Elísabet 1. var þekkt fyrir að vera meydrottning, þó svo að margir gerðu tilraun til að breyta þeim titli í valdatíð hennar (1558-1603). Enska þingið hafði áhyggjur af erfðaröðinni og reynt var að tala drottninguna inn á að ganga í hjónaband en þar sem hún var viss um að eiginmaður myndi aðeins ræna hana krúnunni hafnaði hún hverjum vonbiðlinum á fætur öðrum.
Meira að segja Sixtus páfi 5. gerði hosur sínar grænar fyrir Elísabetu, þrátt fyrir að hún teldist vera svarinn óvinur kaþólsku kirkjunnar. Kirkjuleiðtoginn á eitt sinn að hafa hrópað í hrifningu:
„Sjáið hvað hún stjórnar vel! Hún er bara kona sem ríkir einungis yfir hálfri eyju en engu að síður veldur hún ugg á Spáni, í Frakklandi, Þýsk-rómverska keisararíkinu, já alls staðar. Afkomendur okkar gætu stjórnað öllum heiminum“.
Í raun réttri var það ekki eins ógerlegt og það kynni að hljóma að páfi eignaðist börn, jafnvel þótt kaþólska kirkjan krefðist skírlífis af páfum, kardínálum og prestum.

Elísabet 1. stjórnaði Englandi frá 1558 til dauðadags 1603.
Alexander 6. sem gegndi páfatign á árunum 1492 til 1503 og tilheyrði hinni valdamiklu Borgia-fjölskyldu, eignaðist að minnsta kosti sjö börn í lausaleik. Sonur hans Cesare varð síðar meir kardínáli og fylgdi í fótspor föður síns með því að skipuleggja heljarinnar kynlífssvall árið 1501.
Svallveislan gekk undir heitinu „Kastaníuballið“ en naktar gleðikonur hófu veisluna á því að skríða um gólfið og tína upp kastaníur á meðan gestirnir horfðu á.
Leynilegir elskhugar gerðir að biskupum
Að minnsta kosti fjórir af fyrirrennurum Alexanders og eftirmönnum hans eignuðust börn í lausaleik. Þá áttu sumir einnig í ástarsambandi við karla. Sem dæmi má nefna Sixtus 4. sem var páfi á árunum 1471-1484 en hann úthlutaði elskhugum sínum gjarnan biskupsdæmum.
Elísabet 1. og Sixtus 5. dáðust einungis hvort að öðru úr fjarlægð en hvorki drottningin né páfinn eignuðust börn. Þegar meydrottningin lést tók nánasti ættingi hennar, Jakob Skotakonungur, fyrir vikið við ensku krúnunni.