Lifandi Saga

Seiðkarl Hitlers

Himmler var heltekinn af dulspeki og SS-foringinn sendi leiðangra vítt og breitt um heiminn í leit að goðsögulegum ofurvopnum og ummerkjum eftir guðdómlega forfeður aríska kynþáttarins.

BIRT: 09/09/2022

Með sín úfnu yfirvaraskegg, ógreitt hár og krumpaða anorakka líkjast fimmenningarnir sannarlega engum SS-liðsforingjum. Félagar mannanna heima fyrir í Þýskalandi eru sléttrakaðir og klæðast skraddarasaumuðum svörtum einkennisbúningum.

 

En liðsforingjarnir eru reyndar staddir óralangt frá háttprýði Svörtu varðanna: Þeir eru í mikilvægum leiðangri í Himalayafjöllunum og það er sjálfur SS-foringinn Heinrich Himmler sem stendur að baki þessum leiðangri.

 

Með heila lest af burðarmönnum, smáhestum og múldýrum sem bera þungan búnað halda Þjóðverjarnir eftir þröngum stígum í gegnum fjallaskörð og upp bratta skorninga. Það er hinn vöðvastælti dýrafræðingur og SS-Untersturmführer Ernst Schäfer sem fer fyrir þeim.

 

Þessi 28 ára gamli vísindamaður er víðfrægur og hugrakkur landkönnuður. Hann hefur tvisvar áður farið í leiðangra til Tíbet. En ólíkt fyrri ferðum er áherslan ekki núna á dýralífið í Himalayafjöllunum.

 

Hér eru Schäfer og félagar hans í mun mikilvægari erindagjörðum. Heinrich Himmler er sannfærður um að aríska herraþjóðin – Þjóðverjarnir – eigi rætur sínar að rekja til Tíbet.

 

Því ákvað nasistaforinginn í lok apríl 1938 að senda Schäfer og fjóra félaga hans frá Þýskalandi til Tíbet í vísindalegum leiðangri sem á að staðfesta kenninguna um rætur aría í fjöllum Himalaya.

Leiðangursstjórinn Ernst Schäfer (4. frá vinstri) við myndatökur í Tíbet með öðrum leiðangursmönnum og innfæddum aðstoðarmönnum árið 1938.

Allt frá árinu 1929 hafa margir þýskir vísindamenn rannsakað Mið-Asíulönd og í m.a. Hindu Kush-svæðunum í Afganistan segjast þeir hafa fundið furðu marga menn með ljóst hár og blá augu – fyrir Himmler geta þetta einungis verið manneskjur af hans eigin blóði.

 

Himmler heldur því ennfremur fram að meira en 3.000 ára gömlu hindúísku ritin Rigveda innihaldi greinilega vísanir í ævaforna sólardýrkun frá Evrópu og telur þannig ritin vera mikilvæga heimild um tilvist norræna kynþáttarins í Asíu, forðum daga.

 

Verkefni Schäfers og félaga hans er að stunda mannfræðirannsóknir og leita að fornleifum í hrjóstrugu landsvæði Tíbets, þar sem þeir þurfa oft að vaða í gegnum straumharðar ískaldar ár. Og gangi það eftir sem SS-foringinn vonast til mun Schäfer ásamt félögum snúa aftur til baka í Þriðja ríkið árið 1939 með sönnunargögn um að aríska þjóðin hafi verið útbreidd á svæðinu endur fyrir löngu.

 

Þannig gæti Himmler fengið staðreyndan vitnisburð um að aríarnir séu ævaforn þjóð og hafi á öllum tíðum verið öðrum þjóðum æðri.

Þýska fornleifafræðingunum var vel tekið af Tashi Namgyal, konungi Sikkim, sem var indverskt konungsríki, stofnað var árið 1642 til og varð fylki innan Indlands árið 1975

Aríar flúðu frá sökkvandi Atlantis

Það er enginn undrandi á því að Heinrich Himmler hafi fyrirskipað þennan leiðangur. Þessi miskunnarlausi SS-foringi trúir – samkvæmt orðrómi – fullum fetum á nánast goðsagnakenndan uppruna aría og hann trúir jafnframt því að Atlantis hafi í raun verið til.

 

Hann hefur innréttað höll sína, Wewelsburg sem hof þar sem hann getur stundað dulrænar helgiathafnir, látið sig dreyma um gralinn helga og dáðst að fornu rúnaletri.

 

Enginn veit hvað knýr þessa trúarvissu Himmlers en leitin að því yfirnáttúrulega var sett af stað þegar árið 1935 þegar Heinrich Himmler kom á laggirnar Ahnenerbe – Arfleifðinni – rannsóknarstofnun sem rannsakar uppruna aría, menningu og sögu.

 

Yfirlýst markmið stofnunarinnar er að „vinna að rannsóknum á menningarafrekum fyrri tíma“ undir slagorðinu:

 

„Þjóð lifir hamingjusöm í nútímanum og framtíðinni svo fremi hún sé sannfærð um fortíð sína og mikilfengleika forfeðranna“.

Ahnenerbe var rannsóknarstofnun undir SS sem hafði það að markmiði að sanna og efla kynþáttakenningar nasista. Markmið stofnunarinnar var að sanna að Þjóðverjar væru komnir af æðri arískum kynstofni.

Hugmyndin er sú að vísindamennirnir – undarleg blanda af vísindafólki og öfgafullum mönnum – eigi að hafna hefðbundnum vísindum og þess í stað skapa nýja heimsmynd. Heimsmynd þar sem hávaxnir ljóshærðir aríar af æðri kynþætti marki í raun upphaf menningarinnar sjálfrar.

 

Allt frá 19. öld hefur ríkt sú skoðun meðal vísindamanna í Þýskalandi að aríar eigi sér rætur í Tíbet. Þar í dölunum lifðu aríar friðsamlega í fjarlægri fortíð.

 

Einhvern tímann kom að því að þessi friðsæld í fjöllunum raskaðist af óvissum ástæðum og að þessi þjóð af hávöxnum, bláeygðum og sterkbyggðum mönnum sundraðist og hélt út í heim í mörgum flokkum.

 

Sumir héldu í suður og lögðu undir sig Indland, aðrir í vesturátt þar sem þeir stofnuðu fjölmörg merk keisaradæmi, allt þar til þeir enduðu í Þýskalandi og Skandinavíu.

 

Það kann að virðast undarlegt að vel gefinn, miskunnarlaus og útsmoginn maður eins og Himmler hafi verið jafn upptekinn af því sem að í besta falli mætti kalla þjóðsögur og ævintýri.

Himmler-Heinrich-ung

Bekkjarfélagar Himmlers lýstu honum sem heilsulitlum sérvitringi sem ætti auðvelt með að læra.

En nasistaforinginn hefur verið heillaður af skrítnum sögum allt frá því í bernsku. Sem barn að aldri gleypti Heinrich Himmler í sig frásagnir foreldranna, þegar þeir lásu upphátt úr bókum um þýska sögu eða þýskar og norrænar goðsagnir. Einkum voru það frásagnir í Snorra-Eddu, með öllum sínum litríku guðum eins og Þór, Freyju og Loka sem heilluðu hann og hafa aldrei horfið honum úr hugskotssjónum.

 

Þá átti tiltekið herbergi sinn þátt í að auka áhuga Himmlers á sögunni en faðir Himmlers hafði innréttað það á bernskuheimili þeirra í München: Faðirinn hafði tileinkað eitt herbergi í íbúðinni fyrir forfeður fjölskyldunnar, svokallað „Ahnenzimmer“ sem var fullt af erfðagripum, rómverskum myndum og alls konar fornum gripum.

 

Þegar Himmler var fullorðinn jókst áhuginn bara ef eitthvað var: Nasistaforinginn var heillaður af fortíðinni og einkum þá af merkum afrekum þýskra forfeðra. Hann gleypti í sig sögulega rómana og frásagnir um hugdirfsku germönsku þjóðarinnar og hetjudáðir arískra forfeðra.

 

Rétt eins og fjölmargir aðrir nasistar er hann sannfærður um að hreint arískt blóð hafi einhvern tímann runnið í æðum fornra Þjóðverja og hann reiðir sig á að vísindamenn Arfleifðarinnar geti nú fundið aftur perlur úr arískri visku sem gætu gagnast Þriðja ríkinu.

Heiðurshringurinn með hauskúpuna var persónuleg gjöf Himmlers til útvalinna SS-liða. Hringurinn átti að sýna að þeir óttuðust ekki dauðann.

Þannig má segja að hugmyndir hans hafi ekki verið fátíðar í Þýskalandi nasista. Grundvöllurinn að þessari kenningu er að finna í bókinni um hið goðsagnakennda Atlantis sem austurríski verkfræðingurinn Hanns Hörbiger gaf út árið 1912. Þar greinir hann m.a. jökla og kemur fram með kenningu um heimsísinn, þar sem ís er grunnefnið í öllum kvikum verum.

 

Kenningin er alveg jafn furðuleg og hún hljómar en fyrir nasistum er að finna í henni einn mikilvægan punkt: Hugmyndir þessar eiga að gera út um afstæðiskenningu gyðingsins Alberts Einsteins og jafnvel öllum gyðingdómnum.

 

Samkvæmt Hörbiger er hvíti maðurinn runninn upp af guðdómlegu sæði sem hefur náð til jarðar með loftsteinum. Þaðan er sprottinn eins konar kynþáttur hvítra ofurmanna – aríanna – sem m.a. þróuðu siðmenninguna í Atlantis en samkvæmt Hörbiger lá hún nærri Thule á Grænlandi.

 

Jesús er meira að segja beinn afkomandi Atlantisbúa sem eftir hrun Atlantis hafa flúið í gegnum Gobieyðimörkina til afskekktra dala í Himalayafjöllum. Löngu fyrir syndaflóðið höfðu þessar ofurmanneskjur samkvæmt kenningunni byggt upp ótrúlega þróað menningarsamfélag með bæði flugvélum og rafmagni fyrir einhverjum 850.000 árum.

Himmler-propaganda

Hin dæmigerðu arísku einkenni - stæltur líkami, ljóst hár og blá augu - var beitt í öllum áróðri. Hér á veggspjaldi fyrir nasistahreyfingu stúdenta.

Andspænis hinum hvítu arísku ofurmönnum standa síðan manneskjur sem líkjast öpum: Blökkumenn, gyðingar og mongólar eru í sífelldu stríði við hina almáttugu hvítingja. Þessi stórfurðulega kenning nýtur hylli bæði Hitlers og Himmlers.

 

Himmler sjálfur er svo sannfærður í þessum efnum að hann reynir að láta heimsís-kenningu Hörbigers verða skyldufag í grunnskólum og háskólum í staðinn fyrir þróunarkenningu Darwins.

 

Þetta er bakgrunnur þess að fimm af meintum afkomendum Atlantisbúa eru nú staddir mörg hundruð þúsund árum síðar í fjalllendi Himalaya – í leit að menjum um forna gullinhærða forfeður.

 

Þjóðverjarnir ferðast um þetta dularfulla land Tíbet sem einungis fáeinir Evrópubúar hafa fengið að heimsækja.

 

Og það heyrir til stórtíðinda þegar landstjóri Tíbets býður þeim að heimsækja sjálfa höfuðborgina Lhasa, þar sem einungis fáeinir útlendingar og engir Þjóðverjar hafa stigið niður fæti áður.

Svona skilgeindu nasistar aría

Leiftrandi blá augu

Samkvæmt nasistum báru aríar af öllum öðrum kynþáttum. Eitt einkenni þeirra fólst í augunum sem áttu að vera blá, blá-grá eða grá – og þeim var oft lýst sem „leiftrandi“ eða „geislandi“.

Ljóst, slétt hár

Orðið „aríi“ er komið úr sanskrít, þar sem „arya“ merkir aðalborinn eða framúrskarandi. Eitt einkenni aría var samkvæmt nasistum ljóst og slétt hár. Það voru aðallega ljóshærð börn, konur og menn sem voru sýnd í áróðursmiðlum nasista.

Hávaxnir og grannir

Þýski fornfræðingurinn Hans Günther staðhæfði upp úr 1920 að meðlimir aría væru hávaxnir og grannir – karlmenn væru að meðaltali 174 cm. Fyrirmynd þeirra var m.a. hyllt í áróðurskvikmyndinni „Sigur viljans“ – sem var framleidd árið 1935.

Grannleitt andlit og ljós húð

Fornfræðingurinn Hans Günther lýsti aríska kynþættinum sem langleitum, þ.e.a.s. með hlutfallslega meiri lengd milli andlits og hnakka: Andlitið átti að vera grannleitt og húðin ljós. Þessu útliti var hampað af nasistum í kynbótastefnu þeirra.

Innfæddir mældir

Með í hópnum hefur Ernst Schäfer mannfræðinginn Bruno Beger sem með sína 185 cm hæð, ljóst hár, stæltan líkama og blá augu er nánast eins og táknmynd nasista á hinum sanna aría.

 

Hlutverk hans sem kynþáttasérfræðings er að leita eftir steingervingum af fyrri aríum, sumpart til að skrá þá niður en einnig er honum ætlað að stunda mælingar á innfæddum í fjöllunum og athuga hvort að líkindi séu milli þeirra og aríska kynþáttarins.

 

Og Beger tekur þetta verkefni háalvarlega: Þegar hann rekst á eitthvað áhugavert viðfangsefni á ferðum leiðangursins í gegnum torfærur fjallanna hefst hann handa við rannsóknir sínar. Hann klippir lokka af hári og varðveitir sem sýni, mælir fjarlægðir milli augnabrúna – og athugar gaumgæfilega sveigju naglanna á höndum íbúa.

Himmler-maler-ansigt

Beger mælir andlitsdrætti Tíbetbúa og höfuðlag. Heima fyrir í Þýskalandi voru niðurstöðurnar grandskoðaðar til að sanna skyldleika íbúanna við þýska aríska kynþáttinn.

Þar sem form höfuðkúpunnar á að vera eitthvað áreiðanlegasta kennimark aríska kynþáttarins mælir hann einnig andlit og höfuðkúpur með málbandi og skráir hjá sér hæð, breidd og ummál.

 

Hann tekur einnig afsteypur af sumum höfðunum, til þess að hann fái einkar raunsæja grímu sem sýnir nákvæmlega andlitsdrætti og form og gæti nýst til síðari mannfræðilegra rannsókna á þessum kynþætti.

 

Oft eru íbúarnir skelfingu lostnir þegar Beger hefst handa: Fyrst penslar hann höfuð þeirra með olíu, síðan smyr hann þykkum gúmmíkenndum massa á og eftir það eiga „fórnarlömbin“ að sitja grafkyrr og bíða þess að maskinn þorni – með strá sem standa út úr nösunum svo þeir geti dregið andann á meðan þessu öllu stendur.

Hitler með SS-lífvörðum sínum árið 1925. Yst til vinstri sést Julius Schaub sem einnig var aðstoðarmaður Hitlers í 20 ár - frá árinu 1925-1945

Lífverðir Hitlers

Í upphafi ársins 1923 sóru átta menn eið að þeir myndu vernda Adolf Hitler sem þá var orðin leiðtogi þýska nasistaflokksins.

 

Lífverðirnir kölluðu sig ,,Stabswache” og báru svartar húfur með hauskúpumerki úr silfri – sem varð svo einkennismerki SS.

 

Í maí árið 1923 breytti hópurinn nafninu í ,,Stosstrup-Hitler”, stormsveit Hitlers, sem þá taldi um 100 meðlimi traustra flokksmanna. Árið 1025 stofnaði Hitler nýja lífvarðasveit, SS, sem er stytting fyrir ,,Schutztaff” þ.e.a.s. verndarsveit.

 

Fjórum árun seinna, árið 1929 var Heinrich Himmel skipaður yfirmaður SS-sveitanna. Úrvalssveitin taldi þá aðeins 280 manns en stækkaði hratt undir stjórn Himmlers og verkefni hennar var ekki lengur að vernda Hitler.

Himmler tekur á móti hetjunni

Í leiðangrinum tekur Beger myndir af tæplega 2.000 innfæddum, mælir 376 manns hátt og lágt og tekur afsteypur af öðrum 17. Og þegar hann og félagar hans úr Tíbet-leiðangrinum lenda í Þýskalandi þann 4. ágúst 1939 um borð í einkaflugvél Himmlers sem hefur flutt mennina síðasta legginn frá Vín til München,bíður þeirra hjartnæm móttaka.

 

Himmler stendur reiðubúinn á flugvellinum til að taka á móti sínum hugrökku vísindamönnum sem er flogið sama dag til Berlínar þar sem að mikil móttökuhátíð bíður þeirra.

 

Þrátt fyrir að Beger þurfi tíma til að greina fjölmörg gögn sín tilkynnir hann Himmler strax að hann telji sig hafa borið kennsl á norræna drætti hjá yfirstéttinni í Tíbet. Mælingar hans sýna að tíbeski aðallinn er oft hávaxinn með grannleitt andlit og slétt hár.

 

Þessar upplýsingar gleðja sjálfsagt SS-foringjann sem auk þess getur skemmt sér yfir frábærri áróðursfrétt: Þann 5. ágúst 1939 og á næstu dögum birtast miklar fyrirsagnir um stórkostlegan árangur leiðangursins í Tíbet með fyrirsögnum eins og „Leiðangur Hitlers í Tíbet“ og „Fyrstu Þjóðverjarnir í Lasa“.

 

Þetta er einmitt það sem alþýða manna í Þýskalandi þarf á að halda sér til hugarhægðar því að Hitler er farinn að beina sjónum sínum í æ ríkari mæli að landamærum Póllands þar sem heyra má stríðstrommurnar barðar.

,,Í grafhvelfingunni stendur SS-foringinn alvörugefinn við opna steinkistuna. Þöglir stöndum við þarna um miðnætti fyrir framan jarðneskar leifar af ódauðlegu ævistarfi“.

SS vikuritið Das Schwarze Korps á afmælisdegi Henriks I, 1937.

Þegar niðurstöður vísindamannanna liggja loks fyrir er ekki hægt að álykta nokkuð sem getur rennt stoðum undir kenningu Himmlers um tilvist aría í Tíbet.

 

Á hinn bóginn sýna gögnin að þjóðin á þessu fjallasvæði hefur alls ekki lifað í einangrun, heldur hefur verið í sambandi við marga aðra kynþætti um aldaraðir og því er þar að finna menn með ákaflega ólík einkenni.

 

Þessi niðurstaða veldur þó Himmler engum vonbrigðum. Hann er ennþá fyllilega sannfærður um gildi kenningarinnar um aríana og staðhæfir að öll siðmenning manna og vísindaleg framrás sé einvörðungu afleiðing af hinum stolta arfi aría.

 

Sjálfur lítur Himmler á sig sem þvottekta Þjóðverja – og jafnvel sem endurholdgun fyrsta þýska konungsins og stofnanda þýska ríkisins, Henrich fyrsta fuglafákara sem komst til valda árið 919.

 

SS-liðar kalla Himmler „Köning Heinrich“, Heinrich konung og Himmler sjálfur á jafnan í undarlegum samtölum við þennan löngu látna konung sem í hans augum er bæði pólítískur og mannlegur fyrirrennari hans helsta átrúnaðargoðs, Hitlers.

 

Þann 2. júlí 1936 á 1.000 ára ártíð gamla konungsins fagnar Himmler þessum fyrsta leiðtoga ríkisins með minningarhátíð í Quedlinburg í austanverðu Herzen, þar sem kóngurinn var á sínum tíma jarðsunginn.

 

Himmler skipar fyrir að dómkirkjan í bænum verði hreinsuð af kristnum táknum en þess í stað skreytt með fánum nasista, SS-rúnum og hakakrossinum.

Himmler-grav

Himmler heilsar að nasistasig við gröf Henriks I. Leiðtogi SS leit á konunginn sem föður fyrsta þýska ríkisins og dáðist að honum fyrir baráttu hans við þrælana.

Allt er þetta liður í tilraun Himmlers við að skapa menningarsetur fyrir SS-samtökin, heiðna mekku sem bæði meðlimir og almennir borgarar geta heimsótt til þess að heiðra sjálfa sig.

 

Þessi hugmynd hans nær nokkurri fótfestu og eftir nokkurra ára rannsóknir árið 1937 tekst fornleifafræðingum að finna nokkur brot af beinum í nágrenni kirkjunnar og nærri tómri gröf konungs. Undir eins kveður Himmler upp úr með það að hér séu komnar jarðneskar leifar Hinriks 1. konungs.

 

Beinaleifunum er komið fyrir í steinkistu og kistunni stillt upp í grafhvelfingu kirkjunnar þann 2. júlí 1937 í seremóníu sem SS-vikuritið Das Schwarze Korps lýsir sem svo:

 

„Flöktandi logarnir varpa rauðleitu ljósi yfir stolta svartklædda hermenn. Í grafhvelfingunni stendur SS-foringinn alvörugefinn við opna steinkistuna. Þöglir stöndum við þarna um miðnætti fyrir framan jarðneskar leifar af ódauðlegu ævistarfi“.

Endurreisnarhöllin Wewelsburg var byggð árið 1609. Núna er höllin safn og ein deild fjallar um nasismann. Meðal muna má þar finna vasadagatal Himmlers.

Himmler vildi tigna hið yfirskilvitlega í fornri höll

Endurreisnarhöll nærri þýska bænum Bielefeld var valin sem höfuðvígi trúarreglu SS og safnaðarheimili fyrir útvalda SS-liða Himmlers.

 

Himmler leigði höllina Wewelsburg af sveitastjórninni árið 1934 og samdi um að greiða eitt ríkismark á ári í 100 ár.

 

Áður en búið var að undirrita leigusamninginn hafði Himmler fyrirskipað SS-arkitektinum Hermann Bartels að teikna upp verulegar umbætur á höllinni sem átti að verða hið helga höfuðvígi Svörtu reglunnar og miðja alheims.

 

Hér í hjarta Þýskalands gat Himmler stundað dulspeki sína í friði og látið sig dreyma um gralinn helga og forna frægð Atlantis.

 

Umbæturnar áttu að taka mið af þessum göfuga tilgangi og lét Himmler m.a. skreyta veggina með fornum rúnum. Fyrir utan grafhvelfingu, sérhannað rými fyrir gralinn, samkomusal, súlnagöng og nokkur herbergi fyrir helgiathafnir, þá fékk Himmler sérstaka skrifstofuálmu. Höllin var einnig búin vínkjallara fyrir um 40.000 flöskur.

 

Í bókasafninu var að finna 30.000 bækur og í einkasafni hans gaf að líta fullkominn steingerving af Ichthyosaurus, útdauðri hvaleðlu.

 

Aldrei náðist þó að klára endurbæturnar á Wewelsburg. Í mars 1945 fyrirskipaði Himmler að höllin skyldi sprengd upp til að hún félli ekki í hendur óvinanna.

Formið benti til Atlantis

Grunnform hallarinnar er þríhyrningur. Eitt hornið – við norðurturninn – benti samkvæmt Himmler mót hinu forna Atlantis.

Grafhvelfing skreytt með hakakrossi

Í norðurturninum voru þrjú herbergi fyrir helgiathafnir. Neðst þeirra var grafhvelfing með risastóru hvolfþaki, þar sem hakakross prýddi miðju þaksins.

Sérhannað rými fyrir gralinn helga

Gral-salurinn var ætlaður til að varðveita gralinn helga. Þar til nasistar myndu finna gralinn var stærðarinnar kristalsvasi sem var lýstur upp að neðanverðu, látinn standa í stæði hans í salnum.

Formið benti til Atlantis

Grunnform hallarinnar er þríhyrningur. Eitt hornið – við norðurturninn – benti samkvæmt Himmler mót hinu forna Atlantis.

Grafhvelfing skreytt með hakakrossi

Í norðurturninum voru þrjú herbergi fyrir helgiathafnir. Neðst þeirra var grafhvelfing með risastóru hvolfþaki, þar sem hakakross prýddi miðju þaksins.

Sérhannað rými fyrir gralinn helga

Gral-salurinn var ætlaður til að varðveita gralinn helga. Þar til nasistar myndu finna gralinn var stærðarinnar kristalsvasi sem var lýstur upp að neðanverðu, látinn standa í stæði hans í salnum.

Svarta reglan fær höfuðvígi

Frá því að Himmler var útnefndur foringi SS 1929 hefur hann unnið staðfastlega að því að gera samtökin að stolti nasistaflokksins og elítu kynþáttarins. Með samþykki Hitlers hefur hann ritað niður nokkur skilyrði fyrir því hvaða menn megi taka inn sem meðlimi í samtökin sem einnig nefnast Svarta reglan.

 

Sérstakri skrifstofudeild er komið upp innan SS, Rasse- und Siedlungshauptamt (Kynþátta- og búsetuskrifstofan) sem frá árinu 1931 hefur það verkefni að meta ættartölur umsækjenda, getu þeirra og líkamlegt heilbrigði og í skrifstofunum í München rannsaka matsmenn, andlit og líkama vongóðra umsækjenda.

 

Matsmennirnir leita eftir einkennum sem nasistar líta á sem norræn – grannleitt höfuðlag og andlit, þunnar varir, há og grönn líkamsbygging, blá augu og ljóst hár. Það eru einungis menn sem geta staðist slíkar kröfur og geta einnig framvísað aríavottorði sem komast í gegnum nálaraugað í elítu-stofnun Himmlers.

 

Hinir útvöldu sjá fram á að geta íklæðst svörtum einkennisbúningi með silfurröndum á kraganum sem Hugo Boss hefur hannað og mega einnig bera einkennishúfur með höfuðkúpu úr silfri. Hugmynd Himmlers er sú að SS muni dag einn mynda grunninn að nýrri gerð manna – hinum hreina norræna kynstofni.

SS-fánaberar gengu með fána með orðunum „Deutschland erwache! (Þýskaland, vaknaðu!) – eitt vinsælasta slagorð nasistaflokksins.

Skömmu eftir valdatöku nasista árið 1933 leggur Himmler drög að áætlunum um að stofna SS-akademíu, andlegan menningar- og samkomustað sem er einungis aðgengilegur SS-meðlimum.

 

Þar á hin kynhreina elíta Himmlers að læra að hugsa eins og gömlu meistararnir og fá þá andlegu örvun sem nauðsynleg er nýju arísku yfirmönnunum sem eru tilbúnir til að taka sér réttmæta stöðu í sögunni. Himmler dreymir um að fá risavaxna höll fyrir akademíu sína og slíka finnur hann í Westfalen nærri Paderborn.

 

Þar liggur höllin Wewelsburg sem var byggð á 18. Öld, mitt í fögru skóglendi með fallegum vötnum.

 

Í byrjun nóvember 1933 heimsækir Himmler höllina í fyrsta sinn – og heillast algjörlega af henni. Þykkir múrar hallarinnar rísa ógnandi yfir landslaginu eins og fullkomlega innrömmuð mynd fyrir höfuðvígi Svörtu reglunnar.

Höfuðkúpan með tveimur krosslögðum beinum prýddi húfur SS-hermannanna. Táknið kom upphaflega frá prússneskri hersveit sem var stofnuð á 18. öld.

En fyrst og fremst tekur Himmler eftir einstökum arkitektúr hallarinnar: Grunnurinn er mótaður á einstakan máta sem þríhyrningur þar sem eitt hornið bendir á norður; séð með augum Himmlers í átt að þeim stað þar sem Atlantis var að finna og hvaðan íbúarnir síðan flúðu til Tíbet.

 

Himmler leigir höllina undir eins af sveitastjórninni og lætur SS-arkitektinn Hermann Bartels um það verkefni að bæta og fegra höllina samkvæmt óskum hans sjálfs.

 

Hugmyndir hans taka stöðugum breytingum og verða æ íburðarmeiri og glæsilegri:

 

Þarna á að innrétta menningarsetur til að tigna norræna guðinn Óðinn og eitt herbergið á að undirbúa fyrir komu heilaga gralsins.

 

Einkasafn, vínkjallari, kapella með risavöxnum hakakrossi í loftinu, fjárhirsla þar sem Himmler getur varðveitt m.a. hauskúpuhringina frá föllnum SS-liðum, risastórt bókasafn, grafhvelfingu sem er vígð fyrir Hinrik 1. – óskalisti Himmlers stækkar stöðugt.

 

Til að hægt sé að hrinda þessu í framkvæmd kemur Himmler upp útrýmingarbúðum í nágrenninu árið 1939 svo að hann komi ekki til með að skorta verkamenn fyrir þessa risavöxnu byggingu.

Himmler hélt dagbók öll árin sín sem leiðtogi SS.

Árið 2013 fundu sagnfræðingar dagbækur Heinrich Himmlers, sem Rauði herinn lagði hald á árið 1945, í rússnesku herskjalasafni í borginni Podolsk suður af Moskvu.

 

Dagbækurnar, sem ná yfir árin 1937-1938 og 1944-1945, innihalda illskiljanlega blöndu skrifa um fjölskylduskemmtanir og fjöldamorð – til dæmis símtal við dóttur sína Guðrúnu um morguninn, síðdegis að fylgjast með fjöldamorðum á konum og börnum gyðinga. Og loks kvöldverður með SS-foringjum.

 

Ólíkt fölsuðum dagbókum Hitlers, sem birtar voru í tímaritinu Stern árið 1983, er talið að dagbækur Himmlers séu ósviknar. Sér í lagi hafa vísindamennirnir rannsakað blekið sem notað var.

 

Með því að nýta sér háþróaða tækni sem kallast litskiljun, rannsökuðu vísindamennirnir efnasamsetningu bleksins sem notað var. Rannsakendum hefur tekist að staðfesta með töluverðri nákvæmni að blekið samsvari bleki sem framleitt var á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.

 

Kápan, blaðið og rithöndin hafa einnig sætt ítarlegum rannsóknum og niðurstaðan er ótvíræð: dagbækurnar voru í eigu Heinrich Himmler.

Kápan

Með því að greina efnið sem kápan er gerð úr gátu rannsakendur ákvarðað hvenær bókin var framleidd; sem dæmi kom gervileður úr pólýester fyrst á markað árið 1953.

Rithöndin

Með því að bera dagbókarfærslurnar saman við t.d. stafi, sem vissulega eru skrifaðir af viðkomandi, geta sérfræðingar komist að því hvort rithöndin sé ósvikin.

Pappírinn og blekið

Efnagreiningar leiða í ljós innihaldsefni blaðsins og þar með einnig hvort efnið innihaldi efni sem falla ekki að aldursgreiningunni; til dæmis var efnið ljóshvítt fyrst bætt við pappír frá árinu 1955.

Fræðimenn rannsaka hellaristur

Til að Wewelsburg stæði undir nafni sem liðsforingjaskóli SS og hugmyndafræðilegt menntasetur setti ríkisforinginn mikið fjármagn í rannsóknir á fornum sögnum. Endurreisa átti glataða sögu aría og trúarbrögð – það væri fyrst þegar vísindamenn hans höfðu náð að varpa ljósi yfir aría sem að mati Himmlers væri mögulegt að endurskapa blómaskeið aría í allri sinni dýrð.

 

Frá höfuðstöðvum rannsóknarstofnunarinnar Arfleifðinni skipulagði Himmler fjölmarga leiðangra í leitinni að ummerkjum eftir stórfenglegan framfaratíma aríanna. Yfirleitt eru það þjóðsögur og goðsagnir sem eru drifkrafturinn á bak við leiðangrana.

 

Himler er heltekinn af slíkum sögum enda lítur hann á goðsagnirnar sem annað og meira en bara frásagnir – að hans mati innihalda þær djúpa aríska visku.

 

Árið 1936 sendir hann sem dæmi vísindamenn sína til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands til að finna merki eftir forna frægð aría. Í þessum norrænu löndum rannsaka fræðimenn hellaristur, það er að segja forsöguleg tákn og ímyndir sem eru ristar niður í steina og klappir.

 

Sannfæring þýsku fræðimannanna er sú að hellaristurnar séu heimsins elsta ritmál – nú útdautt bókmál aría sem myndaði frjósaman jarðveg fyrir fleygrúnir, myndletur og stafróf síðari tíma.

 

Eina sem þarf að gera er að ráða í táknin, nokkuð sem fræðimenn undir forystu hollenska prófessorsins Hermans Wirth reyna árangurslaust að gera.

„Prófessor Wirth má vita að væri það ekki fyrir vernd SS, þá væri hann í fangelsi eða þrælkunarbúðum.“

Heinrich Himmler

Ein af kærustu tilgátum Wirths er sú að norræni kynþátturinn hafi þróast í Thule á Grænlandi sem var endur fyrir löngu dásamlegur unaðsreitur. Í augum Hollendingsins er Thule samheiti yfir hið horfna Atlantis.

 

Þrátt fyrir að hann rannsaki alls konar jarðfræðilegar og fornleifafræðilegar greinargerðir tekst honum ekki að finna nokkrar sannanir fyrir fornri norrænni siðmenningu. Hitler furðar sig á þessum vangaveltum og lýsir rannsókn hans sem „samsafni að fjölskrúðugum orðrómi“ og „óljósum norrænum fantasíum“ og vitanlega er Himmler hreint ekki sáttur við framvindu mála.

 

Eftir því sem tíminn líður missir hann trúna á prófessorinn sem átti þó þátt í að stofna Arfleifðina en Wirth þykir auk þess mikill flottræfill og fer ævinlega fram úr fjárhagsáætlunum sem skila svo engum árangri.

 

„Prófessor Wirth má vita að væri það ekki fyrir vernd SS, þá væri hann í fangelsi eða þrælkunarbúðum“, segir Himmler þegar prófessor Wirth snýr heim frá Skandinavíu til Berlínar – enn og aftur tómhentur.

 

Ein afleiðing af nöturlegri gagnrýni Hitlers er sú að Himmler setur prófessor Wirth af sem forstjóra Arfleifðarinnar og bannar honum að gefa út bækur eða halda fyrirlestra.

Himmler heimsótti Noreg árið 1941. Þar lét hann leita að hinum upprunalega germanska kynþætti.

Þetta vita sagnfræðingar með vissu

Himmler leitaði að uppruna aría

 

 • Ríkisforinginn trúði að heilagi gralinn væri til og væri falinn í Frakklandi.

 

 • Himmler sendi leiðangra í leit að líffræðilegum uppruna aría.

 

 • SS-liðar leigðu höllina Wewelsburg og innréttuðu hana sem miðstöð trúarreglu, þar sem mikið var lagt upp úr norrænni goðafræði.

 

 • Meðlimir SS-trúarreglunnar töldu að Atlantis væri meira en bara goðsögn – heldur raunverulegan stað sem hafði verið til fyrir þúsundum ára.

 

 • 5.000 meðlimir voru í „gömlu lífvarðasveit“ Himmlers – þetta voru fyrstu SS-liðarnir sem nutu sérstakra réttinda og fengu m.a. sérsmíðaðan hauskúpuhring úr silfri.

Hamar Þórs skal endurreistur

Skorturinn á vísindalegum árangri í Arfleifðinni slær þó á engan máta Himmler út af laginu. Hann er eftir sem áður heltekinn af öllu því sem tengist dulspeki og hinu ofurskilvitlega.

 

Einkum er Himmler heillaður af Snorra-Eddu, enda lítur hann á hana sem bestu heimildina um andleg afrek aría. Merkastar finnst honum frásagnir um Þór og hamar hans Mjölni; Himmler telur að þarna sé lýst öflugasta og nákvæmasta vopni heimssögunnar.

 

Í augum hans er hamarinn án nokkurs vafa forsögulegt, rafknúið og háþróað vopn sem aríar hafa vitanlega þróað á sínum tíma.

 

Himmler vonast til að vísindamenn í Arfleifðinni getið smíðað sambærilegt vopn handa þýskum hermönnum, svo að þeir geti molað óvini Þriðja ríkisins mélinu smærra. Í bréfi til fræðimanna sinna ritar hann:

 

„Rannsakið eftirfarandi: Finnið alla staði á norrænum, germönskum og arískum menningarsvæðum, þar sem greint er frá hefðum um eldinguna, þrumuna, hamar Þórs eða fljúgandi hamar.

 

Kannið allar myndastyttur af goðsögulegum verum sem sýna þær með öxi sem sendir frá sér eldingar. Ég er sannfærður um að hér er ekki um að ræða náttúrulegar eldingar og þrumur, heldur er þarna um að ræða háþróað vopn sem forfeður okkar notuðu í hernaði gegn óvinum sínum“.

Reinhard Heydrich ( fyrir miðju) var skjólstæðingur Himmlers og var maðurinn sem skipulagði öll smáatriði helfararinnar.

Að mati Himmlers ræðst framtíð SS á djúpum skilningi á fortíðinni með rannsóknum á þjóðsögum og goðsögnum. Því lítur hann miðaldafræðimanninn og fornleifafræðinginn Otto Rahn hýru auga, enda hefur sá helgað líf sitt leitinni af gralnum helga.

 

Samkvæmt miðaldaritum er gralinn helgi sjálfur bikarinn sem Jesús drakk úr í síðustu kvöldmáltíðinni og var síðan settur undir kross Jesús til að safna blóði frelsarans.

 

Á 12. öld hófst leitin að helgigripnum sem var samkvæmt þjóðsögunni gæddur yfirnáttúrulegum eiginleikum. Otto Rahn var fullviss um að gralinn væri jafnframt af arískum uppruna og staðhæfði að allir þeir sem bergja af honum muni öðlast eilíft líf.

 

Gralinn var svo eftirsóttur að margar kynslóðir fræðimanna og vongóðra lukkuriddara hafa ferðast allt frá Kýpur í austri til Norður-Ameríku í vestri í leit að honum. En Otto Rahn telur sig vita nákvæmlega hvar gralinn er að finna og það er í rústum kastalans Montségur sem liggur í torfæru fjalllendi í hinu franska Languedoc-héraði.

 

Kastalinn var síðasta vígi sértrúarhóps svonefndra Kaþara sem gættu að sögn gralsins eins og sjáaldurs augna sinna.

 

Þeir þóttu trúvillingar og fjölmennur her kaþólskra biskupa og hermanna konunga réðust inn í kastalann – sem þeir höfðu nefnt samkunduhús Satans – og brenndu þá alla á báli. Lítill hópur munka náði þó samkvæmt þjóðsögunni að flýja með gralinn í gegnum leynileg göng.

Sagnfræðinga skortir svör við þessu:

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Gral-bók slær í gegn

Otto Rahn er sannfærður um að gralinn sé að finna á öðrum stað í rústum hallarinnar í Montségur og hefur hann farið þangað árið 1931 til að leita að honum en án árangurs. Árið 1933 gefur hann út bókina „Kreuzzug gegen den Gral“ (Krossferðin gegn gralnum) og það er einmitt þessi bók sem vekur athygli Himmlers.

 

Ríkisforinginn sendir Rahn símskeyti árið 1933 þar sem hann býður honum 1.000 ríkismörk fyrir að skrifa aðra bók um leitina að gralnum. Þeir komast að samkomulagi þar sem Rahn tekur að sér að halda aftur í leit að gralnum helga.

 

En fyrst þarf Rahn vitanlega að ganga í SS og íklæðast svarta einkennisbúningnum. Aftur heldur Rahn í ferðalög til Frakklands og nú einnig til Ítalíu og Íslands í leit að helgigripnum mikla en snýr tómhentur heim.

 

Til þess að kaupa sér tíma gefur hann út aðra bók árið 1937 þar sem hann greinir frá ítarlegri leit sinni. Bókin er sneisafull af gervivísindum og tilvísunum í yfirskilvitlega hluti en Himmler kokgleypir þetta allt hrátt og pantar 5.000 eintök innbundin í fínasta leður sem hann dreifir út til foringja nasista og þar með talinn Hitler.

Á hverju ári, þann 9. nóvember, sóru nýir SS-menn Hitler hollustueið við mikla athöfn. Hér fengu mennirnir heiðursrýtinginn sem var hluti af einkennisbúningnum. Einkunnarorð SS „Heiður minn er hollusta“ var grafið í rýtingsblaðið.

Þegar Rahn blaðar í bókinni sér hann sér til mikillar skelfingar að búið er að bæta við kafla sem er stútfullur af gyðingahatri en gyðingablóð rennur í æðum Rahns. Ekki tekur betra við.

 

Skömmu eftir útgáfu bókarinnar er Rahn dæmdur til að gegna stöðu varðar í útrýmingarbúðunum í Dachau, enda var hann bókstaflega tekinn í bólinu í ástarleik með öðrum karlmanni.

 

Reynsla hans í búðunum fyllir hann skelfingu og hryllingi og hann skrifar vini sínum eftir að hafa reynt hið sanna eðli stjórnar nasista:

 

„Það er ógjörningur fyrir mig sem umburðarlyndan og frjálslyndan mann að búa hér eins og föðurland mitt hefur þróast“.

 

Niðurbrotinn reynir hann að segja sig úr SS og þrátt fyrir að Himmler virðist taka þessa bón hans til greina, vill hann alls ekki leyfa Rahn að sleppa svo auðveldlega.

 

Þegar Otto Rahn verður þess áskynja að launmorðingjar Himmlers eru farnir að anda ofan í hálsmálið á honum heldur hann í fjallgöngu upp á snæviþakinn fjallstopp í Tyról í Austurríki. Þar finnst hann þann 13. mars 1939 – öllum til mikillar furðu – frosinn í hel einungis 35 ára gamall.

LESTU EINNIG

Himmler var sjálfur svo sannfærður um að Rahn myndi finna gralinn helga að hann hafði látið útbúa sérstakan viðhafnarsal í Wewelburg-höll undir gripinn. En þegar líða tekur á árið 1939 gerast atburðir sem draga athygli Himmlers rækilega frá þessum miklu vonbrigðum.

 

Í september þetta sama ár ráðast Þjóðverjar inn í Pólland, heimsstyrjöldin brýst út og SS-foringinn verður nú önnum kafinn. Helsta verkefni hans felst nú í að skipuleggja útrýmingu Gyðinga og Himmler skráir sig þannig í sögubækurnar sem arkitektinn á bak við helförina, þjóðarmorð nasista á sex milljón Gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni.

Lestu meira um dulspekiheim Himmlers.

 • Bill Yenne: Hitler’s Master of the Dark Arts: Himmler’s Black Knights and the Occult Origins of the SS, Zenith Press, 2010

 

 • Eric Kurlander: Hitler’s Monsters: A Supernatural History of the Third Reich, Yale University Press, 2017

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bue-Kindtler-Nielsen Stine Overbye

© Bundesarchiv,© Das Bundesarchiv,© History archive,© Vintage_Space/Imageselect,© Germanrings,© United States Holocaust Memorial Museum,© Shutterstock,© Scherl/Sueddeutsche Zeitung Photo/Ritzau Scanpix,Imageselect,

Náttúran

Þannig sigruðu fuglaköngulærnar allan heiminn

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Heilsa

Óhefðbundin en áhrifarík meðferð geðraskana

Læknisfræði

Þannig má vinna bug á ógleði

Náttúran

Horfðu á myndskeiðið: Ný tegund risaslöngu fannst í Amasonregnskóginum

Lifandi Saga

Hvenær eignuðumst við grasflatir?

NÝJASTA NÝTT

Heilsa

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

Náttúran

Af hverju sveigir bolti?

Heilsa

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

Náttúran

Af hverju sveigir bolti?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Náttúran

Snjöll skordýr hafa fundið upp bestu brellur náttúrunnar

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Jörðin

Veðrið er hlaupið í baklás

Lifandi Saga

Hvaðan eru indíánar?

Menning

Muhammad Ali: Versti andstæðingur hans var BNA 

Tækni

Er gler í rauninni vökvi?

Lifandi Saga

Upphafsár slökkviflugvéla: Óttalausir flugmenn réðust gegn eldinum

Vinsælast

1

Lifandi Saga

Fótbolti: Sjálfsmark kostaði landsliðsmann lífið

2

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

3

Lifandi Saga

EM í fótbolta: Enginn nennti að verða Evrópumeistari

4

Maðurinn

Rannsókn: Hvernig færðu aðra til að líka vel við þig?

5

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

6

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

1

Náttúran

Af hverju stinga moskítóflugur mest á kvöldin?

2

Maðurinn

Hvaða áhrif hefur þungunarrof á heilsu kvenna?

3

Maðurinn

Er íþróttafólk í meiri hættu á að fá hjartastopp?

4

Náttúran

Lengri en strætisvagn: Slanga á Indlandi gæti hafa verið stærsta slanga heims

5

Náttúran

Tungan: Svissneskur vasahnífur dýraríkisins

6

Lifandi Saga

Ævilöng barátta Arthurs Conan Doyle við Sherlock Holmes

Heilsa

Vísindamenn hafa loksins leyst barnadauðaráðgátu.

Lifandi Saga

Hin voldugu turnskip Kínverja þoldu hvorki öldugang né vind 

Lifandi Saga

Hvers vegna hættum við að nota einglyrni?

Náttúran

Tungan kom lífinu upp á þurrlendið

Lifandi Saga

Hver var æpandi múmían?

Maðurinn

Er hægt að þreytast af fersku lofti?

Lifandi Saga

Hvers vegna lítur dagatal svona út?

Tækni

Óvinsæl flugsæti eru öruggust

Lifandi Saga

Búdda skapaði paradís – fyrir karla

Heilsa

Vísindamenn uppgötva óvænta orsök útbreiðslu krabbameins

Náttúran

Moskítóflugur: Hvað elska þær og hvað hata þær?

Maðurinn

Höfuðkúpan getur afhjúpað sjúkdóm

Rannsókn: Þekkt sætuefni sem m.a. er notað er í tannkrem getur aukið hættu á hjartasjúkdómum

Í ljós kom að einstaklingar með þetta sætuefnið í blóði sínu var í aukinni hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Heilsa

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.