Skrifað af Maðurinn Sjúkdómar og læknisfræði Tækni Uppfinningar

Gervivöðvi sér um deplun augans

Á hverju ári verða mörg þúsund manns fyrir því að geta ekki lengur deplað öðru auganu, eða jafnvel hvorugu. Ástæðan getur verið blóðtappi, sköddun í slysi, taugasköddun eða lömun eftir hníf skurðlæknis. Afleiðingarnar geta verið alvarlegar, því augun þurfa að geta lokast til að hreinsa sig og viðhalda raka.

Nú eru bandarískir vísindamenn hjá Davis-læknisfræðimiðstöðinni við Kaliforníuháskóla að þróa gervivöðva sem getur komið lömuðum augnalokum aftur í gang. Gervivöðvinn kallast EPAM (Electroactive Polymer Artificial Muscle), er græddur við höfuðkúpuna og annast síðan deplun augans. Hafi sjúklingurinn enn stjórn á öðru auganu, má nota skynjara til að fylgjast með hreyfingum heilbrigða augnaloksins og láta gervivöðvann fylgja hreyfingum þess. En séu bæði augnalokin lömuð er gangráður græddur í sjúklinginn og hann sér til þess að depla augunum með reglulegu millibili á sama hátt og hjartagangráður knýr hjartað til að slá.

Eins og stendur eru takmarkaðir möguleikar til að fá lamað augnalok til að hreyfast. Í suma sjúklinga er græddur vöðvi úr fæti, en það er mikil aðgerð og hentar því illa fyrir eldra fólk eða lasburða. Í öðrum tilvikum er lítil gulþynna sett í augnalokið og þyngd hennar látin loka auganu, en það gerist þó svo hægt og óreglubundið í samanburði við heilbrigt augnalok að lausnin getur ekki talist nærri því að vera fullgóð.

Enn sem komið er hafa vísindamennirnir einungis prófað gervivöðvann á látnu fólki og dýrum, en þeir reikna með að þessari tækni megi almennt beita eftir svo sem 5 ár.

Subtitle:
Úrræði fyrir sjúklinga með lamað augnalok eftir slys
Old ID:
1181
999
(Visited 17 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.