Það getur verið erfitt að sjá fyrir hvaða áhrif hlýnandi loftslag framtíðar muni hafa á bráðnun íss á Suðurskautslandinu. Nú hafa vísindamenn uppgötvað enn einn þáttinn sem þarf að koma fyrir í reiknilíkaninu.
Um 460 kílómetra langt fljót bugðast undir jökulhettunni og dregur til sín vatn af landsvæði sem er stærra en Þýskaland og Frakkland til samans.
Það eru vísindamenn hjá University College í London sem uppgötvuðu fljótið sem þeir segja stærra en Thames í Englandi. Það voru radarmyndir úr lofti sem afhjúpuðu vatnsrennslið og nú óttast menn að svo mikið vatnsrennsli kunni að hraða bráðnun.
Radarmyndir sýna 460 km langt stórfljót undir ís á Suðurskautslandinu.
„Svæðið sem rannsóknin náði til er nógu stórt til að hækka yfirborð heimshafanna um 4,3 metra ef allur ísinn bráðnar. Hve mikið bráðnar og hversu hratt tengist því hversu hál klöppin er undir ísnum. Þetta nýfundna rennsliskerfi getur haft mikil áhrif á þróunina,“ segir Martin Siegert prófessor, einn vísindamannanna sem stóð að rannsókninni.
Vatnsrennsli hraða ferlinu
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við finnum vatnsrennsli undir jökulhettunni á Suðurskautslandinu. En þessi uppgötvun þýðir að þarna er heilt vatnsrennsliskerfi, samtengt með ám og fljótum undir ísnum, rétt eins og enginn ís væri fyrir ofan.“
Vatn undir jökulhettu getur myndast á margvíslegan hátt. Leysingavatn af yfirborði getur komist niður um sprungur. Núningur skriðjökla við berggrunninn myndar líka hita sem getur brætt ís neðan í jöklinum.
Rannsóknirnar voru gerðar með litlum flugvélum.
Rannsóknin sýnir að bráðnun úr botni jökulhettunnar á Suðurskautslandinu er svo mikil að hún myndar stórfljót og það getur flýtt verulega fyrir heildarbráðnun vegna þess að þetta vatn dregur úr núningsmótstöðunni þar sem skriðjökultungur renna fram í sjó.
Ókannað landsvæði
Niðurstöðurnar fengust eftir radarrannsóknir úr flugvélum. Þær gáfu vissa innsýn í ástandið undir jökulhettunni og við bættust svo útreikningar á hreyfingum svo mikils vatns.
Vísindamennirnir einbeittu sér að torfæru og lítið rannsökuðu svæði inn af Weddelhafi og nær til jökla bæði úr austri og vestri.
Að svo stórt fljótakerfi skuli ekki hafa uppgötvast fyrr en nú segja vísindamennirnir sönnun þess hve mikið menn eiga enn ólært um þetta meginland.
„Ef við reiknum ekki með þessu vatnakerfi, vanmetum við hve hratt ísinn muni bráðna,“ segir rannsóknarstjórinn Christine Dow í fréttatilkynningu.