Svartidauði snýr aftur

Bakterían sem olli pestarfaröldrum miðalda, Svartadauða, lifir enn góðu lífi og gæti innan tíðar orðið ónæm fyrir sýklalyfjum. Hér útskýrum við þessa leyndu ógn ásamt tilraunum vísindamanna til að bregðast við og koma í veg fyrir útbreiðslu.

BIRT: 12/04/2023

LESTÍMI:

7 mínútur

Þann 27. ágúst árið 2017 stígur 31 árs gamall karlmaður inn í smárútu og fer í ferðalag um miðlendur Madagaskar. Hann hefur verið með hita og kuldaköst í fjóra daga.

 

Nú versnar honum skyndilega. Hann fær hósta og lendir í andnauð. Áður en komið er á áfangastað hefur hann gefið upp öndina í sætinu.

 

Í sorg sinni lætur fjölskylda mannsins flytja líkið á næsta sjúkrahús og þaðan er það jarðsett. Nokkrum dögum eftir jarðarförina veikjast ríflega þrjátíu af gestunum og fjórir deyja.

Tveir aðrir farþegar smárútunnar reynast nú einnig hafa látist og þegar þriðji jarðarfarargesturinn deyr, rennur hinn beiski sannleikur upp fyrir læknunum: Það er kominn upp pestarfaraldur á Madagaskar. Á næstu þremur mánuðum smitast 2.417 og af þeim deyja 209.

 

Faraldurinn sýnir að bakterían sem olli svartadauða á miðöldum lifir enn í besta yfirlæti. Ýmsar rannsóknir sýna líka að hún gæti fyrirvaralaust orðið ónæm fyrir sýklalyfjum nútímans. Gerist það, ógnar þessi baktería allri heimsbyggðinni.

 

Á móti vinna vísindamenn að þróun ýmissa varnarvopna – þeirra á meðal eru genabreyttir tómatar, hol skel með einkennum bakteríunnar að utanverðu og nefúði með breyttum kvefveirum.

 

Pestin er ennþá til

Á hverju ári smitast alls hátt í 2.000 manns af pestinni, flestir á Madagaskar, í Lýðveldinu Kongó og Perú. Án læknismeðferðar deyja allt frá 30% upp í 100% eftir fáeina daga.

 

Bakterían leynist víða um heim og á nokkurra áratuga fresti veldur hún faraldri sem kostar hundruð eða þúsund mannslíf.

 

Það er bakterían Yersinia pestis sem veldur pestinni og af sjúkdómnum eru til þrjú afbrigði.

Pestarbakterían getur valdið eins konar kali. Vefurinn sortnar þá og deyr. Þetta er talin ástæða nafngiftarinnar „Svartidauði“.

Algengust er kýlapest sem brýst fram þegar bakterían nær inn í gegnum húðina og berst með sogæðum í eitlana. Þar fjölgar bakterían sér uns eitlarnir tútna út og mynda kýli þannig að vefurinn deyr.

 

Auk kýlamyndunar veldur sjúkdómurinn oft kali á fingrum, tám og nefi eða vörum. Án meðhöndlunar er dánartíðnin á bilinu 40-60% og kýlapestin þar með vægasta afbrigðið.

75 til 200 milljónir létu lífið af völdum svartadauða á 14. öld.

Í sjaldséðum tilvikum kemst bakterían í blóðrásina og veldur blóðeitrun ásamt blæðingum úr nefi, munni og endaþarmi. Að lokum hætta líffærin að starfa og fórnarlambið deyr oft innan sólarhrings ef engri meðferð er beitt.

 

Þriðja afbrigðið myndast þegar bakterían berst ofan í lungun með fíngerðum úðadropum. Þar veldur hún svæsinni lungnabólgu. Sjúklingurinn hóstar blóði og nær ekki andanum og án meðhöndlunar stöðvast öndunin eftir fáeina daga.

 

Faraldur blanda afbrigða

Pestin leggst oftast á dýr en smitast annað veifið í menn. Meira en 50 tegundir spendýra geta borið bakteríuna en helst er hana að finna í nagdýrum á borð við jarðíkorna, múrmeldýr og rottur.

 

Dýr bera líka oft smit milli manna. Bakterían getur nefnilega borist með fló sem bítur sjúkling og nær síðan að stökkva á heilbrigðan einstakling sem hún bítur líka.

Sýkt fló getur bitið í gegnum húð og þá berst bakterían í sogæðavökvann og fjölgar sér í eitlum.

Pestin hoppar milli tegunda

Pestarbakterían er víða í náttúrunni þar sem hún drepur m.a. flær og nagdýr en nokkrum sinnum á ári nær hún til mannfólksins og veldur staðbundnum faraldri.

1. Pestarbakterían lifir í náttúrunni

Í náttúrunni verða einkum nagdýr og marðardýr fórnarlömb pestarinnar. Flær bera bakteríuna og valda reglubundið faraldri í dýraríkinu. Pestin er yfirleitt banvæn bæði flóm og spendýrum.

2. Smitið færist nær okkur

Flær sem komist hafa í snertingu við sýkt dýr komast stundum í rottur sem aðlagast hafa nábýli við menn. Frá þeim berst smitið í aðrar flær og rottur sem hafast við mjög nálægt mönnum.

3. Flærnar koma faraldri af stað

Þegar sýkt fló bítur mann berst bakterían í sogæðavökvann og fjölgar sér í eitlum. Bakteríur berast svo milli manna með flóm eða með úðasmiti frá hósta eða hnerra.

Oftast valda flóabitin kýlapest en í sumum tilvikum berst bakterían í lungun með líkamsvessum. Lungnapestin kemur hinum smitaða til að hósta og hnerra og það ber bakteríuna áfram.

 

Pestarfaraldur er því nær alltaf blanda tveggja afbrigða; kýlapestar og lungnapestar.

 

Í faraldrinum á Madagaskar 2017 fengu 83% smitaðra lungnapest en 17% kýlapest. Aðeins einn sjúklingur fékk hið bráðhættulega blóðeitrunarafbrigði.

 

Hvaða afbrigði pestarinnar var algengast í svartadauða faröldrum miðalda er ekki þekkt en vísindamenn telja sig þó hafa vísbendingar.

Svartidauði ógnar á ný

Svartidauði barst að líkindum til Spánar með ítölskum verslunarskipum, þar sem um borð voru smitaðar rottur og flær frá Mið-Asíu. Þessi dýr voru mjög útbreidd á miðöldum, þegar hreinlæti var mjög ábótavant og að líkindum faraldurinn hafist sem kýlapest.

 

Sumir vísindamenn telja þó ólíklegt að kýlapestin ein og sér hafi getað breiðst svo hratt út sem raunin varð. Aðeins þremur árum eftir að pestin barst til Ítalíu hafði hún m.a. lagt að velli meira en helming norsku þjóðarinnar í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.

 

Þegar sjúkdómur berst svo hratt er raunhæfara að gera ráð fyrir loftbornu smiti. Til að það gangi upp þarf lungnapestarafbrigðið að hafa verið drifkraftur svartadauða.

 

 

DNA úr pestbakteríunni Yersinia pestis hefur fundist í beinum margra fórnarlamba svartadauða og eru rannsakendur því vissir um að bakterían hafi staðið á bak við faraldurinn.

En hver sem raunin var, erum við stórum mun betur í stakk búin að verjast pestinni nú en þá. Pestarbakterían er sem sé afar viðkvæm fyrir sýklalyfjum. Því miður getur það breyst hratt.

 

Þegar árið 1995 uppgötvuðu læknar pestarbakteríur sem orðnar voru ónæmar fyrir nokkrum gerðum sýklalyfja. Og árið 2007 leiddi rannsókn í ljós að salmonellubakteríur geta yfirfært þau gen sín sem valda sýklalyfjaþoli til pestarbakteríunnar.

 

Þar eð ónæmar salmonellubakteríur eru orðnar útbreiddar er umtalsverð hætta á því að við stöndum skyndilega andspænis pestarbakteríu sem sýklalyf vinna ekki á.

Draugabólusetning

Óttinn við nýja faraldra hefur leitt til þess að vísindamenn reyna nú að þróa ný bóluefni við pestinni. Pestarbóluefni hafa verið til allt frá 1897 en hafa aldrei reynst nógu vel og nú eru engin slík bóluefni viðurkennd í ESB eða Bandaríkjunum.

 

Eldri bóluefni byggðust á veikluðum bakteríum eða bakteríuhlutum til að þjálfa ónæmiskerfið en nú reyna vísindamenn nýjar aðferðir.

 

Árið 2021 notaði hópur rússneskra vísindamanna t.d. genatækni til að skapa svokallaða „draugabakteríu“ sem var hol að innan og í rauninni aðeins líflaus skel en nauðalík pestarbakteríunni að utanverðu.

Tómatar og draugar eiga að stöðva pestina

Fyrstu bóluefnin gegn pestinni virkuðu ekki tiltakanlega vel og höfðu miklar aukaverkanir. Þess vegna er nú unnið að þróun nýrra og betri bóluefna.

Draugur platar ónæmiskerfið

Vísindamenn tæma pestarbakteríu og skilja einungis hylkið eftir. Það líkist enn pestarbakteríu en er skaðlaust. Þessi tóma skel kallast draugabaktería og hún þjálfar ónæmiskerfið í baráttu gegn pestinni.

Kvefveirur bera bóluefni

Í skaðlausa adenóveiru sem almennt veldur kvefi, eru sett gen (græn) sem mynda prótín pestarbakteríunnar. Veirurnar eru settar í nefúða og mynda prótínin á slímhúð til að kynna þau fyrir ónæmiskerfinu.

Tómatar vernda gegn pestinni

Vísindamenn setja gen úr pestarbakteríunni (græn) í tómatfrumur þannig að plantan myndar pestarprótín í tómötunum. Þegar tómatarnir eru innbyrtir kemst slímhúð í munni í snertingu við prótínin og ónæmiskerfið getur brugðist við.

Þessi draugabaktería reyndist vernda gegn pestinni í tilraunum sem gerðar voru á músum og öpum sem fengu í sig öflug smit, ýmist af lungna- eða kýlapest. Óbólusett dýr í samanburðarhópum drápust öll á fjórum dögum en þau bólusettu sýndu engin sjúkdómseinkenni þann mánuð sem tilraunin stóð.

Villt dýr bólusett

Annað bóluefni er einfaldlega tómatur sem á að borða. Tómaturinn er genabreyttur og í honum eru nokkur prótín pestarbakteríunnar. Slíkt bóluefni er auðvelt að gefa – hvorki þarf sprautu né annan búnað – og að auki er auðvelt að framleiða mikið af því.

 

Genabreyttir tómatar hafa þegar skilað góðum árangri í dýratilraunum. Þeir hafa ekki verið reyndir á mönnum og það er heldur ekki endilega ætlunin. Bandarískir vísindamenn eru sem sé að gera tilraunir með ætileg bóluefni fyrir villt dýr.

 

Árið 2017 dreifði smitsjúkdómasérfræðingurinn Tonie Rocke, hjá National Health-miðstöðinni í Wisconsin í BNA, góðgæti með pestarbóluefni til villtra jarðíkorna. Bóluefnið gegnir tveimur lykilhlutverkum.

Jarðíkornar í Norður-Ameríku verða reglubundið fyrir pestarsmiti. Pestin drepur nær alla jarðíkorna sem smitast.

Annars vegar er ætlunin að vernda þessi dýr. Jarðíkornar smitast iðulega af pestarbakteríunni og hún er þeim oftast banvæn. Bólusett dýr eru mun líklegri til að lifa af og þar eð jarðíkornar eru kjörfæða ýmissa rándýra er tilvist þeirra öllu vistkerfinu mikilvæg.

 

Hins vegar á bóluefnið að koma í veg fyrir faraldur í mönnum. Nái pestin ekki að dreifa sér til villtra dýra dregur það úr líkum á að smitið berist áfram í menn.

 

Tilraun Tonies Rocke tókst afar vel. Dýrin átu bóluefnisbitana og í kjölfarið sýndu rannsóknir að þau voru að hluta til varin gegn bakteríunni. Um tvöfalt fleiri lifðu pestina af á þeim svæðum þar sem bóluefninu hafði verið dreift en á öðrum svæðum.

 

Nýjungar á sviði pestarbóluefna eru þar með á góðri leið með að sanna gildi sitt. Innan tíðar gætu þau orðið fær um að koma í veg fyrir faraldra á borð við þann sem gekk á Madagaskar 2017 og þar með kæft í fæðingu þá ógn sem annars gæti stafað af heimsfaraldri Svartadauða á borð við þá faraldra sem gengu yfir Evrópu á miðöldum.

Svartidauði fór illa með Íslendinga

Svartidauði er talinn hafa borist til Íslands árið 1402 og er talið að allt að helmingur landsmanna hafi látist af völdum sjúkdómsins. Sumir vilja meina að allt að tveir þriðju Íslendinga hafi látist.

BIRT: 12/04/2023

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: © CDC/SCIENCE PHOTO LIBRARY. © Shutterstock. © National Wildlife Health Center.

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is