Auðvelt er að kenna hundum að hlýða skipunum og þá er jafnframt hægt að þjálfa í að stunda flókin brögð, á meðan kettir láta einungis að stjórn ef þeim svo hugnast.
Ástæðan er fyrst og fremst sú að hundar eru upprunalega hjarðdýr og búa yfir meðfæddri getu til að laga sig að tiltekinni valdaröð og að hlýða þeim meðlimum hjarðarinnar sem yfir þá eru settir.
Þökk sé þessari fortíð hunda sem hjarðdýr er hægt að þjálfa þá í að inna af hendi afar sérhæfð verk, svo sem eins og að þefa uppi eiturlyf.
Í sambandi hunds og manns lítur hundurinn að öllu jöfnu á manninn sem yfirboðara sinn.
Kettir, á hinn bóginn, lifa að jafnaði einir sér eða í pörum. Þeir hafa því enga ástæðu til að hlýða eða laga sig að öðrum.
Óhlýðni er að finna í genunum
Erfitt reynist að temja refi, þrátt fyrir skyldleika þeirra við hunda. Ástæðan er sú að þeir lifa einir, líkt og við á um ketti og fyrir vikið boða erfðavísarnir þeim ekki að laga sig að öðrum.
Gíraffar eru hjarðdýr en þá er engu að síður erfitt að temja. Ástæðan er sú að gíraffinn er með slælegt minni þannig að hann gleymir fljótt því sem honum hefur verið kennt.
Eina kattardýrið sem lifir í hjörðum er ljónið og konung dýranna er einmitt auðveldara að fá til að hlýða en önnur minni kattardýr.
Heimilisketti er hægt að þjálfa að sumu leyti en í því felst þó langtum meiri vinna en hvað þjálfun hunda snertir.