Hvaða himinhnöttur er elstur?

Elstu stjörnurnar eru næstum jafngamlar og alheimurinn – sem sagt meira en 13 milljarða ára. Ein þeirra hefur skráningarnúmerið HE0107-5240 og er í útjaðri Vetrarbrautarinnar, í um 36.000 ljósára fjarlægð. Massi þessarar stjörnu er örlitlu minni en massi sólarinnar.

 

Aldur stjörnunnar er metinn út frá innihaldi hennar af þungum frumefnum, þyngri en vetni og helíum. Vetni og helíum myndaðist við Miklahvell fyrir um 13,7 milljörðum ára. Þyngri frumefni hafa síðan myndast inni í stjörnum og þegar sprengistjörnur springa. Það tekur sem sagt tíma að mynda þessi þyngri frumefni og enn sem komið er, eru þau ekki nema um 1% af öllu efni í alheiminum. Þegar stjörnufræðingar rannsökuðu litróf stjörnunnar uppgötvuðu þeir að málmainnihald hennar er um 1/200.000 af málmainnihaldi sólarinnar. Af þessu má draga þá ályktun að hún muni vera ríflega 13 milljarða ára.

 

Elsta reikistjarna sem fundist hefur er nokkru yngri. Hana er að finna í um 5.600 ljósára fjarlægð í kúluþyrpingunni Messier 4. Þessi pláneta er næstum 13 milljarða ára og hefur myndast við stjörnu á borð við sólina og nokkuð örugglega verið á braut í svipaðri fjarlægð og Júpíter er frá sólinni. En í kúluþyrpingu er stutt á milli stjarna og sólkerfi því sjaldnast stöðug í langan tíma. Einhvern tíma hafa þessi pláneta og stjarna hennar lent of nálægt nifteindastjörnu og inni í þyngdarsviði hennar. Stjarnan varð þá fyrst að risastjörnu en síðar að hvítum dverg. Gamla reikistjarnan er á braut um nifteindastjörnuna og hvíta dverginn í um 3 milljarða km fjarlægð.

 
 
(Visited 66 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR