Undir Yellowstone-þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum er svokölluð ofureldstöð. Brjótist þar út eldgos er talið að um 90.000 manns muni láta lífið samstundis.
Risastórt gjóskuský mun líka teygja sig til himins og dreifa sér í allt að 1.600 km fjarlægð, byrgja fyrir sólskin og síðan kæla allan hnöttinn.
Einmitt af þeirri ástæðu er þessi ofureldstöð ein sú best rannsakaða í heiminum.
Nú hefur hópur vísindamanna hjá Kaliforníuháskóla sýnt fram á að í kvikuhólfinu undir Yellowstone-sigkatlinum leynist tvöfalt meiri hraunkvika en álitið hefur verið. Niðurstöðurnar hafa verið birtar í vísindatímaritinu Science.

Yellowstone þjóðgarðurinn ólgar af eldvirkni. Tvö kvikuhólf á milli tíu og fimmtíu kílómetra dýpi innihalda samtals tæplega 60.000 rúmkílómetra af kviku.
Yellowstone er í gríðarmiklum sigkatli sem myndast hefur við eldgos og þar undir er gríðarlega stórt kvikuhólf.
Sé magn kvikunnar þekkt kemur það vísindamönnum að góðu haldi við að meta hve nálægt gosi eldstöð sé komin en það er örðugt að skoða það sem er undir yfirborðinu, ekki síst ef þar ríkir 800 gráðu hiti.
Vísindamennirnir ákváðu þess vegna að prófa nýjar aðferðir til að komast að því hve mikil kvika leyndist undir eldstöðinni og hvernig hún lægi.

Mikið magn heitrar kviku hefur skapað einstaka náttúru með hverum og heitum uppsprettum.
Fyrir valinu varð nýþróuð sneiðmyndavinnslutækni til að greina jarðskjálftabylgjur sem greinst höfðu á árabilinu 2000-2018.
Til að túlka margvíslegan titring í gagnasafninu nýttu þeir sér ferli sem kallast FWI (Full Waveform Inversion) og er í sem stystu máli hugbúnaður til líkanagerðar sem gefur afar nákvæma mynd af hraða skjálftabylgna.
Með því að nota gríðaröfluga ofurtölvu mátti nú greina hvernig hraði mældra bylgna breyttist á mismunandi dýpi.
Þegar þetta var skoðað í þrívídd fékkst mun fullkomnari mynd af massanum undir Yellowstone.

Loftmynd af Grand Prismatic Spring í Yellowstone þjóðgarðinum.
Niðurstöðurnar sýndu að kvikumagnið undir Yellowstone-sigkatlinum er á bilinu 16-20% af bergmassanum. Þetta er allt upp í fjórfalt meira en fyrri áætlanir sem gerðu ráð fyrir 5-10%.
Þótt aukningin virðist óneitanlega mikil, hvetja vísindamennirnir fólk til rósemi. Talið er að hlutfall bráðins bergs þurfi að fara upp í 35-50% til að gos hefjist og því er ekki mikil hætta á gosi í nánustu framtíð.
Ofureldstöðin í Yellowstone er meðal þeirra allra stærstu sem þekktar eru. Á síðustu 2,1 milljón árum hafa einkum þrjú gos verið afar stór. Hið síðasta þeirra varð fyrir 631.000 árum.