Search

„Ríkisstjórn yðar stendur fyrir svikum, gripdeildum og morðum“

Leópold 2., Belgakonungur, sagði G.W. Williams uppnuminn frá Kongó. Bandaríski blaðamaðurinn ákvað að leggja land undir fót og virða þessa nýlendu konungsins fyrir sér með eigin augum. Það sem fyrir augun bar varð til þess að hann ritaði konunginum reiðilegt bréf.

BIRT: 28/05/2022

LESTÍMI:

5 mínútur

Stanley Falls, Afríku, 18/7 1890

 

Kæri góði og háæruverðugi vinur

Ég fæ þann heiður að fá að senda yðar hátign nokkrar vangaveltur mínar um fríríkið Kongó*. Ígrundanir mínar byggja á nákvæmum rannsóknum og því sem ég sjálfur veitti athygli í því ríki sem þér sjálfur hafið stofnað í afrísku heimsálfunni.

 

* Á árunum 1885 til 1908 átti Leópold 2. sitt eigið landsvæði í miðri Afríku. Konungurinn nefndi svæðið Fríríkið Kongó.

Á síðasta ári lagði ég af stað og gerði mér miklar væntingar um heimsóknina til ríkis yðar í Afríku. Mér er það skylt að segja yður opinskátt en þó með tilhlýðilegri virðingu, frá vonbrigðum mínum eftir heimsóknina sem í raun dró úr mér allan kjark.

 

Allar þær athugasemdir sem ég set hér fram gegn stjórninni sem þér hafið valið til að stjórna ríkinu Kongó byggja á gaumgæfilegum athugunum mínum.

 

Staðhæfingum mínum til sönnunar eru mörg ábyrg vitni, skjöl, bréf og opinber rit.

George W. Williams

Var uppi: 1849-1891.

 

Þjóðerni: Bandaríkjamaður.

 

Starf: Hermaður, prestur, lögfræðingur, stjórnmálamaður, blaðamaður og rithöfundur.

 

Hjúpskaparstaða: Kvæntur og faðir eins sonar.

 

Þekktur fyrir: Williams var fyrsti bandaríski sagnfræðingurinn sem ritaði bækur um framlag þeldökkra til sögu landsins. Meðal rita hans eru yfirgripsmikli sagnaflokkurinn „History of the Negro Race in America From 1616 to 1880“, auk annarra rita um þeldökka hermenn í bandaríska borgarastríðinu.

Stofnun ríkisins fór fram á þann hátt að hr. Henry M. Stanley sendi hvítan mann á staðinn, ásamt fjórum eða fimm hermönnum frá Zanzíbar, í því skyni að knýja fram samninga við höfðingja þeirra innfæddu.

 

Röksemdafærslan var sú að hvíti maðurinn tæki það ákaflega nærri sér að frétta af öllum þeim styrjöldum sem geisuðu milli höfðingjanna og þorpanna. Hvíti maðurinn væri nefnilega fær um að halda friðinn við þeldökka meðbræður sína. Evrópubúar hugðust fyrir vikið sameina ættflokkana til þess að þeir gætu betur varið sig og komist yfir meira ríkidæmi.

Á meðan Kongó heyrði undir konunginn létust 15 milljón Kongóbúar úr sulti, sjúkdómum svo og af völdum ofbeldis.

Öllum brögðum í bókinni var beitt og von bráðar höfðu mörg þorp gefið sig yður á vald í skiptum fyrir örfáa ginkassa.

 

Ríkisstjórnin hefur, eftir því sem ég best veit, aldrei staðið við neitt af því sem hafði verið lofað, þ.e. „að reyna eftir fremsta megni að bæta þekkingu þjóðarinnar og tryggja velferð fólksins” *.

 

Stjórn yðar hátignar hefur ekki varið einum eyri í menntun, né heldur hefur hún sett á laggirnar eitt einasta iðnfyrirtæki. Það kerfi sem stjórnar vinnuaflinu er ákaflega óhagkvæmt.

 

* Loforð um velferð íbúunum til handa var forsenda þess að aðrir nýlenduherrar viðurkenndu völd Leópolds yfir Kongó.

Hermenn og verkamenn hafa nánast allir verið fluttir inn frá Zanzíbar, Sierra Leóne, Líberíu, Accra eða Lagos. Evrópubúar myndu ekki einu sinni bjóða nautgripum sínum upp á þær aðstæður sem eru viðhafðar þegar mannskapurinn er fluttur til nýlendunnar.

 

Á ferðalaginu er fólkinu boðið upp á hita og rigningu og farþegarnir gista undir þiljum þar sem er rakt og skítugt og oft er þeim hrúgað í eina kös. Margir þeirra láta að sjálfsögðu lífið á leiðinni.

 

Þegar þeir sem komast lífs af koma til Kongó eru þeir látnir vinna fyrir einn skilding* á dag. Hermönnum er lofað 16 skildingum á mánuði en þegar upp er staðið fá þeir sjaldnast nokkuð annað en ódýra vasaklúta og gin sem er svo lélegt að það er nánast eitrað.

 

* Launin voru greidd í breskum skildingum. Launin voru skammarlega lág, bæði til handa hermönnum og verkamönnum.

Ríkisstjórn yðar hátignar býr ekki yfir þeim siðferðislega, herkænskulega og fjárhagslega styrk sem nauðsynlegur er ef ætlunin er að ríkja yfir landsvæði af þessari stærðargráðu. Frá Leópoldville til N’Gombe sem er í rösklega 300 mílna fjarlægð er ekki að finna einn einasta hermann né heldur óbreyttan belgískan borgara.

 

Ekki einn einasti af öllum tuttugu ríkisembættismönnum talar tungumál þeirra innfæddu, þó svo að þeir setji lög sem jafnvel Evrópubúar ættu í basli með að skilja.

Leopold II konungur stofnaði fríríkið Kongó árið 1885. Starfsmenn nýlendunnar voru látnir vinna í námum og gúmmíplantekrum og á 19. öld var Leopold II einn stærsti gúmmíframleiðandi heims.

Mannvonska af verstu gerð er stunduð í garð hinna innfæddu en sem dæmi má nefna að þrælar eru grafnir lifandi ásamt höfðingjum sínum og höfuðin höggin af stríðsmönnum sem teknir eru til fanga.

 

Ríkisstjórn yðar hátignar lyftir ekki litla fingri til að stöðva athæfi þetta.

 

Ríkisstjórn yðar hágöfgi meðhöndlar fanga sína af óheyrilegri grimmd. Fangarnir eru látnir inna af hendi nauðungarvinnu, þeir eru hlekkjaðir saman á þann hátt sem hvergi tíðkast í hinum siðmenntaða heimi, né heldur annars staðar.

„Vesalingarnir eru barðir áfram dag hvern með reipi á meðan blóðið drífur úr þeim“.

G.W. Williams.

Uxakeðjurnar skerast inn í háls fanganna og valda sárum sem flugurnar leita í. Vesalingarnir eru barðir áfram dag hvern með reipi úr þurrkaðri flóðhestshúð á meðan blóðið drífur úr þeim.

 

Konur eru fluttar til landsins í einkar ósiðlegum tilgangi. Konurnar eru þangað komnar eftir tveimur leiðum: Annars vegar eru þeldökkir menn sendir að portúgölsku strandlengjunni þar sem þeir leigja ástkonur fyrir hvítu mennina sem síðan greiða mánaðarleigu fyrir greiðann.

 

Hin aðferðin er fólgin í því að taka innfæddar konur og dæma þær í sjö ára þrælkunarvinnu fyrir einhvern glæp sem þær hafa ekki framið. Ríkið leigir konurnar síðan hæstbjóðanda. Liðsforingjunum gefst kostur á að bjóða fyrst í konurnar og síðan fá óbreyttu hermennirnir tækifærið. Ef börn koma undir við þessar aðstæður álítur ríkið konurnar vera eign ríkisins og sama máli gegnir um börnin.

Skopmynd eftir François Maréchal. Teikningin sýnir Leopold II, þýska keisarann Vilhjálm I og rússneska heimsveldið sýnt sem björn með kórónu á Berlínarráðstefnunni árið 1884, sem stjórnaði landnámi og viðskiptum Evrópu í Afríku.

Enn sem komið er hef ég einungis komið á eina herstöð*, þar sem ekki var að finna börn belgískra liðsforingja eða embættismanna sem lifðu við ömurlegar aðstæður. Hvíti maðurinn leyfir embættismönnum Fríríkisins Kongó með öðrum orðum að hýða þeirra eigið hold og blóð.

 

Ríkisstjórn yðar hátignar rekur þrælaverslun og greiðir þrjú pund fyrir hvern hermann. Innfæddu vesalingarnir eru sendir hundruð kílómetra frá þorpum sínum til að gegna herþjónustu með fólki sem talar ekki sama tungumál.

 

* Stöðvarnar voru belgískar herstöðvar þaðan sem svæðinu var stjórnað og sem gegndu hlutverki samkomustaðar fyrir þá Belga sem bjuggu á staðnum.

Niðurstaða mín er eftirfarandi: Ríkisstjórn yðar stendur fyrir svikum, gripdeildum og morðum, ásamt þrælahaldi og almennri mannvonsku. Hinir innfæddu eru hins vegar þolinmóðir og sáttfúsir gagnvart Belgunum. Samanburðurinn gerir það að verkum að heiðvirt fólk skammast sín fyrir meðhöndlun ríkisstjórnar yðar hátignar á hinum innfæddu sem er allt annað en kristileg og siðfáguð.

 

Allir glæpir sem eiga sér stað í Kongó hafa verið framdir í yðar nafni og það eruð þér sem berið ábyrgðina. Ég biðla til belgísku þjóðarinnar og ríkisstjórnar landsins um að hreinsa sig af þeim glæpum sem svert hafa Fríríkið Kongó.

 

Yðar auðmjúkur og auðsveipur þjónn George W. Williams

 

Eftirmáli

Afhjúpanirnar í þessu opna bréfi Williams áttu þátt í að þvinga Leópold 2. konung til að láta belgíska ríkið yfirtaka fríríki hans en sú breyting átti verulegan þátt í að bæta kjör þeirra innfæddu.

 

Yfirtakan átti sér þó ekki stað fyrr en í nóvember 1908, heilum 18 árum eftir að Williams ritaði þetta reiðilega bréf sitt.

BIRT: 28/05/2022

HÖFUNDUR: Ritstjórn

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © Granger/Imageselect,© The History Collection/Imageselect,© Everett Collection/Shutterstock,© François Maréchal/Wikimedia Commons,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is