Menning og saga

Leyndardómar kvennabúranna

Kvennabúr soldánsins var syndabæli sem logaði af losta, villtu kynsvalli og endalausu leynimakki. Þannig hljómar hin almenna lýsing á tilverunni innan vel vaktaðra hallarmúranna. Í raun réttri einkenndust kvennabúr öðru fremur af rólegu fjölskyldulífi sem ekkert fékk haggað, nema ef vera skyldi ráðabrugg um morð.

BIRT: 01/03/2023

Yfirgeldingurinn gaumgæfir ungu ambáttina við hliðið að kvennabúrinu með þrautþjálfuðu auga.

 

Stúlkan er gjöf til soldánsins frá landstjóra einum í hinu gríðarstóra ríki Ósmana og geldingurinn virðist við fyrstu sýn vera ánægður með það sem hann sér.

 

Hann þekkir vel smekk húsbónda síns og veit að soldáninn er veikur fyrir skjannahvítri húð, stórum augum og rjóðum kinnum.

 

Lafhrædd stúlkan sem stendur fyrir framan hann er gædd öllum þessum kostum. Skyldurækinn yfirgeldingurinn rennir augunum frá toppi til táar og aðgætir hvort sér hafi yfirsést eitthvað.

 

Skakkar tennur eða óheilbrigð húð gætu nægt til að varðmaðurinn hafnaði ambáttinni:

 

Aðeins þær fullkomnu voru nógu góðar fyrir soldáninn sem býr ásamt stórfjölskyldu sinni í Topkapi-höllinni í miðri höfuðborginni Konstantínópel.

 

Yfirgeldingurinn samþykkir stúlkuna og fer með hana inn fyrir hliðið.

 

Þegar hliðið læsist á eftir stúlkunni hefst ný tilvera í lífi hennar: Hún fær nýtt nafn, er þvinguð til að snúa til íslamstrúar og fær það hlutverk að þjóna fjölskyldu soldánsins.

 

Í raun réttri er hún ambátt soldánsins en samt mun hún engu að síður brátt komast að raun um að í kvennabúrinu hefur hún tök á að auðgast, komast til valda og öðlast frelsi.

 

Allt þetta ræðst af því hvort henni tekst að þóknast drottnara Ósmana í rúminu.

 

Soldáninn olli skelfingu í gjörvallri Evrópu

Á 14. öld settu tyrkneskumælandi hirðingjar á stofn lítið konungsríki rétt suður af Konstantínópel.

 

Ríkið var nefnt í höfuðið á stofnanda þess, Ósmani 1. og gekk undir heitinu Ósmanaveldið.

 

Ríkið stækkaði og brátt tilheyrðu því jafnframt Búlgaría og stór hluti Grikklands.

 

Árið 1453 tókst þeim Ósmönum sem voru íslamstrúar að leggja undir sig höfuðborg Austur-rómverska ríkisins, Konstantínópel (Istanbúl).

 

Ósmanar héldu því næst í norðurátt og lögðu meira að segja Vínarborg undir sig árið 1529 en sá atburður olli uppnámi í gjörvallri Evrópu.

 

Meira að segja Marteinn Lúter notaði Tyrkina sem grýlur þegar hann gerði atlögu að páfanum sama ár.

 

„Guð hefur kastað okkur í fangið á Satan og Tyrkjunum“, ritaði hann.

 

Móðirin var við völdin

Mikilfengleg Topkapi-höllin var miðstöð hins volduga Ósmanaveldis og staðurinn þar sem ýmsir íslamskir þjóðhöfðingjar stjórnuðu heimsveldi sínu frá upphafi 16. aldar og fram á 19. öld.

 

Auk þess sem ríkinu var stjórnað úr höllinni hýsti hún jafnframt samfélag 4.000 íbúa sem voru einangraðir frá umheiminum.

 

Embættismenn, hermenn, geldingar og undurfagrar konur voru á ferli í höllinni dag hvern.

 

Allir þessir einstaklingar voru önnum kafnir við að hlýða minnstu handarhreyfingum soldánsins, þar sem þeir gengu um lystigarðana, ótalmarga gangana og stórfengleg salarkynnin.

 

„Einn af föstum siðum soldánsins eru daglegar heimsóknir til móður hans, þar sem hann kyssir hönd hennar“.

Filizten Kalfa, kvennabúrskona.

 

Móðir soldánsins kippti í alla spottana, líkt og könguló í vef sínum en hún gekk undir heitinu valide sultan sem táknar soldánsmóður.

 

Soldáninn ríkti yfir risastóru ríki sínu en á heimili drottnarans átti móðir hans síðasta orðið og var verndari sonar síns.

 

Hún hafði umsjón með einkaheimili soldánsins, kvennabúrinu sem öðrum karlmönnum var meinaður aðgangur að.

 

Móðir soldánsins réð því ein og óstudd hvaða ambáttir fengju að vera í návistum við soldáninn til þess að hann gæti virt fyrir sér fegurð þeirra og yndisþokka.

 

Soldáninn virti stöðu móður sinnar og ráðfærði sig við hana daglega.

 

Kvennabúrskonan Filizten Kalfa (1865- 1945) ritaði um lífið á bak við háu múrana.

 

„Einn af siðum soldánsins var að heimsækja móður sína hvern morgun og kyssa hönd hennar.

 

Allt frá árinu 1478 hefur Topkapi-höllin verið staðsett yst á tanga við Bosborussund í Istanbul. Borgin, hefur stækkað gríðarlega undanfarin 100 ár og í dag búa þar um 15 milljónir.

Hann reis úr rekkju sinni, þvoði sér, klæddi og snæddi léttan morgunverð áður en hann gekk til salarkynna móður sinnar“, ritaði Filizten.

 

„Velkominn, sonur minn, vertu innilega velkominn inn fyrir“ en þannig hljómaði kveðja móður til sonar.

 

Mæðginin voru vön að ræða saman í góða stund og m.a. ákveða hvernig þessi tiltekni dagur skyldi ganga fyrir sig í höllinni.

 

Þessir fundir stóðu oft fram að hádegi en að þeim loknum snæddi soldáninn hádegisverð í vistarverum sínum, annað hvort einn eða ásamt einni eða tveimur eiginkonum“, ritaði Filizten í endurminningum sínum.

 

Ambáttirnar byrjuðu á botninum

Þær ambáttir sem fengu aðgang að kvennabúrinu kölluðust ekki kvennabúrskonur, heldur acemi eða odalisk en það síðargreinda táknar „þá sem tilheyrir vistarveru“ og starfsheitin gáfu til kynna að um væri að ræða óbreyttar þjónustustúlkur.

 

Ódalískurnar bjuggu saman í fimm eða sex manna herbergjum og tengdust tiltekinni vistarveru, þ.e. sérstakri deild sem gamalreynd ambátt stjórnaði.

 

Þessar yfirkonur báru ábyrgð á t.d. baðherbergjunum, skartgripadeildinni, kaffiuppáhellingu, vatnsbirgðum eða matarbúri og báru opinbera titla, svo sem eins og „vatnskönnukona“ eða „baðumsjónarkona“.

 

„Þar sem flestar stúlkurnar komu beint frá sveitaþorpum fengu þær ekki að umgangast soldáninn“.

Safiye Ünüvar, kennslukona í kvennabúrinu.

 

Titlunum fylgdi talsverð virðing og færðu umræddum konum föst laun.

 

Nýjustu ódalískurnar byrjuðu neðst í valdaröðinni og voru m.a. látnar vinna í eldhúsinu eða þá þvottahúsinu.

 

Þegar svo ódalískunum hafði tekist að sanna sig gátu þær gert sér vonir um að færast upp metorðastigann.

 

Væru þær á hinn bóginn gagnslausar eða illa gefnar áttu þær á hættu að vera seldar á þrælamarkaði.

 

Ef marka má sjónarvottinn Safiye Ünüvar sem var frjáls kona og kennari soldánsbarnanna, leið langur tími áður en soldáninn virti nýju stúlkurnar viðlits.

 

„Þær stúlkur sem seinast höfðu bæst í kvennabúrið nefndust acemi, þ.e. nýliðar.

 

Þar sem flestar slíkar stúlkur komu rakleitt frá sveitaþorpum var þeim ekki leyft að nálgast húsbónda sinn né frúna (ritstj.: soldánsmóðurina) fyrr en yfirboðaðar þeirra höfðu kynnt fyrir þeim alla siði hallarinnar og kennt þeim fágaða framkomu.

 

Þessar ambáttir voru fínlegar, viðkvæmar og greindar stúlkur.

 

Eins og gefur að skilja kunnu þær ekki tyrknesku en þar sem þær voru vel gefnar lærðu þær hana fljótt.

 

Yfirleitt tömdu þær sér siði hallarinnar einnig fljótt“, skrifaði kennslukonan.

 

Margar konur innan kvennabúrsins voru þjónustustúlkur og ekki ástmeyjar soldánsins.

Þrjár konur sýndu lífið innan hárra múranna

Hvað átti sér stað innan veggja kvennabúrsins náði öldum saman ekki eyrum almennings utan hallarmúranna. Þrjár konur sem lifðu í þessu goðsagnakennda umhverfi í samtals hálfa öld rituðu þó minningar sínar. Frásagnir þeirra veittu sjaldséða innsýn í daglegt líf í kvennabúrinu.

Hjákona segir frá

Filizten Kalfa var fjórtán ára gömul þegar hún kom til Konstantínópel frá borginni Pitsunda í Georgíu árið 1876.

 

Hún var gjöf til Ósmanasoldánsins Murads 5. sem reyndar var einungis við völd í 93 daga áður en hann lést.

 

Engu að síður átti það fyrir konunni að liggja að verja næstu 28 árum í kvennabúrinu.

 

Um tíma var hún svokölluð gözde en svo nefndust sérlega valdar hjákonur soldánsins Abdülhamid 2.

Dóttir soldánsins á flótta

Ayse var dóttir soldánsins Abdülhamid 2. sem komst til valda eftir valdarán árið 1876.

 

Hún fæddist árið 1887 og varði fyrstu 22 árum ævi sinnar í kvennabúrinu, á sama stað og önnur börn soldánsins og þar hlaut hún menntun sína.

 

Eftir að föður hennar hafði verið steypt af stóli í valdaráni hersins árið 1909 flýði hún ásamt foreldrum sínum til borgarinnar Þessalóníku í Grikklandi en sneri ári síðar aftur til Konstantínópel.

 

Þegar Ósmanaveldið var leyst upp settist hún að í París allt til ársins 1952 þegar hún sneri aftur til heimalandsins og ritaði þar minningar sínar. Hún lést árið 1960, þá 72 ára gömul.

Kennslukona í kvennabúrinu

Þegar Safiye Ünüvar var nýútskrifuð kennslukona hafði háttsettur frændi hennar milligöngu um að hún flytti inn í höll soldánsins í Konstantínópel.

 

Hún var fyrsta kennslukonan sem búsett var innan veggja kvennabúrsins, umfram það að koma þangað í daglegar heimsóknir og var starf hennar fólgið í því að kenna barnabörnum soldánsins Mehmed 5., svo og fullvaxta konum í kvennabúrinu.

 

Endurminningar Safiye Ünüvars sem gefnar voru út á tyrknesku árið 1964, eru þær einu sem vitað er til að starfskona kvennabúrsins hafi ritað.

 

Geldingar gættu inngangsins

Kvennabúrið var staðsett í hjarta Topkapi-hallarinnar, þar sem soldáninn jafnframt gisti en þar var að finna alls 400 vistarverur.

 

Þarna lifðu hundruð kvenna bak luktum dyrum, þar sem þeirra var vandlega gætt. Þær lifðu engu að síður í sannkölluðum munaði:

 

Þær höfðu aðgang að grösugum lystigörðum með tilbúnum stöðuvötnum og gosbrunnum, ríflega 30 baðstöðum og þar var meira að segja að finna lítinn dýragarð með gasellum, öpum, páfuglum og næturgölum í búri.

 

Meira en 150 kokkar sáu um matseldina á meðan heill her þeldökkra geldinga gætti kvennabúrsins.

 

Geldingarnir voru ýmist stríðsfangar eða þeir höfðu verið hnepptir í ánauð, líkt og sjálfar konurnar og síðan vanaðir áður en þeir urðu kynþroska.

 

Á blómaskeiði Ósmanaveldisins á 16. öld, hafði soldáninn yfir að ráða 600 til 800 þeldökkum geldingum.

 

Hlutverk þeirra var ofur einfalt, ef marka má Ayse prinsessu (1887-1960), dóttur soldánsins Abdülhamid 2.:

 

„Hlutverk geldinganna var að læsa dyrunum að kvennabúrinu á hverju kvöldi og taka aftur úr lás næsta morgun, vera á verði við dyrnar og fylgjast með þeim sem komu og fóru.

 

Þeir gengu með fólki út í vagna þeirra, fylgdu læknunum inn og út og gættu þess að engir væru einir á sveimi í höllinni.

 

Geldingarnir höfðu allir verið kornungir þegar þeir komu í höllina og höfðu alist upp þar. Þeir voru tryggir þjónar og sérlega húsbóndahollir“.

 

Í valdastiga Ósmana voru aðeins soldáninn og stórvesírinn valdameiri en yfirgeldingurinn en stórvesírinn var staðgengill soldánsins og æðsta vald trúmála.

 

Opinbert starfsheiti yfirgeldingsins var kizlar agha, þ.e. „yfirvald stúlkna“. Hann ræddi á hverjum degi við soldáninn og hina valdamiklu móður hans, auk þess að gegna hlutverki boðbera milli soldánsins og stórvesírsins.

 

Þessi nánu tengsl við valdafólk ríkisins færðu honum gífurleg völd á stjórnmálasviðinu.

 

Í Ósmanaveldinu voru blóðugir valdabardagar nokkuð tíðir og metorðagjarnir einstaklingar gerðu rétt í að gera samkomulag við „drottnara stúlknanna“.

 

Þvottadagurinn sannkölluð veisla

Þó svo að kvennasvæði hallarinnar hafi verið algerlega lokað fyrir umheiminum var ekki hægt að koma í veg fyrir sögusagnir: Þjónar og kaupmenn báru þær fréttir með sér að kvennabúrið væri syndabæli þar sem soldáninn gamnaði sér á hverri nóttu með ótalmörgum ungum stúlkum í allsherjar kynsvalli.

 

Samkvæmt upplýsingum kvennabúrskonunnar Filizten einkenndist daglegt líf þó öðru fremur af skyldustörfum og leiða heldur en heitum ástarleikjum og logandi losta.

 

„Hefði ég haldið dagbók yfir 28 ára dvöl mína í kvennabúrinu, hefðu dagarnir allir runnið út í eitt og líkst hver öðrum.

 

Við endurtókum það sama alla daga, nákvæmlega eins og úrverk sem aldrei flýtti sér né seinkaði.

 

Hver einasta okkar vissi til hvers var ætlast af henni og við gerðum sömu hlutina dag eftir dag og minntum einna helst á vél sem aldrei slær feil“, ritaði hún.

 

Í augum Filizten brutu þvottadagarnir upp tilbreytingarlausan hversdagsleikann og mörkuðu eins konar hápunkt í lífi hennar í kvennabúrinu:

 

„Í eldhúsinu var komið fyrir risastórum kötlum, sjö stórir balar voru settir á gólfið og sátu þrjár stúlkur umhverfis hvern þeirra.

 

Þvotturinn úr fyrsta balanum var færður yfir í þann næsta, þannig að þvotturinn hafði viðkomu í öllum sjö bölum. Þetta var í sannleika sagt skemmtileg sjón, að sjá allar þessar ungu og heilbrigðu fegurðardísir þvo og skrúbba fötin í hvítri sápufroðunni, spjallandi hástöfum og skellihlæjandi“.

 

Þær kvennabúrskonur sem nutu hvað mestrar virðingar, fengu það verkefni að þvo fatnað soldánsins og rúmföt hans en þær sem voru lægra settar í metorðastiganum fengu ekki að snerta föt hans. Hreinn þvottur af honum var síðan hengdur til þerris út af fyrir sig, án þess að snerta annan þvott.

 

„Soldáninn var kattþrifinn og skipti um föt svo gott sem daglega. Við hengdum ávallt nýþveginn þvott hans utanhúss og úðuðum yfir með rósavatni og öðrum blómailmi“, ritaði Filizten í minningum sínum.

 

Sérlega fallegar eða vel gefnar þjónustustúlkur (ódalískur) voru hækkaðar í tign og þjálfaðar upp í að verða hjákonur.

 

Þetta fól í sér að þær lærðu að dansa, fara með ljóð, leika á hljóðfæri og þær lærðu jafnframt til hlítar listina að elska.

 

Samkvæmt Filizten var mikilvægasta hlutverk hjákvennanna fólgið í því að vera til reiðu fyrir utan salarkynni soldánsins:

 

„Á hverri nóttu stóðum við hjákonurnar fyrir framan hýbýli soldánsins, ávallt klæddar okkar fínasta pússi.

 

Fyrst var okkur gert að tilkynna komu okkar til móður soldánsins sem skoðaði okkur gaumgæfilega og lagfærði það sem henni þótti fara miður í útliti okkar.

 

Síðan sagði soldánsmóðirin, líkt og í aðvörunartóni: ‘Hafið augun og eyrun opin. Munið að hlýða skipunum sonar míns í hvívetna og gætið þess að ónáða hann ekki‘.

 

Sem dæmi gat soldáninn átt það til að biðja um klút til að þerra hendur sínar með“.

 

Soldáninn óskaði sér þó stundum einhvers allt annars.

 

„Húsbóndi okkar sem vakti ætíð fram eftir, tilkynnti einhverjum varðanna hvaða konu hann hygðist verja nóttinni með.

 

Þá gekk vörðurinn að viðkomandi konu og tilkynnti henni ósk soldánsins lágum hljóðum. Stundum óskaði húsbóndinn þó ekki eftir félagsskap þá nótt.

 

Þá sagði hann við okkur: ‘Lokið dyrunum. Gætið þess að hvíla ykkur sjálfar en þetta mátti lesa í minningum Filizten.

 

Samkvæmt Filizten máttu engar konur sofa í rekkju soldánsins og fyrir vikið varð sú kona sem hann hafði haft samfarir við að fara í annað rúm í svefnherberginu þegar komið var að því að sofa.

 

Kvennabúrskonurnar lifðu í sannkölluðum vellystingum

Topkapi-höllin í borginni Konstantínópel var heimili soldána Ósmanaveldisins í hartnær 400 ár. Hjarta hallarinnar var kvennabúrið sem einungis soldáninn, fjölskylda hans og kvennabúrskonurnar höfðu aðgang að. Þar var að finna baðherbergi úr marmara, með krönum úr skíra gulli.

Móttökuhlið

Aðeins sendiherrar og gestir sem boðið hafði verið sérstaklega fengu að fara gegnum þetta hlið. Soldáninn reið í gegn en aðrir urðu að láta sér nægja að fara fótgangandi.

Vagnahlið

Fábrotið hlið lá inn í kvennabúrið en þegar inn var komið gáfu ríkulega skreyttir veggirnir til kynna að um hjarta hallarinnar væri að ræða. Þar sem kvennabúrskonurnar máttu aðeins fara um hliðið í vagni, kallaðist hliðið „vagnahliðið“.

 

Konunum fylgdu þeldökkir geldingar í hvert sinn sem þær yfirgáfu höllina. Læknar og kennarar höfðu leyfi til að fara um hliðið en þó einungis með leyfi móður soldánsins.

Varðmenn

Búðir þeldökku geldinganna voru í miðju kvennabúrinu. Þeir héldu vörð við alla innganga og fylgdu gestum út og inn. Varðmennirnir áttu rætur að rekja til Sómalíu og Eþíópíu og höfðu allir verið vanaðir sem börn.

Hýbýli soldánsmóðurinnar

Móðir soldánsins sem nefndist valide sultan, bjó við meiri munað en aðrar konur kvennabúrsins. Hún hafði til yfirráða eigin garð, borðstofu og stórt svefnherbergi. Soldáninn gisti í nærliggjandi salarkynnum.

Lystigarðar

Inni á milli fagurra hallarbygginganna var að finna lystigarða, gosbrunna og baðlaugar. Páfuglar röltu um og gasellur voru á beit til þess að soldáninn og kvennabúr hans hefðu sitthvað fallegt fyrir augunum.

 

Seldi rétt sinn að rúminu

Sagt er að sumir soldánar hafi stundað kynlíf með mörg hundruð konum og þess má geta að þegar soldáninn Murad 3. lést árið 1595 á hann að hafa skilið eftir sig ríflega eitt hundrað börn. Flestir soldánar héldu sig við afmarkaðan hóp hjákvenna sem skiptust á að gista hjá honum.

 

Í kvennabúrinu var haldin dagbók þar sem fram kom með hvaða konu soldáninn sængaði og hvenær það átti sér stað, þannig að henda mætti reiður á skilgetnum börnum og erfðaröðinni.

 

Hvað kvennabúrsdömurnar áhrærði snerist allt um að fá aðgang að innsta hring soldánsins og fá að ala honum börn en þannig var framtíð þeirra sjálfra, svo og barna þeirra, tryggð.

 

Öðru hverju seldu kvennabúrskonurnar sæti sitt í röðinni, sökum þess að þær t.d. skulduðu fé eða dreymdi um líf utan hallarinnar en slík ákvörðun var engan veginn hættulaus.

 

Hinn voldugi soldán Süleyman mikli lét taka eina af konum sínum af lífi árið 1562 fyrir þær sakir að hafa ekki sængað með honum og látið annarri konu eftir sæti sitt í röðinni.

 

Süleyman hinn mikli (1520-1566) var einn valdamesti soldánn Ósmanaveldisins. Hann átti að minnsta kosti 12 börn með kvennabúrskonum sínum.

Ayse prinsessa, dóttir hjákonu sem var hækkuð í tign og gerð að eiginkonu soldánsins Abdülhamid 2., minnist þess þó ekki að næturbröltið hafi verið neinn harmleikur:

 

„Í kringum háttatíma fór móðir mín inn til föður míns í náttfötunum og þau eyddu nóttinni saman. Pabbi snæddi ætíð kvöldverð með mömmu og varði nóttinni ætíð með henni.

 

Hinum konunum tók hann á móti á fyrirfram ákveðnum tíma“.

 

Konurnar sem áttu eftir að lenda í rúmi soldánsins nutu sérstakra forréttinda og gátu t.d. leyft sér að hafa sérherbergi og heilan herskara þjónustustúlkna.

 

Ef ástkonan fæddi soldáninum son, voru miklar líkur á að hún yrði gerð að eiginkonu.

 

Afbrýðisöm hjákona myrti

Kvennabúrinu var ætlað að tryggja að soldáninn eignaðist heilbrigða og greinda krúnuerfingja til þess að tryggja mætti stöðugleika ættarinnar.

 

Samkeppnin um hylli soldánsins var vægðarlaus og grimm og hjákonur urðu stöðugt að vera á varðbergi gagnvart hinum konunum sem soldáninn sængaði með.

 

Samkeppni þessi gat meira að segja orðið banvæn, líkt og þetta dæmi frá 17. öld sýnir:

 

Gülnush hafði löngum verið eftirlætishjákona soldánsins Mehmed 4. en þegar hin undurfagra ambátt Gülbeyaz hlaut inngöngu í kvennabúrið felldi soldáninn ástarhug til hennar.

 

Gülnush var harmi slegin yfir ást soldánsins á konunni: Hún elskaði soldáninn út af lífinu og varð heltekin af afbrýðisemi.

 

Þegar hún svo kom auga á keppinaut sinn sitjandi á kletti að horfa yfir Bospórus-sund, fékk hún skyndilega hugdettu: Hún stuggaði við Gülbeyaz sem hrapaði af klettinum og drukknaði.

 

Við þennan atburð má segja að Gülbeyaz hafi orðið hluti af skelfilegri tölfræði, því mjög margar kvennabúrskonur létu lífið með hörmulegum hætti á unga aldri.

 

Ráðabrugg og öfund voru daglegt brauð í kvennabúrinu og yfirgeldingurinn þurfti iðulega að handsama slóttugar kvennabúrskonur sem hann svo annað hvort kyrkti eða tróð ofan í poka sem hann reri með út á Bospórus-sund og henti þar í sjóinn.

 

„Soldáninn kærði sig ekki um leti og sá helst að við værum stöðugt starfandi“.

Filizten Kalfa, kvennabúrskona.

 

Hóps kvenna í kvennabúri Mehmeds 4. biðu skelfileg örlög:

 

Konurnar sáu sér leik á borði og stálu skartgripum úr vöggu einni sem þakin var gimsteinum. Konurnar reyndu að fela slóð sína með því að kveikja í vöggunni en eldurinn breiddist út og olli miklum skemmdum á Topkapi-höllinni.

 

Öskureiður soldáninn fyrirskipaði yfirgeldingnum að kyrkja konurnar sem áttu sök að stuldinum.

 

Kennslukonan Safiye Ünüvar varð á hinn bóginn ekki vitni að neinu saknæmu þegar hún dvaldi í höll soldánsins í upphafi 20. aldarinnar:

 

„Þó svo að eiginkonurnar fjórar hafi verið með hver sitt heimilishald, hittust þær reglulega til að spjalla, spila á spil eða bara til að verja tíma saman, líkt og systur gera.

 

Þegar ein eiginkonan hugðist heimsækja einhverja hinna sendi hún ætíð boðbera á undan sér og bað um leyfi“.

 

Mjög fáar ambáttir urðu æruverðugar eiginkonur.

Aðeins örfáar konur enduðu í rekkju höfðingjans

Mikilvægasta hlutverk kvennanna í kvennabúrinu var að fæða krúnuerfingja en þess ber að gæta að sumar konurnar komust aldrei í tæri við soldáninn.

 

Soldáninum voru gefnar ambáttir, auk þess sem sérlegir útsendarar hans keyptu þær á þrælamörkuðum.

 

Þegar ambáttirnar fyrst komu til hallarinnar hófu þær feril sinn sem þjónustustúlkur sem þjónuðu hinum kvennabúrskonunum. Aðeins þær sem þóttu sérlega fallegar og vel gefnar gátu klifið upp metorðastigann.

 

Ambáttirnar lærðu að skrifa, fara með ljóð og dansa. Nokkrar útvaldar fengu það hlutverk að baða soldáninn, klæða hann og þjóna honum til borðs.

 

Ef soldáninn hreifst af tiltekinni ambátt tók hann hana sem ástkonu. Slíkt var virðingartákn og hafði í för með sér forréttindi.

 

Gözde – fyrsta skrefið inn í kvennabúrið

KOSTIR: Einstaklega lánsöm ambátt gat orðið ástkona soldánsins (gözde). Hann jós hana gjöfum og hún fékk ambáttir til að þjóna sér.

 

GALLAR: Sú útvalda átti þó á hættu að lenda úti í kuldanum hvenær sem var eða þá að verða gift einhverjum utan kvennabúrsins.

 

Iqbal – eftirlæti soldánsins

KOSTIR: Þegar Gözde hækkaði í tign hlaut hún titilinn iqbal en það táknaði að hún var nú opinber ástkona soldánsins. Hún naut þá virðingar, fékk eigin íbúð, ambáttir og eigin hestvagn.

 

GALLAR: Eftirlætið átti á hættu að glata öllum forréttindunum ef áhugi soldánsins dvínaði eða hún gat ekki alið honum börn. Mörg eftirlætin voru gefin einhverjum af embættismönnum soldánsins.

 

Kadin – eiginkona soldánsins

KOSTIR: Kvennabúrskona sem ól soldáninum barn var hækkuð í tign og kallaðist kadin. Ef barnið reyndist vera drengur og þar með krúnuerfingi föður síns, varð móðirin valdamesta kona ríkisins og öðlaðist tignarheitið valide sultan sem táknaði soldánsmóður.

 

GALLAR: Með þessum forréttindum fylgdi reyndar stöðug hætta á að vera myrt af afbrýðisömum keppinautum. Ef barn kadin reyndist vera drengur sem átti eftir að erfa krúnuna, átti hann stöðugt á hættu að hinar kvennabúrskonurnar kæmu honum fyrir kattarnef ef þær óskuðu þess að þeirra eigin synir yrðu krúnuerfingjar.

 

Friður og spekt í höllinni

Þökk sé kvennabúrinu gat soldáninn lifað í friði og spekt í höll sinni.

 

Þar bjó hann einangraður frá umheiminum ásamt nánum ættingjum, hjákonum og hundruð ambátta sem allar sáu til þess að rekstri kvennabúrsins væri í engu ábótavant.

 

Hver og einn þekkti stöðu sína innan þessa stigskipta örsamfélags og mikil starfsemi átti sér þar stað allan liðlangan daginn, líkt og hjákonan Filizten ritaði í minningum sínum:

 

„Soldáninn kærði sig ekki um leti og vildi að við hefðum sífellt nóg fyrir stafni, auk þess að temja okkur eitthvað nýtt. Við lærðum að lesa og skrifa, auk þess sem margar konur tileinkuðu sér ný tungumál.

 

Flesta daga iðkuðum við tónlist og dans. Soldáninn var einkar mikið fyrir tónlist gefinn og áhugi hans smitaði nánast alla.

 

Hjákonurnar léku á píanó, fiðlu og flautu á meðan aðrar dönsuðu og sjálfur sat soldáninn iðulega við píanóið og samdi lítil tónverk“.

 

Í kvennabúrinu var að finna svefnsali, borðsali og ógrynni ganga sem tengdu saman vistarverurnar 400.

 

Auk þess sem börnum soldánsins var ætlað að læra á hljóðfæri krafðist soldáninn jafnframt aga af barnaskara sínum eða líkt og Ayse prinsessa sagði:

 

„Pabbi lagði áherslu á að við kynnum góða mannasiði og fyrirgaf ekki yfirsjónir okkar, auk þess sem hann leyfði ekki að tengslin milli hans og okkar barnanna yrðu of náin.

 

Ef hann varð vitni að mistökum okkar sagði hann ekkert við okkur sjálf, heldur lét hann mæður okkar vita.

 

Við máttum ekki tala hátt né heldur banda með höndunum og hann gætti þess ætíð að við sýndum stillingu og værum virðuleg“.

 

Prinsessan greindi frá því að allir í kvennabúrinu hefðu læðst á tánum þegar ættfaðirinn lagðist til hvílu. Tónlistin hljóðnaði og barnaraddirnar þögnuðu.

 

Ambáttir voru notaðar sem gjafir

Þökk sé fallegum siðum og menningarlegri framkomu voru kvennabúrskonurnar einkar eftirsóttar utan veggja hallarinnar.

 

Soldáninn færði sérvöldum þegnum sínum, t.d. embættismönnum og liðsforingjum, ár hvert nokkrar ambáttir að gjöf. Slíkar gjafir þóttu sérstaklega dýrmætar ef konan var enn hrein mey.

 

„Soldáninn gætti þess að gefa konuna verðugum eiginmanni.

 

Hún fékk að launum fé, allt eftir því hve lengi hún hafði verið í þjónustu soldánsins og hversu mikils hann mat hana“, sagði Ayse prinsessa.

 

Kennslukonan Safiye Ünüvar greindi jafnframt frá því að þjónustustúlkur soldánsins hafi beinlínis getað sótt um leyfi til að hljóta frelsi:

 

„Ef kvennabúrskona óskaði þess að flytja til borgarinnar og ganga þar í hjónaband skrifaði hún bréf til prinsins eða prinsessunnar sem hún þjónaði hjá en slíkt bréf kallaðist „brottfararbréf“.

 

Soldáninn hafnaði aldrei slíkum beiðnum heldur tók þeim ljúfmannlega og samþykkti þær allar.

 

Hann greiddi jafnvel fyrir uppihald stúlkunnar til að hún yrði eiginmanni sínum ekki fjárhagsleg byrði“.

 

Kösem_portrait_(cropped)

Ambátt drottnaði yfir Ósmönum í 20 ár

Á 17. öld ritaði sendiherra Feneyja svofellda lýsingu á einni af eiginkonum soldánsins Ahmed 1. sem bar nafnið Kösem:

 

„Hún er falleg og útsmogin. Einn helsti kostur hennar er að hún syngur undursamlega og fyrir bragðið elskar soldáninn hana ofurheitt. Hún er eftirlæti soldánsins og hann nýtur þess að hafa hana nærri sér öllum stundum“.

 

Kösem var dóttir grísks prests en hafði verið numin á brott á unga aldri. Árið 1604 endaði hún í Topkapi-höllinni. Þar varð hún fljótt ein af eftirlætisstúlkum soldánsins og fæddi honum níu börn, þar af fimm syni sem erft gátu krúnuna.

 

Þegar Ahmed 1. lést árið 1617 voru synir Kösem enn of ungir til að taka við völdum og fyrir vikið tók bróðir soldánsins við stjórnartaumunum.

 

Honum var hins vegar steypt af stóli í valdaráni og þá tók Kösem við völdum. Hún sat að völdum frá árinu 1623 til 1632 sem staðgengill elsta sonar síns. Þegar sonurinn varð lögráða ríkti hann svo í átta ár þar til hann lést af völdum skorpulifrar.

 

Yngsti sonur Kösem komst þá til valda en hann var hins vegar vanheill á geði svo móðirin þurfti að stjórna ríkinu í hans stað.

 

Þegar ungi maðurinn reyndi að ná af henni völdum eftir átta ár lét hún taka hann af lífi.

 

Nú var barnabarni Kösem, Mehmed 4., komið til valda og amman hélt áfram að drottna fyrir hans hönd.

 

Þegar þarna var komið sögu laut hún þó í lægra haldi í valdatafli hallarinnar en móðir Mehmeds lét kyrkja Kösem í eigin hári árið 1651.

 

Soldáninn virti fegurðardísirnar fyrir sér

Kvennabúrið var umkringt blómlegum görðum þar sem konurnar gátu rölt eftir litlum stígum sem leiddu þær niður að tilbúnum tjörnum með vatnaliljum og framandlegum fiskum.

 

Hér og þar leyndust litlar skuggsælar hallir þar sem unnt var að hvíla sig á heitum sumardögum, spjalla og dást að unaðsfögrum blómabeðunum.

 

Á þurrum og heitum sumardögum nutu baðlaugarnar umhverfis Topkapi-höllina mikilla vinsælda. Þær stærstu voru þaktar marmara og þar gátu stúlkurnar róið litlum árabátum.

 

Í tjörnunum skemmtu þær sér við að skvetta vatni hver yfir aðra en svartir geldingar fylgdust með hverju fótmáli þeirra og oft einnig soldáninn sem faldi sig á bak við gyllta rimlagrind og naut þess að virða fyrir sér nekt fegurðardísanna.

 

Kvennabúrskonurnar máttu ekki fara út fyrir hússins dyr eftir sólsetur og lífguðu þess vegna upp á kvöldin með ópíumtöflum.

 

Einn vinsælasti leikurinn gekk út á að kvennabúrsstúlka lét sig falla í vatnið og hinum var svo ætlað að meina henni að komast upp á bakkann aftur.

 

Þegar henni loks tókst að komast upp elti hún hinar og reyndi að ýta þeim út í vatnið.

 

Ibrahim sem varð soldán árið 1640, hafði orð á sér fyrir að vera mikið kvennagull og hann skemmti sér iðulega við að skipuleggja nýja leiki: Hann henti m.a. perlum og rúbínum í vatnið og hvatti svo kvennabúrsstúlkurnar til að kafa eftir þeim.

 

Gull og gersemar einkenndu kvennabúrið.

 

Allt var þakið gyllingu, frá lofthvelfingum yfir í vatnskrana og konurnar efst í metorðastiganum klæddust glæsilegum, litríkum kjólum úr silki, flaueli og brókaði sem gullþræðir voru ofnir í.

 

Soldáninn virti aldrei eftirlætiskonurnar sínar viðlits í sömu kjólunum tvisvar.

 

Meira að segja bækur kvennabúrsins voru bundnar inn í gyllt leður með innlögðum rúbínum.

 

Gullhringar með glitrandi demöntum prýddu fingur kvennanna og úlnliði þeirra en um hálsinn héngu aðrir dýrgripir.

 

Rússland aðstoðaði Búlgaríu við að losna undan ofríki Ósmanaveldisins eftir blóðuga bardaga árið 1878.

Fyrri heimsstyrjöld kostaði soldáninn krúnuna og gjörvallt ríkið

Gríðarstórt veldi Ósmananna skrapp saman þegar frá leið. Hvert landið á fætur öðru sleit sig laust og farið var að kalla ríki soldánsins „lasna manninn í Evrópu“. Þegar heimsstyrjöldin braust út var soldáninum steypt af stóli.

 

Frá því undir lok 17. aldar fór smám saman að halla undan fæti í Ósmanaveldinu og soldáninn missti stór landsvæði eftir ósigra á vígvellinum.

 

Við upphaf 19. aldar réði hann þó enn yfir öllum Balkanskaga, stórum hluta Norður-Afríku og Miðausturlanda.

 

Þetta stóð þó ekki yfir lengi. Grikkir, Serbar, Egyptar og aðrar þjóðir slitu sig lausar frá Ósmönum og heimsveldið stóð höllum fæti. Soldáninn missti vald sitt smám saman.

 

Undir lok 19. aldar lögðu Rússar undir sig svæði sem öldum saman höfðu heyrt undir Ósmanaveldið.

 

Soldáninn greip til þess örþrifaráðs að styðja Þýskaland og Austurríki-Ungverjaland í baráttunni við Rússa. Sú ákvörðun reyndist honum afdrifarík.

 

Ósmanar fóru afar illa út úr heimsstyrjöldinni. Þegar samið var um frið í Sèvres árið 1920 var Ósmanaveldinu skipt milli Stóra-Bretlands, Frakklands og Grikklands.

 

Niðurlægingin gerði það að verkum að Tyrkir steyptu honum af stóli og gerðu uppreisn gegn erlendu valdhöfunum. Niðurstaða bardaganna var nýtt, nútímalegt Tyrkland, án soldáns og kvennabúrs.

 

 

Öllu kvennabúrinu varpað á dyr

Máltíðirnar voru að sama skapi sannkallaður munaður, þar sem bornar voru fram allar mögulegar kræsingar, allt frá kavíar yfir í kaffi. Að máltíðinni lokinni lögðust eftirlæti soldánsins á mjúka púða á dívönum og reyktu vatnspípur.

 

Kvennabúrskonunum var meinað að dvelja utandyra eftir sólsetur og fyrir vikið skemmtu þær sér á kvöldin með því að taka inn ópíumpillur og segja hver annarri lygilegar sögur tímunum saman sem urðu til í ópíumvímunni.

 

Þrátt fyrir allar vellystingarnar vissu kvennabúrskonurnar mæta vel að þessu munaðarlífi gat lokið þá og þegar, því þegar soldáninn andaðist yrði gjörvallt kvennabúrið, að meðtöldum prinsum og prinsessum, neytt til að flytja frá höllinni.

 

Þær vissu að þá yrði þeim fylgt út úr höllinni, þær misstu öll völd og neyddust til að kveðja óhóflega lifnaðarhættina.

 

Þegar soldán lést urðu kvennabúrskonur að láta sér nægja hið fábrotna „tárahús“ sem var gömul soldánshöll en hún gekk jafnframt undir heitinu „höll þeirra óæskilegu“.

 

Þegar gamla kvennabúrinu hafði verið vísað á dyr byggði nýi soldáninn upp nýtt kvennabúr frá grunni, með liðsinni móður sinnar.

 

Fyrir framan hliðið að kvennabúrinu fóru að berast heilir farmar af nýjum ambáttum, tilbúnar fyrir úttekt gamla yfirgeldingsins sem hafði einstakt auga fyrir kvenlegri fegurð.

 

Lesið meira um daglegt líf í kvennabúri soldánsins 

Douglas Scott Brookes: The Concubine, the Princess, and the Teacher – Voices from the Ottoman Harem, University of Texas Press, 2008.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Stine Overbye

Getty Images, Shutterstock, © Peter Horree/Imageselect,© Pictures From History/Bridgeman Images,© The Stapleton Collection/Bridgeman Images, © Christie’s Images/Bridgeman Images, © Dea/D. De Gregorio/Getty Images,

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

NÝJASTA NÝTT

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Vinsælast

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

3

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

4

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

5

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

6

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

3

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

4

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Menning og saga

Leynirými í 4.400 ára gömlum egypskum pýramída

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Risaeðlubeinagrindin ,,Apex” seldist fyrir 44,6 milljónir dollara eða sem svarar 6,2 milljörðum króna.

Náttúran

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is