Sannleikurinn um vítamín

Vítamín eru líkamanum nauðsynleg eigi hann að starfa rétt en hins vegar eiga þau að stafa frá fæðunni og ekki úr töflum

VÍTAMÍNTÖFLUR LENGJA LÍF ÞITT- NEI

 

Líkaminn getur ekki framleitt vítamín úr engu. Fyrir vikið höfum við þörf fyrir að fá vítamín, ellegar forstig þeirra, forvítamín, úr fæðunni til að koma í veg fyrir að við fáum sjúkdóma á borð við blóðskort, skyrbjúg og beinkröm.

 

Einkar erfitt reynist að rannsaka áhrifin af vítamíntöflum, því við fáum vítamín eftir mörgum leiðum í líkamann en ýmislegt virðist þó benda til þess að vítamín í töfluformi lengi ekki líf okkar.

 

Vítamín eru lífsnauðsynleg en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að þau eiga að koma úr fjölbreyttri fæðu ef þeim er ætlað að lengja lífið. Á Norðurlöndum er nauðsynlegt að taka inn D-vítamín yfir vetrarmánuðina.

 

Árið 2019 var unnin viðamikil rannsókn við einkarekna rannsóknarháskólann Tufts University þar sem engin marktæk tengsl fundust milli vítamíntöflunotkunar og ævilengdar.

 

Rannsókn þessi sem tók til alls 27.725 fullorðinna Bandaríkjamanna í sex ár, leiddi jafnframt í ljós að þeir þátttakendur sem fengu nægilega mikið af A- og K-vítamínum úr náttúrulegum vítamíngjöfum í líkingu við egg, gula og appelsínugula ávexti, svo og blaðgrænu, létust síður en hinir sem orða má á þann hátt að þeir lifðu lengur.

 

Undanskilið er D-vítamín en yfirvöld í Norður-Evrópu mæla að öllu jöfnu með inntöku þess yfir vetrarmánuðina, m.a. má geta þess að heilbrigðisyfirvöld hér mæla með inntöku D-vítamíns í skammdeginu.

 

Vítamín virkja ensím

Vítamín nýtast ensímum

Ensím hraða efnahvörfum í líkamanum og hafa m.a. þörf fyrir vítamín til að virkjast. Ef um vítamínskort er að ræða verður ensímið óvirkt.

Ensím virkjað

Vítamínið binst ensíminu, líkt og lykill gengur að skrá. Þegar ensímið hefur verið virkjað og getur gegnt hlutverki hvata gagnast það frumunum í starfsemi þeirra.

Virkt ensím eykur meltinguna

Virka ensímið getur nú umbreytt svokölluðum hvarfefnum (sameindinni sem ensímið hefur áhrif á) og örvað starfsemi líkamans, m.a. meltinguna.

Lestu einnig:

DÝRAR VÍTAMÍNTÖFLUR GERA MEIRA GAGN EN ÞÆR ÓDÝRU- NEI

 

Vítamín eru einföld efnasambönd með fastri efnaformúlu og þau eru einföld í framleiðslu. Ef marka má upplýsingar frá dönsku neytendasamtökunum er enginn munur á gæðum dýrra og ódýrra vítamíntaflna.

 

Báðar gerðirnar þurfa að uppfylla kröfur sem gerðar eru til matvælaiðnaðarins. Þannig er þessu farið á öllum Norðurlöndunum og eru það yfirvöld hvers lands sem ákveða hvaða kröfum skuli fylgt.

 

Gætið þess ætíð að töflurnar hafi sætt eftirliti og að þeim fylgi vörulýsing, auk þess sem mikilvægt er að þeirra sé neytt fyrir síðasta söludag.

 

Vítamínpillur eru hluti af risavöxnum iðnaði en sem dæmi má geta þess að Bandaríkjamenn keyptu á árinu 2019 vítamínefni fyrir upphæð sem samsvarar 4.500 milljörðum íslenskra króna.

 

VÍTAMÍNTÖFLUR GETA AUKIÐ HÆTTUNA Á KRABBAMEINI - JÁ MEÐ FYRIRVARA

 

Of stórir skammtar tiltekinna vítamína geta beinlínis aukið hættu á krabbameini en sem dæmi má geta þess að E-vítamín í ráðlögðum skammti er talið draga úr hættu á krabbameini í blöðruhálskirtli en hins vegar var sýnt fram á í rannsókn árið 2011 að of mikið af E-vítamíni var tengt aukinni hættu á því sama.

 

Sjúklingum sem fá of mikið E-vítamín úr fæðunni er hættara en öðrum við að fá krabbamein í blöðruhálskirtli.

 

Rannsóknir sem birtust í tímaritinu „Journal of Clinical Oncology“ í mars 2020 gáfu til kynna að stórir skammtar af A-, C- og E-vítamíni fyrir meðferð gegn krabbameini í brjósti, svo og meðan á henni stendur, juku hættuna á að krabbameinið gerði vart við sig á nýjan leik.

 

Rannsóknin leiddi í ljós að inntaka B12-vítamíns í meðferð gegn brjóstkrabba dregur úr virkni lyfjanna.

 

 

Birt 23.08.2021

 

 

NIELS HALFDAN HANSEN

 

 

 

Lestu einnig:

(Visited 1.818 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

No Content Available

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR