Þróuð röntgenrannsókn á málverki Leonardo Da Vinci af Monu Lisu hefur afhjúpað undrafágaða málingatækni.

Löngu er vitað að Leonardo Da Vinci var framúrskarandi málari. En hann kemur ennþá vísindamönnum á óvart. Þegar franskir fræðimenn rannsökuðu nýlega frægasta málverk hans, Monu Lisu, með þróaðri röntgentækni kom í ljós nánast óskiljanlega fáguð málaratækni með svonefndu röntgen-flúrljómunar-rófi sem sérfræðingar við m.a. evrópsku geislunarstofnunina nærri borginni Grenoble framkvæmdu. Við rannsóknina kom í ljós að Da Vinci nýtti allt að 40 mismunandi örþunn lög af málningu til að skapa hið fræga bros Monu Lisu.

Hvert lag er milli einn og tveir míkrómetrar á þykkt sem er 50 sinnum þynnra en mannshár. Samanlögð þykkt laganna er sjaldnast meira en 30 – 40 míkrómetrar. Innihald hvers lags af litarefnum, olíu og trjákvoðu gat þýtt allt að mánaðarlangan þurrktíma og því þurfti mikla þolinmæði listamannsins við að skapa bros Monu Lisu. Málverkið var líka meira en 4 ár í vinnslu.