Fólk með félagskvíða eða félagsfælni á ekki auðvelt með að umgangast aðra. Það læðist með veggjum vegna þess kvíðinn við að verða miðpunktur gagnrýninnar athygli annarra ber það ofurliði.
Það getur leitt til þess að það upplifir niðurlægingu, vanmátt og einangrun. Þessi kvíði veldur því að félagskvíðinn einstaklingur hegðar sér á mjög sérstakan hátt sem, samkvæmt nýrri kanadískri rannsókn, eykur á vandann.
Forðast augnsamband
Fólk með félagskvíða hefur tilhneigingu til að bregðast við á máta sem mætti kalla öryggisleitarhegðun sem það telur að muni vernda það fyrir neikvæðum viðbrögðum frá umhverfi sínu. Dæmi um þetta er að tala lítið til að vekja ekki athygli á sér.
Það sýnir einnig nokkur konar flóttaviðbrögð. Forðast t.a.m. að tala við aðra eða forðast augnsamband. Að sama skapi velur það sér oft lítið áberandi föt.
Því miður er það einmitt vegna þessarar flóttahegðunar sem annað fólk upplifir fólk með félagskvíða oft sem lítt viðkunnanlegt og falskt. Og það gerir vandamálið enn verra.
Samanburður á fólki með og án félagskvíða
Kanadískir vísindamenn, þar á meðal doktorsneminn Grishma Dabas frá McMaster háskólanum í Ontario ákváðu að rannsaka þetta nánar og réðu samtals 69 þátttakendur. 40 þeirra þjáðust ekki af félagsfælni heldur voru einfaldlega valdir úr sálfræðinámskeiði við stóran kanadískan háskóla. Hinir 29 voru greindir með félagsfælni og fengu meðferð við vanda sínum.
Til að byrja með fylltu allir þátttakendur rannsóknarinnar út spurningalista þar sem þeir upplýstu um hvers kyns félagsfælni, öryggisleitarhegðun og önnur tengd efni. Eftir þetta hitti hver fyrir sig annan einstakling sem þóttist vera einn þáttakendana en var í raun leikari sem átti að koma á samræðum við ,,tilraunakanínuna”.
Falskari og minni samkennd
Í kjölfarið þurftu bæði meðleikarinn og raunverulegur þátttakandi tilraunarinnar að leggja mat á hvernig fundurinn hefði gengið. Þetta var einnig gert með spurningalistum þar sem aðilar mátu félagslegu samskiptin.
Í ljós kom að þátttakendur með félagsfælni voru taldir af meðleikurunum ekki eins viðkunnanlegir og frekar falskir samanborið við þá sem ekki áttu við félagsfælni að stríða. Hinir félagskvíðnu höfðu aftur á móti tilhneigingu til að meta sjálfa sig falskari en einstaklingar sem ekki þjáðust af félagsfælni.