Search

Geimsjónauki uppgötvar gríðarlega stjörnuframleiðslu

Hinn öflugi James Webb-geimsjónauki hefur strax veitt okkur innsýn í áður óséða dýrð innri hluta Óríonþokunnar. Og útsýnið er stórfenglegt.

BIRT: 22/02/2023

LESTÍMI:

3 mínútur

Stjörnur Glóandi ryk- og gasský sem er a.m.k. 24 ljósár í þvermál, reynist heimkynni hundraða nýmyndaðra stjarna.

 

Óríonþokan er aðeins í 1.350 ljósára fjarlægð og nálægasta geimþoka sem við þekkjum. Þetta svæði má því kalla einhverja mikilvægustu rannsóknarstofu sem völ er á varðandi myndun nýrra stjarna.

 

En þótt Óríonþokan hafi verið þekkt síðan 1610 varðveitir hún enn fjölmörg leyndarmál.

 

En nú hefur öflugasti geimsjónauki veraldar, James Webb, náð að skyggnast alveg inn í miðju þessarar þoku og tekið þar mynd sem stjörnufræðingar segja þá skörpustu og nákvæmustu sem náðst hefur.

Tíu milljarða dala James Webb sjónaukinn samanstendur meðal annars af af 18 gullspeglum sem virka sem augu sjónaukans í geimnum. Með heildarflatarmál 25 fermetrar er marghyrningatækið mun stærra en forveri hans, Hubble sjónaukinn, með speglaflatarmál 4,5 fermetrar.

Vísindamenn tóku bakföll af hrifningu

Myndin er samsett úr myndum frá innrauðum vélum Webb-sjónaukans, teknum gegnum mismunandi ljóssíur og í gegnum hið þétta gas- og rykský sem fæðir af sér nýjar stjörnur.

 

Þetta er mikil framför frá myndum Hubble-sjónaukans sem tekur myndir á bylgjulengdum hins sýnilega ljóss og nær því ekki að greina neitt af því sem er inni í eða á bak við Óríonþokuna.

Sneið af innri hluta Óríonþokunnar séð frá bæði Hubble (vinstri) og James Webb-sjónaukunum (hægri). Hér sést skýrt hvernig næmar, innrauðar myndavélar James Webb-sjónaukans ná í gegnum þykkt ryklagið og greina daufari stjörnur djúpt inni í þokunni.

„Við tókum nánast bakföll af hrifningu yfir þessum myndum. Við hófum undirbúning að þessu verkefni 2017 og höfum því beðið í fimm ár eftir þessum gögnum,“ segir Els Peters sem er stjarneðlisfræðingur við Western-háskóla í London og meðal vísindamannanna að baki myndatökunni.

 

Myndin sýnir lítinn geira af innviðum Óríonþokunnar þar sem greina má líkt og þykkan brúnleitan bjálka úr gasi og ryki sem teygir sig frá efra horni myndarinnar vinstra megin og niður til hægri.

Lítill hluti af Óríonþokunni sem tekinn var með innrauðum myndavélum James Webb sjónaukans. Yfir 700 stjörnur eru í þokunni og fleiri eru að koma.

Í þessum bjálka miðjum sést skærasta stjarnan sem kölluð er θ2 Orionis A. Þótt þessi stjarna sé alveg skýr á nýju myndinni er hún ógreinanleg með berum augum, nema á svæðum þar sem alls engin ljósmengun er.

 

Rauð glóð umhverfis stjörnuna er endurskin birtu hennar frá örsmáum rykkornum.

 

Jafnframt sjást á þessari mynd svo ungar stjörnur að þær eru enn umvafðar því gas- og rykskýi sem hefur myndað þær. Vísindamenn gera sér einmitt vonir um betri þekkingu á mismunandi tímaskeiðum í æviferli stjarna með nánari greiningum á myndinni.

 

Okkar eigið sólkerfi er talið hafa myndast í umhverfi sem minnt hafi á Óríonþokuna. Vísindamennirnir vonast þar af leiðandi til að nýja myndin frá James Webb skýri enn betur og af meiri nákvæmni hvernig sólin og pláneturnar í kringum hana mynduðust.

BIRT: 22/02/2023

HÖFUNDUR: NANNA VIUM

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: NASA, ESA, CSA, Data reduction and analysis : PDRs4All ERS Team; graphical processing S. Fuenmayor. © NASA, ESA, CSA, PDRs4All ERS Team; image processing Olivier Berné. Credit for the HST image: NASA/STScI/Rice Univ./C.O’Dell et al. – Program ID: PRC95-45a. Technical details: The HST image used WFPC2 mosaic.This composite image uses [OIII] (blue), ionized hydrogen (green), and [NII] (red).

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is