Hópur hermanna marserar að svokölluðum sígauna-fjölskyldubúðum í útrýmingarbúðunum í Auschwitz-Birkenau þann 16. maí 1944. Reykurinn úr líkbrennsluofnunum í 120 m fjarlægð stígur upp í vorloftið eins og óhugnanleg áminning um þau örlög sem bíða sígaunanna.
Inni í bröggunum bíða 6.000 Rómanar. Flestir þeirra eru vopnaðir járnrörum hömrum og hökum sem þeir hafa stolið úr vinnuskúr í myrkri nætur. Glorsoltnir fangarnir hafa hreint ekki hugsað sér að gefast upp fyrir hermönnunum mótspyrnulaust.
„Sígauna-vandann má einungis leysa með því að koma í veg fyrir að þetta fólk geti af sér fleiri börn“.
Forstjóri Rannsóknarstofnunar um hreinleika kynþátta, dr. Robert Ritter.
„Við komum ekki út. Þið getið komið hingað inn! Við bíðum ykkar hér! Ef þið viljið okkur eitthvað verðið þið að koma hingað inn!“, hrópar maður úr einum bragganum.
Þessi andstaða fanganna kemur SS-yfirmanni hermannanna á óvart sem ákveður að draga menn sína til baka. Rómanar hafa þarna unnið fágætan sigur á nasistum. Því miður reynist hann einungis vera gálgafrestur.
Nasistar hötuðu sígauna
Sígaunar höfðu mátt þola útskúfun og mismunun um aldaraðir. Þetta förufólk kom til Evrópu frá norðanverðu Indlandi milli áranna 500-1000 og á miðöldum dreifðist það út um allt meginlandið. Fólkið var þó sjaldnast velkomið og fékk orð á sig fyrir að vera húðlatt og þjófótt.
Andúðin á sígaunum ágerðist sérstaklega mikið í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þar var þeim meinaður aðgangur að almenningsgörðum og sundlaugum í mörgum þýskum borgum og frá árinu 1927 urðu Rómanar að bera skírteini með mynd og fingraförum.
Eftir að Hitler komst til valda árið 1933 versnaði ástandið til muna fyrir sígaunana, bæði í Þýskalandi og Austurríki þar sem um 30.000 sígaunar bjuggu. Í nóvember 1935 var Rómafólkinu bætt við í hina rasísku Nürnberg-löggjöf, þar sem sígaunum var lýst sem óvinum hins hreina kynþáttar Þriðja ríkisins.

Rómafólkið var þekkt fyrir kerrur sínar sem gerði þeim kleift að flytja á milli staða sem hirðingja.
Rómafólkið er upprunnið á Indlandi
Upprunalega er Rómafólkið komið frá Indlandi en þaðan flakkaði fólkið til Býsantíska ríkisins. Síðan dreifðist Rómafólk yfir evrópska meginlandið.
Rómafólkið var flökkufólk sem hélt frá norðurhluta Indlands milli áranna 500 og 1000 e.Kr.
Síðan settist fólkið að í Býsantíska ríkinu en þegar Tyrkir náðu aftur völdum þar dreifðist þjóðin á næstu öldum yfir alla Evrópu – frá Spáni í suðri til Skandinavíu í norðri og frá Englandi í vestri til Rússlands í austri.
Evrópubúar kölluðu Rómafólkið „sígauna“ sem er komið af gríska orðinu „athinganoi“ – orð sem mætti þýða sem „óhreinn“ eða „trúvillingur“.
Núna er litið á þessa nafngift sem rasíska og þetta þjóðarbrot kýs fremur að nota orðið „róma“ sem merkir „manneskja“ á hefðbundnu tungumáli þeirra, rómani.
Rómafólk í Evrópu á sameiginlegar hefðir og tungumál en með tímanum hefur komið fram svæðabundinn munur. Núna nefna margir hópar sig öðrum nöfnum en róma. Í Englandi, á Spáni og í Þýskalandi nefnir Rómafólk sig þannig „travellers“ (förufólk), „kalé“ (svartur/myrkur) og „sinti“.
Síðastnefnda heitið vísar til svæðisins Sindh sem áður tilheyrði Indlandi en er núna hluti af Pakistan – þaðan sem Rómafólki er talið vera upprunnið.
Nasistum var einkum umhugað að útrýma svonefndum kynblendingum. Þessir blönduðu sígaunar sem að sögn yfirvalda töldu einhver 90% allra þeirra, voru álitnir sérlega mengandi fyrir aríska kynstofninn í Þýskalandi.
Forstjóri Rannsóknarstofnunar um hreinleika kynþátta, dr. Richard Ritter, sagði þannig:
„Sígauna-vandann er einungis ætlað að leysa þegar þessum andfélagslegu og ónothæfu sígauna-einstaklingum með blandað blóð er komið fyrir í stórum vinnubúðum og þeim er meinað að eignast fleiri börn í eitt skipti fyrir öll“.
Sígaunar myrtir í Auschwitz
SS-foringinn Heinrich Himmler undirritaði þann 8. desember 1938 tilskipun um að berjast gegn þessari „sígauna-plágu“.
Himmler vildi þó hlífa um 1.000 Rómönum með hreint blóð sem voru sagðir búa í Þýskalandi. Þessi „fágætu dýr“, eins og Himmler nefndi fólkið, hafði ekki blandað blóði sínu með öðrum kynþáttum, síðan fólkið fór frá Indlandi. Samkvæmt kynþáttafræðum nasista áttu Þjóðverjar og Rómafólkið þannig nokkuð sameiginlegt, því að aríski stofninn var jú kominn frá sama landsvæði.
Meðan Rómafólk með hreint blóð fékk leyfi til að halda í nokkur réttindi – eins og eignast börn – voru „bastarðarnir“ sendir í vinnubúðir þar sem aðstæður voru svo hræðilegar að þúsundir þeirra létust úr hungri og sjúkdómum.
Eftir að síðari heimsstyrjöldin braust út var stór hluti af sígaunum í Þýskalandi fluttur sem vinnuafl til gettósins í Łódz á hernumdum hluta Póllands. Þaðan voru margir sendir áfram til útrýmingarbúðanna Bełzec, Sobibór og Treblinka. Í austurhluta hersetnu svæðanna skutu SS-dauðasveitir auk þess þúsundir af Rómafólki.

Nasistar söfnuðu Rómafólki í fangabúðir þar sem það var sent í gasklefana eða látið vinna erfiðisvinnu.
Þann 16. desember 1942 sendi Heinrich Himmler tilskipun um að öllum „óhreinum sígaunum“ sem voru enn eftir í Þýskalandi, skyldi safnað saman í sérstökum sígauna-fjölskyldubúðum í Auschwitz-Birkenau.
Það voru sígaunar í þessum búðum sem vörðu sig gegn varðmönnum SS þann 16. maí 1944. Mótspyrna þeirra þóknaðist ekki nasistum og í júlí fyrirskipaði Himmler að sígauna-búðirnar skyldu lagðar niður.
Í þetta sinn voru nasistar vel undirbúnir þegar þeir komu til búðanna og sígaunarnir gátu ekki veitt neina mótspyrnu. Allir sem voru vinnufærir, bæði menn og konur, voru fluttir til fangabúðanna Buchenwald og Ravensbrück.
Í Auschwitz-Birkenau voru nú einungis um 3.000 börn, sjúklingar og gamalmenni sem gátu ekki veitt neina mótspyrnu. Um morguninn voru þau öll flutt til gasklefanna í Auschwitz-Birkenau.
Helför Rómafólksins gleymdist
Sagnfræðingar telja að milli 200.000 og 500.000 Rómanar í Evrópu hafi verið drepnir í síðari heimsstyrjöldinni. Og af þeim um 23.000 sígaunum sem frá 1942 og til loka stríðsins á árinu 1945 voru fluttir til Auschwitz-Birkenau, hafi níu af hverjum tíu verið drepnir.
Í Nürnberg-réttarhöldunum að stríði loknu voru margir æðstu nasistarnir ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyni – þar með voru talin drápin á sígaunum. Þessi kerfisbundna útrýming á Rómafólki var hins vegar ekki viðurkennd sem þjóðarmorð í Þýskalandi fyrr en árið 1979.
Af þessum ástæðum kallaði sagnfræðingurinn Eve Rosenhaft útrýmingu nasista á Rómafólki „gleymdu helförina“.
Lesið meira um morðin á Rómafólki
- Guenter Lewy: The Nazi Persecution of the Gypsies, Oxford University Press, 1999