Það er fremur að verða regla en undantekning að krónprinsinn í Sádi-Arabíu, Mohammad bin Salman, kynni áætlanir um stórfengleg framtíðarmannvirki.
Nýjasta verkefnið slær þó öll met varðandi stórhug, stærð og kostnað.
New Murabba verður – ef áætlunin gengur eftir – stærsti, nútímalegi byggingarkjarni sögunnar og á að standa fullbúinn árið 2030.
Mannvirkið á að teygja sig yfir 19 ferkílómetra svæði norðvestur af höfuðborginni Riyadh að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá PIF, opinberum fjárfestingasjóði Sádi-Arabíu.
Teningislaga skýjakljúfur á að verða kóróna mannvirkisins. Sú bygging hefur hlotið heitið Mukaab eða „Teningurinn“.
Þessi meginbygging verður 400 metrar á hvern veg og þar með nægilega stór til að rúma 20 Empire State-turna.
Í miðju teningsins á að rísa spírallaga turn og í þessu framúrstefnumannvirki á að verða ýmislegt sem laðar að ferðamenn en líka hótel, íbúðir, verslanir og fjölmargt fleira.
Jafnframt er ætlunin að bjóða íbúum og ferðamönnum upp á heilmyndir eða „holography“ og aðra sjónræna afþreyingu, að því er fram kemur.
New Muraba-verkefnið á að rúma hundruð þúsunda íbúa en það er þó einungis ein af margvíslegum stórframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Sádi-Arabíu. Að samanlögðu er þeim ætlað að styrkja efnahag landsins og gera þetta eyðimerkurríki minna háð olíuvinnslu.
LESTU EINNIG
Gert er ráð fyrir að árið 2030 muni þetta byggingarverkefni skapa 334.000 bein og afleidd störf.