveiflast ört.
2.
Þegar himnan sveiflast upp á við þrýstist upplausnin gegnum götin í örmjóum bunum.
3.
Þegar himnan sveiflast niður á við brotna bunurnar í smásæja dropa.
Aðrar rannsóknir hafa staðfest þessar niðurstöður og einnig sannað, svo ekki verður um villst, að koffín styrkir hjartað og í dag er þetta örvandi efni úr kaffi eitt af eftirlætisvopnum lækna í baráttunni við skammtíma- og langtímaafleiðingar þess að börn fæðast of snemma.
Samhliða því að læknum tekst að bjarga börnum sem fæðast sífellt fyrr á meðgöngu, eiga mörg þeirra eftir að kljást við hættuna á að afleiðingar komi upp síðar meir, hættu sem er engan veginn þekkt til hlítar.
Þetta gerir það að verkum að læknar standa frammi fyrir erfiðum valkosti: Eiga þeir að reyna að bjarga lífi barna og sætta sig þar með við hættuna á að barnið kunni að þurfa að lifa með heilaskaða og aðra langvinna kvilla það sem eftir er ævinnar?
Camille Girard-Bock hefur þurft að vega þetta vandamál og meta og hún velkist ekki í neinum vafa. Hún er yfirmáta þakklát fyrir að læknarnir og foreldrar hennar völdu að gefa henni tækifæri fyrir 28 árum.