Lifandi Saga

Þýsk fórnarlömb sprengjuflugmanna tóku þá af lífi

Léttirinn sem flugmenn bandamanna fundu fyrir þegar þeir komust lífs af eftir að vél þeirra hafi verið skotin niður yfir Þýskalandi breyttist fljótt í hreina martröð. Á jörðu niðri biðu nefnilega fórnarlömb sprengjuflugvélanna – haldin hefndarþorsta.

BIRT: 24/01/2023

Stélskyttan Sidney Brown vissi undir eins að brugðið gat til beggja vona þegar hann heyrði sprenginguna úr sprengjurými flugvélarinnar. Stóra bandaríska B-24 sprengjuflugvélin hristist öll.

 

Þessi 19 ára gamli hermaður og félagar hans átta höfðu rétt í þessu varpað sprengjuhleðslu sinni yfir herflugstöð í grennd við Hannover en þetta gerðist seinnihluta dags 24. ágúst 1944.

„Við neyðumst til að koma okkur út úr flugvélinni“.

Sidney Brown þegar B-24 sprengjuvél hans verður fyrir sprengikúlu.

Sprengikúla úr þýskri loftvarnabyssu hafði hæft opið sprengirýmið og tætt í sundur stóran hluta flugvélarinnar.

 

„Við erum aðeins með einn starfhæfan hreyfil. Hann nægir okkur ekki til að komast aftur yfir Sundið“, heyrðist flugmaðurinn Norman Rogers segja.

 

Flugstöðin í Englandi var í örfárra hundruð kílómetra fjarlægð en ógerningur var að komast svo langa vegalengd. Þess í stað ákvað Rogers að reyna að halda flugvélinni á lofti eins lengi og frekast væri unnt til að komast frá Þýskalandi. B-24 vélin missti fljótt hæð.

 

„Við neyðumst til að koma okkur út úr flugvélinni“, var það eina sem Sidney Brown hugsaði áður en flugmaðurinn gaf skipun um að yfirgefa flugvélina.

 

Brown hafði aldrei stokkið í fallhlíf fyrr og hann þurfti að telja í sig kjark áður en hann lét sig detta út úr flugvélinni. Á meðan Brown féll í átt til jarðar taldi hann félaga sína. Til allrar hamingju virtust þeir allir hafa komist út úr sprengjuflugvélinni.

Tveir áhafnarmeðlimir illa leikinnar B-24 sprengjuflugvélar hafa kastast (hringir) út úr vélinni. Það var þessi tegund flugvélar sem Sidney Brown og félagar hans flugu í þegar þeir hröpuðu.

Bandaríkjamennirnir voru sigursælir yfir að hafa komist lífs af. Bandarískum sprengjuflugvélum yfir Þýskalandi var grandað í svo miklum mæli árið 1944 að einungis 26 af hverjum hundrað áhöfnum komust lífs af eftir þær 25 flugferðir sem þeim var ætlað að fljúga.

 

Á meðan Bandaríkjamennirnir níu nálguðust jörðina bjuggu þeir sig undir að verja því sem eftir lifði stríðsins í fangabúðum. Á þessari stundu má segja að þeir hafi sem betur fer ekki vitað hvaða helvíti á jörðu beið þeirra.

 

Á jörðu niðri var hatrið gegn klasasprengjum bandamanna nefnilega í algleymingi.

Í júní 1944 var bandaríska sprengjuflugvélin "Little Warrior" skotin niður. Aðstoðarflugmaðurinn, Sidney Benson var sá eini sem slapp lifandi en skömmu eftir lendingu í Þýskalandi var hann barinn til bana. Myndin sýnir þegar flugvélin verður fyrir skoti.

Dauðinn nálgaðist úr lofti

Þegar Sidney Brown og landar hans svifu til jarðar í lok sumars árið 1944 höfðu klasasprengingar bandamanna staðið yfir í rösklega tvö ár.

 

Í febrúar 1942 ákváðu Bretar að beita svokölluðum svæðissprengingum í borgum og á iðnaðarsvæðum til að „brjóta niður baráttuvilja óbreyttra borgara meðal óvinarins og þá einkum og sér í lagi iðnaðarverkamanna“.

 

Bandaríkjamenn tóku þátt í svæðissprengjuárásum en slíkum árásum fjölgaði gífurlega frá janúar 1943, þegar Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti og forsætisráðherra Breta, Winston Churchill, tóku þá ákvörðun að varpa sprengjum yfir Þýskaland allan sólarhringinn.

„Svona hlýtur dómsdagur að vera“.

Mathilde Wolff-Mönckeberg þegar hún horfði á fólk hlaupa um í ljósum logum.

Þegar hundruð sprengjuflugvéla tóku þátt í slíkum leiðöngrum má segja að þær hafi ekkert skilið eftir sig, utan borgir og verksmiðjur í rúst.

 

„Ég hef aldrei séð annað eins eldhelvíti“, segir breskur hermaður sem tók þátt í loftárásunum árið 1943.

 

Sprengjuárásirnar skildu eftir sig sannkallað helvíti fyrir þýskan almenning sem lifði í stöðugum ótta, ekki hvað síst í Hamborg þar sem stundaðar voru sérlega hrottafengnar sprengjuárásir með eldsprengjum sumarið 1943 sem breyttu stórborginni í sannkallað helvíti þar sem eldstormar „hrifsuðu börnin úr fangi foreldranna og þeyttu þeim inn í eldinn“, líkt og fram kom í lögregluskýrslu.

 

„Svona hlýtur dómsdagur að vera“, sagði Mathilde Wolff-Mönckeberg þegar hún horfði á fólk hlaupa um í ljósum logum.

 

Hryllingurinn á jörðu niðri gerði það að verkum að Þjóðverjar hötuðust við breskar og bandarískar flugáhafnir. Á árinu 1943 óx reiðin í svo miklum mæli að heimamenn tóku málin í sínar hendur, jafnvel þótt í Genfarsáttmálanum frá 1929 kæmi skýrt fram að „ætíð skyldi koma mannúðlega fram við stríðsfanga“.

Þýskar hersveitir voru samstundis sendar á vettvang þegar flugvélar bandamanna nauðlentu. Hér hefur bandarískur hermaður verið tekinn til fanga.

Bandamenn sem skotnir voru niður stóðu illa að vígi

Breskir og bandarískir flugmenn voru ákaflega berskjaldaðir í lofthelginni yfir Þýskalandi en Þjóðverjar vörðu lofhelgina allt hvað þeir gátu. Flugmennirnir þurftu iðulega að lenda á þýskri jörð þar sem þeir voru hundeltir af bæði hermönnum og almennum borgurum.

 

Í seinni heimsstyrjöld var fátt eins hættulegt og það að vera áhafnarmeðlimur í sprengjuflugvél. Hartnær 22.000 sprengjuflugvélar bandamanna voru skotnar niður yfir Þýskalandi og ríflega 150.000 áhafnarmeðlimir létu lífið.

 

Allt kapp var lagt á að koma löskuðum flugvélum út úr Þýskalandi. Stefnan var þá iðulega tekin á Sviss eða eitthvert land sem Þjóðverjar höfðu hernumið og þar sem andspyrnuhreyfingin gat komið hermönnum í neyð til hjálpar.

 

En jafnvel þótt áhöfninni tækist að nauðlenda flugvélinni eða stökkva út í fallhlíf voru aðstæður varhugaverðar.

 

Ef bandamenn lentu í Þýskalandi var nánast ógerningur að sleppa. Áhafnarmeðlimirnir voru í einkennisbúningum og töluðu yfirleitt enga þýsku og hvort tveggja kom hæglega upp um þá.

 

Heimamenn hötuðu flugmennina og þýskar hersveitir höfðu fengið fyrirskipun um að finna nauðlenta flugmenn hið snarasta til þess að öðlast mætti upplýsingar um flugvélar og árásaráætlanir.

 

Áhafnir sem teknar voru til fanga voru fluttar í fangabúðirnar Dulag Luft og þaðan áfram í aðrar búðir, ef þær þá komust svo langt.

„Æstur þýskur almenningur hópaðist í kringum flugvélar sem skotnar höfðu verið niður“, sagði bandarískur liðþjálfi eftir sprengingarnar yfir Hamborg.

 

Hann hafði heyrt trúverðugar upplýsingar þess eðlis að „tveir bandarískir hermenn hefðu verið teknir af lífi án dóms og laga“.

 

Í dagblaðinu New York Times mátti lesa að „bandarískar og breskar flughersveitir hefðu verið líflátnar með Tókýó-aðferðinni“ en með því var átt við að Japanir hafi drepið þá bandarísku hermenn sem komust lífs af eftir sprengjuárásir á Tókýó.

 

Þegar þarna var komið sögu hafði þó verið lítið um slíkar atlögur að hermönnum bandamanna. Nasistarnir sáu hins vegar tækifæri í reiði almennings.

 

Áróður jók hatrið

Fréttir af almennum borgurum sem tóku lögin í sínar hendur hentuðu nasistaforingjum einkar vel. Þrátt fyrir að þýski flugherinn héldi því öndverða fram hafði stjórnvöldum ekki tekist að fækka loftárásunum og reiði almennings hlaut að verða að bitna á einhverjum.

 

Þegar svo Heinrich Himmler, yfirmanni SS-sveitanna, bárust fregnir af fyrstu atvikunum sendi hann frá sér tilkynningu í ágúst 1943 þess eðlis að nasistar hefðu ekki í hyggju að vernda stríðsfangana:

 

„Það er ekki í verkahring lögreglunnar að skipta sér af átökum milli þýsks almennings og flugmanna breskra eða bandarískra flugvéla sem hafa verið skotnar niður“, benti Himmler á.

 

Jafnframt þessu hrinti áróðursráðherrann Joseph Goebbels af stað áróðursherferð sem hafði það að markmiði að kynda undir hatrinu gegn sprengjuflugáhöfnum óvinarins. Goebbels þagði að sjálfsögðu þunnu hljóði um sprengjuárásir þýska hersins yfir Englandi fyrri hlutann af stríðinu.

 

Sé litið til sprengjuárásarinnar í Coventry árið 1940 má geta þess að hún grandaði alls 41.500 húsum á aðeins einni nóttu. Nú var Goebbels öskuillur yfir því hversu „ósiðlega“ bandamenn hegðuðu sér með því að varpa sprengjum á þýskar borgir.

 

,,Hryðjuverkaflugmenn”

Í fréttamiðlum í eigu ríkisins bannaði ráðherrann notkun orða á borð við „flugmenn“ og „flugáhafnir“ þegar fjallað var um flughernað óvinarins. Þess í stað notuðu þýsku dagblöðin orð í líkingu við „hryðjuverkaflugmenn“, „flugruddar“ og „barnamorðingjar“.

 

„Í Þýskalandi telst einkennisbúningur hermanna vera heiðursklæðnaður en þegar flugþrjótarnir klæðast einkennisbúningum er um að ræða glæpamannabúninga“, mátti lesa í dagblaðinu Marburger Zeitung sem skrifaði auðvitað í samræmi við kröfur yfirvalda.

Þýskar áróðursmyndir sýndu sprengjuflugmenn bandamanna sem kaldrifjaða barnamorðingja og glæpamenn.

Samkvæmt áróðri Þjóðverja áttu flugmenn bandamanna beinlínis að fá aukagreiðslur fyrir eyðileggingar sem þeir ollu og þá var því einnig haldið fram að þeir legðu sig fram við að hæfa konur, börn og sjúkrahús.

 

Dagblað nasistaflokksins, Völkischer Beobachter, birti undir fyrirsögninni „Hryðjuverkaflugmenn Roosevelts sprengja upp konur og börn“ mynd af þeldökkum bandarískum flugmanni skjótandi á saklausar konur.

 

„Norður-Ameríkanar? Morð-Ameríkanar!“ stóð undir myndinni.

 

Óvinurinn var sviptur mannlegum eiginleikum og afleiðingarnar létu ekki á sér standa.

 

Ótakmörkuð heimild til að fremja morð

Árásum bandamanna á þýskar borgir fjölgaði til muna á árinu 1944. Þetta leiddi til þess að Goebbels fór að leggja áherslu á lögmálið um „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“.

 

„Engan getur undrað að þjóðin okkar sé haldin gríðarlegri reiði vegna þessara lágkúrulegu glæpa“, hrópaði ráðherrann og hvatti íbúana til að ganga „skrefinu lengra í átt að sjálftöku og að hefna sín á þeim flugmönnum sem stukku út úr óvinveittum flugvélum“.

Spengjum var varpað á þýskar borgir dag og nótt

 

Síðustu þrjú ár seinni heimsstyrjaldar urðu Þjóðverjar fyrir einhverjum þeim hryllilegustu sprengjuárásum sem um getur í stríðsrekstri. Bandamenn vörpuðu alls 2,6 milljón tonnum af sprengjum yfir þýskar borgir. Og hver sprengja jók á hatur almennings.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Sprengjuárásunum fjölgaði og áróðursherferð Þjóðverja leiddi til margra atvika vorið 1944 sem fólust í því að æstur almenningur réðst á flugáhafnir sem komist höfðu lífs af.

 

Í mars réðst almenningur t.d. á fimm Bandaríkjamenn á járnbrautarstöð í Schierstein og lét höggin dynja á þeim, allt þar til tveir þýskir hermenn stöðvuðu ofbeldið.

 

Í maí voru þrír Bandaríkjamenn skotnir til bana og grafnir í bænum Vienenburg og í sama mánuði réðust almennir borgarar á flugmann sem hafði orðið að nauðlenda og aðstoðarflugmenn hans. Þeir lifðu ofbeldið af fyrir einskæra heppni.

 

Goebbels bárust fréttirnar og átti hann erfitt með að leyna hrifningu sinni og í ræðu sem hann hélt í Nürnberg í lok maí veitti hann hverjum þeim borgara grið sem kaus að hefna sín á „hryðjuverkaflugmönnunum”:

 

„Þið, almenningur sem hafið barið þá til dauða, skorið þá á háls eða álíka. Við munum ekki gráta krókódílatárum vegna þess og þið ykkar sem gert hafið slíkt verðið ekki leidd upp í höggstokkinn. Við skiljum svo innilega að slík reiði skuli geta gripið um sig meðal þýsku þjóðarinnar“.

 

Með þessu var gefið skotleyfi á hermenn sem nauðlent höfðu.

Lofthelgi Þýskalands reyndist lífshættuleg flugáhöfnum bandamanna í neyð og ekki tók betra við á jörðu niðri

Aftökum fjölgaði

Aftökunum fjölgaði gríðarlega eftir að Goebbels hélt ræðu sína. Reiðin yfir að verða fyrir sprengjuárásum dag og nótt gaf íbúunum ærið tilefni.

 

Um leið og fallhlíf sást svífa til jarðar safnaðist almenningur saman og jafnvel þótt þýskir hermenn yrðu fyrri til að nálgast bandamennina, gátu og vildu þeir ekki ætíð vernda fangana.

 

Þessu lenti bandaríski hermaðurinn Jack Patrick í þegar hann nauðlenti í grennd við Lübeck í ágúst 1944.

 

„Látið okkur fá hann svo við getum gamnað okkur með hann“, hrópaði æstur múgurinn til hermannanna tveggja sem náð höfðu flugmanninum.

 

Fyrr en varði var lýðurinn farinn að berja á Bandaríkjamanninum með landbúnaðaráhöldum. Patrick missti að lokum meðvitund og féll til jarðar.

 

Æstur múgurinn hélt engu að síður áfram að berja hann í höfuðið með þeim afleiðingum að hann varð brátt óþekkjanlegur. Lífvana líkami flugmannsins var dreginn út á akurinn þar sem almennir borgarar skiptust á að skjóta á líkið.

 

Fórnarlömb reiðra borgara

Hvar sem flugáhafnir bandamanna voru teknar til fanga urðu hermennirnir fórnarlömb reiðra borgara.

 

„Á hverri einustu járnbrautarstöð umkringdi okkur urmull óbreyttra borgara sem köstuðu steinum í okkur“, rifjaði bandaríski liðþjálfinn Warren Hampton upp en hann lifði af flughrap árið 1944.

 

Rúmenar voru bandamenn Þýskalands á tímum nasismans og þar í landi kom bandarískur flugmaður sem tekinn hafði verið höndum, auga á lík hálshöggvins félaga síns liggjandi á kerru í apríl 1944, sér til mikillar skelfingar. Sjálfur varð hann fyrir árás konu sem réðst á hann með exi á götu úti.

 

Stélskyttan Sidney Brown , 19 ára að aldri, upplifði skelfilegar hörmungar í ágúst 1944.

 

Níu Bandaríkjamenn í klípu

Sidney, ásamt átta félögum sínum, var að gera sprengjuárás á flugherstöð í grennd við Hannover 24. ágúst, þegar B-24 sprengjuflugvél þeirra varð fyrir skoti og áhöfnin varð að stökkva út í fallhlíf.

 

Skömmu eftir að Brown lenti heill á húfi á akri sem verið var að plægja sá hann á að giska 20 manns nálgast sig með heykvíslar, haka og önnur áhöld.

 

Brown reyndi allt hvað hann gat að losa sig við fallhlífina áður en hann var sleginn meðvitundarlaus. Fleiri högg fylgdu á eftir en að lokum hættu barsmíðarnar og óbreyttir borgararnir sameinuðust um, eftir allnokkrar rökræður sín á milli, að koma fanganum til yfirvalda í nærliggjandi bæ.

Áhöfn B-24 sprengjuflugvélarinnar „Wham! Bam! Thank You Ma´m“ samanstóð af níu mönnum. Sex þeirra voru myrtir af reiðum borgurum í þýska bænum Rüsselsheim.

Þegar komið var á tiltekna skrifstofu í bænum sá Brown nokkra félaga sína úr sprengjuflugvélinni. Allir voru þeir illa útlítandi eftir harkalegar móttökur heimamanna.

 

„Þetta fáið þið fyrir að sprengja í loft upp konur okkar og börn!“, hrópaði liðsforingi einn sem ákvað að láta flytja fangana í Dulag fangabúðirnar nærri Frankfurt am Main, þar sem yfirheyra skyldi flugáhöfnina.

 

Brown og sjö löndum hans var komið í lest sem flutti þá til fangabúðanna en níundi áhafnarmeðlimurinn var of slasaður til að þola ferðalagið. Bandaríkjamennirnir bundu nú vonir við að það versta væri afstaðið.

 

Þegar svo lestin kom inn á lestarstöðina í bænum Rüsselsheim rétt austur af Mainz, beið þeirra meira ofbeldi en þekkst hafði í styrjöldinni til þessa.

 

Nóttina áður en bandarísku stríðsfangarnir komu til Rüsselsheim hafði bærinn með stóru Opel-verksmiðjunni orðið fyrir hrikalegum loftárásum.

 

Íbúarnir voru fyrir bragðið fullir haturs þegar fangarnir átta voru leiddir út úr lestinni.

Kvöldið áður en Sidney Brown og félagar hans voru fluttir í gegnum bæinn Rüsselsheim sem stríðsfangar höfðu breskar flugvélar ráðist á bæinn með m.a. 400.000 íkveikjusprengjum þar sem átti að sprengja Opel verksmiðju sem byggði orrustuþotur.

Almenningur sleppti sér

Hrákaklessurnar flugu um loftið á meðan hermenn leiddu fangana gegnum bæinn. Brown skynjaði alvöruna þegar fjöldinn í fylgdarliðinu sem elti þá taldi orðið 300 óbreytta borgara.

 

„Þetta eru hryðjuverkaflugmenn! Berjum þá! Tætum þá í okkur! Berjum þá til dauða! Þeir hafa eyðilagt heimilin okkar“, öskruðu systurnar Margarete Witzler og Käthe Reinhardt sem byrjuðu að kasta steinum í Bandaríkjamennina.

 

Allir héldu að mennirnir átta hefðu verið þeir sem vörpuðu sprengjum á Rüsselsheim.

 

„Það vorum ekki við“, hrópaði einn fanganna örvæntingarfullur á þýsku en allt kom fyrir ekki.

 

Örfáum sekúndum síðar réðst múgurinn til atlögu við mennina, án þess að varðmennirnir gætu rönd við reist. Nokkrir verkamenn lömdu hömrum sínum í höfuð Bandaríkjamannanna svo blóðið spýttist í allar áttir.

 

Brown fann að flaska var brotin á höfði hans. Snafsinn úr flöskunni olli sviða í augum hans en útundan sá hann mann nálgast sig með hníf á lofti.

„Mér er illt í höndunum eftir allar þessar barsmíðar“.

Fjölskyldufaðirinn Phillipp Gutlich í miðri ofbeldishrynunni.

Bandaríkjamaðurinn reyndi að forða sér en þá var það orðið um seinan. Hnífurinn risti upp húðina við vinstra eyra hans. Brown lét sig falla til jarðar og þóttist vera dáinn.

 

Þaðan sem Brown lá sá hann félaga sinn falla til jarðar á meðan Þjóðverji einn barði hann aftur og aftur með hamri. Alls staðar rigndi yfir Bandaríkjamennina höggum af völdum skóflna, kústskafta og hamra með svo miklu offorsi að eitt kústskaftið meira að segja brotnaði.

 

„Mér er illt í höndunum eftir allar þessar barsmíðar“, átti fjölskyldufaðirinn Phillipp Gutlich að hafa sagt í miðri ofbeldishrynunni.

 

Þegar þar var komið sögu voru illa lemstraðir Bandaríkjamennirnir drifnir á fætur og þeim stillt upp við vegg þar sem nasistaforingi bæjarins, hinn 41 árs gamli Josef Hartgen, dró upp byssu sína. Brown þóttist enn vera látinn á meðan Hartgen tók fyrstu fjóra fangana af lífi. Þá varð hann uppiskroppa með byssuskot.

 

Síðustu fjórir Bandaríkjamennirnir virtust vera látnir, svo Hartgen fyrirskipaði hópi drengja úr sveit Hitlerjugend að aka með líkin út í kirkjugarðinn.

 

Brown og annar félagi hans lágu lifandi innan um stafla af líkum. Þegar svo Hitlerjugend drengirnir þustu af stað í næsta loftvarnabyrgi tókst Brown og félaga hans að stinga af og komast þannig lífs af.

Þess ber að geta að þýskir sprengjuflugmenn voru einnig teknir af lífi án dóms og laga í Frakklandi og Englandi.

Aftökur áttu sér einnig stað í öðrum löndum

Æstur múgurinn átti það einnig til að ráðast á flugmenn sem lent höfðu í háska í löndum bandamanna. Bæði Bretar og Frakkar réðust á þýska flugmenn, án þess þó að yfirvöld hvettu til þess.

 

Löngunin til að hefna sín á sprengjuflugmönnum óvinahersins var ekki einungis þýskt fyrirbæri. Í raun réttri áttu fyrstu aftökurnar án dóms og laga sér stað í Frakklandi og Englandi.

 

Árið 1940 þegar Luftwaffe fór í gífurlega margar sprengiferðir gripu Frakkar til þess ráðs að taka Þjóðverja af lífi án dóms og laga ef marka má upplýsingar frá þýsku leyniþjónustunni, þegar Messerschmitt-flugmaður einn neyddist til að nauðlenda í grennd við Luchy í Norður-Frakklandi. Öskrandi reiðir franskir hermenn og óbreyttir borgarar hrintu hermanninum fram og til baka þar til þeir svo skutu hann.

 

Almenningur í London gekk berserksgang 15. september 1940 þegar Þjóðverjar höfðu varpað sprengjum á höfuðborgina svo dögum skipti. Þegar hermaðurinn Robert Zehbe nauðlenti festist hann því miður í rafmagnslínum.

 

Þar sem hann hékk varnarlaus í fallhlíf sinni streymdu að almennir borgarar vopnaðir eldhúshnífum og skörungum sem þeir stungu hann með. Heimavarnarliðið bjargaði Zehbe úr prísundinni en hann lést af völdum áverkanna.

 

Aftökur á þýskum herflugmönnum voru þó einkar sjaldséðar í Frakklandi og Bretlandi þar sem yfirvöld leyfðu ekki illa meðferð á stríðsföngum.

Lögreglan tók þátt í morðum

Josef Hartgen í Rüsselsheim var einn þeirra mörgu nasistaforingja sem stunduðu aftökur án dóms og laga. Martin Bormann, forseti aðalráðs nasistaflokksins í Þýskalandi, hvatti beinlínis svæðisbundna fulltrúa nasistaflokksins – svokallaða svæðisstjóra og sýsluleiðtoga – til að segja ekki til almennra borgara sem tóku þátt í slíkum aftökum.

 

Embættismenn og lögregluþjónar gengu fyrir vikið oft til liðs við borgarana þegar áhafnir sprengjuflugvéla voru teknar af lífi. Þetta átti sér m.a. stað í bænum Gross-Gerau, þar sem ofsareiður lýður tók tvo bandaríska hermenn til fanga í ágúst 1944.

 

„Leyfið þeim (íbúunum, ritstj.) að berja þá og taka af lífi án dóms og laga“, mælti lögreglumaður einn og sýsluleiðtoginn á staðnum var honum sammála um að „afhenda skyldi lýðnum flugmennina“.

 

Þegar svo lýðurinn hugðist ljúka verki sínu lét lögreglustjóri bæjarins tvo almenna borgara hafa járnstangir og bað þá um að berja þá til dauða sem lifað hefðu af.

Segið þeim að þeir séu glæpamenn“

Þýski kafteinninn Albert Heim áður en hann fyrirskipaði einum af hermönnum sínum að skjóta fangana.

Þýski herinn tók jafnframt stundum þátt í aftökum sem þessum, þó svo að það væri í verkahring hersins að tryggja öryggi fanganna. Stundum litu hermennirnir hreinlega undan þegar æstir almennir borgarar réðust til atlögu við fangana. Í önnur skipti hvöttu hermenn sjálfir beinlínis til aftöku. Þetta gerðist sem dæmi í grennd við Koblenz, þar sem bandarískir flugmenn nauðlentu sumarið 1944.

 

„Flughermenn. Drepið þá. Segið þeim að þeir séu glæpamenn“, fyrirskipaði þýski kafteinninn einum af hermönnum sínum.

 

Maðurinn hlýddi skipuninni og skaut fangana. Þegar tveir aðrir flugmenn sem einnig höfðu nauðlent náðust seinna sama dag voru þeir teknir af lífi á sama hátt og grafnir með textanum: „Hér hvíla tveir bandarískir glæpamenn“.

 

Yfirvöld skráðu slík atvik iðulega sem „flóttatilraun“ eða þá sögðu að flugáhöfnin hefði ráðist til atlögu.

 

Bandaríkjamenn gleymdu hins vegar ekki glæpunum.

Stór hluti sprengjuflugvéla bandamanna var skotinn niður af þýskum loftvarnarbyssum.

Bandaríkin hefna fórnarlambanna

Þó svo að Goebbels og Bormann hafi hvatt Þjóðverja til að taka „hryðjuverkaflugmenn“ af lífi án dóms og laga og lofað að enginn yrði lögsóttur fyrir, áttu hundruð Þjóðverja þó eftir að hljóta dóm eftir stríðið.

 

Eftir uppgjöf Þýskalands hófust Bandaríkjamenn handa við að elta uppi óbreytta Þjóðverja sem tekið höfðu þátt í aftökunum.

 

Réttarhöldin leiddu til þess að Bandaríkjamönnum tókst að ákæra alls 411 Þjóðverja á árunum 1945-1947 – þar af átta konur – fyrir þátttöku í aftökum bandarískra flugmanna.

 

Þeir ákærðu voru á aldrinum 19 til 72 ára en meðalaldurinn var 45 ár. Almennir borgarar áttu þátt í næstum 70% allra þekktra árása en alls 16% voru lögreglumenn og 6% embættismenn úr hópi nasista. Afgangurinn voru hermenn.

 

Almennu borgararnir sögðu sér til varnar að þeir hefðu fengið sálrænt áfall eftir endalausar sprengingar á meðan lögreglumenn héldu því fram að þeir hefðu aðeins verið að hlýða skipunum.

 

Þrátt fyrir margvíslegar afsakanir höfðu Bandaríkjamenn næg sönnunargögn til að sakfella 346 Þjóðverja. Alls 111 þeirra hlutu dauðadóm.

Á myndinni má sjá þegar Johann Seipel, 67 ára íbúi í Rüsselsheim, var leiddur í gálgann. Hann var m.a. dæmdur fyrir að hafa sparkað í háls eins Bandaríkjamannanna.

Bandaríkjamenn gleymdu ekki böðlunum í Rüsselsheim

Meðal æstra íbúanna í Rüsselsheim sem myrtu sex stríðsfanga í ágúst 1944 voru ellefu látnir svara til saka fyrir glæpina sem þeir höfðu framið.

 

Að stríðinu loknu laut borgin Rüsselsheim stjórn Bandaríkjanna og í júní 1945 voru lík sex hinna myrtu Bandaríkjamanna grafin upp í kirkjugarðinum. Ellefu íbúar bæjarins, þar á meðal nasistaforinginn Josef Hartgen, voru skömmu síðar handteknir fyrir blóðbaðið.

 

Réttarhöldin gegn íbúunum í Rüsselsheim í júlí 1945 voru í raun fyrsti stríðsglæpadómstóllinn á þýskri grund. Verjandinn afsakaði þá ákærðu með því að þeir hefðu verið fórnarlömb áróðursmaskínu Goebbels. Hann nefndi einnig að enginn hinna ákærðu hefði hlotið refsingu fyrr. Saksóknarinn hafnaði þessum rökum.

 

„Þetta voru allt fullorðnir einstaklingar. Hefðu þau verið beðin um að fremja morð og hlýtt því, hefðu þau verið jafnsek og allir aðrir morðingjar“, lýsti saksóknarinn Leon Jaworski yfir.

 

Hann sagði Josef Hartgen hafa verið upphafsmann aftökunnar og að ógerningur væri að skilja „illskuna, vægðarleysið og andstyggðina sem sá maður hefði yfir að ráða“. Hartgen var dæmdur til dauða ásamt fjórum öðrum mönnum og tveimur konum og skyldi dóminum fullnægt með hengingu. Þrír sluppu við fangelsisdóm og einum var sleppt.

 

Konurnar tvær áfrýjuðu dóminum og var dauðadómi þeirra breytt í 30 ára fangelsi. Mennirnir fimm sem dæmdir voru sluppu hins vegar ekki. Þeir voru allir teknir af lífi.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir flughermenn voru teknir af lífi án dóms og laga á þýskri jörð en sagnfræðingurinn Kevin Hall telur að ráðist hafi verið á minnst 1.000 „hryðjuverkaflugmenn“ á árunum 1943 til 1945. Ekki er ólíklegt að um hafi verið að ræða miklu fleiri þar sem oft spurðist ekkert um slíkar aftökur.

 

Stélskyttan Sidney Brown var einn þeirra heppnu sem sluppu frá æstum sjálftökumúg heilir á húfi. Þegar Bandaríkjamaðurinn sneri aftur til Rüsselsheim 60 árum síðar var það „án fjandskapar í hjarta“.

 

Áttræður uppgjafarhermaðurinn vígði ásamt íbúunum í Rüsselsheim minningarvegg á þeim stað sem félagar hans höfðu látist. Á veggnum stendur:

 

„Megi þessi minnisvarði minna okkur á sameiginlega mannúð okkar“.

Lestu meira um aftökur í stríðinu

  • Kevin Hall: Terror Flyers: The Lynching of American Airmen in Nazi Germany, Indiana University Press, 2021

 

  • Günter Neliba: Lynchjustiz, Brandes & Apsel, 2000

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing, Niels-Peter Granzow Busch

© akg-Images/Ritzau Scanpix, © US National Archives, © Nara Archives/Shutterstock/Ritzau Scanpix, © Pictorial Press Ltd/Imageselect & Shutterstock, © Scherl/Sueddeutsche Zeitung Photo/Ritzau Scanpix , © Shawshots/Imageselect, © www.b24bestweb.com, © US National Archives, © Scherl/Süddeutsche Zeitung Photo/Ritzau Scanpix,

Menning

Vit og vitleysa: Þökk sé stjörnuspekinni-nei fræðinni

Alheimurinn

Kína yfirtekur bakhlið tunglsins

Alheimurinn

Kína yfirtekur bakhlið tunglsins

Náttúran

Hvernig komu skordýr fram á Jörðu?

Náttúran

Hvernig komu skordýr fram á Jörðu?

Heilsa

Of lítið af þessari fæðutegund á meðgöngu getur aukið hættuna á að barnið fái ADHD

Lifandi Saga

Hver var æpandi múmían?

Maðurinn

Er hægt að þreytast af fersku lofti?

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Alheimurinn

Slær öll met:  Brúnn dvergur er heitari en sólin

Lifandi Saga

Hve fjölmennir eru rússnesku minnihlutahóparnir í Austur-Evrópu?

Lifandi Saga

Afþreying í gegnum tímann: Allt frá skylmingabardögum til sirkustrúða

Maðurinn

Þannig kemstu í gegnum þrep sorgarinnar

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

Maðurinn

Þátttakendur umbreyttust í böðla

Heilsa

Eyrnasuð: Þig langar ekki að upplifa það á tónleikum

Náttúran

Hættulegar moskítóflugur í Evrópu

Náttúran

Risasveppur er stærri en 100 fótboltavellir

Lifandi Saga

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Alheimurinn

Slær öll met:  Brúnn dvergur er heitari en sólin

Lifandi Saga

Hve fjölmennir eru rússnesku minnihlutahóparnir í Austur-Evrópu?

Lifandi Saga

Afþreying í gegnum tímann: Allt frá skylmingabardögum til sirkustrúða

Maðurinn

Þannig kemstu í gegnum þrep sorgarinnar

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

Maðurinn

Þátttakendur umbreyttust í böðla

Heilsa

Eyrnasuð: Þig langar ekki að upplifa það á tónleikum

Náttúran

Hættulegar moskítóflugur í Evrópu

Náttúran

Risasveppur er stærri en 100 fótboltavellir

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Tækni

Óvinsæl flugsæti eru öruggust

Tækni

Óvinsæl flugsæti eru öruggust

Lifandi Saga

Búdda skapaði paradís – fyrir karla

Lifandi Saga

Búdda skapaði paradís – fyrir karla

Heilsa

Vísindamenn uppgötva óvænta orsök útbreiðslu krabbameins

Náttúran

Moskítóflugur: Hvað elska þær og hvað hata þær?

Maðurinn

Höfuðkúpan getur afhjúpað sjúkdóm

Lifandi Saga

Hreingerning í Þýskalandi:  Rætur nasisma átti að rífa upp með rótum

Vinsælast

1

Náttúran

Risasveppur er stærri en 100 fótboltavellir

2

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

3

Heilsa

Eyrnasuð: Þig langar ekki að upplifa það á tónleikum

4

Náttúran

Hættulegar moskítóflugur í Evrópu

5

Maðurinn

Þátttakendur umbreyttust í böðla

6

Náttúran

Hvernig komu skordýr fram á Jörðu?

1

Náttúran

Risasveppur er stærri en 100 fótboltavellir

2

Heilsa

Sorg getur breyst í sjúkdóm

3

Heilsa

Eyrnasuð: Þig langar ekki að upplifa það á tónleikum

4

Náttúran

Hættulegar moskítóflugur í Evrópu

5

Maðurinn

Þátttakendur umbreyttust í böðla

6

Menning

Vit og vitleysa: Þökk sé stjörnuspekinni-nei fræðinni

Náttúran

Óvænt uppgötvun á 130 ára gömlum tasmaníuúlfi

Tækni

Ormar spinna þræði sex sinnum sterkari en skothelt kevlarefni

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Alheimurinn

Hvað ef við höfum í raun fengið heimsóknir úr geimnum?

Læknisfræði

„Brennið í hvelvíti“: Alnæmi kallar fram það versta í Bandaríkjamönnum

Náttúran

Spendýr og eðlur skiptu um hlutverk

Náttúran

Hvernig brögðuðust risaeðlur?

Lifandi Saga

13 ódauðleg kveðjuorð

Maðurinn

Er hættulegt að halda í sér prumpinu?

Heilsa

Mold undir nöglum barna skiptir máli fyrir ónæmiskerfið

Lifandi Saga

England og Frakkland: Bestu óvinir í þúsund ár

7 óviðeigandi brandarar frá fornöld

Á þriðju öld eftir Krist skrifuðu tveir Grikkir niður 265 rómverska brandara. Safnið sem bar titilinn „Philogelos“ – „Ást á hlátri“, er það elsta í heimi og margir brandararnir standast enn tímans tönn. Hér færðu 7 af þeim bestu.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.