Hversu eitruð er svarta ekkjan? Hver eru einkennin af biti svörtu ekkjunnar? Getur svarta ekkjan deytt fólk?
HVERNIG LÍTUR SVARTA EKKJAN ÚT?
Svarta ekkjan er svört könguló með hnöttóttan glansandi afturhluta.
Á neðanverðum búknum er að finna einkennandi mynstur sem minnir á stundaglas, í rauðum og appelsínugulum litum.
Svarta ekkjan er auðþekkt á rauðleitu stundaglasinu á neðanverðum búknum.
Búkur kvendýrsins er á bilinu 1,2 til 1,6 cm á lengd og fæturnir eru talsvert lengri.
Karldýrið er aðeins um þriðjungur af stærð kvendýrsins og er iðulega í ljósari litum og með litla, rauða bletti. Karlinn sést mjög sjaldan, því kerlan hefur það fyrir sið að éta karlinn sinn að eðlun lokinni.
Staðreyndir um svörtu ekkjuna
- Latneskt heiti: Latrodectus mactans.
- Búsvæði: Einkum í Bandaríkjunum.
- Ættkvísl: Tilheyrir ættkvíslinni „svartekkja“ (latrodectus). Allar ekkjuköngulær eru eitraðar mönnum.
- Eitur: Inniheldur taugaeitur sem hrífur á taugakerfið og veldur lömun í vöðvum. Einn dropi af eitrinu er 15 sinnum sterkari en eitur skröltormsins.
Svarta ekkjan lifir á skordýrum, í líkingu við flugur, bjöllur, mýflugur og engisprettur og notar tvenns konar vopn við veiðar: köngulóarvef og eitur.
Vefur svörtu ekkjunnar samanstendur af flækju sterkra silkiþráða sem vefjast hver utan um annan. Um leið og bráð lendir í gildrunni flýtir köngulóin sér að bíta skordýrið með lamandi eitri sínu og síðan tekur við máltíð sem fer fram í mestu makindum.
HVAR LIFIR SVARTA EKKJAN?
Svarta ekkjan, latrodectus mactans, lifir einkum í Bandaríkjunum og fyrir vikið kallast hún stundum „ameríska svarta ekkjan“.
Köngulær þessar lifa einungis í hitabeltisloftslagi eða heittempruðu lofti og því lifa þær aðeins í nokkra daga ef þær berast til Norður-Evrópu í gámaflutningaskipum eða álíka.
Þó er ekki útilokað að rekast á svartar ekkjur í löndum Suður-Evrópu, svo sem eins og Ítalíu, Spáni, Grikklandi og Króatíu.
Svarta ekkjan er jafnframt skyld nokkrum öðrum ekkjuköngulóm sem lifa annars staðar á jörðinni.
Það eru einkum þessar ekkjuköngulær:
- Sprettkönguló, latrodectus hasselti sem lifir í Ástralíu.
- Rauða ekkjan, latrodectus bishopi sem lifir í Flórída.
- Brúna ekkjan, latrodectus geometricus sem á rætur að rekja til Suður-Afríku.
- Evrópska svarta ekkjan, latrodectus tredecimguttatus, fyrirfinnst einkum í grennd við Miðjarðarhafið.
FYRIRFINNST SVARTA EKKJAN Í EVRÓPU
Svarta ekkjan lifir í Evrópu en þar eru mestar líkur á að rekast á latrodectus tredecimguttatus (svonefnda evrópska svarta ekkju).
Evrópska svarta ekkjan lifir í grennd við Miðjarðarhafið en hún er með 13 rauða bletti á afturhlutanum.
Evrópska svarta ekkjan er með allt að 13 rauða bletti á afturhlutanum.
Eitur evrópsku ekkjunnar er álíka sterkt og eitur þeirrar amerísku en hins vegar bíta þær evrópsku sjaldnar og aðeins er vitað um tvö dauðsföll í Evrópu sem talin eru tengjast slíku biti.
Ekki er vitað hvaða tegund latrodectus-köngulóarinnar á sök á dauðsföllunum tveimur, þar sem einungis er hægt að ákvarða tegundina með því að veiða köngulóna og það tókst í hvorugu tilvikinu.
Óháð því um hvaða tegund hefur verið að ræða, hefði verið unnt að bjarga lífi þeirra sem urðu fyrir stungunum með því að gefa þeim móteitur.
HVERSU EITRUÐ ER SVARTA EKKJAN?
Svarta ekkjan er ein eitraðasta könguló heims.
Líkt og við á um allar aðrar ekkjuköngulær af ættkvíslinni latrodectus hefur svarta ekkjan yfir að ráða taugaeitri sem lamar vöðvakerfið.
Einn dropi af eitri köngulóarinnar er 15 sinnum eitraðri en einn dropi af eitri skröltormsins og nægir því til að deyða menn.
Engin leið er að átta sig á hvers vegna eitur svörtu ekkjunnar er jafn eitrað og raun ber vitni þar sem fæða hennar felst að öllu jöfnu í litlum skordýrum og ekki fólki.
Ef marka má vísindamenn við háskólann í Massachusetts er svarið fólgið í próteininu latrótoksíni. Latrótoksín er eiturefni sem allar ekkjuköngulær hafa yfir að ráða. Þess vegna er eitrið nefnt eftir ættkvíslinni latrodectus.
Rannsóknir vísindamannanna leiddu í ljós að eitur svörtu ekkjunnar er jafn sterkt og raun ber vitni fyrir þær sakir að það hefur tekið köngulóna stuttan tíma að þróa eitrið, þegar litið er til framþróunarinnar. Aðrar eitraðar köngulær framleiða enn fremur latrótoksín en í minna mæli þó.
Á myndinni má sjá karldýr (t.v.) og kvendýr (t.h.) evrópsku svörtu ekkjunnar.
Ekkjuköngulær éta makann
Sameiginlegt fyrir allar ekkjuköngulær er að þær éta oftast makann að eðlun lokinni. Þannig hafa þær öðlast heiti sitt.
Fyrir vikið þarf karldýrið að búa yfir töluverðu hyggjuviti. Í því skyni að frjóvga kvendýrið þarf karldýrið fyrst og fremst að ná athygli hennar, eðla sig með henni og sleppa lifandi frá umtalsvert stærra kvendýrinu sem jafnframt er soltið.
HVER ERU EINKENNIN AF BITI SVÖRTU EKKJUNNAR?
Bit af völdum svörtu ekkjunnar hefur í flestum tilvikum aðeins í för með sér sársauka, þrota og roða á svæðinu umhverfis bitið.
Í sumum tilfellum getur eitrunin þó haft alvarlegri afleiðingar í för með sér eftir 30 til 60 mínútur.
Meðal alvarlegri einkenna eru:
- Vöðvakrampi
- Hiti
- Magakrampi
- Flökurleiki og uppköst
- Andlitskrampi
- Höfuðverkur
- Mjög hár blóðþrýstingur
- Ör hjartsláttur
GETUR SVARTA EKKJAN DEYTT FÓLK?
Eitt einasta bit af völdum svörtu ekkjunnar getur haft banvænar afleiðingar í för með sér fyrir menn. Ef eitrið nær að lama öndunarfærin er hætt við að fólk hætti að anda og deyi.
Þess ber þó að geta að bit ekkjunnar er engin veginn banvænt í öllum tilvikum, segir köngulóafræðingurinn, prófessor Nikolaj Scharff sem starfar við náttúrufræðisafnið í Danmörku:
„Hver dropi af eitrinu er afar eitraður í svörtu ekkjunni en svo er breytilegt hversu miklu eitri hún sprautar hverju sinni. Það er sannarlega óþægilegt að verða fyrir biti og einkenni í líkingu við magakrampa, andlitskrampa og öran hjartslátt geta dregið fólk til dauða“.
Þess ber þó að geta að fólk lætur mjög sjaldan lífið eftir köngulóarbit, staðhæfir Nikolaj Scharff. Síðasta skráða andlátið hafði átt sér stað árið 1983.
Ástæðan er bæði sú að einkennin eru sjaldnast lífshættuleg og svo verða langtum færri fyrir bitum ekkjuköngulóa í dag en áður, segir Nikolaj Scharff:
„Bit af völdum svörtu ekkjunnar eru afar fágæt í dag. Köngulónum hugnast að spinna vef sinn í felum og í gamla daga var ekki óalgengt að finna slíka vefi undir setunni á útikömrum. Þetta gerði það að verkum að sá sem settist á útikamarinn til að gera þarfir sínar átti það á hættu að verða bitinn í afturendann.