Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Smásæjar bakteríur á ferð gegnum regndropana skýra hvernig á því stendur að sumarregnið ilmar jafn vel og raun ber vitni.

Náttúran – veðrið

Lestími: 3 mínútur

 

„Kemur sér vel fyrir bændurna“, hljóðar staðlaða athugasemdin þegar rigningarskúr hellist yfir okkur og sólbaðið verður að bíða um stund.

 

Hins vegar er ilmurinn sem brýst upp úr jörðinni í kjölfar regnsins langþráð viðbót við vætuna. Allir kannast við kærkominn ilminn sem við verðum vör við þegar rignir á þurra jörð og sumargleðina sem fylgir angan þessari.

 

Áratugum saman hafa vísindamenn reynt að komast að raun um hvaðan ilmurinn stafar og hvers vegna við einkum verðum hans vör eftir rigningarskúr að sumri.

 

Skýringin mun vera tiltekin tegund af bakteríum sem koma sér fyrir á fyrsta regndropanum sem býðst.

 

Svampkenndar bakteríur gæta plantnanna og lykta eins og jarðvegur

 

Ilmurinn sem þefskynið nemur er efni sem kallast geosmín en orðið er samsett úr grísku orðunum „geo“ (jörð) og „osmin“ (lykt).

 

Margar ólíkar bakteríur gefa efnið frá sér þegar þær deyja en það er þó einkum bakteríutegundin streptomyces coelicolor sem framleiðir í miklum mæli þetta sérstaka alkóhólefni sem ilmar eins og jarðvegur.

 

Streptomyces-bakteríurnar eru einkar gagnlegar plöntum, því þær brjóta niður og umbreyta næringu og þá eru bakteríurnar einnig gagnlegar mönnum því þær eru nýttar í ýmiss konar sýklalyf.

 

Bakteríurnar minna einna helst á sveppi, bæði hvað snertir lífshlaup og byggingu en þær lifa í þyrpingum þar sem þær fjölga sér með gróum.

 

Bakteríugerðin er ókvik sem táknar að þær geta ekki dreift gróum sínum sjálfar og fjölgað sér þannig. Þess í stað eru þær háðar aðstoð vinds, vatns eða annarra hreyfanlegra baktería til þess að geta vaxið á nýjum stöðum.

 

Regndropar laða ilmgróin upp úr moldinni.

 

Bakteríurnar framleiða geosmín aðallega í frjóum, rökum jarðvegi. Þegar hlýna tekur á sumrin og regnið lætur á sér standa deyr stór hluti af bakteríunum.

 

Þegar svo rigningin loks lendir á jörðinni ferðast streptomyces-gróin gegnum dropana og losna úr læðingi í loftinu líkt og eins konar úði sem ilmar líkt og jarðvegur, sökum efnisins geosmíns.

© ManyPictures/Pixabay

 

Þannig umbreytast efnin í geosmín, jafnframt því sem þau örva framleiðslu gróa þegar þau deyja en um er að ræða næstu kynslóð bakteríanna sem eiga eftir að ferðast út í heim og leita betri vaxtarskilyrða.

 

Þegar rigningin loks lætur á sér kræla bíða ógrynni gróa og geosmíns fyrir vikið átekta. Þegar svo regnið fellur á jörðina ferðast gróin upp eftir dropunum og dreifast þaðan sem eins konar ilmkenndur úði, svokallað loftsvif sem angar af geosmíni.

 

Það er þessi ilmúði úr jarðangandi geosmíni sem gefur þefskyni okkar til kynna að sumarið sé í fullum skrúða og náttúran frjósöm, bæði í raun og á táknrænan hátt.

 

 

 

Birt 09.08.2021

 

 

 

SOREN STEENSIG

 

 

(Visited 254 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

No Content Available

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR