Nútímalegar, vel hirtar grasflatir okkar eiga rætur að rekja til 16. aldar þegar franskir og enskir furstar hófu að ryðja landsvæðin umhverfis virki sín með því að fella tré og runna.
Markmiðið var að ljá hermönnum kastalanna aukna yfirsýn yfir landsvæðið til þess að unnt yrði að koma eins fljótt auga á óvinaárásir og frekast var unnt.
Ruddu svæðin fengu að vaxa að vild og breyttust í gróðri vaxnar grasflatir sem bændur beittu kvikfénaði sínum á.
Undir lok 17. aldar fóru einnig að sjást grasflatir umhverfis stóra herragarða í eigu aðalsins. Yfirstéttin hermdi iðulega eftir lifnaðarháttum kóngafólksins og leit á grasflatir sem stöðutákn sem áttu að gefa til kynna að eigendurnir væru það vel efnum búnir að þeir þyrftu ekki að nýta allt land sitt undir landbúnað.
Eftir að fyrsta garðsláttuvélin hafði verið fundin upp árið 1830 gátu allir eignast fallega grasflöt.
Mörg dýr lifa nánast eingöngu á grænu grasi en hvers vegna er það ekki líka á matseðli mannsins?
Sláttuvélin breytti öllu
Hástéttarfólk réð garðyrkjumenn sem slógu grasið með orfi og ljá og upprættu illgresið. Á 18. öld voru ríkir Bretar meira að segja byrjaðir að ráða landslagsarkitekta sem útbjuggu rómantíska garða og breyttu valllendi í vel hirtar, snöggklipptar grasflatir.
Stórt skref var stigið í þá átt að gera grasflatir að almannaeign árið 1830 þegar Bretinn Edwin Beard Budding fékk einkaleyfi fyrir fyrstu vélknúnu sláttuvélinni.
Þar með þurfti ekki lengur að beita orfi og ljá til að slá grasið og meira að segja þeir sem ekki tilheyrðu yfirstéttinni fengu tækifæri til að eignast vel hirt tún.
Þegar líða tók á 19. öldina fóru verkamenn að flytja úr stórborgunum og setjast að í úthverfum og þannig gátu einnig þeir eignast grasflöt.