Nú er meira en hálf öld síðan maður steig síðast fæti á tunglið. Það gæti þó breyst fljótlega því á næstu árum er ætlunin að NASA sendi geimfara aftur til þessa eilífa fylgihnattar okkar og til lengri tíma litið er markmiðið að koma þar upp varanlegri bækistöð.
Og einmitt það kynni að vera orðið talsvert raunhæfara eftir að sýni sem kínversk vitvél tók á tunglinu 2020, reyndust innihalda vatn.
Kínverski leiðangurinn Chang‘e 5 sendi til tunglsins vitvél sem þar athafnaði sig bæði með bor og skóflu og tók alls 1,7 kílóa sýni úr tiltölulega ungri hraunsléttu á yfirborðinu.
Það var í þessum malar-, ryk- og jarðvegssýnum sem kínverskir vísindamenn hjá Kínversku vísindaakademíunni hafa nú uppgötvað mögulegar vatnsbirgðir á tunglinu – og meira að segja trúlega mikið vatn.
Í sýnunum fundust litlar glerkúlur með vatni og slíkar kúlur gætu legið á víð og dreif um allt yfirborð tunglsins. Það merkir að í rauninni gætu milljarðar tonna af vatni leynst á tunglinu, varðveitt í eins konar gleri.
Hringrás vatns enn ráðgáta
Það er þó ekki ný frétt að tunglið sé meira en skraufaþurr eyðimörk.
Stjörnufræðingar hafa öldum saman velt fyrir sér spurningunni um vatn á tunglinu og árið 2020 sannaði NASA-sjónaukinn SOFIA í eitt skipti fyrir öll að vatnssameindir hafa límt sig við yfirborðsrykið.
En hvernig vatnið varðveitist þarna og hvernig það kann að flytjast til hefur verið ráðgáta sem uppgötvun glersins getur nú átt þátt í að leysa.
Artemis áætlunin er fyrsta skrefið í átt að varanlegri og stöðugt mannaðri stöð á tunglinu þar sem geimfarar geta búið og starfað mánuðum saman.
Hinar smásæju glerperlur eru taldar myndast þannig að loftsteinar sem skella niður á yfirborðið þeyti upp bráðnum vatnsdropum. Droparnir frjósa í fastar eindir sem ekki eru nema innan við 100 míkrómetrar í þvermál. Sem sagt afar smáir.
Talið er að stór hluti vatns á tunglinu myndist fyrir tilverknað sólvindsins sem í raun er stríður straumur hlaðinna einda frá sólinni en með honum berast vetnisjónir til tunglsins.
LESTU EINNIG
Glerperlurnar eru nógu gljúpar til að drekka í sig vetnisjónirnar. Þær tengjast svo súrefni sem þegar er að finna í perlunum og mynda vatn.
Þetta glerkennda efni gæti gegnt stóru hlutverki varðandi hringrás vatns á tunglinu. En það gæti einnig orðið dýrmæt auðlind þegar að því kemur að menn komi upp fastri bækistöð á tunglinu.
Þótt ekki sé beinlínis hægt að segja að vatn leki úr glerperlunum, benda rannsóknir til að það geti losnað séu þær hitaðar í meira en 100 gráður og þar með komið geimförum á tunglinu að notum.