HVERNIG MYNDAST SKÝ?
Í grískri goðafræði töldu menn að ský væri dísir sem himnaguðinn Seifur skapaði og hlutverk þeirra væri að færa mönnum rigningu. Núna vitum við betur.
Ský eru sýnilegar formgerðir vatnsgufu eða ískristalla og þau myndast þegar að sólin hitar upp höfin, vötn og fljót og ísi lögð svæði. Fyrir vikið rís upp hlýtt loft með mismikilli vatnsgufu.
Þegar hlýtt loft með vatnsgufu stígur til himins kólnar það niður. Þar sem kalt loft hefur minna rúmtak en heitt loft þéttist vatnsgufan í agnarsmáar vatnssameindir sem festa sig við svonefnda þéttikjarna – stærri agnir í lofti eins og ryk, salt og ösku – og umbreytast í dropa.
Það er þetta ferli frá vatnsgufu yfir í vatnsdropa sem skapar skýin. Og þegar vatnsdroparnir eru nægjanlega þungir falla þeir niður úr skýjunum í formi úrkomu.
Á himninum virðast skýin vera létt og mjúk en þetta eru þungar hlussur sem geta innihaldið vatnsmassa upp á mörg milljón tonn.
MISMUNANDI GERÐIR SKÝJA
Það fyrirfinnast meira en 100 mismunandi gerðir skýja samkvæmt Alþjóðlegu veðurfræðistofnuninni. Hvert þeirra á heima í einum af tíu meginættum – sem grundvallast á útliti þeirra og staðsetningu á himni.
Hinar tíu gerðir skýja eru:
- Bólstraský – Cumulus
- Þokuský – Stratus
- Flákaský – Stratocumulus
- Netjuský – Altocumulus
- Regnþykkni – Nimbostratus
- Gráblika – Altostratus
- Klósigar – Cirrus
- Maríutása – Cirrocumulus
- Blika – Cirrostratus
- Skúraský – Cumulonimbus
Bólstraský
Staðsetning: U.þ.b. 2000 metra hæð
Bólstraský hafa mikið og háreist form, venjulega í laginu eins og turnar eða hraukar. Bólstraský myndast á sólríkum dögum.
Nokkrar gerðir bólstraskýja finnast:
- Cumulus humilis
- Cumulus mediocris
- Cumulus congestus
- Cumulus fractus.
Þokuský
Staðsetning: U.þ.b. 2000 metra hæð
Stratus eða þokuský eru undir 2.000 metrum frá yfirborði jarðar og eru gráleit og tiltölulega formlaus ský.
Þykkt þeirra getur verið breytileg, allt frá fáeinum metrum upp í 500 metra.
Nokkrar gerðir þokuskýja:
- Stratus nebulosus
- Stratus fractus.
Flákaský
Staðsetning: U.þ.b. 2000 metra hæð
Flákaský eru oft gráir skýjahnoðrar og mynda oft nokkuð samfellda, bylgjótta breiðu þ.a. lítið sést í himininn.
Flákaský geta, allt eftir veðurskilyrðum, þróast yfir í bólstraský eða þykknað og skapað örlitla rigningu.
Nokkrar gerðir flákaskýja:
- Stratocumulus stratiformis
- Stratocumulus lenticularis
- Stratocumulus castellanus.
Netjuský
Staðsetning: Í 2000 til 6000 metra hæð.
Netjuský eru hvít eða gráleit og geta líkst flákaskýjum. Hins vegar eru einstakar skýjamyndanir nokkru minni en þær sem sjást hjá flákaskýjum.
Netjuský sjást oft á heitum og rökum sumarmorgnum og geta verið merki um þrumuveður eða kólnandi veður.
Nokkrar gerðir netjuskýja:
- Altocumulus castellanus
- Altocumulus floccus
- Altocumulus lacunosus
- Altocumulus lenticularis
- Altocumulus stratiformis
- Altocumulus undulatus.
Regnþykkni
Staðsetning: Í 2000 til 6000 metra hæð.
Regnþykkni einkennist af þungri, grárri samfellu sem er nógu þykkt til að hindra sólarljósið. Það skapar yfirleitt langvarandi úrkomu og er best að lýsa regnþykkni sem sönnum regnskýjum.
Það er bara ein gerð regnþykknis.
Gráblika
Staðsetning: Í 2000- 6000 metra hæð.
Gráblika er þunn, gráleit samfella skýja sem hylja himininn að hluta eða öllu leyti. Þunn skýjahulan gerir það að verkum að venjulega má sjá sólina sem þokukennda, lýsandi skífu.
Gráblika myndast oft ef hlýviðri nálgast.
Það er bara ein gerð grábliku.
Klósigar
Staðsetning: Sex kílómetrar eða hærra.
Klósigar tróna sex kílómetra eða hærra yfir yfirborði jarðar. Þetta eru fjaðurlaga ský sem geta einnig verið þráðlaga eða trefjakennd eða verið samsíða rendur þar sem oddurinn beinist upp á við. Þau eru hvítleit og gagnsæ.
Oftast myndast klósigar í góðu veðri en geta verið merki um að óveður sé á leiðinni. Þess vegna fylgdust sjómenn hér áður fyrr með þessum að því er virðist saklausu skýjum
Nokkrar gerðir klósiga:
- Cirrus castellanus
- Cirrus fibratus
- Cirrus spissatus
- Cirrus uncinus.
Maríutása
Staðsetning: Sex kílómetrar eða hærra.
Maríutása er há skýjabreiða Maríutása getur líkst nétjuskýjum og flákaskýjum, en eru mun minni.
Maríutása birtist aðallega á veturna í köldu en björtu veðri.
Nokkrar gerðir Máríutásu:
- Cirrocumulus stratiformis
- Cirrocumulus lenticularis
- Cirrocumulus castellanus
- Cirrocumulus floccus.
Blika
Staðsetning: Sex kílómetrar eða hærra.
Blika er gegnsæ, hvít skýjabreiða sem hylur himininn eins og blæja. Hún kann að líkjast grábliku en þekjan er þynnri og því mun venjulega hægt að sjá geislabaug í kringum sólina í gegnum skýjahuluna.
Blika myndast þegar mikið magn af vatni er í efri lofthjúpnum.
Nokkar gerðir bliku:
- Cirrostratus fibratus
- Cirrostratus nebulosus.
Skúraský
Staðsetning: Í 2000 til 6000 metra hæð.
Skúraský, eru sérstök þar sem þau birtast yfir lág-, mið- og efri loftlögin. Þau skapast úr bólstraskýjum og hafa svipað mynstur. Skúraskýin eru þó mun stærri og hafa oft flatan topp og dökkan botn.
Skúraský tengjast illviðrum og geta þau orsakað þrumuveður og mikilli rigningu, snjóéljum eða hagléljum eftir árstíðum.
Nokkar gerðir skúraskýja:
- Cumulonimbus calvus
- Cumulonimbus capillatus
- Cumulonimbus incus.
MISMUNANDI LITUR SKÝJA
Sólarljósið gerir skýin hvít
Skýin fá lit sinn frá ljósi sólar.
Sérhver vatnsdropi og ískristall – sem mynda byggingarsteina skýsins – sveigja sólarljósið þannig að það brotnar upp í mismunandi liti.
Oft hafa vatnsdropar og ískristallar mismunandi stærð og litirnir kastast því um með þannig hætti að þeir blandast saman og enda á því að virðast hvítir.
Litir sólarljóssins blandast vatnsdropum og ískristöllum skýjanna og því virðast skýin hvít.
Þegar rigning er í aðsigi verða skýin jafnan dekkri þar sem þau fyllast með fleiri og stærri vatnsdropum sem soga til sín ennþá meira af ljósinu.
Þessir stóru dropar eru jafnframt þungir og safnast því saman neðst í regnskýjum. Þetta er skýringin á því hvers vegna ský geta verið dökk að neðanverðu og ljósari að ofanverðu.
Ský geta einnig birst í rauðleitum regnbogalituðum eða jafnvel bláleitum litbrigðum.
Rauðleitu skýin sjást oftast við sólsetur eða sólarupprás þegar sólin er lágt á lofti.
Rauðleit ský sjást við sólsetur eða sólarupprás
Það felur í sér að sólarljósið þarf að fara lengri leið í gegnum lofthjúpinn sem dreifir þeim litum sem hafa stuttar bylgjulengdir en skilur hinar eftir sem hafa lengri bylgjulengdir.
Þar sem rautt og rauðgult hafa lengri bylgjulengd en t.d. grænt og blátt enda þessir litir með því að einkenna lit skýjanna á himni.
Regnbogalituð ský myndast þegar sólarljósið sveigist í agnarsmáum og einsleitum ískristöllum.
Fyrir vikið brotna litirnir eins og í stórri linsu og því getur maður við réttar aðstæður séð alla regnbogans liti.
Bláleit ský sjást af og til við dagrenningu eða þegar húmar að og sólin er komin niður fyrir sjóndeildarhringinn og varpar ljósinu upp á við.
Slík ský myndast jafnan hátt uppi í lofthjúpnum og það sólarljós sem skellur á þeim og endurkastast aftur til jarðar þarf að fara í gegnum ósonlagið.
Ósonlagið dregur í sig rautt ljós en ekki það bláa og því fá skýin bláleitan lit.
Næturský sjást í 80 til 100 kílómetra hæð yfir jörðu.
ÁHRIF SKÝJA Á LOFTSLAG
Ský kæla hnöttinn niður
Lágský og þétt ský gegna mikilvægu hlutverki við kælingu á lofthjúp jarðar.
Staðsetning þeirra á himni felur í sér að þau skerma af geisla sólar og ásamt hvítu yfirborði á jörðu, eins og t.d. ís og snjó, endurkasta þau um þriðjungi af sólarljósinu aftur upp í lofthjúpinn og út í geim.
Endurkastið stafar af hvítum lit þeirra. Þess hvítara sem fyrirbærið er, því betur endurkastar það sólarljósinu.
Þetta er einnig nefnt albedo-áhrifin. Nafnið „albedo“ er komið af latneska orðinu fyrir „hvítur“.
En það eru einnig til ský sem hafa gagnstæð áhrif.
Þunn og hátt liggjandi ský hleypa sólarljósinu í gegn en bremsa einnig af þá varmageislun sem berst frá yfirborði jarðar þannig að endurkastið nær ekki út í geim. Slík ský geta því hitað upp hnöttinn.
Skýjum breytt til að hægja á hlýnun jarðar
Í skýrslunni „Reflecting Sunlight: Recommendations for Solar Geoengineering Research and Research Governance“, sem gefin var út vorið 2021, kynntu vísindamenn 329 tegundir tækni, sem allar miða að því að auka heildar ,,albedo” áhrif á jörðina og þar með hægja á hlýnun jarðar.
Ein aðgerðanna gengur undir nafninu „marine cloud brightening“ (skammstafað MCB) og felst í því að bleikja lágliggjandi ský yfir ákveðnum svæðum heimsins til þess að auka endurskin þeirra.
Hugmyndin er að nota tölvustýrt skip knúið vindorku, sem dælir ofurþunnri þoku sjávarsalta í skýjahuluna.
Úði þessi eykur vatnsgufuna í skýinu, sem svo endurkastar meira magni sólarljóss aftur út í geiminn.
Maðurinn á bak við hugmyndina er verkfræðingur og prófessor við Edinborgarháskóla Stephen Salter og áætlar hann að floti 300 svona skipa gæti lækkað hitastig jarðar um 1,5 gráður.
„Með því að úða tíu rúmmetrum af sjávarsalti í skýjahuluna á sekúndu munum við geta unnið úr öllum þeim skaða sem hnattræn hlýnun af mannavöldum hefur valdið jörðinni hingað til,“ sagði hann við BBC.
Hins vegar tekur að minnsta kosti áratug að setja verkefnið í gang – og þegar þetta er skrifað hefur ekki enn verið byrjað á því.