Það er ekki nóg með að maurar séu iðnir og hjálpist að við að lyfta greinum og laufblöðum sem eru miklu stærri en þeir sjálfir.
Í vísindaritinu Nature hafa nú birst rannsóknarniðurstöður sem sýna að eftir að mauralirfur hafa púpað sig, losa þær næringarvökva sem hjálpar til að halda bæði fullvöxnum maurum og lirfum á lífi.
Lirfurnar eru háðar þessum vökva svipað og ungar spendýra eru háðir móðurmjólkinni. Lirfur sem ekki fá þennan vökva verða fremur fyrir sveppasýkingum sem drepa þær á púpustiginu og þetta kom mörgum vísindamönnum á óvart.
„Það er merkilegt að enginn skuli hafa tekið eftir þessu fyrr,“ segir Patrizia d‘Ettore sem er atferlisfræðingur hjá Sorbonneháskóla í París og útskýrir þetta svo nánar:
„Púpurnar hafa ekki verið taldar gegna neinu hlutverki, þar eð þær hreyfa sig ekki, éta ekki en eru bara fluttar til eftir hentugleikum en þessi rannsókn afsannar það.“
Þróunarhlutverk
Rannsóknin sýndi líka að hin svonefnda púpumjólk er ekki bundin við eina tegund, heldur gegnir þvert á móti hlutverki hjá fimm stærstu undirættunum en þær eru allar skipaðar fjölmörgum tegundum.
Uppgötvunin bendir til að púpumjólkin gæti reynst gegna hlutverki varðandi félagslega uppbyggingu maurabúanna.
„Þetta fyrirbrigði hefur þróast annað hvort skömmu eftir að maurar urðu félagsdýr eða jafnvel áður,“ segir Daniel Kronauer, líffræðingur hjá Rockefellerháskóla.
Næsta skref verður að rannsaka hvaða áhrif mjólkin hefur annars vegar á lirfur og hins vegar á fullvaxna maura með tilliti til atferlis og líkamsbyggingar – og þá um leið hvort aðgangur að púpumjólk hefur áhrif á það hvort lirfurnar þróist í drottningar eða vinnumaura.