Það er algengt einkenni geðklofa að heyra raddir í höfðinu og þetta veldur alvarlegum vandamálum í daglegu lífi.
Nú hafa vísindamenn hjá Caenháskóla í Frakklandi fundið mögulega aðferð til að slökkva á þessum röddum.
Rafstraumur í heilann
Vísindamennirnir hafa sýnt fram á að raddirnar þagna þegar heilinn verður fyrir gegnumstreymisörvun segulrafmagns.
Aðferðin byggist á því að senda rafstraum gegnum sérvalda staði í heilanum með því að setja upp segulsvið kringum höfuðkúpuna.
Marktæk breyting
Í tilrauninni svöruðu 59 sjúklingar fyrst allmörgum spurningum um raddirnar sem þeir heyrðu í höfðinu, svo sem hve oft þeir heyrðu raddirnar og hvort raddirnar virtust koma utan frá eða eiga upptök í höfðinu sjálfu.
Á grundvelli svaranna gátu vísindamennirnir staðsett hvern og einn á ofskynjanakvarða.
Næst var þátttakendum skipt af handahófi í tvo hópa. Annar fékk markvissa örvun, en hinn aðeins falska – sem sagt enga raunverulega örvun.
35% þeirra sem fengu markvissa örvun fundu marktæka breytingu, en í samanburðarhópnum heyrðu einungis 9% færri raddir en áður.
Vísindamennirnir hyggjast nú rannsaka hvort unnt sé að beita aðferðinni til að hjálpa sjúklingum til lengri tíma litið.