Í 230 milljón ár lifðu eðlur og spendýr samtímis á jörðinni.
Spendýrin þurftu að fela sig fyrir ráneðlunum en virðast hafa lifað góðu lífi innan um friðsamlegri eðlur sem lifðu á plöntum.
Nú hafa vísindamenn hjá Náttúrusögusafni Kanada gert óvenjulega uppgötvun sem bendir til að spendýr hafi átt það til að rjúfa friðinn og ráðast á eðlur.
Uppgötvun þessa merkilega steingervings í Kína hefur komið kanadísku vísindamönnunum til að álykta að sum rándýr í hópi spendýra hafi veitt grasbítandi eðlur sér til matar.
Eðlan sem hér sést verða fyrir árás var plöntuætan Psittacosaurus lujiatunensis sem verið hefur á stærð við stóran hund.
Þótt eðlan væri plöntuæta hefur verkefni spendýrsins, kjötætunnar Repenomamus robustus, verið nokkuð erfitt þar eð stærð þess var ekki nema á við fremur smávaxinn greifingja.
Uppgötvun þessa steinrunna einvígis er meðal fyrstu sannana þess að spendýr hafði ráðist á forneðlur.
„Það voru ekki bara stóru ráneðlurnar sem átu smærri spendýr. Í sumum tilvikum hafa spendýr líka getað étið eðlur,“ fullyrðir aðalhöfundur rannsóknarinnar, Jordan Mallon sem er steingervingafræðingur hjá Náttúrusögusafni Kanada.

Steingervingurinn virðist segja forsögulega veiðisögu þar sem dýrin hafi skyndilega frosið í átökum upp á líf og dauða. Myndin sýnir þær aðstæður sem koma vísindamönnum á óvart.
Steingervingurinn fannst í Liaoninghéraði í Kína, stundum nefnt „Pompeius Kína“, þar sem hvers kyns dýr, bæði spendýr og stórvaxnar og smávaxnar forneðlur grófust í aurskriðum eða undir öskuflóðum eldfjalla.
Vísindamennirnir telja að dýrin tvö hafi skyndilega látið lífið í miðjum klíðum eftir að spendýrið réðist á eðluna.
„Skortur á bitförum á beinum eðlunnar, staða spendýrsins ofan á eðlunni, grip þess og bit; allt þetta til samans gefur ákveðið til kynna spendýrið hafi ætlað eðluna sér til matar, þegar öskuflóð frá eldfjalli batt skyndilega enda á líf beggja dýranna,“ segir Jordan Mallon.
Steingervingar af risaeðlum sýna fjölmörg beinbrot, bitför og merki um sýkingar og krabbamein. Steingervingafræðingar nýta sér nú verkfæri læknavísinda til nákvæmra sjúkdómsgreininga sem sýna krankleikana og jafnvel banamein.
Það er ekki gott að segja hvort dýrið hefði á endanum farið með sigur af hólmi í þessu hatramma einvígi.
Það eitt er víst að atburðarásin kom í veg fyrir að úr því fengist skorið.