Skrifað af Alheimurinn Stjörnufræði

Hvers vegna hafa halastjörnur hala?

Halastjarna er ísklumpur sem fer á aflangri braut um sólu. Þegar halastjarnan kemst nærri sólu – í innra sólkerfinu – hitnar hún og ísinn tekur að gufa upp. Þannig losnar um ryk og gas sem er lokað inni í ísnum.

Sólarljósið verður einnig þess valdandi að hali myndast í stað þess að rykkornin fari á braut umhverfis halastjörnuna. Geislunin frá sólu þrýstir nefnilega á rykið og því snýr halinn ævinlega frá sólinni. Sólarljósið endurvarpast einnig af rykinu þannig að halastjörnuna má greina frá jörðu.

Reyndar getur halastjarna verið með tvo hala – annan úr ryki og hinn úr gassameindum. Þegar geislar sólar skella á gassameindir geta þeir rifið rafeindir frá sameindunum sem öðlast rafhleðslu. Þetta rafgas rafeinda og jákvætt hlaðinna sameinda víxlverkar með straumi hlaðinna öreinda frá sólu, svonefndum sólarvindi. Þannig myndar rafgasið sinn eigin hala sem stefnir frá sólu. Næst halastjörnunni þar sem magn hlaðinna öreinda er mest getur halinn skinið með bláu ljósi.

Kjarni halastjörnunnar er jafnan fáeinir kílómetrar í þvermál en hali hennar getur teygst hundrað milljón kílómetra út í geim. Halalausar halastjörnur finnast þar sem allt efni sem getur gufað upp er horfið, svo að einungis kjarninn er eftir og ekkert sem getur myndað hala.

(Visited 37 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.