Skórnir okkar eru smitberar. Þegar við göngum um götur bæjarins, förum á almenningssalerni og í skítuga strætisvagna festast alls kyns bakteríur við skóna.
Vísindamenn hafa rannsakað ótalmarga skósóla og komist að raun um að skór geta falið í sér ógrynni ólíkra baktería, allt eftir því hvar við höfum haft viðkomu.
Læknaskór fólu í sér bakteríur
Á sjúkrahúsi einu í Póllandi báru skór læknanna í 65% tilvika með sér smit af völdum fjölónæmra klasasýkla, svo og Enterococcus faecalis (saurgerla), bakteríu sem lifir í þörmum okkar.
Í annarri rannsókn voru 127 skósólar frá venjulegum heimilum skoðaðir og í ljós kom að 40% þeirra voru sýktir af bakteríunni Clostridium difficile sem orsakar niðurgang og þarmabólgu.
Þá hafa vísindamenn enn fremur fundið listeríugerla á 20% þess fótabúnaðar sem notaður hafði verið á almenningssalernum. Sýking af völdum listeríu getur leitt af sér sjúkdóminn Hvanneyrarveiki sem dregur á bilinu 20-30% allra smitaðra til dauða.
Krabbameinsvaldandi efni setjast einnig á skósólana
Hversu margar bakteríur setjast á skósólana ræðst að miklu leyti af ástandi sjálfra skónna. Úr sér gengnir og slitnir skór bera að öllu jöfnu með sér fleiri bakteríur en ella.
Á skó safnast þó ekki einvörðungu bakteríur. Eitraðir þungmálmar í jörðu, krabbameinsvaldandi efni í malbiki og hormónatruflandi efni á svæðum sem hafa verið sprautuð með skordýraeitri geta einnig fundið sér leið inn á heimili okkar, ef við gleymum að fara úr skónum.