Smápeningar þurfa að komast í snertingu við svita til að “málmlyktin” verði til.

Í gamla daga var talað um peningalykt frá t.d. síldarbræðslum, en er það ekki tilfellið að greina megi málmlykt af smápeningum?

Það getur fundist nokkuð ákveðin málmlykt af smápeningum og reyndar ýmsum öðrum málmhlutum sem við komumst í snertingu við, t.d. lyklum, skartgripum eða hnífapörum.

En nú hafa efnafræðingar hjá Virginia Tech í Bandaríkjunum komist að þeirri niðurstöðu að efnafræðilega sé í rauninni ekki um málmlykt að ræða. Þeir uppgötvuðu að engar málmsameindir var að finna í þeirri lykt sem okkur finnst vera málmkennd. Þvert á móti kemur lyktin frá líkamanum sjálfum og myndast ekki fyrr en sviti í lófunum kemst í snertingu við látún, járn eða kopar. Sama lykt getur myndast þegar blóð kemst í snertingu við húð, þar eð nokkurt járn er að finna í blóðinu.