Lifandi Saga

Nostradamus: Spádómarnir valda enn deilum

Eigi maður að leggja trúnað á hrakfallaspádóma Nostradamusar á mannkynið eru enn ýmsar hörmungar í vændum, því torræðir orðaleikir hans tilgreina kreppur og hamfarir allt fram til ársins 3797. Meira en fjórum öldum eftir dauða sinn vekur Nostradamus enn undrun.

BIRT: 02/07/2023

Daufur logi blakti í litlu þakherbergi með kvistglugga. Á borði og á gólfinu stóðu staflar af bókum um stjörnuspáfræði, lækningar og gullgerðarlist.

Þarna var líka þrífótur úr látúni og innan um þetta allt saman sat hinn síðskeggjaði Michel de Notredame og skrifaði spádóma sína með bleki.

 

Þannig lýsti franski spámaðurinn aðstæðunum sjálfur. Hann sat við langt fram á nótt og vann spádóma sína út frá margra klukkustunda athugunum á stöðu reikistjarnanna í þröngum húsakynnum sínum í Salon-de-Provence í Suður-Frakklandi.

 

Hann notaði torræða orðaleiki til að spá fyrir um atburði meira en tvö þúsund ár fram í tímann og setti m.a. saman þau 942 fjögurra hendinga erindi sem hafa tryggt nafni hans ódauðleika.

 

Þessi fjögurra línu smáljóð sem mynda frægasta ritverk hans, „Spádómana“ sem eiga að hafa sagt fyrir allt frá dauða Hinriks 2. 1559 til kjarnorkusprengingarinnar yfir Hírósíma 1945 og árásanna á tvíburaturnana, „World Trade Center“ í New York þann 11. september 2001.

Hver var Nostradamus?

Nostradamus fæddist í Evrópu svarta dauðans

Þessi víðfrægi spámaður fæddist 14. desember 1503 í Saint-Rémy-de-Provence í Frakklandi og hlaut nafnið Michel de Notredame.

 

Um 44 árum síðar varð Notredame að hinu latínuheitinu Nostradamus en árið 1503 benti ekkert til þess að nýfæddi drengurinn ætti sérlega bjarta framtíð.

 

Árið sem hann fæddist fór Kólumbus yfir Atlantshafið í fjórða sinn og í háskólanum í Erfurt í Þýskalandi þreytti ungur Marteinn Lúter próf.

 

Á sama tíma herjaði pestin eða svartidauði á Evrópu og lagði 75 milljónir að velli, án þess að nokkur gæti útskýrt ástæðuna. Hjátrúin blómstraði og rannsóknarrétturinn kvað upp miskunnarlausa dóma yfir villutrúarmönnum.

 

Það er ekki mikið vitað um ævi hins unga Nostradamusar en þó er fullvíst að faðir hans var kaupmaður af gyðingaættum.

 

Gyðingahatur var útbreitt á miðöldum og menn voru fljótir að kenna gyðingum um pláguna miklu, svarta dauða. Í Frakklandi hafði gyðingdómur verið bannaður og þar voru gyðingar ofsóttir.

 

Fyrir hina ofsóttu lá nokkuð beint við að bjarga lífinu með því að snúast til kristni og afi og amma Nostradamusar völdu einmitt þá leið.

 

Drengurinn Michel de Notredame gekk í skóla hjá afa sínum sem var mjög áhugasamur um stjörnuspeki.

 

Trúlega hefur forvitni um mátt reikistjarnanna tekið að spíra í kolli drengsins strax í þessum kennslustundum og á gönguferðum með afanum um gamlar, rómverskar rústir í nágrenninu.

 

Jean-Aime de Chavigny sem var ritari Nostradamusar síðustu árin sem hann lifði, sagði í stuttri ævisögu spámannsins að afi hans hafi bæði gefið honum „astrolabium“ sem var fyrirrennari sextantsins, til að reikna stöðu stjarna á himni og vakið honum áhuga á „himneskum vísindum“.

 

Flakkandi skottulæknir

Margt bendir til að Nostradamus hafi ungur ákveðið að feta í fótspor afa síns.

 

Sumir sagnfræðingar álíta að hann hafi strax 15 ára að aldri innritast í háskólann í Avignon til að læra læknisfræði sem á 16. öld voru nátengd stjörnuspeki en hafi neyðst til að hætta námi þegar loka þurfti háskólanum vegna plágunnar 1520.

 

Aðrir eru þeirrar skoðunar að hann hafi ekki fengið inngöngu fyrr en síðar.

 

En af hans eigin minnispunktum er þó vitað að á unga aldri flakkaði hann um þjóðvegina í Suður-Evrópu sem skottulæknir.

 

„Eftir að hafa varið stórum hluta æskuáranna … á sviði lyfjagerðar og við að læra að skilja lækningajurtir ferðaðist ég um mörg lönd á árunum 1521-1529, stöðugt í leit að skilningi og þekkingu á heimildum og uppruna plantna og annarra lækningajurta. Rannsóknir allt að ystu mörkum lækningafræðanna,“ skrifaði hann.

 

Rétt eins og margir fyrirlitnir gyðingar miðalda flæktist hann um Evrópu með jurta- og steinefnaseyði sem samkvæmt hans eigin orðum gátu læknað svo mismundandi ákomur sem hártap, getuleysi og gallsteina.

 

Útskrifaðist sem læknir

Í gömlum skrám háskólans í Montpellier má sjá að Nostradamus var innritaður í læknadeildina 1529.

 

Skottulæknirinn var nú kominn í virðulega skólastofnun, þar sem bann kirkjunnar við krufningu líka var ekki í gildi en þrátt fyrir náttúruvísindalegt yfirbragð háskólans skipaði hjátrúin enn viðamikinn sess í lækningum.

 

Stjörnuspeki var ákveðinn miðpunktur í kennslunni og margir kennarar töldu að tiltekið stjörnumerki stýrði sérhverjum líkamsparti.

 

Sirklar og stjörnukort töldust ekki síður mikilvæg en hnífar og soðið vatn þegar lina átti þjáningar.

 

Það taldist þess vegna ekki til tíðinda að læknar skyldu líka fást við spádóma eða að Evrópumenn skyldu ekkert síður treysta á stjörnuspákort en læknisfræðilega ráðgjöf.

 

Nákvæmlega hvenær Nostradamus lauk náminu er ekki vitað.

 

Skjöl benda til að hann hafi verið rekinn úr náminu en hann fékk engu að síður leyfi til að stunda lækningar og settist nú að í Agen í Suður-Frakklandi þar sem hann gifti sig og eignaðist tvö börn.

 

En ekki leið á löngu þar til plágan blossaði upp á ný og tók frá honum þessa fjölskyldu. Missir konunnar og beggja ungu barnanna var harmleikur sem markaði líf Nostradamusar alla tíð.

Prentvélin útbreiddi boðskapinn

Þegar Nostradamus fékk fyrstu almanök sín prentuð upp úr 1550 hafði prentvél Gutenbergs verið þróuð áfram í um 100 ár.

 

Þessi uppfinning hafði mikla þýðingu varðandi áhrif Nostradamusar þar eð almanök hans og stjörnuspákort urðu aðgengileg fjöldamörgum lesendum.

 

Prentsmiðjur voru enn fremur fágætar í Evrópu á þessum tíma þannig að spámaðurinn þurfti að senda almanök sín frá heimabæ sínum, Salon, til Lyon til að fá þau gefin út.

Nostradamus og uppfinningarnar

Fann upp pillur gegn pestinni

Nostradamus tók aftur að ferðast um þjóðvegina, sennilega til að berjast gegn pestinni sem hafði rænt hann fjölskyldu sinni.

 

Hann fór til Narbonne, Toulouse og Bordeaux og alls staðar sá hann hvernig svartidauði læddi sér inn á heimili fólks.

 

Markaðir voru lokaðir og kirkjudyr læstar. Ódaun lagði fyrir vitin á götunum þar sem karlar, konur og börn hóstuðu blóði og engdust í þjáningum sínum. Enginn, ekki heldur Nostradamus sjálfur, botnaði neitt í því hvernig pestin smitaði fólk og breiddist út en læknirinn sem hér var á ferð var staðráðinn í að finna lækningu.

 

Á ferðum sínum safnaði hann brumknöppum rósa af stakri þolinmæði, muldi þá í mortéli sínu ásamt m.a. nellikum og blaðliljum.

 

Þessu blandaði hann saman við sag og pressaði saman í litlar töflur sem voru seldar sem töfralyf gegn hinni ógnvænlegu pest.

 

„Ekkert lyf er til sem verndar betur gegn pestinni en þessi uppskrift. Allir sem gleypa pilluna eru verndaðir,“ skrifaði hann.

 

Árið 1547 gifti þessi reyndi skottulæknir sig í annað sinn og settist að í Salon-de-Provence.

 

Skrifaði bók um sultur

Í franska suðrinu sökkti Nostradamus sér fyrir alvöru ofan í stjörnuspekina. Hann reiknaði stöðu plánetna út frá töflum um gang himintungla og sömuleiðis hvernig pláneturnar myndu hafa áhrif á rás viðburða. Þannig sagði hann fyrir um bæði sólmyrkva og tunglmyrkva en spáði líka fyrir um hamingjuríka viðburði og sorgaratburði.

 

Frá 1549 safnaði hann spádómum sínum saman í árbók, almanök, þar sem hann sagði fyrir um mikilsverðustu viðburði komandi árs.

 

Almanakinu skipti hann upp í stjörnuspekikafla, dagatal fyrir árið og í lokakaflanum birti hann spár sem líkja má við þær stjörnuspár sem enn birtast í dagblöðum og tímaritum.

 

Þótt almanök hefðu áður verið útbreidd, náðu almanök Nostradamusar miklum vinsældum á skömmum tíma.

 

Hjátrúin var útbreidd í Frakklandi og ekki leið á löngu þar til nafn spámannsins – Nostradamus – var orðið þekkt og naut virðingar.

 

Stjörnuspekingurinn fór nú líka að skrifa bækur um önnur efni. Árið 1552 gaf hann t.d. út „Ritgerð um húðvörur og sultur,“ þar sem hann birti m.a. uppskriftir að ilmvötnum og ávaxtamauki og studdist þar við reynslu frá ferðum sínum.

 

En Nostradamus taldi hæfni sína ná talsvert lengra en til sultugerðar og veðurfars næsta árs.

 

Með samanburði á stöðu reikistjarna fyrr á tímum og í framtíðinni, taldi hann sig geta spáð fyrir um viðburði allt fram til ársins 3797.

Eftir dauða eiginmannsins útnefndi drottningin Nostradamus sem hirðstjörnuspeking.

Drottning leitaði ráða spekingsins

Katarina Medici var höll undir hjátrú og var mikill aðdáandi Nostradamusar.

Franska drottningin Katarina Medici hafði mikil áhrif á frama Nostradamusar þegar hún gerði hann að hirðspámanni 1559.

 

Hún var fædd í Flórens en giftist Hinrik 2. Frakkakonungi þann 13. apríl 1519 og varð móðir þriggja síðari konunga landsins.

 

Öfugt við eiginmann sinn hreifst hún mjög af stjörnuspeki og las almanak Nostradamusar 1555 af miklum áhuga en þar skrifaði hann um örlög konungsfjölskyldunnar og bættist þá í hraðvaxandi aðdáendahóp hans.

 

Eftir að Hinrik 2. lést 1559 var sonur konungshjónanna krýndur konungur en í raun ríkti Katarina bak við tjöldin allt til dauðadags 1589.

Nostradamus og spádómarnir

Versin má túlka á ýmsa vegu

Í maí 1555 gaf spámaðurinn út fyrsta bindi þess ritverks sem enn varpar dularfullum ljóma á nafn hans: „Spádómarnir“.

 

Í bókinni birtust 353 af alls 942 spádómum sem formaðir voru sem fjögurra lína erindi eða vers, þar sem dregnar eru dapurlegar útlínur þurrka, hungursneyða, valdasjúkra drottnara, flóða og styrjalda.

 

Þessi vers voru fjarri því að vera einföld og skýr. Sjálfur talaði Nostradamus um „þokur í stað skýrra spádóma.“

 

Hann sleppir því viljandi að vísa til ákveðinna ártala og spádómarnir eru heldur ekki í neinni tímaröð.

 

Í versunum skiptir hann óhikað á milli frönsku, latínu, grísku og staðbundins máls í héraðinu. Það má líta á versin sem orðaleiki, blandaða stafarugli – t.d. kallar hann París Rapís – og stundum sleppir hann stöku orðum eða jafnvel setningum.

 

Þessir óskýru spádómar hafa verið túlkaðir og oftúlkaðir á óteljandi vegu. Ágætt dæmi er sannanleg oftúlkun þessa erindis: „Frelsið snýr ekki aftur / Stoltur skúrkur mun hernema / Þegar málefni brúarinnar verður opnað / Feneyjalýðveldið verður skekið af Hister“.

 

Orðið Hister hefur verið túlkað sem Hitler og þessar hendingar þar með sem spádómur um útþenslu Hitlers í Evrópu.

 

Nafnið Hister var hins vegar á miðöldum haft um Dóná – og spádómurinn gæti því fremur átt að segja fyrir um endurkomu Húna til Evrópu.

 

Í ritum sínum forðaðist Nostradamus líka nákvæmt orðalag sem hefði getað komið honum í ónáð hjá valdhöfum eða kirkjunni.

 

Þótt lýsingarnar á vinnu hans í kvistherberginu gætu leitt hugann að því yfirskilvitlega, hélt hann því fram opinberlega að spádómar hans kæmu beint frá Guði.

 

Félli hann í ónáð hjá kaþólsku kirkjunni gæti það hafa kostað hann lífið. Til að tryggja sig enn frekar tileinkaði Nostradamus verk sín hátt settu fólki, m.a. af frönsku konungsættinni.

 

Nú á dögum líta sagnfræðingar á hið óskýra orðalag sem snjallt og úthugsað bragð.

 

Það eru einmitt hinir óskýru orðaleikir sem gerðu ómögulegt að meta spádómshæfni Nostradamusar eða láta hann sæta ábyrgð fyrir falsanir.

 

Spádómarnir geta sem best fallið nákvæmlega að því samhengi sem lesandinn kýs. Vísindamenn nútímans eru þó á einu máli um að þessi franski spámaður hafi ekki verið gæddur neinum sérstökum hæfileikum, heldur bara notað dulrætt orðalag.

942 spádómar ritsins „Spádómar“ eru varðveittir. Ritverkið kom út 1555-1558.

Nostradamus og hirðin

Hirðin gerði boð eftir Nostradamusi

Þrátt fyrir mjög óskýrt orðalag – eða kannski einmitt vegna þess – breiddust frásagnir af nánast óhugnanlegum, yfirnáttúrulegum hæfileikum Nostradamusar hratt út í Suður-Frakklandi.

 

Það leið heldur ekki á löngu áður en áhugi kviknaði hjá konungshirðinni á þessum lágvaxna og þrekna gyðingi sem gat séð inn í framtíðina.

 

Árið 1555 fékk Nostradamus boð frá Hinrik 2. konungi sem nú vildi hitta þennan 52 ára gamla lækni og bauð honum til hirðarinnar í París.

 

Ástæðan var sú að í nýjasta almanaki sínu hafði Nostradamus varað við því að ógn steðjaði að konunginum.

 

„Konungurinn þarf að gæta sín og sjá til þess að einn eða fleiri haldi ekki áfram aðgerðum sem ég þori ekki að lýsa,“ hafði hann skrifað.

 

Nostradamus getur hafa haft fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur á þeirri 800 km löngu ferð sem hann tókst nú á hendur frá Provence til Parísar.

 

Hinrik 2. var þekktur fyrir hörku sína gagnvart villutrúarmönnum og spámaðurinn óttaðist að höfuð hans fyki af bolnum. En svo fór þó ekki.

 

Sagnfræðingar álíta að drottningin, Katarina Medici sem hafði mikinn áhuga á stjörnuspeki og yfirnáttúrulegum atburðum, hafi fallið fyrir hæfileikum sjáandans. En um hvað konungshjónin og spámaðurinn ræddu segja heimildir alls ekki neitt.

 

Eftir heimkomuna frá höfuðborginni hélt Nostradamus áfram að skrifa spádóma sína. Og þar eð sjálf konungshjónin höfðu leitað ráða hjá honum, barði nú fólk úr öllum stéttum að dyrum hjá honum og bað hann að spá fyrir sig.

 

Hann var fenginn til að teikna stjörnuspákort og líka til ráðgjafar um gjöful viðskiptatækifæri. Jafnvel prestar leituðu nú til Nostradamusar, þótt framtíðarspár hans nytu ekki beinlínis velþóknunar kirkjunnar.

 

Vinsældir spádóma Nostradamusar fengu þó dálítið misjafnar undirtektir. Sumir viðskiptavinir hans kvörtuðu undan ólæsilegri rithönd og óskýru orðalagi.

 

Það voru ekki síst aðrir stjörnuspekingar sem sjálfir gáfu út almanök sem gagnrýndu hann. Þeir gagnrýndu hann fyrir kæruleysislega útreikninga og að oftúlka niðurstöðurnar.

 

Nostradamus spáði dauða konungs

„Spádómarnir“ breiddust út í Evrópu og laust fyrir 1560 voru þeir þýddir m.a. á ítölsku og ensku. Og einmitt þegar margir héldu að Nostradamus hefði náð hátindi frægðar sinnar, rættist einn spádóma hans.

 

Árið 1559 skipulagði Hinrik 2. Frakkakonungur burtreiðar í tilefni af brúðkaupi dóttur sinnar og í úrslitunum mætti hann ungum kapteini, Gabriel greifa af Montgomery.

 

Báðir voru þeir íklæddir riddarabrynjum frá toppi til táar og báðir höfðu ljón á skjöldum sínum. Þeir knúðu hesta sína af stað og mættust á mikilli ferð á vellinum miðjum.

 

Þegar lensur þeirra skullu á skjöldunum, vildi ekki betur til en svo að lensa greifans brotnaði og stakkst í gegnum gullhlífina fyrir andliti konungsins.

 

Flís úr lensunni lenti í auganu og önnur gekk inn í hálsinn. Flísin í auganu komst áfram inn í heilann og konungurinn dó tíu dögum síðar.

„Unga ljónið mun sigra það gamla / Á orrustuvellinum í einstæðu einvígi / Í gullbúri stingur hann gegnum augu hans / Tvö sár í einu, síðan deyr hann hræðilegum dauða“.
Spádómur Nostradamusar um örlög Hinriks 2.

Dauði Hinriks 2. eftir burtreiðar 1559 festi Nostradamus í sessi sem spámann.

Ekki síst virtist Katarína drottning sjá ógnvekjandi nákvæmt samhengi milli slyssins og vers 35 í „Spádómum“ Nostradamusar.

 

„Unga ljónið mun sigra það gamla / Á orrustuvellinum í einstæðu einvígi / Í gullbúri stingur hann gegnum augu hans / Tvö sár í einu, síðan deyr hann hræðilegum dauða“.

 

Þetta vers hafði mikil áhrif á frama Nostradamusar eftir dauða konungsins. Hann var nú í algerum sérflokki sem spámaður og almanök hans rokseldust meðal sannfærðra Frakka og Englendinga.

 

Nostradamus útnefndur hirðstjörnuspekingur

Allt frá því að Katarína drottning hitti Nostradamus fyrst hafði hún gefið gaum að spádómum hans og eftir dauða konungsins fékk ekkert haggað trausti hennar á spámanninum.

 

Upp úr 1560 útnefndi hún hann sem konunglegan hirðstjörnuspeking og ráðgjafa. Sjálfur var Nostradamus afar stoltur af þeim titli.

 

Hirðin leitaði til hans þegar hinir konungbornu þurftu að láta spá fyrir sér eða gera stjörnuspákort.

 

Meðal annars skýrði hann stöðu reikistjarnanna árið 1564 fyrir Rúdolf erkihertoga af Austurríki og son Maximilians konungs af Róm.

 

Þetta er eina stjörnuspákort Nostradamusar sem varðveist hefur í heilu lagi og af niðurskrifuðum vinnupunktum draga sagnfræðingar þá ályktun að gerð þess hafi tekið heila 14 mánuði.

 

Þegar Nostradamus varð 62 ára fann hann dauðann nálgast og tók því að rita erfðaskrá.

 

Eignir hans námu nærri 3.500 écus sem að núvirði gæti samsvarað nálægt 100 milljónum íslenskra króna.

 

Þegar hann lést 2. júlí 1566, var handritið að almanaki hans fyrir árið 1567 tilbúið til prentunar.

 

Nasistar sáu fram á sigur

En jafnvel dauðinn var þess ekki megnugur að binda endi á vinsældir Nostradamusar og sívaxandi vinsældir spádóma hans. Þvert á móti.

 

Spádómarnir voru prentaðir aftur og aftur og svo óljóst sem orðalagið er, hefur ekki verið neinum vandkvæðum bundið að finna líkindi með fjölmörgum atburðum á þeim öldum sem síðan hafa liðið.

 

Einkum er það á kreppu- eða hamfaratímum sem Spádómarnir hafa verið dregnir fram og lúslesnir eina ferðina enn.

 

Í Englandi voru margir sannfærðir um að þessi franski sjáandi hefði varað við tímamótaviðburðum svo sem aftöku Karls 1. Stuart 1649 og brunans mikla í London 1666.

 

Á 20. öld uxu vinsældir Nostradamusar enn til muna.

 

Þegar áróðursráðherra nasista, Jósep Göbbels, þóttist sjá að Nostradamus hefði spáð fyrir um glæsileika Þriðja ríkisins, lét hann í skyndi prenta áróðursbækling sem gaf til kynna að sigur nasista væri skrifaður í skýin.

 

Bæklingnum var dreift víða í Evrópu og Bretar létu ekki standa á svari.

 

Þeir tóku sjálfir að grúska í spádómum sem kenndir voru við Nostradamus. Þessir spádómar leiddu í ljós að Frakkinn hafði ekki spáð Þriðja ríkinu sigri – heldur ótvíræðum ósigri Þjóðverja.

 

Síðast tók áhugi á spádómum stjörnuspekingsins mikinn kipp þegar tvíburaturnarnir World Trade Center voru jafnaðir við jörðu 11. september 2001.

 

Og eins og svo oft áður var snúið út úr versum spámannsins, þau jafnvel fölsuð og að lokum túlkuð inn í samhengið á sannfærandi hátt.

 

5 furðuspádómar Nostradamusar

Meira en fjórum öldum eftir dauða Nostradamusar vekja spádómar hans enn spurningar. Svo virðist sem hann hafi spáð fyrir um allt frá dauða konungs síns til innrásar Hitlers í Pólland og árásarinnar á tvíburaturnana.

 

Allt frá dauða Nostradamusar 1566 hafa menn dregið fram rit hans, Spádómana og lesið vandlega á krepputímum og eftir hamfarir og einkum eru það fimm spádómar sem hafa vakið athygli:

Nostradamus reiknaði stöðu reikistjarnanna samkvæmt gömlu, grísku kerfi.

1. Bruninn mikli í London (1666)

„Blóðs hinna réttlátu verður krafist í London, brennd af eldkúlum mun gamla dómkirkjan falla,“ segir Nostradamus m.a. í versi 51. Þessi spádómur var talinn ótvíræð sönnun um sjáandahæfni hans þegar bruni herjaði á London og St. Pauls-dómkirkjan brann til grunna 1666.

 

2. Frelsisstyttan reist (1886)

„Nývalinn verndari hins mikla farartækis / Hinn bjarti logi mun skína um langa hríð / Verður sem lampi fyrir þetta stóra svæði.“ Spádómurinn virðist lofa bjartri framtíð fyrir Bandaríkin, þar sem Frelsisstyttan lyftir kyndli sínum í New York.

 

3. Hitler ræðst á Pólland (1939)

„Frelsið snýr ekki aftur / Stoltur skúrkur mun hernema / Þegar málefni brúarinnar verður opnað / Feneyjalýðveldið verður skekið af Hister“. Hister var þó einnig latneska heitið á Dóná.

 

4. Heimsendir (1999)

Heimsendi hefur verið spáð á grundvelli þessa vers og hins sérstaka ártals:

„Árið 1999, sjö mánuðir / Af himni kemur stór ógnarkonungur / Til að vekja hinn stóra konung mongóla aftur til lífsins / Fyrir og eftir verður Mars einráður.“

 

5. Hryðjuverkaárásin 11. september (2001)

„Himinninn mun brenna við 45 gráður / Eldurinn nálgast hina stóru borg / Stórir dreifðir logar spretta samstundis upp“. Spádómurinn virðist annað hvort vísa til stöðu New York mjög nálægt 45. breiddargráðu eða hornsins sem seinni flugvélin kom úr, þegar hún rakst á turninn.

Lestu meira um Nostradamus

John Hogue: Nostradamus: The Complete Prophecies, Thorsons, 1997

 

Erika Cheetham: The Final Prophecies of Nostradamus, TarcherPerigee, 1989

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: LASSE TELLING MADSEN

Wellcome Collection,© Getty Images,© Alonso de Mendoza/Florence Museum,© AKG-Images,© 360production

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Heilsa okkar ræðst af blóðinu

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Lifandi Saga

Nasistar leituðu arísks menningarheims í Tíbet

Glæpir

Newton upprætti peningafölsun í Englandi

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Vinsælast

1

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

5

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

6

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

1

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

2

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

3

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

4

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

5

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

6

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

Lifandi Saga

Versti óvinur skógareldanna

Lifandi Saga

Í fallhlíf til helvítis: Slökkviliðsmenn stukku beint niður í eldhafið

Maðurinn

Göngutúr heldur heilanum heilbrigðum

Menning og saga

5 fornleifafundir sem raskað hafa sögu mannsins

Heilsa

Vísindamenn hafa fundið mikilvægan eiginleika sem er sameiginlegur öllum sem náð hafa 100 ára aldri.

Lifandi Saga

Belgía biður Kongó afsökunar – með tönn

Lifandi Saga

Af hvaða kynstofni var Kleópatra?

Lifandi Saga

Kitty var Kim Kardashian 18. aldar

Heilsa

Bakteríurnar þrífast vel í handklæðinu þínu

Lifandi Saga

Voru víkingarnir húðflúraðir?

Menning

Þess vegna verða konur þreyttar á (sumum) körlum

Náttúran

Í frysti frá dánarstund

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Sagt er að franska drottningin María Antonía, betur þekkt sem Marie-Antoinette, hafi orðið hvíthærð kvöldið áður en hún var hálshöggin árið 1793. Er þetta yfirleitt hægt?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is