Félagsvélmenni vekja sterkar tilfinningar

Vélmennið Nao getur sagt brandara, sýnt óttamerki og sagt frá persónulegum högum sínum. Þetta kemur fólki til að tengjast þessum litlu félagsverum sterkum böndum á skömmum tíma.

Tækni

Lestími: 3 mínútur

 

Rannsóknir sýna að við eigum auðvelt með að verða fyrir tilfinningalegum áhrifum af svokölluðum mannlegum róbótum.

 

Þetta eru raunveruleg vélmenni í þeim skilningi að þau bera mannleg einkenni, hafa höfuð, bol, hendur og fætur en þurfa ekki að vera öllu mannlegri í útliti en þetta til að við förum að líta á þau sem mannfólk – einkum þegar okkur finnst við hafa myndað tengsl við þau.

 

Brellur sem beitt er til að skapa mannlega ímynd:

 

* Sýna kímni með bröndurum og hnyttnum tilsvörum.

 

* Segja frá persónulegum högum.

 

* Sýna tilfinningar á borð við ótta.

 

* Mynda fjölbreytilegar setningar.

 

Tilraunir sýna myndun sterkra tengsla

 

Vísindamenn við Duisburg-Essen-háskóla í Þýskalandi létu 43 tilraunaþátttakendur spila spurningaspil við vélmenni sem nefnist Nao.

 

Þátttakendum var sagt að tilgangurinn væri sá að prófa nýja gerð hugbúnaðar í vélmenninu og fólkið fékk því ekki að vita að það sjálft væri til athugunar.

 

Að leik loknum var fólk beðið að slökkva á vélmenninu en þegar fingurinn nálgaðist slökkvarann, snökti Nao: „Nei, nei, ég er svo hræddur við myrkrið. Ekki slökkva á mér.

 

Þriðjungur þátttakenda fékk sig ekki til að slökkva á „myrkfælnu“ vélmenni.

 

Þátttakendur fundu til með Nao

 

Þetta kom nánast öllum til að hika og 14 neituðu að styðja á hnappinn. Eftir á sögðust átta hafa fundið til með vélmenninu en sex sögðust ekki hafa viljað slökkva á Nao gegn vilja hans.

 

Vísindamennirnir lögðu sömu prófraun fyrir annan hóp en án þess að Nao andmælti. Enginn þessara þátttakenda átti í erfiðleikum með að slökkva.

 

Tilraunin sýnir hversu lítið þarf til að við tileinkum vélmenni mannlegar tilfinningar.

 

Vísindamennirnir telja það liggja í eðli okkar að við viljum frekar ranglega meðhöndla vitvél sem manneskju en eiga á hættu að meðhöndla eitthvað mannlegt sem hverja aðra vél.

 

Myndband – Sjáðu hvernig vélmennið Nao talar við fólk:

 

 

Birt 15.08.2021

Lestu einnig

(Visited 145 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR