Lifandi Saga

„Þrælapískarinn“ barði svertingjana til hlýðni

Þegar Frederick Douglass var 16 ára að aldri komst hann í klærnar á ofbeldishneigðum bónda sem hafði þann ljóta sið að berja lífslöngunina úr uppreisnargjörnum þrælum. Plantekrueigandinn var svokallaður „þrælapískari“ en segja má að hann hafi mætt ofjarli sínum þegar Douglass var annars vegar.

BIRT: 03/01/2023

Kuldinn nístir inn að beini í horuðum líkama Fredericks Douglass hinn 1. janúar árið 1833 þegar hann gekk ellefu kílómetra leið frá bænum St. Michaels að sveitabæ einum í héraðinu Bayside í Maryland-fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Á öxlinni bar hann lítið prik með litlum poka á en poki þessi innihélt allar eigur þessa 16 ára unglingspilts. Douglass var eilítið uppreisnargjarn og fyrir vikið var ætlunin að senda hann til þrælapískarans Edwards Coveys. „Til þess að hægt verði að berja úr þér óþekktina“, líkt og eigandi hans, Thomas Auld, sagði fyrir brottför þrælsins.

 

Líkt og flest allir þrælar í Suðurríkjunum var Douglass fæddur í ánauð. Hann ólst upp hjá ömmu sinni en átta ára gamall var hann seldur Tómasi Auld sem lánaði drenginn bróður sínum Hugh sem bjó í Baltimore. Þar leið piltinum vel, miðað við aðstæður: Hann fékk nægan mat, vinnan var ekki meira en hann réði við og það sem mest var um vert: eiginkona Hughs kenndi honum að lesa og skrifa.

„Mér er sagt að ég sé sem villt, ungt vinnudýr sem þurfi að brjóta til hlýðni og fá til að verja dapurlegri ævi sinni í ánauð“,

Douglass í sjálfsævisögu sinni.

Friðsældin varð þó að engu dag einn árið 1832 þegar Douglass var sendur aftur til upprunalegs eiganda síns. Þar var maturinn skorinn við nögl, drengurinn þurfti að erfiða mikið og það tiltölulega mikla frelsi sem Douglass hafði notið til þessa var frá honum tekið. Í staðinn fyrir að beygja sig undir örlög sín gerði þessi víðlesni ungi þræll uppreisn gegn lífinu sem honum var ætlað að lifa í hlekkjum. Hann neitaði að vinna, hellti skammaryrðum yfir eiganda sinn og sleppti hestum eigandans ítrekað lausum.

 

Þrælaeigandanum var að lokum nóg boðið og skömmu síðar var Douglass sendur til þrælapískarans Covey, þar sem honum var ætlað að starfa í eitt ár. Covey bjó á bóndabæ með eiginkonu sinni og börnum. Hér lifði hann á því að aðstoða plantekrueigendur héraðsins sem sendu honum þræla sem þeir áttu í vandræðum með. Covey sérhæfði sig í að brjóta á bak aftur frjálsan vilja þrælanna.

 

„Mér er sagt að ég sé sem villt, ungt vinnudýr sem þurfi að brjóta til hlýðni og fá til að verja dapurlegri ævi sinni í ánauð“, ritaði Douglass síðar meir í sjálfsævisögu sinni. Og það blæddi svo sannarlega úr baki unglingsins í hvert sinn sem þrælapískarinn gerði tilraun til að berja hann til hlýðni.

Frederick Douglass varð þekktur fyrir járnvilja sinn og ódrepandi baráttu gegn óréttlæti.

Þrælum misþyrmt til hlýðni

Douglass átti von á að „þrælapískarinn“ væri stór, sterkur og ógnandi maður en Covey var hins vegar einungis tæpir 160 cm á hæð og grannvaxinn í þokkabót. Þó má segja að hann hafi á sinn hátt verið ógnvekjandi: Augun voru grágræn og pírð, auk þess sem gríðarstórt ennið og lágur hnakkinn gerðu það að verkum að hann minnti frekar á úlf en mann. Skapgerð mannsins hæfði enn fremur frekar úlfi en manni, satt best að segja.

 

Covey vakti sífellt yfir „hjörðinni sinni“ og ef honum fannst þrælarnir ekki leggja nógu hart að sér barði hann þá sundur og saman með priki sínu eða leðurpísknum. Douglass erfiðaði allt hvað hann gat en fékk engu að síður reglulega að kynnast písknum.

 

Hann og nokkrir aðrir þrælar unnu hörðum höndum á ökrunum myrkranna á milli. Þá var það enn fremur í verkahring þrælanna að safna brenni og hlaða því upp á kerru sem uxar drógu.

 

Douglass hafði alls enga reynslu af þess konar vinnu en hann hafði verið sendur út í skóginn einungis örfáum vikum eftir komuna á býlið. Hann missti stjórn á uxunum og ók vagninum fyrst inn í tré og síðan á hliðið sem lá upp að býli Coveys.

 

Óhapp þetta reitti Covey til reiði. Hann missti algerlega stjórn á sér, reif fötin utan af þrælnum og barði hann til blóðs með grein af gúmmíplöntu.

Algengasta refsingin fólst í svipuhöggum. Þrælarnir fengu skelfileg ör á bakið en sárin eyðilögðu ekki verkgetu þeirra.

Næstu sex mánuði eftir þetta var Douglass barinn minnst einu sinni í viku, að eigin sögn. Opin sárin á baki þrælsins unga létu hann aldrei í friði.

 

Allir þrælaeigendur höfðu rétt til að berja þræla sína en sérgrein Coveys sem viðurkennds þrælapískara, var hins vegar andlega ofbeldið sem hann beitti þrælana daglega. Útsmoginn þrælapískarinn vakti yfir þrælum sínum líkt og skríðandi slanga, á bak við limgerði og girðingar.

 

Stundum þóttist hann jafnvel þurfa að fara ríðandi inn í bæinn en lá þess í stað í leyni á bak við tré í grennd við akurinn.

 

Þaðan gat hann svo fylgst með hvort þrælarnir væru í raun og veru að gera eitthvað og eftir á tók hann svo til bæna þá sem honum fannst ekki erfiða nóg.

 

Þrælarnir grunuðu Covey um að búa yfir yfirnáttúrulegum eiginleikum því hann virtist ætíð vita hvað þeir hefðu fyrir stafni, jafnvel þótt hann væri víðs fjarri.

Bómullartínsla var helsta starf þræla í suðurríkjum Bandaríkjanna. Árið 1850 voru um 3,2 milljónir þræla í Bandaríkjunum, þar af 1,8 milljónir sem unnu á bómullarökrunum.

Að nokkrum mánuðum liðnum leit út fyrir að þrælapískaranum Covey tækist ætlunarverk sitt, þ.e. að brjóta Douglass á bak aftur.

 

„Ég var bugaður á sál og líkama. Liðleikinn var horfinn úr líkama mínum, vitsmunir mínir voru að veslast upp, lestrarlöngunin hvarf með öllu, hamingjuneistinn í augum mínum slokknaði, myrkur þrældómsins umvafði mig – maðurinn sem ég eitt sinn var hafði nánast breyst í dýr“, ritaði Douglass um þetta skelfilega tímabil sem hann varði hjá Covey.

 

Þó komu stundir þar sem þrælnum unga tókst að flýja hversdagsleikann og láta sig dreyma um líf í frelsi.

 

Covey sem var einkar trúrækinn maður, heiðraði boð Biblíunnar um að halda hvíldardaginn heilagan og bannaði þrælunum að vinna á sunnudögum. Douglass varði sunnudögum einsamall uppi á hæð einni þaðan sem sjá mátti yfir gjörvallan Chesapeake-flóa. Sorgbitinn fylgdist hann með skipunum sem sigldu fram hjá.

 

„Ég átti ávallt erfitt með að horfa á skipin. Ég hugsaði sem svo: Þið, skipin, hafið losnað við hlekkina. Ég hins vegar er fastur í fjötrum mínum og er í ánauð“.

Douglass lýsti svipunni sem gerð var úr höldu og kýrhúð, á þann hátt að hún væri verri en „kötturinn með níu rófur“. Svipan gat flegið sneiðar af húð manna.

Barinn til blóðs

Einn sjóðheitan sumardag var Douglass svo sannarlega minntur á það hve langt undan frelsið væri. Þar sem hann hamaðist við hveitiuppskeruna fékk hann sólsting og féll niður. Hann skreið inn í skuggann til þess að reyna að jafna sig og þar kom Covey auga á hann.

 

Hann sparkaði þéttingsfast í nýrun á Douglass og öskraði að hann skyldi standa upp. Douglass reyndi að rísa á fætur en datt niður aftur sem leiddi af sér annað spark. Að lokum tók þrælapískarinn stóra viðarfjöl og lamdi henni í höfuðið á Douglass um leið og hann öskraði:

 

„Ef þú ert með höfuðverk, þá mun þetta lækna þig!“

 

Höggin hjálpuðu Douglass hins vegar alls ekki að komast á fætur og að lokum skildi Covey hann öskureiður eftir. Blóðið streymdi niður kinnar þrælsins unga. Þegar Douglass komst til meðvitundar aftur tók hann þá ákvörðun að nú væri nóg komið. Hann flýði aftur til eiganda síns, Tómasar Auld og sagði honum frá slæmri meðferðinni sem hann, „eign“ Tómasar, hefði hlotið.

 

Tómas Auld sýndi enga meðaumkun og sagði Douglass þess í stað að hann hefði áreiðanlega átt skilið af fá barsmíðarnar. Hann sendi þrælinn síðan aftur til Coveys næsta morgun.

Fram á 20. öldina voru nokkurs konar refsistólpar í flestum bandarískum borgur - þar sem líkamlegum refsingum var beitt. Síðasti Bandaríkjamaðurinn var hýddur árið 1952.

Þegar hann kom á býli Coveys næsta morgun beið þrælapískarinn hans og réðst á hann eins og „trylltur hundur“, að sögn Douglass. Hann vildi þá einfaldlega ekki láta berja sig framar og flýði inn í skóginn. Þar faldi hann sig í runnum þar til þræll að nafni Sandy kom auga á hann. Sandy vorkenndi unga manninum og bauð honum heim þar sem hann leyfði honum að leggja sig og gaf honum mat að borða. Sandy var kvæntur frjálsri konu og lifði betra lífi en flestir hinir þrælarnir.

 

Eftir góðan nætursvefn, þar sem Douglass fékk ekki einvörðungu tök á að hvíla sig, heldur var að sama skapi meðhöndlaður eins og mennskur maður, yfirgaf hann kofann til að standa augliti til auglits við þrælapískarann. Þegar þarna var komið sögu var raunar sunnudagur, svo fundur mannanna tveggja dróst fyrst í stað. Guðhræddur þrælapískarinn barði ekki þræla á sunnudögum. Á mánudögum gegndi hins vegar allt öðru máli.

Bækur Douglass seljast enn í stóru upplagi.

Sjálfsævisaga ruddi brautina fyrir frelsi Douglass

Þegar Frederick Douglass gaf út sjálfsævisögu sína árið 1845 sem strax vakti mikla athygli, komst hann í samband við enska baráttumenn á sviði mannréttinda sem aðstoðuðu hann við að öðlast frelsi.

 

Sjálfsævisaga Douglass „Narrative of the Life of Frederick Douglass, an American Slave“ („Frásögn bandarísks þræls“) kom úr árið 1845. Bókin varð strax metsölubók á alþjóðavísu en þess má geta að 30.000 eintök af bókinni seldust fyrstu fimm árin eftir að hún kom út.

 

Velgengni bókarinnar gerði honum kleift að ferðast til Englands og Írlands árið 1845 þar sem hann hélt erindi um þrælahaldið í Bandaríkjunum. Ræður hans ollu mikilli hrifningu meðal svokallaðra afnámssinna sem börðust fyrir afnámi þrælahalds en þeir sögðust aldrei hafa heyrt jafn mælskan og vel máli farinn svertingja tala áður. Kvekarakonan Ellen Richardson og mágkona hennar, Anna, gerðu síðan samkomulag við þrælaeigendurna Thomas og Hugh Auld um að greiða fyrir frelsi Douglass. Umsamið verð fyrir þrælinn voru 711 Bandaríkjadalir (samsvarandi 3,5 milljónum íslenskra króna í dag) en áhrifamenn úr hópi breskra vina hans höfðu safnað til að kaupa frelsi hans.

 

Þegar Douglass sneri aftur til síns heima í Bandaríkjunum vorið 1847 var hann frjáls maður. Mannréttindafrömuðurinn ritaði tvær bækur til viðbótar. Þær voru í raun framhald af upprunalegu sjálfsævisögunni og seldust báðar eins og heitar lummur.

Áflog breyttu gangi mála

Líkt og svo oft áður komu árásir Coveys algerlega fyrirvaralaust. Þegar Douglass var á leið niður stiga ofan af heyloftinu réðst Covey á hann og reyndi að binda reipi um ökkla unga mannsins. Í fyrsta sinn á þessum sex mánuðum, já, eða í raun á gjörvallri ævi hans, gat Douglass ekki sætt sig við meira.

 

Mótstaðan kom aftan að Covey. Hann varð greinilega logandi hræddur þegar Douglass þvingaði hann til að leggjast á jörðina. Mennirnir kútveltust um en Douglass sló andstæðinginn ekki einu einasta höggi, heldur reyndi einvörðungu að halda honum kyrrum.

 

„Ætlarðu að streitast á móti, auminginn þinn?“ hvæsti Covey að þrælnum.

 

„Já, herra“, svaraði Douglass, um leið og hann horfði djúpt í augu andstæðingsins.

 

Á þessari stundu gerði Covey sér grein fyrir að einn myndi hann aldrei sigrast á andstæðingi sínum. Hann hrópaði því á frænda sinn. Þegar frændinn kom honum til hjálpar sparkaði Douglass af alefli í frændann sem þá var úr leik.

 

Óttinn skein úr augunum á Covey. Douglass var ekki einungis sterkari en hann, heldur einnig einum 20 sentímetrum hærri og það sem mest var um vert: Douglass var hættur að vera hræddur. Baráttan milli mannanna tveggja átti eftir að standa yfir í næstum tvær klukkustundir.

„Ætlarðu að streitast á móti, auminginn þinn?“

Covey við Frederick Douglass.

Að lokum gafst Covey upp og mælti með öndina í hálsinum:

 

„Jæja, auminginn þinn, farðu aftur að vinna. Ég hefði aldrei barið þig svona oft með svipunni ef þú hefðir ekki hreyft við mótmælum“.

 

Í raun réttri hafði hann ekki beitt svipunni í eitt einasta sinn. Covey þurfti að öllum líkindum bara að sannfæra sjálfan sig um að hann hefði borið sigur af hólmi.

 

Hann tilkynnti árásina heldur aldrei, því það hefði án efa eyðilagt þann orðstír sem hann vildi að færi af sér sem harðskeyttur þrælapískari.

 

Síðasta misserið af dvöl Douglass á býlinu var nánast dans á rósum miðað við áður. Þrælapískarinn lagði aldrei hönd á þrælinn unga á því tímabili eða líkt og Douglass sjálfur orðaði það, þá urðu vatnaskil í lífi hans sem þræll eftir slagsmálin við Covey.

 

„Þessi slagsmál breyttu mér í eitt skipti fyrir öll. Ég var ekkert áður en þau áttu sér stað. Nú var ég orðinn maður!“ ritaði hann í sjálfsævisögu sinni.

Æsilegur flótti gerði þræla fræga

Frederick Douglass var ekki eini þrællinn sem flýði úr fjötrum Suðurríkjanna. Fleiri þrælar öðluðust frægð þegar þeim á undraverðan máta tókst að komast í öruggt skjól í Norðurríkjunum.

Flótti í litlum viðarkassa

Árið 1849 var þrællinn Henry Brown búinn að fá sig fullsaddan af skelfilegu lífi sínu í ánauð og faldi sig í litlum viðarkassa með málin 61 x 86 x 91 cm. Kassann átti að senda með gufuskipi til mannréttindafrömuðar í Fíladelfíu sem var í 400 km fjarlægð. Eftir 27 stunda ferðalag þar sem ítrekað var í þann veginn að líða yfir hann, skreið Brown upp úr kassanum sem frjáls maður. Næstu árin starfaði hann sem töframaður.

Gufuskip þrælaeiganda tekið traustataki

Robert Smalls var þræll á gufuskipi en sá tækifæri til að sleppa þegar skipstjórinn sem var hvítur, var farinn í land. Smalls og hinir 17 þrælarnir sigldu út á opið hafið þar sem þeim var bjargað um borð í skip frá Norðurríkjunum en þar öðluðust þrælarnir allir frelsi. Smalls var seinna meir kjörinn á þing í fulltrúadeildinni, þar sem hann barðist fyrir réttindum þeldökkra í tólf ár.

Bjó á háaloftinu hjá ömmu í sjö ár

Árið 1835 flýði ambáttin Harriet Jacobs frá ofbeldishneigðum eiganda sínum í Norður-Karólínu sem jafnframt beitti hann kynferðislegu ofbeldi. Hún faldi sig í sjö ár í litlu herbergi uppi á háalofti í húsi ömmu sinnar þar sem hún gat fylgst með börnum sínum vaxa úr grasi í gegnum lítið gat. Hún komst loks undan þegar henni tókst að fela sig um borð í skipi nokkru. Harriet öðlaðist frægð þegar hún gaf út sjálfsævisögu sína „Incidents in the Life of a Slave Girl“.

Eftirmáli

Þegar Douglass hafði dvalið hjá Covey í heilt ár var hann sendur áfram til tveggja þrælaeigenda áður en hann sneri aftur til Hugh Auld árið 1836, þar sem hann starfaði á skipasmíðastöð þrælaeigandans. Árið 1838 fékk hann svo endanlega nóg af lífi sínu sem þræll. Hann útbjó sig sem sjómaður og flýði til Fíladelfíu í hinum frjálsu Norðurríkjum.

 

Douglass var mikill eldhugi og einkar mælskur en næstu ár á eftir var hann ein mikilvægasta svarta röddin í baráttunni fyrir afnámi þrælahalds og réttindum þeldökkra sem raungerðust eftir að Þrælastríðinu lauk árið 1865. Uppgjörið við harðstjórann Covey öðlaðist nánast goðsagnakenndan sess í eldræðum Douglass á sviði stjórnmálanna. Líkt og hann orðaði það sjálfur:

 

„Um var að ræða endurfæðingu frá myrku grafhýsi þrælahaldsins yfir í himnaríki frelsisins“.

Lestu meira um Frederick Douglass

Frederick Douglass: Narrative of the Life of Frederick Douglass, an American Slave, Oxford University Press, 2009

 

David W. Blight: Frederick Douglass: Prophet of Freedom, Simon & Schuster, 2018

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Andreas Ebbesen Jensen, Bue Kindtler-Nielsen

Imageselect,© MET Museum,© Mathew Benjamin Brady,© Creative Commons,© Smithsonian National Museum,© Art Institute of Chicago, Shutterstock,© Library of Congress,© Gilbert Studios, Washington, D.C. (C. M. Gilbert); restored by Adam Cuerden

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Tækni

Sólarsellur flytja út í geim 

Heilsa

Algengt meðferðarúrræði fyrir konur á breytingaskeiði er talið hafa í för með sér alvarlegar aukaverkanir

Maðurinn

Er skaðlegt að halda sér vakandi alla nóttina?

Heilsa

Yfirsýn: Svona bjargar blóðið þér

Maðurinn

Hvað eru svífandi blettir fyrir augum?

Náttúran

Hvaðan koma bananaflugur?

Tækni

Vísindamenn: Þessi umhverfistækni fangar 10 sinnum meiri CO2 en sjálf náttúran

Heilsa

Fimm atriði sem skipta máli fyrir þá sem vilja lifa lengur

Læknisfræði

Af hverju stafar glútenóþol?

Maðurinn

Heilinn gefur frá sér meira ástarhormón þegar við eldumst

Lifandi Saga

Alexander mikli fæddist til að ná árangri

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is