Elstu skriflegar heimildir um skotapilsið eru frá árinu 1594. Þá skrifaði írski sagnaritarinn Lughaidh Ó Cléirigh um skoska málaliða á Írlandi:
„Það mátti greina þá frá írskum hermönnum á vopnum þeirra og klæðum. Yfirhafnir þeirra voru köflóttar og litríkar og þeir eru með belti sem liggja yfir lendarnar utan á klæðunum“.
Pilsið sem Lughaidh lýsti er stórt köflótt klæði sem er vafið um líkamann og haldið saman með belti eða linda. Skotar nefna það einnig „the great kilt“. Þetta er upprunalega skoska hálandapilsið og líkja má því við veglega hempu. Slík hempa eða kápa náði niður á hné karlmanna og alla leið niður á ökkla kvenna.
“Though Scots like to prance/About in their kilts wearing nae pants/ Fir the next punter make it fair/Dinnae firgit to wear a pair”
Slagorð stærsta leigusala á skoskum pilsum, þar sem hvatt er til að nærbuxur séu notaðar.
Á 18. öld kom styttra pils í staðinn fyrir stóra kiltið. Það er fest við mjöðmina og nær niður að hnjám. Samkvæmt sumum sagnfræðilegum heimildum innleidddi enski járnsmiðjueigandinn Thomas Rawlinson pilsið, enda þótti það vera heppilegra fyrir skoska vinnumenn hans.
Núna bera langflestir Skotar pilsið til hátíðarbrigða og þá sértaklega í brúðkaupum.
Eftir sem áður stendur brennandi spurningin: Eru Skotar naktir undir pilsinu?

Frönsk skopmynd frá 1815 sýnir tvær konur gægjast forvitnar undir pils skosks hermanns.
MEÐ EÐA Á MÓTI: Sannanir benda út og suður

Vanalega voru margir Skotar í síðu nærklæði sem kallast lèine cròiche og náði niður að hnjám. Því var ekki nauðsynlegt að vera í eiginlegum nærbuxum.
Skoskir hermenn klæddust pilsum og í skoskum herdeildum í breska hernum var bannað að vera í einhverju undir kiltinu. Sagt er að liðsforingjar hafi í fyrri heimsstyrjöldinni gengið um með spegil sem var festur á golfkylfuhaus, til að sjá hvort hermenn væru í nærbuxum.
Margir Skotar segjast ævinlega vera allsberir undir kiltinu. Meðal þeirra er fyrrum ökuþór í Formúlu 1, David Coulthard sem hefur sagt: „Kiltin eru ævaforn – og það sama á við um hefðina að vera ekki í nærbuxum“.

Stuttar nærbuxur eða reiðbuxur voru algengar hjá Skotum á 17. öld. Báðar hefðu hulið djásnin undir pilsinu.
Dansarar á skosku hálandaleikunum eru í nærbuxum þegar þeir sýna listir sínar. Sama á við um þátttakendur í hálandaleikunum, þar sem keppt er í mörgum greinum, m.a. að kasta trjástofnum og láta þá endastingast með sem mestum tilþrifum.
Árið 2010 sagði formaður Scottish Tartans Authority – samtökum sem berjast fyrir varðveislu skoskra þjóðbúninga – hefðina að íklæðast engum nærbuxum vera bæði „barnalega og sóðalega“.
Niðurstaða: Menn ákveða sjálfir hvort djásnin eru hulin
Sögulega séð hafa flestir Skotar klæðst einhverju undir pilsinu – þótt sumir hafi látið síða nærskyrtu nægja.
Það sem sagnfræðingar vita með vissu er að seint á 19. öld kom fram reglugerð þar sem skoskum hermönnum var bannað að vera í nærklæðum undir pilsinu.
Ekki er vitað í hve miklum mæli skoskir borgarar hafi farið eftir þeim fyrirmælum.

Skotapilsið lifði af sem hefðbundinn þáttur í einkennisbúningi Hins sameinaða konungsríkis.
Núna er hugtakið „true Scotsman“ (ekta Skoti) notað um þá menn sem eru ekki í neinu undir pilsinu. En vitað er að Skotar eru klofnir í þessu umdeilda máli.
Rannsókn ein sem stofnunin YouGov framkvæmdi árið 2016 sýndi að 62 prósent Skota eru í nærklæðum undir kiltinu, meðan 32 prósent þeirra eru naktir. Þannig eru Skotarnir sjálfir ekki á einu máli í þessum efnum.