Lifandi Saga

Rolling Stones: Hömluleysið heillaði 

Í druslulegum fötum og með fitugt hár spörkuðu The Rolling Stones upp hurðinni á tónlistarsenunni eins og sannir uppreisnarseggir árið 1962. Konur, eiturefni og smellir komu á færibandi fyrir bandið en harmleikurinn beið álengdar.

BIRT: 08/12/2022

Það er bankað stöðugt á dyrnar á herrasetri Keith Richards í Suður-Englandi. Eignin er fyrsta stóra fasteign Richards frá því að hljómsveit hans The Rolling Stones varð heimsfræg. Þessa helgi í febrúar árið 1967 hefur hann boðið félögum sínum í hljómsveitinni, Mick Jagger og öðrum vinum heim til sín í sannkallaða fíkniefnaorgíu. Í tvo sólarhringa hafa gestir og gestgjafi legið í makindum fyrir framan risavaxinn arinn setursins í stöðugri vímu af LSD, hassi og amfetamíni – sem er svo sem ekkert óvenjulegt fyrir þennan félagsskap.


„Hver í fjandanum er þetta?“ hvæsir Jagger.


„Ekki hleypa þeim inn, Keith,“ heyrist frá kærustu Jaggers, Marianne Faithful, þar sem hún situr nakin á gólfinu í hvítum loðfeldi. Hún starir áhugasöm á flöktandi sjónvarpið en ekkert hljóð berst frá því.

 


Áfram er barið stöðugt á hurðina og fyrir utan er fjöldi manna á ferli. Richards nær að draga sig upp úr sófanum og kíkir út um gluggann. Í LSD-vímunni sér hann hvernig allur garðurinn er sneisafullur af dvergum. Höggin ágerast og þegar Richards opnar dyrnar á endanum blasir við honum fjöldi lögreglumanna og yfirmaður þeirra þrýstir húsrannsóknarheimild í fangið á honum.

Árið 1966 keypti Keith Richards sveitasetrið Redlands í Sussex. Hann fann staðinn þegar hann keyrði fram hjá honum eftir að hafa villst af leið í bíl sínum.

20 lögregluþjónar streyma inn í húsið og grandskoða mublur og teppi í leit að efnum sem liggja á dreif út um allt í litlum pokum. Líkamsleit er framkvæmd á Richards og gestum hans og lögreglan fiskar fjórar amfetamínpillur upp úr vasa Jaggers. Varsla fíkniefna er stranglega bönnuð í Englandi og þrátt fyrir að lögreglumennirnir finni ekkert á Richards bendir lögreglustjórinn honum á að hann eigi á hættu að vera hnepptur í fangelsi fyrir að leyfa notkun ólöglegra efna á heimili sínu.

 

Þegar lögreglan er farin og víman runnin af þeim, gera Jagger og Richards sér grein fyrir því að þeir geti mögulega verið í miklum vandræðum. Þeir eru nýju rokkstjörnur heimsins en ensk yfirvöld hata ögrandi framkomu hljómsveitarinnar – og hafa nú mögulega náð taki á þeim. Hömlulaus neysla The Rolling Stones ógnar bæði hljómsveitinni og meðlimum hennar.

Mick Jagger reyndi að forðast myndavélarnar eftir að hann var handtekinn árið 1967 fyrir vörslu fíkniefna.

Bandið varð til í svínastíu

Fimm árum áður en lögreglan gerði rassíu í Redlands vissi enginn af Mick Jagger og Keith Richards. Árið 1962 voru The Beatles hins vegar á allra vörum í Englandi, enda höfðu þeir slegið í gegn með heillandi melódíum og textum. Og meðan Bretar sungu „Love me do“ og unglingsstúlkurnar voru að missa sig, þá sátu Jagger og Richards og djömmuðu blús með vini sínum Brian Jones.

 

Félagarnir þrír deildu saman hrörlegri tveggja herbergja leiguíbúð í útjaðri Lundúna. Vatnsleiðslurnar láku, flagnandi veggfóðrið var alsett myglublettum og loftið var svart af sóti frá kertaljósum. Út um allt lá óhreinn þvottur og torkennilegar matarleifar. Sjálfir líktust drengirnir einhverju sem kötturinn hefði getað dregið inn og nágrannarnir höfðu ekki græna glóru um hvað þessir nýju íbúar voru að aðhafast.

 

Einn leigjandi á efri hæðinni sagði síðar:

 

„Næstum allan daginn eða á nóttunni, komu undarleg hljóð frá íbúð þeirra. Við héldum í fyrstu að þetta væri eitthvað glæpagengi, þrátt fyrir að þeir hafi alltaf verið kurteisir þegar maður mætti þeim á ganginum. Og margir nágrannar voru hræddir við þá vegna þess að þeir voru með sítt hár og í skítugum fötum“.

„Rakinn þarna niðri var eitthvað af því versta sem ég hef upplifað. Maður óð í vatni milli allra rafmagnsleiðslanna. Það er kraftaverk að margir hafi ekki fengið raflost og drepist“.

Keith Richards um The Ealing Club, fyrsta spilastað The Rolling Stones.

Í þessari niðurníddu íbúð stofnuðu þessir óhefðbundnu leigjendur hljómsveitina The Rolling Stones – en hljómsveitin var nefnd eftir lagi sem ein helsta fyrirmynd þeirra blúsgítarleikarinn Muddy Waters hafði samið. Félagarnir þrír spiluðu bandarískan blús og innan tíðar fengu þeir leyfi til að koma fram á djassstaðnum The Ealing Club sem var í kjallara skammt frá einni endastöð á neðanjarðarlest Lundúna.

 

„Rakinn þarna niðri var eitthvað af því versta sem ég hef upplifað. Maður óð í vatni milli allra rafmagnsleiðslanna. Það er kraftaverk að margir hafi ekki fengið raflost og drepist“, sagði Richards mörgum árum síðar.

 

Klúbburinn var einn fárra í Lundúnum þar sem áhorfendur voru hrifnir af blús – þrátt fyrir að nokkrir hinna eldri í hópnum fáruðust yfir því hvað Stones væru illa til hafðir og skítugir og líktust einna helst „dýrahjörð“. Aðrir, einkum hinir yngri, voru ákaflega hrifnir af uppreisnarandanum sem fólst einkum í leiftrandi gítarleik Jones og Richards og eggjandi mjaðmahnykkjum Jaggers.

Einn af fyrstu tónleikastöðum sem Stones spilaði reglulega á var í litlu bakherbergi á Crawdaddy klúbbnum í London. Staðurinn er enn til en er í dag hluti af hóteli.

Veturinn 1962 – 1963 voru bassaleikarinn Bill Wyman og trommuleikarinn Charlie Watts teknir inn í grúppunna og margir í neðanjarðarheimum tónlistarinnar fóru að mæra þetta nýja band sem fékk smám saman að koma fram á fleiri stöðum.

 

„Þessir ungu gaurar virðast lifa í eigin heimi, þegar þeir dúndra út villtri og æsandi tónlistinni og kveikja á öllum í salnum. Ungir aðdáendur hafa aldrei upplifað annað eins“, sagði einn tónleikahaldarinn.

 

Þeir voru við það að slá í gegn.

Sundurleitur hópur

Þegar hljómsveitin The Rolling Stones var stofnuð í London árið 1962-63 voru það ansi ólíkir persónuleikar sem fylltu flokkinn – og þeir voru sex.

 

Stofnandinn: Brian Jones

Jones stofnaði The Rolling Stones þegar hann birti árið 1962 auglýsingu í tímariti þar sem hann var að leita eftir meðlimum í ryþma og blús grúppu. Hann var frábær gítarleikari en var einnig fjölhæfur tónlistarmaður sem gat spilað á sítar, saxófón og munnhörpu.

Fagmaðurinn: Mick Jagger

Með heillandi sviðsframkomu og æsandi mjaðmahreyfingar var Jagger í fararbroddi þegar hann steig á sviðið. Þessi heillandi söngvari nálgaðist tónlistina af fagmennsku og með tímanum tók hann yfir stöðu Brian Jones sem leiðtogi bandsins.

Villingurinn: Keith Richards

Allt frá táningsaldri var Richards uppreisnargjarn og þess vegna hætti hann einnig í Sidcup Art College til að stefna á tónlistarferil. Hann fann sig hvergi og lenti mörgum sinnum í átökum við áhorfendur en fáir stóðu honum jafnfætis hvað varðar gítarleik.

Gamlinginn: Bill Wyman

Meðan aðrir meðlimir í bandinu voru milli 18 og 21 árs var 26 ára gamli lagerverkamaðurinn Bill Wyman aldursforseti þegar hann kom í bandið sem bassaleikari í desember 1962. Hann yfirgaf hljómsveitina árið 1993 og hefur m.a. verið að selja málmleitartæki eftir eigin hönnun.

Snyrtipinninn : Charlie Watts

Watts spilaði upprunlega djass og var nánast orðinn atvinnumaður í trommuleik, auk þess að starfa sem grafískur hönnuður, þegar hann fékk boð í janúar 1963 um að ganga í The Rolling Stones. Hann var jafnan peni gaurinn í bandinu og var lítt hrifinn af skrækjunum í stúlkunum.

Sjötti steinninn: Ian Stewart

Hinn skoski Stewart hafði verið með frá upphafi en umboðsmaðurinn Andrew Oldham ýtti honum úr hljómsveitinni árið 1963, því honum þótti sex meðlimir vera of margir fyrir aðdáendurna. Á plötum og á sviði hélt Stewart þó áfram að vera píanóleikari Stones í marga áratugi.

Bítlarnir hjálpuðu til með smell

The Rolling Stones spiluðu ennþá einungis ábreiður af söngvum annarra og þrátt fyrir að tónleikar þeirra hafi fengið unga áhorfendur þeirra til að „missa stjórn á sér“ eins og einn blaðamaður skrifaði var bandið ekki ennþá með neinn smell, nýtt lag sem enginn hafði heyrt áður.

 

En ef einhverjir voru færir um að búa til hittara þá voru það Bítlarnir. Og til mikillar lukku fyrir The Rolling Stones fengu þeir í maí 1963 fyrrum almannatengil Bítlanna, Andrew Oldham sem umboðsmann. Einn góðan veðurdag rakst Oldham á John Lennon og Paul McCartney og sagði við þá að þetta nýja efnilega band hans skorti „bara eitt gott lag“.

 

„Þú veist að við fílum Stones og reyndar erum við með eitt lag sem passar langtum betur fyrir þá en okkur,“ minntist McCartney síðar að hafa sagt.

Sambandið við Bítlana bara nokkuð gott eins og t.d. er hægt að sjá í tónlistarmyndinni "Rock and Roll Circus" frá árinu 1968, þar sem Stones komu m.a. fram með John Lennon og Yoko Ono.

Rolling Stones voru nú tilbúnir að spila inn á plötu og þennan sama eftirmiðdag mættu Lennon og McCartney í stúdíóið og sungu og spiluðu lagið „I Wanna Be Your Man“ meðan meðlimir The Rolling Stones fylgdust aðdáunarfullir á framvindu mála.

 

„Þetta er frábært“, sagði Brian Jones stórhrifinn. En Stones vildu ekki hljóma eins og Bítlarnir og þegar lagið var spilað inn voru allir meðlimirnir sammála um að „það þurfti að gera það skítugra“, samkvæmt Wyman.

 

Nokkrum mánuðum síðar kom lagið út sem fyrsta lag þeirra á smáskífu og náði 12. sæti á breska vinsældarlistanum. Í einum vetfangi voru The Rolling Stones þekktir um allt landið en Oldham var staðráðinn í að þeir ættu ekki að hljóma eða vera eins og The Beatles, bara með síðara hár. Jagger, Richards, Jones, Wyman og Watts áttu að halda fast í ímyndina um uppreisnarseggi og temja sér hráan spilastíl til þess að þeir virkuðu eins og mótvægi við snyrtilegu strákana frá Liverpool.

The Beatles og The Rolling Stones hafa verið keppinautar með blik í auga frá 1962. Svo seint sem árið 2021 kallaði Paul McCartney The Rolling Stones „blues-coverband“.

Bítlarnir héldu áfram að slá Stones við

Þrátt fyrir að The Rolling Stones hafi notið gríðarlegra vinsælda á sjöunda áratugnum gátu þeir ekki borið sig saman við The Beatles. Samkeppnin milli þeirra var þó blásin upp af fjölmiðlum.

 

The Beatles var fyrsta hljómsveitin sem fékk breska aðdáendur til að garga af hrifningu þegar kapparnir fjórir frá Liverpool slógu í gegn árið 1962. Ári síðar komu The Stones inn á breska músiksenu og allan áratuginn voru fjölmiðlar sífellt að gera mikið úr samkeppninni milli hljómsveitanna.

 

Í raun og veru ríkti mikil vinátta milli hljómsveitanna tveggja. George Harrison, gítarleikari Bítlanna, fékk sér mörgum sinnum LSD með Keith Richards sem síðar sagði að milli þeirra tveggja hefði ríkt „sérstakt samband“. Beatles og Stones fóru oft á tónleika hvors annars.

 

Eftir að Bítlarnir leystust upp komu þó stöku sinnum meinfýsnar yfirlýsingar úr búðum beggja og í einu viðtali sagði John Lennon að Stones hefðu bara hermt eftir The Beatles. Slíkar yfirlýsingar voru þó oft sagðar í kerskni, enda báru tónlistarmennirnir djúpa virðingu hverjir fyrir öðrum.

 

Á sölulistum þessa tíma var heldur engin barátta um efsta sætið. Engir listamenn í heiminum komust í námunda við að selja eins mikið og Bítlarnir – og engin hljómsveit hefur nokkru sinni síðan selt meira en þessi hljómsveit frá Liverpool.

 

Helstu sölutölur áratugarins

Stones er í þriðja sæti í heiminum hvað varðar seld albúm og smáskífur sem voru gefnar út á sjöunda áratugnum. (Tölurnar ná til samanlagðra sölutalna listamannanna frá útgáfu til dagsins í dag).

 

Sölutölur á útgefnu efni:

 

1. The Beatles 376.924.000

 

2. Elvis Presley 131.658.000

 

3. The Rolling Stones 110.801.000

 

4. Simon & Garfunkel 89.796.000

 

5. Bob Dylan 72.934.000

Ungar stúlkur elskuðu ljótu rokkarana

Með Oldham sem umboðsmann náðu Stones nýjum hæðum, ekki síst eftir að hann kynnti þá sem „ljótasta band Englands“. Þeir áttu að vera ögrandi og leika pörupiltana á bresku músíksenunni – sem var þeim reyndar algjörlega eðlilegt.

 

„Allir sem kunna ekki að meta okkur geta farið til helvítis“, var viðkvæðið hjá Jagger sem staðhæfði einnig að „… við látum ekki klippa hárið stutt þótt að einhverjum algjörum fávita finnist að við ættum að gera það“.

 

Pælingin var að hirðuleysislegt háttalagið ætti að fá foreldrakynslóðina upp á móti hljómsveitinni til þess eins að krakkarnir þeirra kynnu betur að meta The Rolling Stones. Oldham skapaði þannig ögrandi ímynd hljómsveitarinnar og fann einnig upp á slagorðinu: „Myndir þú vilja láta dóttur þína giftast einum úr The Rolling Stones?“

„Þeir eru svo ljótir að þeir eru aðlaðandi“.

Bandarískur Rolling Stones aðdáandi, 1964.

Það voru ákaflega fáir foreldrar sem að kærðu sig um slíka hneisu.

 

„Þeir hljóta að vera þeir allra grófustu af síðustu hljómsveitum sem hafa komið fram“, var haft eftir einum reiðum áhorfanda eftir að þeir komu fyrst fram í sjónvarpi.

 

Annar skrifaði í lesendabréfi: „Í dag upplifði ég einhverja viðurstyggilegustu sjón sem ég minnist á öllum mínum árum sem áhugamaður um sjónvarp – The Rolling Stones“.

 

Meðan foreldrar slökktu gjarnan á sjónvarpinu og útvarpinu þegar Stones komu fram dáðu unglingarnir óhefta framkomu þeirra. Á hljómleikum fóru Jagger og félagar hamförum um sviðið, þannig að svitinn þeyttist yfir æsta áhorfendur.

 

Stundum lentu hljómsveitarmeðlimir í átökum við íhaldssama unga menn sem töldu að sveitinni bæri að láta klippa hár sitt. Á tónleikaferðalagi í Englandi í janúar 1964 stöðvaði lögreglan oft tónleika þar sem áhorfendur voru orðnir algjörlega stjórnlausir – og einnig af því að yfirvöld kærðu sig yfirleitt ekkert um þessa uppreisnargjörnu grúppu. En táningsstúlkurnar elskuðu The Rolling Stones.

 

„Þeir eru svo ljótir að þeir eru aðlaðandi“, sagði einn bandarískur áhorfandi þegar Stones voru á hljómsveitarferðalagi í BNA árið 1964.

Umboðsmaðurinn Andrew Oldham (til hægri) var maðurinn sem sá möguleikana í hinu ögrandi ímynd meðlima Rolling Stones.

Heima fyrir í Englandi voru stúlkurnar svo brjálaðar í gaurana að þær biðu fyrir framan heimili þeirra – sem voru núna öllu flottari en árið 1962 – og rispuðu nöfn sín og símanúmer á veggi og dyr. Táningsstúlkurnar reyndu einnig að hitta átrúnaðargoð sín á næturklúbbum í von um að komast í návígi við þá. Og stjörnurnar voru oft til í að vera með aðdáendum – einkum ef þær voru fallegar.

 

„Ef þú varst flott stelpa, þá var ekkert vandamál að hitta Mick Jagger eða Jimmy Page, gítarleikarann í Led Zeppelin, (ritstj.). Þú þurftir bara að labba til þeirra og heilsa þeim“, sagði Pamela Des Barres mörgum árum síðar en hún hafði hitt Jagger á næturklúbbi í Los Angeles.

Rithöfundurinn Pamela Des Barres var ein frægasta grúppía heims og tengdist ótal tónlistarmönnum. Hér situr hún í kjöltu Alice Cooper.

Des Barres var ein af fjölmörgum grúppíum – ungum konum sem fylgdu hljómsveitinni staðfastlega eftir á ferðalögum. Þær voru saman með tónlistarmönnunum baksviðs og á klúbbum og gistu jafnvel á hótelum með hljómsveitarmeðlimum. Áfengi, eiturlyf og kynlíf var viðvarandi þáttur í lífi grúppía en þær sinntu einnig praktískari verkefnum eins og að finna föt handa stjörnunum og redda einu og öðru.

 

„Þetta snerist ekki bara um að komast í rúmið með þeim. Þetta snerist meira um að vera hluti af þessum skapandi krafti“, útskýrði Des Barres síðar.

 

Stones voru í guðatölu í augum margra unglinga. En þessu stjörnulífi fylgdi mikil neysla.

 

Dagleg dópneysla

Árið 1965 seldu The Rolling Stones plötur í milljónatali og tónlistartímaritið Melody Maker lýsti því yfir að hljómsveitin væri sú vinsælasta í Englandi, m.a.s. á undan Bítlunum sem hins vegar unnu flokkinn „vinsælasta hljómsveit í heiminum“.

 

Nú voru The Rolling Stones farnir að semja eigin lög og texta. Fyrstu tvö albúm þeirra innihéldu einkum ábreiður en Oldham taldi að „allir geti skrifað vinsælt lag“. Þar sem honum fannst Jagger og Richards ekki leggja sig nógu mikið fram lokaði hann þá inni í eldhúsi og tilkynnti að þeir kæmu ekki út fyrr en þeir hefðu samið nýtt lag. Það varð smellurinn „As Tears Go By“ sem Jagger lét í fyrstu kærustu sína, Marianne Faithful, hafa.

 

Myndskeið: Sjáðu alla öskrandi aðdáendurna þegar Stóns spiluðu árið 1964.

Nú vissu þeir að þeir gætu einnig samið lög og með tímanum urðu lög þeirra minna í ætt við blús og mun rokkaðri. Árið 1965 komu The Stones heilum þremur lögum á topp vinsældalistans – meðal þeirra var stórsmellurinn „I Can‘t Get No (Satisfaction)“.

 

Hver platan af annarri kom nú út og hljómsveitin var stöðugt á hljómleikaferðalagi en þetta markaði sín spor á sveitina. Raddböndin voru smurð með Jack Daniels og smám saman varð viðtekið að meðlimirnir tækju kókaín eða amfetamín til að halda sér gangandi – fyrir utan mikið magn af hassi.

 

„Þetta var spurning um að spjara sig fram að næsta giggi. En fyrst að maður er þegar kominn þangað þá magnast það bara upp“, útskýrði Richards mörgum árum síðar.

„Brian lá á bakinu einhvers staðar í hljómverinu með gítarinn. Allt í einu, þegar hann hafði legið þarna í níu klukkustundir, drattaðist hann inn og kom með rosalega flott gítarriff – nokkuð sem engum hafði dottið í hug“.

Keith Richards um Brian Jones.

Það var einkum Brian Jones sem misnotaði efnin í miklum mæli og á sama tíma tók Jagger meira að sér leiðtogahlutverkið innan sveitarinnar. Hinn 23 ára gamli Jones var á heróíni, valíumi og LSD. Í æfingasalnum var hann oft algjörlega í eigin heimi, ef hann yfir höfuð lét sjá sig. Engu að síður var hann stundum framúrskarandi tónlistarmaður.

 

„Brian lá á bakinu einhvers staðar í hljómverinu með gítarinn. Allt í einu, þegar hann hafði legið þarna í níu klukkustundir, drattaðist hann inn og kom með rosalega flott gítarriff – nokkuð sem engum hafði dottið í hug“, minntist Richards sem frá árunum 1966 tók sjálfur að prófa LSD því að hann taldi að það myndi auka sköpunargáfu hans.

The Rolling Stones setti Osló á annan endann þegar bandið spilaði sína fyrstu tónleika í Noregi árið 1965.

Richards flutti inn til Jones sem bjó með kærustu sinni, þýsk-ítölsku fegurðardísinni Anítu Pallenberg, á herrasetri í London. Þar var stöðugt boðið upp á partý með sýru og öðru dópi. Gestgjafar og gestir lágu í vímu á dýnum sem voru út um allt á gólfinu í gríðarstórri stofu sem var lýst upp með kertaljósum. Samkvæmt nýja almannatengli Bítlanna, Tony Bramwell, höfðu Jones og Richards breyst umtalsvert:

 

„Þeir voru báðir svona þægilegir ungir gaurar þegar ég sá þá í fyrsta sinn. Og síðar voru þeir bara alveg búnir á því. Þeir virtust vera eitthvað um 60 ára. Þetta voru ungir gamlingjar“.

Keith Richards og Anita Pallenberg voru saman í meira en 10 ár – og þau voru aldrei feimin við að viðurkenna fíkniefnaneysluna.

Jagger og Richards á bak við lás og slá

Fíkniefnaneyslan átti þátt í að styrkja villingaímynd Stones í rokkinu sem létu aldrei bugast. Hvort sem þeir voru undir áhrifum eða ekki gátu þeir tekið upp á því að brjóta myndavélar bara til þess að tryggja sér umtal í fjölmiðlum.

 

„Þeir voru alltaf að leika þetta hlutverk. Og þeir vissu alveg af því. Þeir voru vondu strákarnir og nýttu sér það eins mikið og þeir gátu“, sagði Rick Derringer sem hitaði upp fyrir Stones á hljómleikaferðalagi þeirra í BNA, 1966.

 

Ólíkt Jones og Richards hafði Jagger þó haldið sig frá hörðum efnum og hann vildi alls ekki að litið væri á hann sem dópista í fjölmiðlum. Því var söngvarinn einnig ákaflega reiður þegar tímaritið News of the World birti í janúar 1967 grein þar sem sagt var að Jagger hefði viðurkennt að hafa notað alls konar eiturlyf. Í raun og veru hafði blaðamaðurinn tekið viðtal við útúrskakkan Brian Jones á næturklúbbi og hélt hann vera Jagger.

 

Jagger hótaði að fara í mál við tímaritið og það var upphafið að miklum nornaveiðum gagnvart söngvaranum.

Þúsundir aðdáenda mættu til að styðja Mick Jagger í tengslum við réttarhöldin gegn honum.

News of the World gat ekki ímyndað sér stærri frétt en að nappa Jagger með fingurna ofan í kókaíndósinni, ekki síst því þá myndu þeir sleppa við dýr réttarhöld. Því voru margir Stones-aðdáendur þeirrar skoðunar að það hefði verið News of the World sem kjaftaði í yfirvöld um hvers konar dópneysla ætti sér stað á herrasetri Richards í febrúar 1967.

 

Sjálfur var Richards sannfærður um að díler hans – sem gekk undir nafninu Acid King Dave – hefði unnið með yfirvöldum og skipulagt rassíuna. Margt bendir til að það gæti passað: Lögreglan lét vera í kjölfarið að rannsaka hirslur sýrukóngsins og hann fékk m.a.s. leyfi til að halda til útlanda daginn eftir rassíuna og var ekki yfirheyrður frekar.

 

En hvorki Jagger eða Richards voru svo heppnir. Við lok réttarhaldanna í júní 1967 var Jagger dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að vera með fjórar amfetamínpillur, meðan Richards fékk ársfangelsi fyrir að hafa leyft reykingar á kannabis á heimili sínu.

 

Stjörnurnar tvær voru strax sendar í fangelsi. Tónlistarmennirnir sluppu þó með eina nótt í fangelsinu, þegar þeir áfrýjuðu dómnum og var þeim sleppt. Þessi eina nótt í fangelsinu var af mörgum talin vera hefnd yfirvalda.

 

Myndskeið: Sjáðu fréttamannafund Jaggers þegar hann var látinn laus.

„Þeir telja að herra Jagger hafi fengið það sem hann átti skilið“, skrifaði ritstjóri The Times, Reece-Mogg, í leiðara, þar sem hann húðskammaði yfirvöld fyrir að bregðast alltof hart við lítilræði eins og fáeinum pillum sem Jagger hafði reyndar „keypt algjörlega löglega á Ítalíu“.

 

Þeir félagar unnu áfrýjunina og Jagger hlaut skilorðsbundinn dóm en Richards slapp alveg við refsingu.

 

„Hvort sem ykkur er sama eður ei eruð þið fyrirmynd fjölmargra ungmenna í þessu landi“, áréttaði dómarinn áður en hann sleppti rokkstjörnunum lausum.

 

Þessi uppákoma varð til þess að hljómsveitin tók sér pásu frá frekara tónleikahaldi. Sundurlyndi og samkeppni í bandinu jókst stöðugt og ekki batnaði málið þegar Anita Pallenberg yfirgaf Jones til þess að vera með Richards. Þetta varð til þess að Jones dró sig enn meira í hlé en áður þurfti hljómsveitin að finna aðra menn til að koma í hans stað á albúminu „Beggars Banquet“ undir lok ársins 1968.

 

Hálfu ári síðar óku þeir Jagger og Richards til bóndabýlis Jones til þess að enda samstarf þeirra.

 

„Það var erfitt fyrir Mick og mig að reka hann en hann gat varla nokkuð spilað, staðið upp eða dregið andann. Það eina sem var eftir var að segja: Sorry, gamli heillakarl, þú ert búinn að vera,“ sagði Richards.

27 er lífshættulegur aldur fyrir tónlistarmenn

Brian Jones var 27 ára gamall þegar hann dó og hann er ekki sá eini. Fjöldi tónlistarmanna sem féllu frá 27 ára er svo mikill að þeir mynda óhugnanlegan klúbb. „Club 27“ samanstendur í dag af meira en 50 tónlistarmönnum en flestir þeirra létust vegna fíkniefnaneyslu.

1942 – 1970 – Jimi Hendrix

Of stór skammtur af alkóhóli, eiturlyfjum og svefntöflum varð Hendrix að aldurtila en hann hafði með The Jimi Hendrix Experience umbylt gítarleik með uppfinningasamri notkun petala og feedbacki á síðari hluta sjöunda áratugarins. Hendrix lifði í 27 ár og 295 daga.

1943 – 1970  – Janis Joplin

Með tjáningarríkri og rámri rödd sinni sló Janis Joplin í gegn á seinni hluta sjöunda áratugarins með nokkrum hljómsveitum en þessi heillandi söngkona sökk sífellt dýpra í neysluna. Of stór skammtur af heróíni á móteli í Hollywood varð henni að bana. Joplin lifði í 27 ár og 258 daga.

1943 – 1971  – Jim Morrison

Þriðja 27 ára rokkstjarnan á tveimur árum var söngvari The Doors sem dó 1971. Hann fannst í baðkari í París. Sumir sögðu að hann hefði dáið af of stórum skammti en engin krufning var framkvæmd og frönsk yfirvöld skráðu dánarorsök sem hjartaáfall. Morrison lifði í 27 ár og 205 daga.

1967 – 1994  – Kurt Cobain

Söngvarinn í hinni frægu grunge-hljómsveit Nirvana, Kurt Cobain, náði heimsfrægð upp úr 1990. Hann framdi sjálfsmorð árið 1994 og í kjölfarið varð til fyrirbærið „Club 27“ þegar tónlistarheimurinn gerði sér grein fyrir því hversu margir listamenn höfðu látist 27 ára gamlir. Cobain lifði í 27 ár og 44 daga.

1983 – 2011  – Amy Winehouse

Með sína djúpu viskírödd sló hin breska Winehouse í gegn upp úr aldamótum með blöndu af soul, jazz og R‘n‘B. Verðlaunum rigndi yfir hana en hún drukknaði í áfengi og eiturlyfjum og dó úr alkóhóleitrun. Hún lifði í 27 ár og 312 daga.

Jones dó í dópvímu

Sumarið 1969 voru aðrir hljómsveitarmeðlimir ásamt nýjum gítarleikara, Mick Taylor, tilbúnir til þess að snúa aftur á tónleikasvið eftir meira en tveggja ára pásu. Þessu átti að fagna með risakonserti í Hyde Park fyrir framan næstum því 500.000 manns.

 

En um miðnætti tæpum tveimur dögum fyrir tónleikana hringdi síminn þegar hljómsveitin var við æfingar.

 

„Brian er dáinn“, sagði rödd í símanum.

 

Þennan sama dag hafði Jones eins og vanalega verið útúrdópaður, þegar hann andaði ríkulega að sér astma-úða sínum. Þetta var ekki óalgengur kokteill en í þetta sinn hafði hann stokkið út í sundlaugina þar sem hann missti meðvitund og drukknaði.

 

Nokkrum árum áður hafði Richards sagt við Jones að hann myndi aldrei ná 30 ára aldri með þessari neyslu. Engu að síður voru þessar fréttir reiðarslag fyrir hljómsveitina.

 

„Við aflýsum tónleikunum“, sagði Jagger.

Dauði Brian Jones var gríðarlegt áfall fyrir marga. Aðdáendur hans áttu erfitt með að sætta sig við að hann væri látinn.

En Richards og Watts vildu halda tónleikana – sem hyllingu til fyrrum félaga. Þegar blaðamaður gaf síðar í skyn að þetta hafi verið misráðið, svona áður en búið var að grafa Jones, þá kýldi Richards hann með krepptum hnefa í andlitið og henti honum niður tröppur.

 

Þann 5. júlí 1969 léku Stones stærsta konsert sinn í Hyde Park með pappafígúru af Jones á sviði. Það þótti mikil nýlunda að hljómsveitarmeðlimir höfðu látið mála sig í framan. En frammistaða þeirra var víst ekki sem best.

 

„Í raun og veru vissi enginn hvað var í gangi. Við spiluðum frekar illa allt undir lokin, enda höfðum við ekkert spilað í langan tíma. En eftir að þetta gerðist með Brian, þá var þetta eitthvað sem við þurftum bara að framkvæma“, sagði Richards.

Altamont-konsertinn átti að vera framhald af hippastemningunni í Woodstock en allt fór hryllilega úrskeiðis.

Ókeypis tónleikar enduðu með dauða fjögurra

Í desember 1969 áttu Rolling Stones að vera síðasta bandið á svið af sex hljómsveitum á tónlistarhátíð við kalifornísku kappakstursbrautina Altamont. Ókeypis var inn á tónleikana til að byggja áfram á því góða andrúmslofti sem ríkti á Woodstock en nú fór allt úrskeiðis.

 

300.000 manns voru mættir og höfðu fjölmargir neytt mikils magns alkóhóls og fíkniefna. Hells Angels sem voru ráðnir til að sjá um öryggisgæslu gegn því að fá ókeypis áfengi, höfðu enga stjórn á málunum. Þess í stað lömdu þeir alla sem voru með einhver læti miskunnarlaust í spað. Þegar blökkumaður undir áhrifum LSD dró fram byssu nálægt sviðinu brást einn meðlimur Hells Angels við með því að stinga hann til bana með hníf. Að lokum máttu The Stones forða sér á hlaupum.

 

„Allir hlupu í áttina að þyrlu sem var að taka á loft. Þetta var eins og í Víetnam. Maður neyddist til þess að hoppa upp í kaðalstiga og klifra upp. Til að komast bara burt sem fyrst“, minntist Keith Richards síðar.

 

Ofbeldið og ringulreiðin á Altamont kostaði fjórar manneskjur lífið. Mick Jagger sneri sjálfur heim með glóðarauga því einn tónleikagestur hafði kýlt hann í andlitið strax við komuna.

Myndskeið: Sjáðu myndir frá hinum örlagaríku hljómleikum við Altamont.

Vinsældir í áratugi

Tónleikarnir í Hyde Park áttu sinn þátt í að ryðja brautina fyrir frekari sigra hljómsveitarinnar. Sama sumar kom út albúmið „Let it bleed“ sem margir telja eina af bestu plötum Rolling Stones. Platan sem opnaði með „Give Me Shelter“ og lauk með „You Can‘t Always Get What You Want“ rauk strax upp í fyrsta sæti á vinsældalistanum í Englandi.

 

Með hömluleysi sitt, sífelldar ögranir og mikla neyslu var ferill The Rolling Stones enginn dans á rósum en tónlistarlega séð mótuðust þeir á sjöunda áratugnum nákvæmlega eins og þeir vildu.

Gítarleikarinn Mick Taylor (tv.) tók við af Brian Jones en hann hætti í hljómsveitinni eftir fimm ár.

„Velkomin til að sjá heimsins stærsta rokkband!“ hljómaði kynningin frá 1969 og áfram næstu ár í hvert sinn sem bandið gekk inn á sviðið. Og þrátt fyrir að The Beatles hafi ennþá selt fleiri albúm, voru Stones ávallt í toppi vinsældalistanna og fáir geta fyllt risaleikvanga eins og hljómsveitin.

 

Meðan Bítlarnir leystust upp árið 1970 héldu The Rolling Stones bara áfram og áfram. Og á næstu áratugum má segja að þeir hafi verið sannkallaðir konungar rokksins. Þegar hljómsveitin tilkynnti með miklum látum hljómleikaferð til BNA árið 1977, sagði Jagger með dæmigerðri Stones-kerskni:

 

„Beatles? Ég man ekki einu sinni eftir Beatles!“

 

Eftirmáli:

60 árum eftir stofnun eru rollingarnir ennþá að en Mick Jagger og Keith Richards eru þeir einu sem eftir eru af upprunalegum meðlimum. Bill Wyman yfirgaf bandið árið 1993 og Charlie Watts lést árið 2021. Á ferli sínum hafa Stones gefið út 30 stúdíóalbúm og 120 smáskífur. Þeir eru í fjórða sæti á lista yfir söluhæstu hljómsveitir sögunnar.

Á tónleikaferðalagi sínu árið 2021 þénuðu Rolling Stones að meðaltali meira en 10 milljónir dollara fyrir hverja tónleika.

Stones eru á eilífum flótta frá skattinum.

Þegar Rolling Stones urðu margmilljónamæringar fluttu þeir frá Englandi til að forðast háa skatta. Síðan hefur hljómsveitin verið í skattaskjólum.

 

Þrátt fyrir ótrúlegan árangur upp úr 1960 fór stærstur hluti innkomunnar ekki til hljómsveitarinnar. Útgáfufyrirtækið og umboðsmenn tóku stærstan hluta af kökunni til sín og því stofnaði bandið eigið plötufyrirtæki árið 1971. Ekki leið á löngu þar til milljónirnar rúlluðu inn.

 

En ný lög í Stóra-Bretlandi fólu í sér að auðugustu Bretarnir þurftu að borga heil 83% í skatt. Þetta sættu hljómsveitarmeðlimir sig alls ekki við og flúðu fyrst til Frakklands og síðan varanlega til Hollands, þar sem ekki er greiddur skattur af tekjum vegna höfundarréttar.

 

Í gegnum fyrirtækið Promogroup hafa hljómsveitarmeðlimir síðan dregið enn frekar úr skattagreiðslum sínum.

 

Þannig var afhjúpað að rokksveitin hafði frá 1986 til 2006 einungis borgað 1,6% í skatt af tekjum sem námu um 60 milljörðum króna. Jafnframt eru tónleikamiðar með hljómsveitinni seldir á verði í hæsta flokki og geta þeir hlaupið á mörgum tugum þúsunda.

 

Listamenn eins og Elton John, Bono og Ringo Starr hafa einnig nýtt sér skattaskjól en enginn þeirra með jafn skilvirkum hætti og meðlimir The Rolling Stones.

Lestu meira um Rolling Stones

  • Stanley Booth: The True Adventures of The Rolling Stones, Canongate Canons, 2012

 

  • Keith Richards: Life, W&N, 2011

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing, Bue Kindtler-Nielsen

© David Cole/Imageselect,© Keystone Press/Imageselect,© Le Deluge,© Avalon/Getty Images,© V. K. Hietanen,© Olavi Kaskisuo/Lehtikuva,© Tracksimages.com/Imageselect,© ETH Library,© Archive Photos/Stringer/Getty Images,© Trinity Mirror/Mirrorpix/Imageselect,© Victor Blackman/Stringer/Getty Images,© Pictorial Press Ltd/Imageselect,© Michael Ochs Archives/Stringer/Getty Images,© Riksarkivet, Oslo,© Peter Kemp/AP/Ritzau Scanpix,© Trinity Mirror/Mirrorpix/Imageselect,© Creative Commons,© Albert B. Grossman Management, New York,© Elektra Records,© Julie Kramer,© Rama,© Trinity Mirror/Mirrorpix/Imageselect,© Rwk/AP/Ritzau Scanpix & AP/Ritzau Scanpix,© Raph_PH

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

Náttúran

Fræðimenn rýna í innsta eðli risaeðlanna 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is