Maðurinn

Líkami þinn lifir eftir dauðann

Heilinn sendir rafboð, frumur líkamans erfiða á fullu og handleggirnir hreyfast í mánuði. Nýjar tilraunir sýna sprengingu lífs á mínútunum, dögunum og mánuðunum eftir dauðann.

BIRT: 23/03/2024

Einum mánuði og fjórum vikum eftir að Cody Smith og hálfsystir hans, India, hurfu frá heimili þeirra þann 9. júlí 1997 í bandaríska fylkinu Ohio fundust lík barnanna tveggja í hávöxnu grasi við kirkjugarð nokkurn nærri heimili þeirra.

 

Augljóst var að börnin tvö, fjögurra og ellefu ára gömul, höfðu ekki lagst sjálf niður í grasið til að deyja náttúrulegum dauðdaga, þannig að lögreglan stóð frammi fyrir tvöföldu morði.

 

Í rannsókninni reyndist ekki hægt í fyrstu að ákvarða dánardaginn og börnin gátu því í raun hafa verið drepin á hvaða tíma sem var eftir að þau hurfu.

Vísindamaðurinn Neal Haskell tímasetti dánarstund í réttarhaldinu vegna morðanna á Indiu og Cody Smith.

Sterkur grunur féll á stjúpföður barnanna, Kevin Neal sem var góðkunningi lögreglunnar en fyrri afbrotaferill hans tryggði honum fjarvistarsönnun fyrir mestan hluta þess tíma.

 

19 dögum eftir að Cody og India hurfu var Neal fangelsaður í öðru sakamáli þannig að frá þeim degi og næstu 40 daga var Neal með skothelda fjarvistarsönnun varðandi þetta skelfilega ódæðisverk.

 

Ef dæma ætti hann fyrir tvöfalt morð þurfti lögreglan því að sanna að börnin hefðu látist fyrir 28. júlí, daginn þegar Neal var handtekinn.

LESTU EINNIG

Lögreglan leitaði sér aðstoðar hjá vísindamönnum og líffræðingurinn Neal Haskell kom þeim til hjálpar. Hann einbeitti sér ekki að dauða fórnarlambanna heldur að lífinu í líkömum barnanna eftir dauðann.

 

Starf hans reyndist skipta sköpum fyrir framgang málsins – og hefur síðar verið vísindamönnum innblástur til að kafa dýpra niður í þetta óhugnanlega rannsóknarsvið.

 

Á síðustu árum hafa margar rannsóknir sýnt að dauðir líkamar iða af lífi þar sem má finna allt frá heilavirkni til tendraðra gena og spriklandi útlima.

 

Bylgja dreifist út um heilann

Réttarmeinafræði hefur á fáeinum áratugum farið í gegnum sannkallaða byltingu.

 

Vísindamenn hafa fengið ný verkfæri til að greina myndskeið frá eftirlitsmyndavélum, endurlífga beinagrindur með þrívíddartölvulíkönum, rannsaka margvísleg efnasambönd og raðgreina jafnvel minnstu leifar af DNA.

 

Fyrir vikið getur réttarmeinafræðin nú veitt lögreglu langtum fleiri og nákvæmari upplýsingar um afbrotið, fórnarlambið og glæpamanninn heldur en nokkru sinni fyrr.

20 tímum eftir dauðann birtast fyrstu maðkarnir í líkinu

Eitt virkasta rannsóknarsvið innan réttarmeinafræðinnar snýst einmitt um hvað gerist í líkamanum eftir dauðann.

 

Við fyrstu sýn kann það að virka afar einfalt. Líkaminn slekkur algerlega á sér og brotnar síðan hægt niður. En fjölmargar niðurstöður rannsókna sýna að ferli þetta er öllu flóknara.

FYRSTU MÍNÚTURNAR

Þegar hjartað hættir að slá fá frumurnar ekki lengur til sín súrefni og geta ekki framleitt orku.

 

Þessi staða er afar krítísk fyrir taugafrumur heilans – en þær deyja ekki baráttulaust. Og síðasta bylgja þeirra af rafboðum hefst fyrst eftir margar mínútur.

 

Árið 2018 rannsakaði þýski taugalæknirinn Jens Dreier fyrstur manna fyrirbæri þetta í mönnum.

 

Í tilrauninni mældi Dreier heilavirknina hjá níu sjúklingum sem allir voru með alvarlegan heilaskaða og þar sem ýmist þeir sjálfir eða þeirra nánustu höfðu ákveðið að ekki skildi standa að endurlífgun ef þeir myndu deyja.

 

Dreier fékk því leyfi til að koma fyrir rafskautum inni í heilum þeirra og þannig gat hann mælt hvernig rafboð taugafrumnanna þróuðust við sjálft andlátið og eftir það.

Heilinn logar eftir dauðann

Rafskaut í heila á deyjandi sjúklingum hafa sýnt að heilmikil rafvirkni streymir um heilann á fyrstu mínútunum eftir að hjartað hefur slegið sitt síðasta slag.

Straumur jóna tryggir boð í heilanum

Heilafrumur skapa rafboð inni í sér með því að láta rafhlaðnar jónir streyma inn í frumuna. Þegar boðin hafa farið í gegnum frumuna senda svonefndar jónadælur jónirnar út aftur til að fruman sé tilbúin að senda frá sér ný boð.

Heilafrumur hætta starfsemi til að spara orku

Þegar hjartað stöðvast loka heilafrumurnar á fáeinum mínútum jónagöngum sínum þannig að þær geta ekki lengur sent rafboð. Með þessum hætti spara þær orku og eru tilbúnar að starfa aftur berist þeim súrefni.

Rafmögnuð óreiða fer í gegnum heilann

Skorti áfram súrefni gefast taugafrumurnar upp og jónirnar streyma inn í frumurnar. Þetta veldur mikilli rafvirkni í heilanum. En jónadælurnar geta ekki endurhlaðið frumurnar og heilinn missir getuna til að senda boð.

 

Niðurstöðurnar sýndu að taugafrumurnar í öllum heilanum bregðast við súrefnisskorti eftir fáeinar mínútur með því að loka fyrir alla taugavirkni og fara í eins konar viðbúnaðarástand.

 

Þær deyja ekki heldur virðast þær spara allt bolmagn sitt til þess að verða klárar ef súrefnið berst til þeirra á ný.

 

Þetta hafa læknar vitað um áraraðir og þetta er ástæða þess að þeir einbeita sér að því að koma hjartanu sem fyrst í gang þegar það stöðvast.

 

En mælingar Dreiers sýndu að bylgja af rafboðum skellur í gegnum heilann um þremur mínútum eftir hjartastopp.

 

Fremst í bylgjunni streyma rafhlaðnar jónir inn í taugafrumurnar í ferli sem líkist því sem jafnan gerist þegar taugafrumurnar reyna að senda taugaboð sín á milli.

 

Mörgum mínútum eftir dauðann fer rafmögnuð bylgja í gegnum heilann.

Yfirleitt endurhlaða taugafrumurnar sig sjálfar skjótt svo þær verði tilbúnar að senda ný boð en það gerist ekki hér.

 

Þegar bylgjan hefur farið um allan heilann eftir 10 – 30 mínútur eru taugafrumurnar í afar bágbornu ástandi og geta ekki lengur sett í gang þau rafboð sem lifandi mannverur reiða sig á.

 

Um leið og bylgjan er yfirstaðin eru líkurnar á endurlífgun afar litlar.

 

En með frekari rannsóknum á þessu fyrirbæri gætu læknar heft framrás bylgjunnar og þannig fengið lengri tíma til að endurlífga sjúklinga eftir hjartastopp.

FYRSTU TÍMARNIR

Gen eru virk í marga daga

Hálfri klukkustund eftir dauðann er heilinn algjörlega dauður og allur líkaminn er þjakaður af súrefnisskorti. Samt hafa ekki allar frumur líkamans gefist upp.

 

Þannig kemur sú mótsagnakennda staða upp að manneskjan sem lífvera er vissulega dauð þrátt fyrir að langflestar frumur í líkamanum séu ennþá lifandi.

 

Þrautpíndar frumurnar gera allt sem þær geta til að bjarga sér og árið 2016 tókst bandaríska lækninum og sameindalíffræðingnum Peter Noble að komast að því hvað gerist í frumunum eftir dauðann.

 

Noble gerði tilraunir sínar á músum sem hann aflífaði og tók síðan vefsýni úr þeim með reglulegu millibili.

Gen snúa aftur á fósturstigið

Frumur líkama þíns lifa áfram löngu eftir að þú hefur gefið upp öndina. Nýjar tilraunir hafa þannig sýnt að örvæntingarfullar frumurnar kveikja á meira en þúsund genum til þess að reyna að bjarga sjálfum sér og líkamanum. Í ringulreiðinni núllstilla þær sig sjálfar og kveikja á genum sem annars eru einungis virk á fósturstigi.

 

  • Eftir 1 tíma  –Frumurnar reyna að endurheimta ró og skipulag

Á fyrstu stundunum eftir dauðann virkja frumurnar gen sem taka þátt í ónæmisvörnum og flutningi á sameindum inn og út um frumurnar. Markmiðið er líklega að bæta skaða í frumunum. Samtímis verður súrefnisskorturinn til þess að frumurnar núllstilla sig og kveikja á genum sem annars eru einungis virk á fósturstigi.

 

  • Eftir 12 tíma  –  Frumurnar verja sig gegn ringulreiðinni

Á næstu 12 tímum herða frumurnar enn frekar virkni genanna fyrir m.a. ónæmiskerfið og kveikja auk þess á genum sem tengjast miklu álagi. Markmiðið er líklega að verja prótín frumnanna, frumuhimnuna og önnur frumulíffæri svo þetta skaðist ekki í ringulreiðinni.

 

  • Eftir 48 tíma  –  Frumurnar gefast upp og fremja sjálfsmorð

Dregið hefur úr virkni flestra gena eftir 48 tíma en einstaka genahópar eru enn virkir. Þetta eru gen sem geta virkjað skipulegt frumusjálfsmorð. Í lifandi líkama munu illa skaddaðar frumur einnig drepa sjálfar sig fyrir heildina og þetta ferli gerist nú í langtum umfangsmeiri mæli í líkinu.

 

Úr vefsýnunum tók hann RNA-sameindir sem myndast frá virkum genum og með aðstoð DNA-flögu gat hann ráðið í hvaða gen eru virk á næstu klukkustundum eftir dauðann.

 

Niðurstöður hans sýna að frumur líkamans á fyrstu klukkustund eftir dauðann virkja gen sem geta gert við skaða í vefjunum eða viðhaldið lífefnafræðilegu umhverfi frumnanna.

 

Noble til mikillar furðu kveiktu frumurnar einnig á genum sem annars eru einungis virk þegar við erum á fósturstigi.

 

Samkvæmt Noble er þetta þó líffræðilega skynsamlegt fyrirkomulag. Í fóstrinu hafa einstakar frumur ekki enn fengið endanleg verkefni eins og t.d. að breytast í ljósnæma frumu í nethimnu augans eða frumu í brisi sem framleiðir insúlín.

 

Í óreiðunni sem ríkir í dauðum líkamanum skiptir virkni frumnanna ekki lengur máli og frumurnar snúa því aftur til fósturstigsins, þar sem þær hafa ekki enn fengið úthlutað verkefnum.

 

120 mínútur eða meira geta frumurnar í tönn lifað án súrefnis.

 

Á fyrstu 12 stundunum eftir dauðann eykst virkni þessara gena og önnur gen fylgja í kjölfarið í viðleitni til að verja prótín frumnanna og fituhimnur.

 

Að lokum gefast frumurnar þó upp og virkja sjálfsmorðsgen sem binda enda á þjáningar frumnanna – og eftir tvo sólarhringa eru það í stórum dráttum einungis þessi gen sem enn eru virk.

 

Tilraunin sýndi þannig mynstur af genavirkni eftir dauðann í tímaröð sem gæti reynst mikilvægt verkfæri þegar réttarmeinafræðingar þurfa að ákvarða dánarstund í morðmálum.

 

FYRSTU DAGARNIR

Bakteríur blómstra

Mynstur Peter Nobles á genavirkni myndi ekki hafa hjálpað í rannsókninni á dauðdaga Codys og Indiu Smith, því börnin voru látin löngu áður en lík þeirra fundust.

 

Sem betur fer fyrir lögregluna heldur lífið áfram í líkamanum lengur en í nokkra daga. Eftir að eigin frumur líkamans eru dauðar taka aðrar frumur við.

 

Mannslíkaminn er um ævina heimkynni fyrir um 40 milljarða baktería og þegar frumur líkamans eyðileggja sjálfar sig taka bakteríurnar að dreifast frá upprunalegum búsvæðum, eins og í þörmunum, til annarra líffæra, þ.á m. lifrar, hjarta og heila.

LESTU EINNIG

Árið 2016 rannsakaði örverufræðingurinn Gulnaz Javan hvernig 27 mannslík voru yfirtekin af bakteríum.

 

Líkin voru milli 3,5 tíma og 10 daga gömul og það var bersýnilegt að mismunandi bakteríutegundir líkanna leystu hverjar aðrar af í ákveðinni röð með tímanum.

 

Tegundir af ættinni Lactobacillus döfnuðu best þegar súrefni er til staðar og þær finnast í miklu magni á fyrstu dögunum.

 

Eftir því sem fjöldi baktería eykst og súrefnið eyðist upp taka við tegundir af Clostridium sem dafna í súrefnissnauðu umhverfi.

 

Þarmabakteríur hertaka hjartað

Þegar frumur manneskjunnar gefast endanlega upp verða iðrin hátíðarmatur fyrir bakteríur líkamans. Óðfúsar örverurnar dreifast frá upprunalegum heimkynnum og hertaka líffæri sem áður voru alveg laus við bakteríur.

1- Bakteríur húðarinnar dreifast út í blóðið

Náttúrulegar bakteríur húðarinnar – einkum Staphylococcus og Streptococcus – eru fyrstar til að þrengja sér inn í æðar og sogæðar. Þaðan dreifast þær áfram til líffæra sem eru full af blóði, eins og lifur og milta.

2 – Þarmabakteríur þrengja sér inn í líffærin

Eftir dauðann eykst fjöldi þarmabaktería eins og Pseudomonas og Streptococcus sem dafna án súrefnis. Bakteríurnar brjóta niður þarmaveggina og dreifast út til líffæra sem yfirleitt eru laus við bakteríur, eins og hjarta og lifur.

3 – Bakteríur líkamans yfirtaka umhverfið

Bakteríur sem tilheyra ættinni Firmicutes sem yfirleitt lifa í þörmum, halda frá líkinu til umhverfisins. Liggi líkið t.d. á skógarbotni geta bakteríurnar yfirtekið búsvæði margra baktería sem lifa náttúrulega í jarðveginum.

Javan og félagar kortlögðu 30 mismunandi bakteríur í fjölmörgum líffærum og komust m.a. að því að hvert líffæri er tekið yfir af sérstakri samsetningu baktería og að lík manna og kvenna eru af óþekktum orsökum tekin yfir af ólíkum tegundum baktería.

 

Ættirnar Pseudomomas og Clostridiales eru meira áberandi í líkum kvenna meðan Clostridium og Streptococcus virðast dafna betur í líkum karla.

 

Mynstrin í samsetningu bakteríanna reyndust afar flókin yfir lengri tíma en með tölfræðilegum aðferðum tókst Javan og félögum hennar að skapa stærðfræðilegt líkan sem getur gagnast rannsóknum lögreglu við að tímasetja dánarstundina á líki sem hefur legið í marga daga.

 

Skordýr leysa morðgátu

Morðið á Indiu og Cody var ekki leyst á grundvelli baktería. Þess í stað sneri lögreglan sér að öðrum hópi lífvera sem dafna ágætlega í líkama eftir dauða; nefnilega skordýrum.

 

Rétt eins og genin og bakteríurnar fylgja skordýrin föstu mynstri eftir dauða manna og líffræðingurinn Neal Haskell bjó yfir góðri þekkingu á slíku mynstri. Þegar lögreglan hafði samband við hann hóf hann strax rannsókn á málinu.

 

Hann skoðaði fyrst maðkaflugur sem eru meðal fyrstu skordýra sem sækja í lík. Fáeinum mínútum eftir andlátið taka þær að verpa eggjum í líkamsop eða sár.

2.000 egg getur ein maðkafluga verpt á tveggja vikna fullorðinslífi sínu

Flugurnar fara í gegnum sex þroskastig á um fjögurra vikna langri ævi og sérfræðingar vita nákvæmlega hve langan tíma hvert stig tekur.

 

Tíminn ræðst þó af hitastigi og Haskell varð því að verða sér úti um upplýsingar um veðurfarið á svæðinu á viðkomandi tímabili.

 

Egg maðkaflugna klekjast út og verða lirfur sem fara í gegnum þrjú stig áður en þær púpa sig og koma síðan út úr púpunni sem fullvaxnar flugur.

 

Haskell fann tæplega 50 tómar púpur en engin egg, lirfur, lifandi púpur eða flugur.

 

Flugurnar höfðu því þegar farið í gegnum eina lífshringrás og yfirgefið nær fullnýtt líkið.

LESTU EINNIG

Á eftir maðkaflugunum kemur tvívængjan Piophila foveolata sem dafnar vel á rotnuðum líkum. Haskell fann slíkar flugur í hundraða tali í vefsýnum frá líkunum og þær höfðu þegar náð þriðja stigi sem lirfur.

 

Þetta þýddi að flugurnar hlutu að hafa komist í líkið minnst 45 dögum áður en líkin fundust – eða í síðasta lagi þann 23. júlí.

 

Og þar sem flugur þessar herja fyrst á lík sem hefur legið í minnst níu daga gat Haskell ályktað að börnin tvö voru drepin fyrir 14. júlí.

 

Þessi niðurstaða var staðfest af enn einni flugnategundinni, skrúfuflugunni Cochlioymia Macellaria – eða öllu heldur fjarveru flugunnar.

 

Þessi fluga dvelur ekki yfir vetur í svölu loftslagi Ohio þar sem lík barnanna fannst, heldur berst á svæðið frá heitari, fjarlægari svæðum um miðjan júlí.

 

Þar sem skrúfuflugan verpir eggjum sínum aðeins í fersk lík hlutu líkin því að hafa legið nokkra daga í grasinu við komu þeirra um miðjan júlí.

 

FJARVISTARSÖNNUNIN HÉLT EKKI VATNI

 

Í réttarhaldinu útskýrði Neal Haskell niðurstöður sínar og ályktaði að börnin hafi verð myrt milli 9. júlí – dagsins þegar þau hurfu og 14. júlí.

 

Morðin voru því framin minnst tveimur vikum áður en stjúpfaðir barnanna, Kevin Neal, var fangelsaður og þess vegna hélt fjarvistarsönnun hans ekki vatni.

 

Öll sönnunargögn bentu nú á Kevin Neal og dómarinn lauk málinu með því að dæma hann í lífstíðarfangelsi fyrir morðin á stjúpbörnum sínum tveimur.

 

FYRSTU MÁNUÐURNIR

Lík hreyfa sig eftir dauðann

Mál eins og þetta varðandi Indiu og Cody Smith eflir vísindamenn í að halda áfram rannsóknum á lífi líkamans eftir dauðann.

 

Og ein nýjasta vitneskjan sem hefur komið fram sýnir áður óþekkt ferli sem getur fengið lík til að hreyfast í meira en eitt ár.

 

Réttarmeinafræðingurinn Alyson Wilson sem uppgötvaði þetta, framkvæmir tilraunir sínar á svokölluðu „líkamabýli“ sem er staðsett á leynilegum stað fyrir utan áströlsku borgina Sydney.

Mörg líkanna á ástralska líkamabýlinu AFTER, eru varin gegn hræætum.

Þessar leynilegu búðir samanstanda af ósnortinni náttúru með trjám og runnum þar sem 70 líkum er komið fyrir þar sem þau fá að liggja og rotna.

 

Eitt líkanna sem er af fullorðnum manni hefur verið undir vökulu eftirliti Wilsons síðan það var lagt í skógarbotninn fáeinum tímum eftir lát mannsins.

 

Réttarmeinafræðingurinn hefur síðan fylgst með líkinu í gegnum myndavél um 17 mánaða skeið og tekur myndavélin mynd af líkinu á hálftíma fresti. Wilson setti síðan myndirnar saman í myndskeið þar sem hún gat fylgst með niðurbroti skrokksins í smáatriðum

Dauðir skrokkar lyfta örmum

Skrokkar liggja ekki kyrrir eftir dauðann. Gas, skordýr og lítill loftraki fá líkið til að hreyfast eftir síðasta hjartslátt næstu daga, vikur og mánuði.

 

Útþensla rífur klæðin í sundur

Niðurbrot á vefjum leiðir til uppsöfnunar gastegunda í holrúmum líkamans og kviðarhol líksins tútnar út. Þröng klæði geta rifnað í sundur.

Skordýr fá líkið til að dragast saman.

Skordýr, einkum maðkaflugur, naga sig í gegnum vefina og uppsafnað gas lekur út þannig að líkið skreppur saman. Virkni skordýranna getur fengið allt líkið til að færast til.

Útlimir hreyfast í mánuði

Lítill loftraki umhverfis líkið getur leitt til þess að vefir þorna upp og verða eins og í múmíum. Þá geta sinarnar dregist saman þannig að útlimir líksins hreyfast.

Wilson til mikillar furðu kom í ljós að líkið lá ekki kyrrt heldur hreyfðist til allan tímann. Handleggirnir hreyfðust frá líkamanum eins og þegar maður býr til snjóengil og höndin færðist fram og til baka í hreyfingu sem minnir á gælur.

 

Orsökin fyrir þessum líflegu hreyfingum líksins er trúlega sú að uppþornuð húð og sinar dragast saman og þenjast út eftir breytilegum hita og uppgötvunin kann að skipta máli fyrir rannsóknir lögreglunnar.

 

Sjálfsmorð gæti þannig t.d. virst líkjast morðmáli ef líkið færir höndina frá byssunni. Starf Wilsons sýnir að það er enn margt að læra í þessum efnum – og nýjar uppgötvanir munu áfram auka líkurnar á því að þeir sem lögreglan grunar um græsku muni hljóta réttlátan dóm.

 

MYNDSKEIÐ: Kíkið í heimsókn á „líkamabýlið“ í Ástralíu

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

Getty Images, © Joe Burbank/AP/Ritzau Scanpix & NHM/SPL, © Claus Lunau, © Shutterstock & Claus Lunau, © Anna Zhu/University of Technology Sydney & Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Köngulóin er sköpuð til að myrða

Lifandi Saga

Fangar í útrýmingarbúðum fölsuðu peninga fyrir nasista

Heilsa

Vísindamenn: Blóðsýni afhjúpa elliglöp 15 árum fyrir einkenni

Maðurinn

Af hverju erum við með mismunandi blóðflokka?

Alheimurinn

Bilaðasta tilraun heims: Komdu með í ferðalag til endimarka alheims

Maðurinn

Getur kláði verið smitandi?

Alheimurinn

Jörðinni var bjargað af illa tvíbura sínum

Heilsa

Fjöldi daglegra salernisheimsókna getur haft afleiðingar fyrir heilsuna

Maðurinn

Genagalli gerir albínóa hvíta

Maðurinn

Hið fullkomna morð er dautt

Lifandi Saga

Teþorstinn knésetti stórveldi

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is