Fimm örsmáir kjarnakljúfar eiga að gera drauminn um búsetu á Mars að raunveruleika.
Hver um sig á að framleiða á bilinu 1-10 kílóvött í áratug eða lengur. Það dugar til að framleiða ljós og hita og knýja tæki í nýlendunni.
Frumgerð kjarnakljúfsins „Kilopower“ er nú fullsmíðuð og verður keyrð í tilraunaskyni í Nevadaeyðimörkinni.
Grunntæknin er sú sama og í hefðbundnum kjarnorkuverum. Hitaorkunni frá klofnun frumeinda er breytt í raforku.
Hefðbundin kjarnorkuver eru stór og flókin að allri gerð. Í Glenn-rannsóknamiðstöðinni hefur verkfræðingum NASA hins vegar tekist að þróa eins konar örútgáfu, mjög einfaldaða gerð kjarnakljúfs, þar sem sem klofnunin er þó fyllilega jöfn og stöðug.
Rafallinn er á stærð við venjulega öskutunnu og kljúfurinn sjálfur á stærð við eldhúsrúllu. Tæknibúnaður hefur verið reyndur sérstaklega fyrir hvern einstakan hluta kljúfsins og þróun þessa litla orkuvers því vel á veg komin.
Úraníumkjarni er hjarta kjarnakljúfanna sem munu sjá fyrir nýlendu Marsbúa orku.
Kjarnakljúfur hefur t.d. þann kost í samanburði við sólþiljur að vera sterkbyggðari og alveg óháður um hverfisþáttum.
Þetta skiptir miklu máli á Mars, þar sem myrkur ríkir á stórum svæðum og rykský geta skyggt á sólina langtímum saman.
Sé orkan fengin úr kjarnakljúfum má velja Marsnýlendu stað hvar sem er, jafnvel á myrkari, norðlægum svæðum, þar sem mögulega gæti verið að finna ís.
Þessi svæði eru mjög áhugaverð, þar eð úr ísnum má fá vatn fyrir íbúana og í honum gætu líka leynst ummerki lífs.
Geislavirk efni losa hita í kjarnakljúfi
Geislavirkur kjarni gefur frá sér hita í kjarnakljúfi, þar sem honum er umbreytt í rafmagn. Þessi litlu orkuver eiga að sjá bækistöð á Mars fyrir orku.