Ný bakteríutegund fannst á fenjasvæði á eyju í franska Guadeloupe-eyjaklasanum í Karabíska hafinu. Uppgötvunin kemur sérfræðingum alveg í opna skjöldu en hún hefur nú verið birt í tímaritinu Science.
Lengd þessa einfrumungs er á borð við augnhár en lengsta bakterían sem fannst var tæpir 2 cm að lengd. Þessa bakteríu má sjá með berum augum og hún líkist litlu, hvítu hári.
Langflestar bakteríur sjást aðeins í smásjá og geta verið um 2 míkrómetrar að lengd. Áður hafa reyndar fundist bakteríur allt upp í 200 míkrómetra langar og vísindamenn hafa talið það vera mestu mögulega stærð bakteríu.
Þá hugmynd leggur nýja bakterían í rúst með lengd upp á allt að 20.000 míkrómetra.
„Hún er mörg þúsund sinnum stærri en venjulegar bakteríur. Að því leyti mætti líkja þessu við að rekast á mann sem væri á hæð við Everestfjall,“ segir sjávarlíffræðingurinn og aðalhöfundur rannsóknarinnar, Jean-Marie Volland hjá Lawrence Berkeley-rannsóknastöðinni.
Hin nýfundna risabaktería minnir á mjótt, hvítt hár. Hún er einfrumungur og 5.000 sinnum stærri en venjulegar bakteríur.
Lifir á breinnisteini
Nánar tiltekið er bakterían meira en 5.000 sinnum stærri en flestar aðrar bakteríur sem á þátt í nafngiftinni Thiomargarita magnifica sem þýða mætti sem „mikilfengleg brennisteinsperla“.
Eins og nafnið bendir til er þetta brennisteinsbaktería sem lifir á ólífrænum brennisteinssamböndum ásamt því að taka til sín súrefni eða nítrat.
Hún sest að á blöðum, ostruskeljum, glerflöskum eða plastpokum, brýtur niður brennistein í vatninu og umbreytir í brennisteinssýru.
Þegar vísindamennirnir sáu þessa bakteríu fyrst, álitu þeir að hún tilheyrði svonefndum heilkjörnungum, þeim frumum sem saman mynda fjölfrumunga, bæði dýr og plöntur.
En við skoðun í öflugri rafeindasmásjá kom í ljós að hana skorti hin klassísku einkenni slíkra frumna, svo sem skýrt afmarkaðan frumukjarna og þær efnaskiptaeiningar sem kallast orkukorn.
Í rafeindasmásjá er vel hægt að sjá rýmin í bakteríuþræðinum. Það eru þessi rými sem losna þegar bakterían fjölgar sér.
Harður nagli
Aðrir eiginleikar komu líka á óvart.
Innan í þessari risavöxnu bakteríu reyndist vera flókin uppbygging. Í dæmigerðri bakteríu er aðeins einn DNA-strengur, í þessari bakteríu reyndust þeir skipta hundruðum.
Erfðaefnið skiptist í mismunandi himnur sem annars er eitt af einkennum heilkjörnunga. Bakterían virðist því skiptast í mörg hólf og það veldur því að hún nær þessari stærð.
Eins eru þessar bakteríur hörkutól. Rannsakendum hafa getið unnið með þær án þess að þær liðist í sundur.
Það kom líffræðingum einnig í opna skjöldu hvernig þær fjölga sér.
Venjulega eru bakteríur í svokölluðum frumuþráðum þar sem fjöldi baktería eru saman í langri keðju. Hjá Thiomargarita magnifica er þráðurinn ein stór fruma.
Ekki hættulegt mönnum
Rannsakendum hefur ekki enn tekist að rækta nýju bakteríurnar á rannsóknarstofu og því verður að finna fleiri í hvert sinn sem þessi risi er rannsakaður.
Þrátt fyrir óhugnanlega stærð sína eru vísindamennirnir ekki áhyggjufullir og segja hana ekki hættulega mönnum.