Viðvörun! Óhugnanleg lesning
Meðan fanatískir japanskir hermenn hrekja leifarnar af kínverska hernum út úr Shanghai hittist hópur háttsettra japanskra liðsforingja þann 15. nóvember 1937 í yfirgefnu húsi. Þar má heyra fjarlægar drunur í fallbyssunum og tíundi her Japans kemur þar upp höfuðstöðvum til bráðabirgða.
Búið er að brjóta mótstöðuna í Shanghai á bak aftur en hernám á þessum kínverska hafnarbæ hefur tekið auðmýkjandi þrjá mánuði og kostað Japana 40.000 mannslíf. Þetta mannfall hefur sannfært keisaralegu herforingjana í Tókýó um að hætta beri frekari framrás. Þess í stað á heraflinn að koma upp varnarlínu um 100 km inni í kínverska fastalandinu.
Þessar skipanir frá Tókýó vekja enga ánægju meðal liðsforingjanna sem eru þarna samankomnir. Helst vilja þeir æða áfram inn í landið og leggja undir sig nýju höfuðborg Kína, Nanjing. Terada Masao majór tekur fyrstur til orða:
„Kínverski herinn dregur sig nú til baka inn í höfuðborgina. Við neyðumst til að fylgja þeim eftir alla leið inn í Nanjing“.
Orð Masao vega þungt. Hann stendur eins og stoltur samurai í kaki-búningi sínum og liðsforingjarnir samþykkja tillögu hans. Þeir eru sannfærðir um að mótstaða Kínverja muni brotna saman þegar höfuðborgin er fallin. Nanjing er lykillinn að Kína.
„Ef við eigum að leysa þennan vanda skjótt skulum við nýta okkur að óvinurinn sleikir nú sár sín og hertaka Nanjing“,
Japanski hershöfðinginn Iwane Matsui
Lágstemmd rödd tekur þátt í umræðunni. Iketane Hanjiro major minnir foringjana á að orrustan um Shanghai hafi verið afar dýrkeypt og að hermennirnir séu örmagna. Í stað þess að fara í allsherjar árás gegn Nanjing leggur hann til skæruárásir á borgina.
„Það er mikilvægt að við höldum áfram af mikilli varfærni“, aðvarar Hanjiro en orð hans falla fyrir daufum eyrum. Allir aðrir liðsforingjar samþykkja árásargjarna áætlun Masao: Japanski herinn mun marsera með fullum styrk til Nanjing og mola óvininn mélinu smærra.
Það að liðsforingjarnir hundsi fyrirskipanir æðri manna í Tókýó er í raun uppreisn en þeir eru sammála um að árás sé besta leiðin til að vinna stríðið. Jafnvel hinn nýútnefndi yfirforingi tíunda hersins, Iwane Matsui, er sama sinnis.
„Ef við eigum að leysa þennan vanda skjótt skulum við nýta okkur að óvinurinn sleikir nú sár sín og hertaka Nanjing“, útskýrir Matsui í símskeyti til Tókýó.
Þremur dögum síðar fyrirskipar hann herliði sínu að ráðast fram gegn kínversku höfuðborginni í 270 km fjarlægð. Hermennirnir eru tilbúnir að bæta fyrir niðurlæginguna vegna alls mannfallsins við töku Shanghai. Nú snýst allt um Nanjing. Hermennirnir marsera 40 km á dag í átt að skotmarki sínu og á leiðinni eykst baráttuvilji þeirra og hefndarþorsti.
Enginn þeirra hefur þó minnsta grun um að á næstu vikum muni þeir fremja einhverja verstu stríðsglæpi síðari heimsstyrjaldarinnar gegn almennum borgurum í Nanjing.
Undir lok árs 1937 hafði Japan náð þremur af stærstu borgum Kína. Hermennirnir sóttu fram, m.a. frá Mansjúríu (dökkblátt) sem hafði verið undir stjórn Japana frá árinu 1932.
Hermenn Kína líktust heimilislausum
Hernaðaraðgerðin gegn Nanjing var hápunkturinn á áratuga löngu stríði milli tveggja sterkustu velda Asíu. En á meðan Kína þurfti að kljást við borgarastríð á þriðja áratug liðinnar aldar, milli þjóðernisflokksins Komintang og kommúnista, stóð keisaraveldið Japan styrkum fótum, bæði hvað varðar efnahag og tækni. Japan gat þannig gert kröfur um landsvæði í Kína.
Japanar töldu sig hafa rétt á Mansjúríu – svæði í norðausturhluta Kína sem bæði Japan og Rússland höfðu oft deilt um á 19. öld.
Þegar efnahagskreppa skall á Japan upp úr 1930 var krafan um að ná yfirráðum yfir kínverskri hrávöru ennþá meiri. Allt magnaðist þetta síðan þegar Japan réðst inn í Mansjúríu árið 1931.
Kínverjar voru ekki færir um að hrekja Japan út úr landi sínu og eftir sex ára átök víðs vegar í Kína braust stríðið út í raun og veru sumarið 1933. Japanar réðust á fyrri höfuðborg Kínverja, Beijing og lögðu sífellt meira land undir sig þar til her þeirra tókst að lokum að vinna hafnarborgina Shanghai.
En innrásin hafði ekki gengið jafn auðveldlega og Japanar höfðu vænst. Á þremur mánuðum höfðu 100.000 japanskir hermenn glatað lífi sínu.
Margar af byggingum Nanking líktust vestrænum byggingum, m.a. þjóðleikhúsið sem var klárað árið 1936.
Nanjing var nútímalegasta borg Kína.
„Frá kæfandi yfirgrónu þorpi sem leyndist á bak við gríðarlega borgarmúra hefur Nanjing nú þróast í að vera ein framsæknasta borg Kína“. Þannig skrifaði blaðamaður National Geographics, Julius Eigner, eftir heimsókn til kínversku höfuðborgarinnar árið 1937.
Eigner hafði heimsótt Nanjing í fyrsta sinn tíu árum áður. Þá voru stórir hlutar borgarinnar rústir eftir kínverskt borgarastríð þar sem 300.000 íbúar þurftu að lifa nánast án rafmagns og skólpkerfis.
En eftir að þjóðernissinnaði flokkurinn Kuomintang, undir forystu Chiang Kai-sheks lagði Nanjing undir sig og útnefndi borgina sem höfuðborg Kína árið 1927, fluttu þúsundir manna þangað þannig að íbúafjöldinn varð meira en ein milljón. Ótal byggingar skutust upp í nýrri höfuðborg landsins. Margar í vestrænum Art Deco-stíl eftir fræga arkitekta.
Það var því her af örmagna og öskureiðum hermönnum sem marseraði til Nanjing undir lok nóvembers 1937. Japanar áttu enga aðra úrkosti ef þeir ætluðu að sigra óvininn og viðhalda stöðu sinni sem öflugasta ríkið í Asíu.
Herstjórnin í Tókýó viðurkenndi einnig skjótt að það var ómögulegt að stöðva japönsku hershöfðingjana og breytti því um hernaðaráætlun. Þann 28. nóvember lýsti herstjórnin yfir einingu í þessari vegferð. Afstaðan var nú sú að taka höfuðborgarinnar myndi auðmýkja leiðtoga Kínverja, Chiang kai-shek, í svo miklum mæli að ríkisstjórn hans myndi aldrei bíða þess bætur.
Eins og búast mátti við mættu Japanar mótstöðu á leiðinni og var hún jafnvel meiri en þeir áttu von á. Í sumum bæjum höfðu kínverskir hermenn búið um sig í svokölluðum pill boxes – litlum steyptum virkjum – og Japanar misstu fjölmarga menn þegar þeir reyndu að brjóta á bak aftur þessar öflugu varnir.
Chiang Kai-shek var ekki einungis pólitískur leiðtogi í Kína heldur einnig æðsti hershöfðingi.
Kínversku herdeildirnar skorti þó bæði matarbirgðir og reynslu. Þegar stríðið gegn Japan braust út hafði Chiang kai-shek nýverið sett í gang metnaðarfulla áætlun sína um að nútímavæða her landsins. Flestir hermannanna höfðu ekki fengið þjálfun við hæfi og margir þeirra voru kornungir. Eins og japanski hermaðurinn Shiro Artzuma ritaði um kínverska hermenn sem þeir tóku til fanga:
„Þeir líkjast flokki af heimilislausum mönnum og allir voru með sauðslegan svip. Það var nánast fáránlegt að við höfum barist með lífið að veði gegn þessum fávísu þrælum. Sumir þeirra voru aðeins 12 – 13 ára drengir.
„Berjist til síðasta manns“
Sögur um árangursríka árás Japana fylltu íbúa Nanjing skelfingu. Þeir höfðu með eigin augum séð hvernig allt að 3.000 særðir hermenn komu hvern einasta dag til borgarinnar undir lok nóvembermánaðar.
Þegar óvinurinn nálgaðist borgarhliðin í fyrstu viku desember voru allir þeir sem áttu einhverja fjármuni og höfðu réttu samböndin fyrir löngu flúnir úr borginni. Einungis um helmingur af um einni milljón íbúa borgarinnar var eftir.
Þann 8. desember reyndist yfirvofandi árás síðan of öflug fyrir leiðtogann Chiang kai-shek. Hann flúði frá sinni dauðadæmdu höfuðborg ásamt konu sinni.
Daginn áður hafði hann skipað herforingja sínum Tang Shenshi að vera eftir með tæplega 90.000 kínverskum hermönnum og „berjast til síðasta manns“.
Í viðleitni til að stöðva framrás Japana eyðilögðu Kínverjar margar brýr. En þær voru skjótt lagaðar.
Keisaraveldið sigraði með leifturárás
Sjálfsálitið var í hæstu hæðum hjá hinum keisaralega japanska her þegar 80.000 hermönnum var skipað að ráðast inn í Kína. Margir yfirmenn innan hersins voru sannfærðir um að leggja mætti gjörvallt Kína undir Japan á fáeinum mánuðum.
Frá árinu 1931 hafði Japan staðið fyrir umfangsmikilli hervæðingu samfélagsins og þegar keisaraveldið lýsti yfir stríði gegn Kína árið 1937 réði það yfir öflugasta og nútímalegasta her Asíu. Kína var hins vegar í sárum eftir harðskeytt borgarastríð og hafði lítt þjálfaðan herafla.
Hernaðaráætlun Japana gekk út á að nýta sér liðsmuninn og héldu þeir því í leifturstríð gegn Kínverjum til að koma þeim að óvörum.
Í fyrsta fasa stríðsins reyndist aðgerðin ótrúlega skilvirk. Á fáeinum dögum undir lok júlí 1937 náði japanski herinn stórborgunum Beijing og Tianjin. Árásir á fleiri bæi, með bæði fótgönguliði, flota og flugher, átti eftir að verða forsmekkurinn að leifturstríði nasistanna sem lögðu undir sig stóran hluta Evrópu tveimur árum síðar.
Japanska leiftursóknin stöðvaðist við Shanghai, þar sem Kínverjar vörðust hetjulega í þrjá mánuði. Þessu næst reyndu japanskir hershöfðingjar að leggja Nanjing skjótt undir sig en nú voru varnir Kínverja öflugri.
Yfirhershöfðingi Japana, Iwane Matsui, vonaðist þó til að bardagar myndu ekki dragast á langinn. Í einni tilraun til að forðast blóðsúthellingar sendi hann þann 9. desember nokkrar flugvélar í loftið til að varpa þúsundum af áskorunum niður til borgarinnar.
„Besta leiðin til að verja saklausa borgara og menningararfinn í Nanjing er með uppgjöf“, stóð á pappírunum sem hershöfðinginn hafði undirritað sjálfur.
„Við munum vera strangir og miskunnarlausir gegn þeim sem sýna okkur mótspyrnu en góðir og rausnarlegir gagnvart þeim sem ekki sýna Japan nokkurn fjandskap. Þið hafið 24 tíma til að gefast upp, ella munum við sleppa helvíti stríðsins lausu“.
Örvæntingarfullur reyndi kínverski hershöfðinginn Tang Shengzhi að fá yfirboðara sína til að samþykkja uppgjöf. Ekki var hægt að misskilja svar Chiang kai-shek með nokkrum hætti.
„Við verðum að verja borgina af öllu afli. Við getum ekki gefið svo mikið sem einn sentimetra af jörð okkar til óvinanna“, skrifaði hann í símskeyti til Tang þann 10. desember.
Sama eftirmiðdag fyrirskipaði Matsui hershöfðingi sínum 50.000 hermönnum að ráðast til atlögu.
„Við munum vinna þrátt fyrir að það krefjist þess að við látum allir lífið“.
Japanski hershöfðinginn Wakizaka Jiro við hermenn sína.
Til þess að ná Nanjing þurftu Japanar að komast yfir djúp sýki og finna leið í gegnum hinn 20 metra háa múr sem umkringdi borgina og hafði staðist áhlaup óvina frá því á 14. öld.
En Matsui hershöfðingi var í engum vafa: Vel heppnuð taka borgarinnar myndi krefjast tangarsóknar þar sem Japanar réðust á fjóra lykilstaði í vörnum borgarinnar á sama tíma, þannig að Kínverjar hefðu engin færi á að skipuleggja liðsafla sinn.
Til þess að þessi aðgerð mætti heppnast urðu Japanar að fara yfir Yuhuatai-hásléttuna en sú þolraun reyndist vera skelfileg fyrir Japana. Fyrir utan torsótta sléttuna var hún alsett tálmum úr gaddavír. Kínversku hermennirnir bjuggu um sig í byrgjum og skotgröfum og þaðan létu þeir kúlunum rigna yfir innrásarliðið.
Þúsundir Japana lágu særðir eða dauðir á jörðinni þegar þeir höfðu náð að komast loksins yfir sléttuna og 8.000 manna herdeild Kínverja var nánast útrýmt.
Árið 1944 framleiddi stríðsráðuneyti Bandaríkjanna heimildarmyndina "The Battle of China" sem hluta af "Why We Fight" þáttaröðinni. Í myndinni eru örfáir af þeim myndbútum sem til eru frá bardögunum í Nanjing.
Við sögufræg borgarhlið Nanjings flaut blóðið einnig í stríðum straumum. Þegar Japanar komust að því að Kínverjar höfðu ekki ennþá sprengt brúna yfir síkið af „Hliði vitneskjunnar“ í suðurhluta borgarinnar reyndu þeir að brjótast í gegnum þetta litla rof á vörnum meðan stórskotalið þeirra lét sprengjum rigna á húsin að baki þeim.
En Kínverjar neituðu ennþá að gefast upp og þegar óvinurinn nálgaðist borgarmúrana reyndu þeir jafnvel að henda brennandi timbri yfir japönsku hermennina. En þessi örvæntingarfulla tilraun bar ekki árangur. Eins og Wakizaka Jiro sagði hermönnum sínum:
„Við munum vinna þrátt fyrir að það krefjist þess að við látum allir lífið“.
Japanskir hermenn fara yfir sýkisgröfina fyrir framan Nanjing á mjóum fljótandi brúm.
Höfnin var eitt eldhaf
Eftir tveggja daga ofsafengna bardaga var greinilegt að kínverska herliðið var tilbúið að berjast til síðasta blóðdropa þrátt fyrir takmarkaða þjálfun. Því var það áfall þegar Tang hershöfðingi tók á móti símskeyti þann 11. desember frá Chiang kai-shek sem var í algjörri mótsögn við fyrri tilskipun:
„Ef þú getur ekki ráðið við aðstæður verður þú að grípa tækifærið til að draga herinn út úr borginni svo það megi verjast frekari árásum Japana síðar“.
Ef það var eitthvað sem Chiang kai-shek óttaðist meira en innrás Japana í höfuðborgina þá var það að hann myndi missa völd sín. Leiðtogi Kumintang var skyndilega hræddur um að langdreginn bardagi við borgina myndi veikja stöðu hans gagnvart andstæðingum í kínverska kommúnistaflokknum sem ævinlega var tilbúinn til þess að hrifsa til sín völdin frá honum.
Þrátt fyrir að Tan læsi skilaboðin frá leiðtoga landsins fullur fyrirlitningar fylgdi hann skipununum. Klukkan þrjú bað hann undirforingja sína að draga alla hermenn út úr borginni. Undanhaldið sem átti sér stað næsta dag umbreytti Nanjing í algjöra ringulreið og reiðarslag fyrir borgarana.
Japanar fagna sigri á sögufrægum borgarmúrum Nanjing eftir margra daga harða bardaga.
Kínverskir hermenn innan við borgarmúrana reyndu að flýja til hafnarinnar svo að þeir gætu siglt burtu eftir Yangtze-fljóti. Japanar fóru sem eldur um sinu í borginni og allir sem voru íklæddir einkennisbúningi eða voru grunaðir um að liðsinna kínverskum hermönnum voru samstundis drepnir.
Í örvæntingarfullri tilraun til að líkjast almennum borgurum brutust kínverskir hermenn inn í verslanir til að komast inn í hversdagslegan fatnað. Sumir hermenn voru jafnvel tilbúnir til að ráðast á almenna borgara og neyða þá til að afklæðast.
Í höfninni tróðust mörg hundruð manns undir þegar örvæntingarfullir íbúar börðust um að fá pláss á einum af þeim fáu bátum sem voru á leið burt frá þessu helvíti. Hershöfðinginn Tang Shengzhi náði að komast um borð í einn bátanna og horfði skelfingu lostinn á borgina sem nú stóð í ljósum logum við undirleik angistarópanna frá íbúunum.
Nauðganir og morð daglegt brauð
Þegar japanskir hermenn stormuðu inn í Nanjing þann 13. desember voru nánast engir hermenn lengur þar. Íbúarnir sem töldu tæpa hálfa milljón, vonuðust nú til að morðæðinu myndi linna þegar Japanar höfðu náð höfuðborginni á sitt vald. Sú varð ekki raunin.
„Líf svíns er verðmætara en líf Kínverja, af þeirri einföldu ástæðu að það er hægt að borða svín“.
Japanski hermaðurinn Shiro Atsuma.
Í marga áratugi hafði japönsk alþýða verið heilaþvegin með hatursfullum áróðri sem beindist að Kínverjum. Hermönnum var kennt að morð á Kínverja væri engu frábrugðið að stíga á skordýr. Í dagbók sína skrifaði japanski hermaðurinn Shiro Atsuma:
„Líf svíns er verðmætara en líf Kínverja, af þeirri einföldu ástæðu að það er hægt að borða svín“.
Jafnframt var hermönnum kennt að mikilvægasti eiginleiki þeirra væri drottinhollusta gagnvart föðurlandinu. Þeirra eigið líf var nánast einskis virði. Shiro Atsuma skrifaði um þetta mörgum árum síðar:
„Ef líf mitt var ekki mikils virði þá var líf óvinarins miklu minna vert“.
Þessi heilaþvottur ásamt blóðugum bardögum undanfarið hálft ár, þar sem ótal Japanar höfðu séð félaga sína drepna, skapaði hatursfulla stemningu sem sprakk nú út með látum í borginni.
„Þegar við tókum borgina voru Kínverjar sem gengu úti á götu með hendur uppréttar til að gefast upp skotnir niður. Hundruð manna voru pyntuð til dauða – oft sem eins konar kvalalostafull afþreying fyrir japanska hermenn – og allt að 80.000 konum var nauðgað í þessar sex vikur sem Japanar réðu yfir borginni.
Heimildarmyndin „The Battle of China“ inniheldur einnig nokkra af fáum myndbútunum frá fjöldamorðunum í Nanjing. Þeim hafði verið smyglað úr Kína af starfsmanni sjúkrahúss.
Eins og eitt kínverskt dagblað skrifaði í upphafi ársins 1938: „Á hverjum einasta degi líður ekki ein klukkustund þar sem saklaus kona er dregin burt af japönskum hermanni sem nauðgar henni síðan“.
Mestu hrottarnir meðal Japana komust skjótt að því að þeir gátu nánast gert hvað sem þeir vildu án þess að óttast afleiðingar þess frá yfirmönnum. Þegar þeir fengu leið á því að nauðga þvinguðu þeir fjölskyldumeðlimi til að fremja sifjaspell hvert við annað.
Á einungis fáeinum vikum var Nanking umbreytt í helvíti á jörð.
„Það var blóð úti um allt. Það var eins og himnarnir hefðu opnast og niður hefði rignt blóði“, minntist borgari í Nanking, Tang Shunsan, mörgum árum síðar.
Ótal saklausir Kínverjar voru teknir af lífi og fjölmargir hálshöggnir. Japanar stilltu höfðum þeirra upp á götum og torgum öðrum til viðvörunar.
Siðferði japanskra hermanna gufaði upp
Nauðganir, aftökur, þvingað sifjaspell og brennur urðu hversdagslegar fyrir kínverska borgara og stríðsfanga í Nanking sem virtist laða það versta fram í japönskum hermönnum.
Ný íþrótt: Sem skjótust hálshögg
Tveir japanskir liðsforingjar stóðu að óhugnanlegri keppni um hver gæti skjótast hálshöggið 100 fanga. Keppni þessi öðlaðist mikla athygli hjá japönsku pressunni sem skrifaði um atburðinn undir fyrirsögninni „Ótrúlegt met“.
Ungabörn drepin og soðin
Jafnvel ungabörn fengu að kenna á ofsa Japana. Margir sjónarvottar greindu síðan frá því hvernig hermenn stungu ungabörn með byssustingjum og hentu þeim í sjóðandi vatn. Einnig voru sögur um óléttar konur sem voru skornar upp og fóstrinu fargað.
Hermenn átu fórnarlömb sín
Bandarískur trúboði greindi frá því hvernig japanskir hermenn hefðu neytt hann til að horfa á meðan þeir grilluðu hjarta og lifur úr kínverskum hermanni – og átu þetta. Kynfæri kínverskra karla voru send heim til Japan þar sem át á þeim átti að styrkja kynhvötina.
Stúlkubörnum nauðgað til dauða
Allt að 80.000 konum var nauðgað af japönskum hermönnum á þessum skelfilegu sex vikum. Kínverskir sjónarvottar sáu hermenn nauðga stúlkum undir tíu ár aldri úti á götum. Þegar þeir höfðu lokið sér af klufu margir hermenn stúlkurnar í sundur með japönskum sverðum.
Föngum umbreytt í blys
Japanar kveiktu í hundruðum Kínverja í Nanking. Algengasta aðferðin var að kasta föngunum niður í fjöldagröf, hella bensíni yfir þá og kveikja í. Aðrir voru sendir brennandi um göturnar meðan Japanar skutu á þá.
Tang var einn af þeim fáu lánsömu sem lifðu af þennan hrylling. Þessi saklausi skósmíðalærlingur var tekinn til fanga af Japönum og ásamt hundruðum annarra fluttur að fjöldagröf í útjaðri borgarinnar. Stór holan var þegar full af dauðum Kínverjum og föngunum var skipað að stilla sér upp í röð meðfram grafarbakkanum.
Þessu næst tóku hermennirnir að aflífa þá einn af öðrum.
Fyrst hálshjuggu þeir fangana og lyftu upp blóðugum sigurtáknum sínum til himins áður en þeir spörkuðu þeim niður í gröfina eins og kálhausum. Síðar þegar hermennirnir þreyttust af öllu þessu hálshöggi létu þeir sér nægja að skera fangana á háls. Það varð Tang til bjargar.
Þegar fangi fyrir framan hann í röðinni var skorinn frá eyra til eyra féll hann aftur á bak og tók Tang með sér í fallinu. Enginn hermannanna tók eftir því að þessi ungi fangi valt niður í gröfina ásamt félaga sínum. Tang lá grafkyrr meðan fleiri líkum var kastað yfir hann.
Þegar hermennirnir yfirgáfu fjöldagröfina voru fáeinir eftir um stund og stungu byssustingjum niður í blóðug líkin til að tryggja að allir væru dauðir. Tang gaf ekkert einasta hljóð frá sér þegar byssustingur stakkst í hann nokkrum sinnum. Tveir vinir hans fundu hann tveimur stundum síðar og fluttu hann í öryggi.
Hinn danski Bernhard Sindberg bjargaði þúsundum Kínverja frá fjöldamorðunum með því að fela þá í sementsverksmiðjunni sem hann vann í.
Ljóstíra í myrkrinu
Það fannst samt mikið af manngæsku í öllum þessum hörmungum. Vestan við miðborg Nanjing var að finna alþjóðlegt öryggissvæði sem var komið á laggirnar til að verja kínverska borgara gegn innrásarliðinu. Á svæðinu var að finna fjölmargar kínverskar byggingar í eigu ríkisins ásamt bandaríska sendiráðinu og sjúkrahúsi.
Frumkvæðið að þessu öryggisvæði höfðu 27 erlendir trúboðar, blaðamenn og læknar undir forystu þýska viðskiptamannsins John Rabe. Eiginlega átti að leysa upp öryggissvæðið fáeinum dögum eftir að Japanar hertóku borgina en þar sem blóðsúthellingarnar marfölduðust á næstu vikum var það ekki gert.
Hetjudáðum nasistans John Rabe hefur verið lýst í kínversk-þýsku kvikmyndinni "John Rabe" árið 2009.
Opinberlega viðurkenndu Japanar aldrei þetta alþjóðlega öryggissvæði en þar sem Japan var í bandalagi með Þýskalandi og Rabe háttsettur meðlimur nasistaflokksins, gat hann tryggt að árásargjarnir hermenn virtu hlutleysi svæðisins.
Þúsundir Kínverja fengu þannig skjól við Siemens-verksmiðju og möguleika á að flýja áður en Japana grunaði nokkuð misjafnt.
Nasisti verndaði 200.000 Kínverja
John Rabe sem var forstjóri fyrir Siemens í Nanking, hefði eiginlega átt að vera búinn að yfirgefa Kína eftir að Nanjing var hertekin en eins og hann sagði:
„Maður lætur ekki verkamenn sína sitja í súpunni á neyðarstundu“.
Nasistinn Rabe var formaður fyrir alþjóðlegt öryggissvæði sem náði yfir 3,9 km2 og hafði það að markmiði að vernda kínverska borgara. Hús hans var höfuðstöð nefndarinnar og garður hans myndaði umgjörð um þrjú hús sem hýstu flóttamenn. Öryggissvæðið og sambönd Rabe við bandamenn Japana, Þjóðverjana, gerði honum kleift að bjarga allt að 200.000 mannslífum.
Þar sem John Rabe var meðlimur í nasistaflokknum fól það í sér að hann varð gjaldþrota eftir síðari heimsstyrjöldina. En þegar íbúar í Nanjing heyrðu um fjárhagslegar ógöngur hans söfnuðu þeir alls 21.000 dölum til að aðstoða hann.
,,Oskar Schindler” Kína er enn hylltur
„Hinn góði maður Nanjings“ kölluðu Kínverjar þýska viðskiptamanninn John Rabe. Hann var formaður fyrir alþjóðlegt öryggissvæði í Nanjing og setti sig í lífshættu við að bjarga þúsundum Kínverja.
Öryggissvæðið var eini tryggi staðurinn
Þegar Japanar lögðu Nanjing undir sig voru 27 útlendingar sammála um að koma á laggirnar öryggissvæði sem var 3,9 km2 og voru þar alls 25 flóttamannabúðir. Auk þess voru Kínverjar faldir fyrir blóðþyrstum Japönum hvarvetna á svæðinu og mörgum tókst að bjarga út úr borginni.
Kvennaháskóli varðist nauðgurum
Minnie Vautrin var bandarískur trúboði og forstöðumaður kvennaháskólans Ginling College. Í hernámi Japana barðist hún dag og nótt til að verja 10.000 flóttakonur í háskólanum gegn Japönum.
Hakakross í garðinum hélt sprengjum fjarri
Í sprengjuregni Japana leyfði John Rabe mörgum Kínverjum að búa á heimili sínu. Á grasfletinum var nefnilega að finna stóran hakakrossfána, því að Rabe vissi að Japanar virtu þýska nasistaflokkinn mikils og vildu forðast að fá hann upp á móti sér.
Blaðamenn fluttu fréttir af blóðbaðinu til heimsins
Bandaríska sendiráðið var aðsetur fréttaritara, frá m.a. The New York Times sem kusu að vera áfram í borginni til að greina umheiminum frá fjöldamorðunum. Til að koma greinunum áleiðis neyddust fréttamennirnir til að flýja úr borginni.
,,Oskar Schindler” Kína er enn hylltur
„Hinn góði maður Nanjings“ kölluðu Kínverjar þýska viðskiptamanninn John Rabe. Hann var formaður fyrir alþjóðlegt öryggissvæði í Nanjing og setti sig í lífshættu við að bjarga þúsundum Kínverja.
Öryggissvæðið var eini tryggi staðurinn
Þegar Japanar lögðu Nanjing undir sig voru 27 útlendingar sammála um að koma á laggirnar öryggissvæði sem var 3,9 km2 og voru þar alls 25 flóttamannabúðir. Auk þess voru Kínverjar faldir fyrir blóðþyrstum Japönum hvarvetna á svæðinu og mörgum tókst að bjarga út úr borginni.
Kvennaháskóli varðist nauðgurum
Minnie Vautrin var bandarískur trúboði og forstöðumaður kvennaháskólans Ginling College. Í hernámi Japana barðist hún dag og nótt til að verja 10.000 flóttakonur í háskólanum gegn Japönum.
Hakakross í garðinum hélt sprengjum fjarri
Í sprengjuregni Japana leyfði John Rabe mörgum Kínverjum að búa á heimili sínu. Á grasfletinum var nefnilega að finna stóran hakakrossfána, því að Rabe vissi að Japanar virtu þýska nasistaflokkinn mikils og vildu forðast að fá hann upp á móti sér.
Blaðamenn fluttu fréttir af blóðbaðinu til heimsins
Bandaríska sendiráðið var aðsetur fréttaritara, frá m.a. The New York Times sem kusu að vera áfram í borginni til að greina umheiminum frá fjöldamorðunum. Til að koma greinunum áleiðis neyddust fréttamennirnir til að flýja úr borginni.
Eftir sex vikna ringulreið lýstu Japanar yfir að Nanjing væri nú yfirráðasvæði þeirra. Skömmu síðar hætti blóðbaðið og margir hermennirnir fóru úr borginni til að berjast á öðrum stöðum. Meira en 100.000 Kínverjar höfðu verið drepnir á þessum tíma – og um þriðjungur borgarinnar brunarústir einar.
Áætlað var að Japanar hefðu eyðilagt eignir fyrir um 972 milljónir dollara sem samsvarar 18,2 milljörðum dala í dag.
Heima í Japan var hertöku Nanjing fagnað meðal alþýðu en hún fékk engar fregnir af fjöldamorðunum. Flestir væntu þess að nú myndi Kína gefast upp en þegar hrokafullir Japanarnir settu fram afar hörð skilyrði fyrir uppgjöf var henni hafnað af Kínverjum.
Á safni yfir fjöldamorðin í Nanking er að finna þúsundir af tómum skópörum í löngum röðum sem tákn um kínversku fórnarlömbin.
Fortíðardraugarnir frá Nanjing hafa enn áhrif
Árið 2014 var dagsetningin 13. desember, daginn fyrir blóðbaðið í Nanjing, gerð að minningardegi í Kína. Japanar hafa sjálfir um áratuga skeið neitað að viðurkenna framgöngu sína í þessum óhugnaði.
Frá árinu 1955 hefur Nanjing verið nefnd í japönskum skólabókum en umfang blóðbaðsins er ritskoðað eða alveg fjarlægt af japönskum yfirvöldum. Það var fyrst árið 1994 sem nemendur fengu kennslu í hvernig her landsins hefði drepið 20 milljón manns í síðari heimsstyrjöldinni, einkum í Kína.
Þeir fáu japönsku hermenn sem hafa stigið fram og greint frá þátttöku sinni í fjöldamorðunum voru gagnrýndir í fjölmiðlum og þeim jafnvel hótað lífláti. Leiðtogi frjálslynda demókratíska flokksins, Ishihara Shintaro sagði árið 1990:
„Fólk segir að Japanar hafi staðið að helför í Nanjing. En það er ekki rétt. Þetta er saga sem Kínverjar hafa sjálfir skáldað upp.“
Enn þann dag í dag draga nokkrir japanskir sagnfræðingar í efa umfang blóðbaðsins.
Þess í stað urðu bardagar einungis ofsafengnari og þegar Japan lét sprengjum rigna yfir Pearl Harbor árið 1941 þurfti þetta volduga keisaradæmi brátt að berjast á mörgum vígstöðvum. Þann 8. september 1945, átta árum eftir fjöldamorðin, hittust kínverskir og japanskir hershöfðingjar í Nanjing, þar sem Japanar rituðu undir uppgjafarskilmála um einnar milljónar hermanna sem enn voru í Kína.
Árið 1948 var Iwane Matsue hershöfðingi dæmdur til dauða við Alþjóðlega dómstólinn í Haag fyrir ódæðisverkin í Nanking. Sama ár voru þrír japanskir liðsforingjar teknir af lífi af kínverskum yfirvöldum fyrir hlut þeirra í þessum hryllingi. Eftir þetta féll þessi myrki kafli í sögu Kínverja í nokkra gleymsku og um áratuga skeið var blóðbaðið nánast óþekkt fyrir utan Kína.
Í Japan er ennþá deilt um umfang fjöldamorðanna en vitnisburðir tala sínu máli. Bandaríkjamaðurinn George Fitz var allan þennan tíma á alþjóðlega verndarsvæðinu í Nanking. Hjá honum er ekki að finna nokkurn vafa – þeir stríðsglæpir sem fóru fram í Nanking voru án fordæma:
„Þetta er saga um nánast óhugsanlega glæpi. Þetta er saga um hjörð af úrkynjuðum glæpamönnum sem beittu óskiljanlegri grimmd gegn friðsömu, vinalegu og löghlýðnu fólki. Ég tel að glæpirnir eigi sér enga hliðstæðu í sögu okkar tíma“.
Lestu meira um fjöldamorðin í Nanjing
- Iris Chang: The Rape of Nanking, Ishi Press, 2012
- Peter Harmsen: Nanjing 1937: Battle for a Doomed City, Casemate Publishers, 2015