Kvöld eitt situr Coretta King heima hjá sér í Montgomery í Alabama ásamt vinkonu sinni. Að venju er eiginmaður hennar, presturinn Martin Luther King, að heiman, í miðju kafi að flytja ræðu um réttindabaráttu blökkumanna í einni af babtistakirkjunum í borginni.
Þetta er 30. janúar 1956. Í tvo mánuði hefur hinn 27 ára gamli King staðið fyrir hundsun strætisvagna í borginni en þar eiga hvítir forgangsrétt á sætum. Barátta Kings hefur áunnið honum djúpstætt hatur margra hvítra og þess vegna verður Coretta vör um sig þegar hún heyrir bíl nema staðar fyrir framan húsið.
Örskömmu síðar fellur eitthvað þungt niður á veröndina. Hún lítur óttaslegin á vinkonu sína og þær stökkva báðar á fætur og taka til fótanna. Þær ná þó ekki lengra en út úr stofunni áður en húsið leikur á reiðiskjálfi af völdum háværrar sprengingar. Stofan fyllist af reyk og glerbrotum.
Skelfingu lostnar hlaupa vinkonurnar inn í barnaherbergið þar sem nýfædd dóttir hjónanna, Yoki, liggur til allrar hamingju ósködduð í vöggunni.
„Hér er allt í lagi. Það er best að þið farið heim. Við svörum þessu ekki með ofbeldi. Við elskum óvini okkar“.
Martin Luther King eftir að sprengja sprakk fyrir framan heimili hans árið 1956.
Þegar Martin Luther King hraðar sér heim skömmu síðar, eftir að hafa fengið fréttir af tilræðinu, verður varla þverfótað fyrir lögreglumönnum og reiðu blökkufólki fyrir utan húsið. Þegar hann hefur fullvissað sig um að Coretta og vinkona hennar séu ómeiddar, tekur hann sér stöðu fyrir framan húsið til að róa mannfjöldann – þótt fjölskylda hans hafi orðið fyrir hættulegri árás.
„Hér er allt í lagi. Það er best að þið farið heim. Við svörum þessu ekki með ofbeldi. Við elskum óvini okkar,“ segir hann.
Presturinn ungi er þekktur fyrir friðsamlega afstöðu í baráttunni. Hann berst fyrir réttindum svartra með friðsamlegum aðferðum. Fjölmargir andstæðingar hans hafa á hinn bóginn engin áform um friðsamleg svör. Þeir sjá King sem ógn við ríkjandi þjóðfélagsskipan og allt frá æðstu yfirmönnum FBI til æstra kynþáttahatara í Ku Klux Klan má segja að menn standi í biðröð til að ryðja honum úr vegi.
Á 6. áratugnum voru Suðurríkin gegnsýrð af kynþáttaaðskilnaði, allt frá skólum til strætisvagna.
Undrabarnið sem varð prestur
Strax í bernsku komst Martin Luther King í kynni við kynþáttavandamálið í BNA. „Mike litli“ eins og foreldrarnir kölluðu hann, lék sér oft við hvítan dreng í nágrenninu en vináttan trosnaði þegar þeir voru sex ára og fóru hvor í sinn skólann. Dag einn færði hvíti drengurinn honum slæma frétt.
„Hann sagði mér að faðir sinn hefði bannað sér að leika við mig framar. Þetta varð mér mikið áfall,“ rifjaði Martin Luther King upp mörgum árum seinna.
Og 14 ára að aldri þurfti King að sætta sig við að gefa hvítum eftir sæti sitt í langferðabíl.
Hann þurfti að standa þá 144 km sem eftir voru og hafði að eigin sögn „aldrei verið svo reiður“ á ævinni. En faðir hans sem var prestur, hélt því staðfastlega að honum að hann mætti ekki leggja hatur á hvíta manninn, heldur ætti hann – sem kristinn – að elska hann.
King var langt frá því að vera fyrsti baptistapresturinn til að berjast fyrir réttindum þeldökkra. Faðir King og kennari hans, Benjamin Mays, voru prestar og miklir báráttumenn fyrir borgaralegum réttindum.
Martin Luther King fetaði í fótspor föður síns
Martin Luther King jr. fæddist árið 1929 í Atlanta, Georgíu. Faðir hans var baptistaprestur og eftir ferð til Þýskalands árið 1934 varð hann svo heillaður af stofnanda mótmælendatrúarinnar, Martin Luther, að hann tók sér nafnið Martin Luther King og breytti nafni sonar síns í Martin Luther King jr.
Faðirinn tók mikinn þátt í uppeldi sonarins og sagði honum bæði frá trúmálum og mikilvægi þess að vera virkur í söfnuðinum.
Sem unglingur var hinn ungi King upptekinn af réttindum svartra og þegar hann skráði sig í baptistakirkju 18 ára gamall tók presturinn Benjamin Mays, einn upphafsmanna borgararéttindahreyfingarinnar, hann undir sinn verndarvæng.
Sterkt samband við Mays festi í sessi feril King sem prests líkt og hjá föður hans, og árið 1955 hlaut hann doktorspróf í guðfræði. Nokkrum árum og mörgum kærustum seinna giftist hann Corettu Scott árið 1953. Saman eignuðust þau fjögur börn sem öll tóku þátt í réttindabaráttunni.
Þessi afstaða festi rætur í hugarheimi Martins Luther King sem bæði reyndist vel greindur námsmaður og flugmælskur og spjaraði sig því afar vel upp í gegnum skólakerfið.
Hann fylgdi í fótspor föður síns og tók á endanum doktorspróf í guðfræði við Bostonháskóla áður en hann fluttist til Montgomery í Alabama þar sem hann fékk starf sem prestur í babtistakirkjunni.
King var snemma ákveðinn í að helga líf sitt baráttunni fyrir bættum aðstæðum svartra og í Montgomery var af nógu að taka. Þarna í Suðurríkjunum var nánast öllu skipt eftir kynþáttum – í veitingahúsum, kaffistofum, börum, skólum og jafnvel drykkjarvatnsaðstöðu.
En það var í strætisvögnunum sem baráttan hófst í desember 1955 þegar blökkukonan Rosa Parks neitaði að standa upp fyrir hvítum manni. Hún var handtekin og fyrir King var þetta dropinn sem fyllti mælinn.
„Við erum þreytt á aðskilnaðinum og auðmýkingunni, þreytt á því að vera sparkað til með fótum kúgaranna,“ þrumaði hann í kirkjunni.
„Heyrðu negri. Við erum búnir að fá nóg af þér og öllum óhroðanum. Ef þú verður ekki farinn úr borginni eftir þrjá daga skjótum við úr þér heilann og sprengjum húsið þitt í loft upp,“
sagði hás rödd með suðurríkjahreim í símtali við Martin Luther King.
Ásamt fleirum stóð hann fyrir því að svartir hættu að nota strætisvagna í Montgomery og draga þannig úr tekjum strætófyrirtækisins.
Hvítir menn í borgarstjórn urðu æfir og reyndu að stöðva aðgerðirnar með því að handtaka þá svörtu bílstjóra sem óku svörtum í og úr vinnu til að fólk þyrfti ekki að nota strætisvagnana.
Reiði hinna hvítu beindist fljótt að prestunum og þá einkum forystumanninum Martin Luther King sem var áreittur og fékk líflátshótanir.
Eftir nærri tveggja mánaða árásir og opinberar ásakanir var King farinn að óttast að hann gæti ekki haldið þetta út öllu lengur – ekki síst þegar síminn hringdi um miðnætti síðla í janúar.
„Heyrðu negri. Við erum búnir að fá nóg af þér og öllum óhroðanum. Ef þú verður ekki farinn úr borginni eftir þrjá daga skjótum við úr þér heilann og sprengjum húsið þitt í loft upp,“ sagði hás rödd með suðurríkjahreim.
Þremur dögum síðar sprakk sprengjan á veröndinni við hús Kings. Atlagan var svo alvarleg að viðbrögð hans verða að teljast ótrúlega lágstemmd. Hann skýrði rósemd sína með því að hann hefði fengið opinberun nokkrum dögum fyrr. Hann heyrði rödd sem talaði til hans:
„Ég verð með þér allt til enda veraldar.“
King áleit að þetta hlyti að vera rödd Guðs og atvikið olli því að honum hvarf allur ótti.
Aðstæður í fátækrahverfum svartra í stórborgum voru afar erfiðar. Þessi mynd er frá Chicago 1954.
Efnahagsójöfnuður þrengdi að svörtum
Þótt Martin Luther King beindi kröftum sínum einkum að því að afnema hin rasísku Jim Crow-lög sem viðhéldu aðskilnaði kynþátta, taldi hann efnahagsójöfnuðinn í Bandaríkjum ekkert síður halda blökkumönnum niðri.
„Ég held að þú vitir nú þegar að ég er fremur sósíalisti en kapítalisti í sýn minni á efnahagsmál,“ skrifaði King í bréfi til Corettu Scott, síðar eiginkonu sinnar 1952.
Kenning hans var sú að meðan svartir – og reyndar allir aðrir fátæklingar – hefðu aðeins aðgang að slæmri og illa launaðri vinnu, væru frelsismöguleikar þeirra takmarkaðir. Slík hugsun þótti svo sósíalísk að mannréttindafrömuðurinn eignaðist marga óvini í þessu kapítalíska landi.
Sjónarmið Kings leiddu líka til þess að andstæðingar hans reyndu iðulega að tengja mannréttindahreyfinguna við kommúnisma sem var mjög hataður á kaldastríðstímanum.
Lifði af hnífstungu
Mannréttindafrömuðurinn þurfti fljótlega á öllum sínum nýfengna kjarki að halda.
Strætósniðgangan dróst á langinn og í mars 1956 voru Martin Luther King og fleiri svartir prestar dæmdir fyrir ríkisdómstóli Alabama fyrir að hafa skipulagt ólöglega sniðgöngu.
King átti að borga 500 dollara sekt auk málskostnaðar og til viðbótar var hann dæmdur til samfélagsþjónustu í 386 daga.
En hafi yfirvöldin ímyndað sér að dómurinn myndi brjóta Martin Luther King á bak aftur, þá rættist sú von ekki. Montgomery-sniðgangan hafði vakið þjóðarathygli og í Norðurríkjunum hylltu hann nú margir sem nýjan Móses.
Enn stærri sigur vannst þó þegar hæstiréttur Bandaríkjanna kollvarpaði dómnum og sló því föstu að „kynþáttaaðskilnaðarlög Alabamaríkis og tilskipanir um fyrirkomulag í strætisvögnum eru í andstöðu við stjórnarskrána.“
Hin friðsamlega mótmælahreyfing hafði sigrað og King varð nú enn meira en fyrr áberandi rödd vonar meðal svartra og frjálslyndra hvítra. Mannréttindahreyfingin hafði fengið vind í seglin.
Sniðgangan breiddist út til fleiri borga í Suðurríkjunum og baráttumaðurinn King fór víða í ræðustól og talaði af eldmóði. Á skömmum tíma varð hann að þjóðþekktum forystumanni.
Frægðin gerði hann jafnframt að upplögðu skotmarki allra sem voru ósammála honum. Hann fékk allt að 40 símtöl á dag þar sem honum og fjölskyldunni var hótað.
Ku Klux Klan reyndi m.a. að hræða King með því að setja brennandi krossa í garð hans á kvöldin.
Af þessum sífelldu hótunum leiddi að Martin Luther King var undantekningarlítið umkringdur mönnum úr söfnuðinum – eins konar sjálfskipuðum lífvörðum. Einkum fylgdust þeir vel með hvítum rasistum. Engum datt í hug að gruna 42 ára svarta konu, Izolu Ware Curry, þegar hún birtist í stórmarkaði í New York árið 1958 þar sem Martin Luther King var að árita nýja bók sína, „Skref í átt til frelsis“.
En þegar röðin kom að þessari geðtrufluðu konu dró hún upp 18 sentimetra japanskan bréfahníf og stakk honum beint í bringu Kings. Óttaslegnir áhorfendur að atvikinu yfirbuguðu Curry en King var í skyndi fluttur á sjúkrahús með hnífinn í bringunni.
Það þurfti mikla skurðaðgerð til að ná hnífnum út og eftir á skýrði skurðlæknirinn svo frá að hnífsblaðið hefði farið svo nærri aðalslagæðinni að ef presturinn hefði svo mikið sem hnerrað fyrir aðgerðina, hefði eggin skorist í æðina og hann látið lífið.
Curry útskýrði að hún hefði viljað drepa þennan prest vegna þess að hann hefði grafið undan kaþólskri trú hennar. Geðlæknar greindu hana með ofsóknargeðklofa og hún var vistuð á geðsjúkrahúsi. En þessi árás sýndi að Martin Luther King var hvergi öruggur.
Þeldökkir forystumenn höfðu mismunandi sýn á baráttuna
Martin Luther mætti einni andstöðu meðal blökkumanna. Þótt margir styddu friðsamlega framgöngu prestsins, voru aðrir þeirrar skoðunar að ofbeldið yrði aðeins sigrað með valdi og studdu þess vegna Malcolm X.
Með friðsamlegri baráttuaðferð sinni varð Martin Luther King stærsta nafn borgararéttindahreyfingarinnar, en aðrir blökkumenn töldu barnalegt að reyna að berjast gegn kúgun án ofbeldis.
Hinn þeldökki múslimi Malcolm X skapaði sér nafn sem talsmaður þess að láta hart mæta hörðu og gagnrýndi hann hina varkáru nálgun King.
Innanbúðardeilur í hreyfingu Malcolm X kostaði hann lífið árið 1965, en eftir morðið spratt upp ný hreyfing með slagorðinu „Black Power“. Líkt og Malcolm X, fannst meðlimum að þróunin væri of hæg fyrir friðsamlega baráttu Kings.
Martin Luther King (1929-1968)
Trú: Martin Luther King var kominn af röð presta í babtistakirkjunni. Sem kristinn maður lagði hann áherslu á að elska óvini sína og fyrirgefa þeim. Auk kristninnar sótti hann innblástur í indverska mannréttindaleiðtogann Mahatma Gandhi.
Hugmyndafræði: King talaði fyrir því að hvítir og svartir lifðu í sama samfélagi og að allir hefðu sömu réttindi. Hvorki samfélagið né lögin máttu mismuna eftir kynþætti – aðeins þannig væri unnt að skapa Afró-ameríkönum sanngjarnan sess í bandarísku þjóðfélagi.
Aðferð: Mannréttindabaráttan skyldi háð án valdbeitingar. Mannréttindum skyldi náð með þrásetum og sniðgöngu auk mótmæla. Harkaleg viðbrögð yfirvalda leiddu að hans mati óréttlætið fram í dagsbirtuna.
Malcolm X (1925-1965)
Trú: Malcolm Little gerðist múslími meðan hann sat af sér fangelsisdóm og tók upp nafnið Malcolm X. Síðar varð hann meðlimur „Þjóðar Íslams“ sem talaði fyrir aðskilnaðarstefnu svartra og varð stefna hans í mannréttindabaráttunni.
Hugmyndafræði: Malcolm X vildi að Afró-ameríkanar fengju pólitískt vald og sjálfstæði, aðskildir frá hvítum. Hann skipulagði skóla fyrir svarta og fyrirtæki til að styrkja samfélag svartra.
Aðferð: Blökkumenn áttu að berjast gegn kúguninni í Bandaríkjunum með „öllum nauðsynlegum aðferðum“, þar á meðal valdbeitingu. Þegar hvítir beittu valdi gátu blökkumenn ekki bara snúið að þeim hinum vanganum. Síðustu árin dró Malcolm X þó úr hvatningum sínum til valdbeitingar.
Daglegar handtökur
Árið 1960 gaf King preststarfið upp á bátinn og flutti til Atlanta í Georgíu til að helga sig mannréttindabaráttunni sem nú hafði nánast fengið yfirbragð byltingar.
Undir áhrifum af eldmóði hans höfðu þeldökkir stúdentar skipulagt mótmælasetur, þar sem þeir fóru og settust við borð á veitinga- og kaffihúsum sem aðeins voru ætluð hvítum og neituðu að fara fyrr en þeir hefðu verið afgreiddir á sama hátt og hvítir.
Friðsamlegar kröfugöngur urðu líka eitt helsta baráttutæki Martins Luther King.
Oft enduðu göngurnar þó alls ekki friðsamlega, þegar lögreglan réðist til atlögu undir þeim formerkjum að mótmælin væru ólögleg. Við handtökur var algengt að lögreglumenn réðust á blökkumennina af mikilli grimmd, oft studdir af hvítum rasistum.
Mótmælagöngur, t.d. gegn Jim Crow-lögunum enduðu oftast með því að mörg hundruð svartir voru handteknir.
Martin Luther King var sjálfur handtekinn hvað eftir annað. Iðulega sektuðu lögreglumenn hann fyrir uppskálduð umferðarlagabrot. Árið 1960 fékk hann t.d. sekt fyrir að aka bíl án gilds ökuskírteinis þótt ökuskírteini hans rynni ekki út fyrr en eftir tvö ár.
Versta lífsreynsla hans í þessu tilliti var þegar honum var fleygt inn í einangrunarklefa í fangelsi í Alabama.
„Maður þekkir ekki fullkomið myrkur fyrr en eftir að hafa legið í slíkri dýflissu,“ sagði hann síðar.
Margir Bandaríkjamenn – líka hvítir – studdu baráttu Kings í æ ríkara mæli og hvorki hann né baráttan höfðu áður risið hærra en með „göngunni til Washington“ í ágúst 1963. Þá hlustuðu 250 þúsund manns á hann þar sem hann stóð við Lincoln-minnismerkið og flutti hina frægu ræðu sína „Ég á mér draum.“
„Ég á mér þann draum að litlu börnin mín fjögur muni dag einn lifa í samfélagi þar sem þau verða ekki dæmd af húðlit sínum heldur einungis sem manneskjur,“ sagði hann m.a. í ræðunni.
Orð hans festu rætur í hugum tilheyrendanna en vaxandi árangur Kings aflaði honum jafnframt óvina meðal valdamestu manna.
Í göngunni miklu „March on Washington for Jobs and Freedom“ 1963 voru 250.000 manns. Svo mikill fjöldi hafði þá aldrei fyrr tekið þátt í mótmælum.
Mótmælagangan mætti andstöðu alls staðar frá
Engin aðgerð mannréttindahreyfingarinnar varð jafn þekkt og gangan til Washington sem endaði á hinni frægu ræðu Martins Luthers King „Ég á mér draum“. En litlu munaði að andstæðingum Kings tækist að eyðileggja þennan viðburð.
Tveir forystumenn mannréttindahreyfinga blökkumanna, Bayard Rustin og A. Philip Randolph, höfðu strax 1961 fengið þá hugmynd að skipuleggja ofurfjölmenna mótmælagöngu til Washington D.C.
Martin Luther King hreifst af hugmyndinni og varð varaformaður framkvæmdastjórnarinnar sem ætlað var að ná saman mismunandi mannréttindahreyfingum, verkalýðssamtökum og trúarhreyfingum til sameiginlegra mótmæla.
Skipulagsvinnan hafði staðið yfir í ár þegar gangan var farin í ágúst 1963. En fjölmargir baráttumenn neituðu að styðja hana. Malcolm X hæddist t.d. að framtakinu sem hann kallaði m.a. sirkus. Hann reiddist því mjög að hvítum skyldi leyfast að taka þátt.
Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika varð gangan sannkölluð sigurför með 250.000 þátttakendum, þar af voru hvítir um fimmtungur – þrátt fyrir að fjölmiðlar, FBI og rasistar hefðu reynt að gera framtakið að engu.
Blöðin drógu upp hryllingsmyndir
Margir fjölmiðlar vöruðu við því að yrði gangan farin gæti það endað skelfilega. „Margir telja ógerlegt að skipuleggja för meira en 100.000 negra til Washington án þess að hervirki og óeirðir brjótist út,“ var sagt í þættinum „Meet the Press“ en í Los Angeles Echo sagði að „afturgöngur óeirða fylgja göngunni“.
FBI kallaði gönguna kommúnistaaðgerð
FBI vildi koma í veg fyrir gönguna og reyndi að þvinga fjölmargt þekkt fólk til að draga stuðningsyfirlýsingar sínar til baka. Alríkislögreglan hélt því fram að skipuleggjendurnir stæðu í nánum tengslum við kommúnista. Eftir símtal við FBI lýsti Strom Turmond, öldungadeildarþingmaður frá Suðurríkjunum því yfir að Bayard Rustin væri kommúnisti og samkynhneigður.
Hátalarakerfið var skemmt daginn áður
Skipuleggjendur göngunnar höfðu leigt besta fáanlega hátalarakerfi þannig að ræður áttu að heyrast á heillar „fermílu svæði“. En aðfaranótt 28. ágúst unnu óþekktir menn mikil skemmdarverk á kerfinu. Bandarísk stjórnvöld kostuðu þó viðgerðir, þar eð þau áttu annars á hættu 200.000 óánægða blökkumenn í Washington.
FBI vildi King feigan
Það voru ekki einungis fylkisstjórnir og lögreglumenn í Suðurríkjunum sem hundeltu Martin Luther King. Sjálfur J. Edgar Hoover, þá yfirmaður FBI, skipulagði ofsóknir á hendur honum frá höfuðstöðvum sínum í Washington.
Yfirmaður alríkislögreglunnar leit sem sé á Martin Luther King sem persónulegan óvin eftir að hann hafði kvartað undan því í tengslum við mótmæli og handtökur í Suðurríkjunum að FBI væri „algerlega máttlaus við að vernda þeldökka gegn grimmdinni í suðrinu“.
Þessi orð litu Hoover og hans menn á sem persónulega móðgun og til viðbótar var Hoover sannfærður um að King og mannréttindahreyfingin væru drifin áfram af kommúnískum öflum og þar með ógn við „öryggi þjóðarinnar“.
Hér má sjá hina frægu ræðu Martins Luther King ,,I Have a Dream” endurgerða í litum og háskerpu með hjálp háþróaðra tölvuforrita.
Strax árið 1962 hóf FBI að hlera síma hjá forystumönnum í hreyfingunni en lögreglumennirnir höfðu þó ekki fengið svo mikið sem vott af vísbendingum um kommúnistatengsl.
Þegar fólk dreif að Martin Luther King af meiri ákafa en nokkru sinni fyrr í kjölfar göngunnar til Washington í ágúst 1963, hitnaði J. Edgar Hoover í hamsi.
„Við þurfum að stimpla hann sem hættulegasta negrann með tilliti til framtíðar þessa lands,“ skrifaði hægri hönd Hoovers, William Sullivan, í minnisblaði 30. ágúst 1963.
Strax þá fór FBI að koma fyrir hljóðnemum í hótelherbergjum Kings í leit að óhreinindum. Og þau fundust – en ekki í formi neinna grunsamlegra pólitískra tengsla, heldur komst FBI á snoðir um framhjáhald mannréttindaleiðtogans.
Hlerun hótelherbergja afhjúpaði drykkjusamkvæmi og kynlíf Kings og vina hans. „Ég ríð fyrir Guð,“ á presturinn að hafa sagt hvað eftir annað, samkvæmt frásögn FBI-fulltrúa.
Hoover lét menn sína tafarlaust leka sögum af kynsvalli prestsins til blaðamanna en þeir neituðu að bíta á agnið.
FBI neitaði að láta upptökur af hendi og án sannana vildu blaðamenn ekki snerta málið, ekki síst vegna gríðarlegra vinsælda prestsins meðal svartra og frjálslynds ungs fólks.
„Við þurfum að stimpla hann sem hættulegasta negrann með tilliti til framtíðar þessa lands.“
FBI-minnisblað um Martin Luther King 1963.
Kennedy forseti varð fyrir áhrifum af stemningunni í samfélaginu og gerðist náinn bandamaður Kings, þegar hann hóf að vinna að nýrri mannréttindalöggjöf árið 1963.
Lögin áttu að banna kynþáttaaðskilnað en í nóvember var forsetinn skotinn til bana í Dallas. Þegar Martin og Coretta fréttu að hann hefði verið úrskurðaður látinn, hrópaði King:
„Þannig fer ég líka. Þetta er helsjúkt samfélag.“
Nýi forsetinn, Lyndon B. Johnson, hélt áfram samvinnunni við Martin Luther King og nýja mannréttindalöggjöfin var samþykkt í júlí 1964. Óþrjótandi baráttuþrek prestsins hafði loks borið ávöxt á landsvísu.
Hoover átti erfitt með að sætta sig við vaxandi árangur Kings. Í nóvember 1964 – skömmu áður en King fór til Noregs til að taka við friðarverðlaunum Nóbels – lýsti Hoover honum á fundi með kvenblaðamönnum sem „alkunnum lygara“ og „einum af verstu mönnum í landinu“.
Opinberlega brást Martin Luther King við þessu með því að segja: „Mr. Hoover hlýtur að vera undir gríðarlegum þrýstingi fyrst hann talar svona.“
Á skrifstofu sinni sem FBI hleraði án vitundar Kings, sagði hann við ritara sinn að Hoover væri „gamall og að verða elliær“ og ætti að hætta.
Edgar Hoover var yfirmaður FBI frá stofnun þess árið 1935 og þar til hann lést árið 1972. Hann var þekktur sem mikill talsmaður hefðbundinna, íhaldssamra gilda í samfélaginu.
Þessi ummæli drógu síður en svo úr fjandskap Hoovers.
Skömmu síðar barst bréf inn um bréfalúguna hjá Martin Luther King. Bréfið virtist skrifað af nafnlausum bandarískum blökkumanni en í rauninni stóðu háttsettir FBI menn að bréfinu.
„Líttu inn í hjarta þitt, King. Þú veist sjálfur að þú ert svikari og þung byrði á okkur öllum, blökkumönnunum. Það er greinilegt að þú hefur enga siðferðiskennd. King, það er aðeins eitt að gera. Þú veist vel hvað það er. Fyrir þig er bara ein leið og þú ættir að velja hana áður en hin svínslega sjálfselska þín verður allri þjóðinni augljós,“ stóð í bréfinu sem síðar varð þekkt sem „FBI-King-sjálfsmorðsbréfið“.
Ítrekaðar tilraunir Hoovers til að negla King fyrir afbrot lánuðust aldrei.
FBI náði einungis að safna slúðursögum en engu pólitísku sprengiefni. Opinber ímynd Kings beið aldrei neinn skaða en hins vegar tók þunglyndi að ásækja hann vegna þess hversu margir vildu honum augljóslega illt.
„Þeir ætla sér að brjóta mig niður,“ sagði King við vin sinn árið 1964.
King nýtti sér iðulega handtökurnar til að sýna opinberlega óréttlæti bandaríska réttarkerfisins.
Friðsamur prestur var handtekinn 29 sinnum.
Rasísk stjórnvöld og lögreglumenn í Suðurríkjunum reyndu stöðugt að gera Martin Luther King lífið sem erfiðast. Hann var handtekinn 29 sinnum – oftast fyrir litlar eða beinlínis upplognar sakir.
1956: 26. janúar
Tveir vélhjólalögreglumenn stöðva King í bíl sínum í Montgomery og handtaka hann fyrir að aka á 50 mílna hraða, þar sem hámarkshraði var 40 mílur. Hann var settur í óþrifalegan klefa með harðsvíruðum glæpamönnum.
1956: 22. mars
Ásamt Rosu Parks og meira en 100 öðrum er King handtekinn fyrir að skipuleggja sniðgöngu strætisvagna í Montgomery í Alabama. Hópurinn mótmælir með því að hlæja hástöfum og syngja í fangelsinu.
1958: 3. september
King kemur að dómhúsi í Montgomery til að fylgjast með réttarhöldum yfir manni sem hafði ráðist á nánan vin hans. Framan við dómhúsið stöðva hann tveir hvítir lögreglumenn og handtaka fyrir að halda sig á „óleyfilegum stað“.
1960: 19. október
Í setumótmælum í Atlanta í Georgíu er King handtekinn þar sem hann bíður eftir afgreiðslu á veitingahúsi fyrir hvíta. Hann er dæmdur í 4 mánaða fangelsi en forsetaframbjóðandinn John F. Kennedy skerst í leikinn og King er látinn laus.
1961: 16. desember
Ásamt 700 öðrum tekur King þátt í mótmælum í Albany í Georgíu. Hann er handtekinn fyrir að stöðva umferð á gangstétt og mótmæla án tilskilins leyfis.
1963: 12. apríl
Lögreglan í Birmingham telur King mótmæla án leyfis. Hann er handtekinn og settur í einangrunarklefa. Þar skrifar hann „Bréfið frá Birmingham“ þar sem hann færir rök fyrir siðferðilegum rétti til að mótmæla óréttlátum lögum.
1964: 11. júní
King settur í fangaklefa yfir nótt fyrir að krefjast afgreiðslu í sal hvítra á veitingahúsi í St. Augustine – mánuði áður en nýja mannréttindalöggjöfin er samþykkt.
1965: 2. febrúar
Í mótmælunum miklu í Selma í Alabama er King handtekinn. Hin fjölmennu mótmæli halda þó áfram meðan hann situr í fangaklefanum.
1967: 30. október
Síðasta handtakan er í Birmingham í Alabama en þá er mannréttindafrömuðurinn handtekinn um leið og hann stígur út úr flugvélinni. Samkvæmt gömlum dómi var nefnilega heimilt að handtaka hann ef hann sneri aftur. Hann situr í fangelsi í þrjá daga.
Stöðugar árásir rasista
Meðan yfirvöld gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að brjóta Martin Luther King niður, biðu rasistar líka færis. Framan af höfðu þeir að mestu látið sitja við hótanir í orðum en nú voru líkamlegar árásir orðnar hluti af daglegu lífi Kings. Hann lagði þó alltaf áherslu á að bregðast við án valdbeitingar.
„Þetta er sárt en ég er óskaddaður,“ sagði þessi mannréttindafrömuður 1966 eftir að hafa fengið stein á stærð við hafnabolta í höfuðið í Chicago.
Í heimsókn í Birmingham barði meðlimur í bandaríska nasistaflokknum hann hvað eftir annað með krepptum hnefa í andlitið. King lét hendurnar falla niður með síðum og sagði „látið hann vera“ við stuðningsmenn sína þegar þeir gripu manninn.
Snemma árs 1965 fór King til Selma í Alabama til að skipuleggja stóra mótmælagöngu. Á hótelinu sló fasisti hann í gólfið og sparkaði síðan í magann á honum. King aðhafðist ekki en bróðir hans dró árásarmanninn frá.
Í Chicago fékk King stóran stein í höfuðið og vankaðist mikið við höggið.
Þótt mannréttindalöggjöfin væri komin til framkvæmda og aðskilnaður kynþátta bannaður, upplifðu margir blökkumenn í Suðurríkjunum sig engu að síður undirokaða.
Í Selma vildi Martin Luther King vekja athygli á margvíslegum lögum sem sviptu þeldökkt fólk atkvæðisrétti. Þar á meðal var svokallað afaákvæði sem kvað á um að fólk hefði því aðeins atkvæðisrétt að afi þess hefði haft atkvæðisrétt.
Mótmælagöngurnar leystust iðulega upp í barsmíðum þar sem bæði lögregla og hvítir rasistar misþyrmdu svörtum körlum, konum og börnum.
Óhugnaðurinn náði hámarki þegar hvítur prestur, James Reeb sem var fylgjandi mannréttindum, villtist inn í skakka götu ásamt tveimur öðrum hvítum prestum. Þar lá leið þessara þriggja friðsömu manna fram hjá vertshúsinu Silver Moon sem var mikið sótt af meðlimum Ku Klux Klan.
„Þið þarna, negrar!“ kölluðu fjórir illvirkjar til prestanna. Tveir þeirra náðu að bjarga sér á flótta en ófriðarseggirnir ráku járnstöng í gegnum James Reeb og drápu hann.
1963 sprakk sprengja í því hóteli í Birmingham í Atlanta, þar sem King bjó. Hann hafði yfirgefið herbergi sitt fáeinum tímum fyrr.
Bandarískur almenningur var í áfalli og atburðirnir í Selma urðu til þess að misréttislögin voru dæmd stríða gegn stjórnarskránni.
Þessi sigur var Martin Luther King til ómældrar gleði en þýddi jafnframt að bæði líflátshótanir og líkamsárásir urðu tíðari og alvarlegri. Smám saman lagðist þetta svo þungt á hann að fjölskylda hans og vinir höfðu vaxandi áhyggjur af honum.
Engu að síður gekk hann fremstur í mótmælagöngum allt fram á vor 1968, þegar hann hélt ræðu yfir byggingarmönnum í verkfalli í Memphis í Tennessee þann 3. apríl.
Áður hann kom til borgarinnar hafði borist hótun um borð í flugvélinni og orðrómur var á kreiki um fleiri líflátshótanir. En þennan apríldag var engu líkara en Martin Luther King hefði sætt sig við örlög sín:
„Rétt eins og allir aðrir vildi ég gjarnan eiga langa ævi. En af því hef ég ekki lengur áhyggjur. Verði Guðs vilji. Ég er glaður í kvöld. Ég hef engar áhyggjur. Ég óttast engan!“
Þetta urðu hans síðustu orð í ræðustól.
Sumir sagnfræðingar telja að eiginkonan, Coretta King, hafi bæði vitað af og sætt sig við ítrekað framhjáhald eiginmanns síns.
Konur lentu í öðru sæti
Þótt það væri kona, Rosa Parks sem hratt mannréttindabaráttu svartra af stað 1955, tóku karlmenn nánast öll völd í hreyfingunni og konurnar urðu að sætta sig við að standa aftar.
Í göngunni miklu til Washington gengu Martin Luther King og aðrir karlkyns leiðtogar fremstir en konur gengu í aðskildri göngu ásamt eiginkonum leiðtoganna – fjarri vöktun fjölmiðla.
Presturinn hafði hins vegar mikil not fyrir konur þegar hann kom heim á hótelherbergið sitt eftir langan dag. Þangað fékk hann vændiskonur í heimsókn en líka ýmsar konur sem hann átti í ástarsamböndum við.
„Ég er á fartinni 25-27 daga í mánuði. Kynlíf er aðferð til að dempa áhyggjur mínar,“ útskýrði King fyrir vini sínum.
Samkvæmt skýrslu FBI á King meira að segja að hafa verið viðstaddur nauðgun á hóteli í Washington og látið sér nægja að hlæja að atburðinum í stað þess að taka í taumana.
Trúverðugleiki skýrslunnar er vafasamur, þar eð yfirmaður FBI, J. Edgar Hoover, vildi gera allt sem unnt væri til að fella þennan mannréttindafrömuð af stalli. Segulbandsupptökurnar eru háðar leynd sem ekki verður aflétt fyrr en 2027.
Baráttan kostaði hann lífið
Tæpum sólarhring eftir þessa ræðu gekk hann út á svalirnar á Lorraine-hótelinu í Memphis, þar sem hann gisti.
Presturinn var nú 39 ára. Hann dró upp eina af mentólsígarettum sínum en áður en hann náði að bera hana að vörunum gall skothvellur.
Kúlan hitti mannréttindafrömuðinn í neðri kjálkann, festist í hálsinum og skildi Martin Luther King eftir liggjandi í blóði sínu.
Sá sem skaut var strokufangi að nafni James Earl Ray og hann náðist ekki fyrr en tveimur mánuðum eftir morðið. Ray var eldheitur rasisti og haft var eftir bróður hans að hann vildi að Bandaríkin yrðu land hvítra, án gyðinga eða negra.
Eftir fjölmargar morðtilraunir var King að lokum myrtur árið 1968 þegar rasistinn James Earl Ray skaut hann í höfuðið úr felustað sínum á hótelherbergi.
Ray játaði sig sekan fyrir rétti en dró játninguna síðar til baka. Um það hefur verið deilt hvort hann hafi verið einn að verki eða hvort einhverjir óþekktir samsærismenn hafi átt hlut að máli.
Bæði hefur verið bent á FBI og Ku Klux Klan sem hina eiginlegu bakhjarla morðsins og stjórnvöld hafa sett á fót rannsóknarnefndir án þess að nokkru sinni hafi verið komist að niðurstöðu.
Hvað sem því líður tókst fjandmönnum Martins Luthers King að ráða niðurlögum hans eftir 13 ára baráttu hans þrátt fyrir allar hótanirnar en boðskapur hans um friðsamlega baráttu lifir enn.
Baráttan fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum stendur enn, meira en hálfri öld eftir að Martin Luther King var ráðinn af dögum.
Lestu meira um Martin Luther King
- David Garrow: Bearing the Cross, William Morrow Paperbacks, 2004
- David Garrow: The FBI and Martin Luther King, Open Road Media, 2015