Lifandi Saga

Lögreglumenn fengu frjálsar hendur: Gangsterarnir í Los Angeles

„Reglan er sú að það gilda engar reglur,“ sagði lögreglustjórinn í Los Angeles við átta sérvalda lögreglumenn. Verkefni þessarar fámennu sveitar var að hreinsa til í borginni, þar sem glæpasamtök höfðu tekið öll völd, græddu á fjárhættuspilum og hikuðu ekki við morð. Lögreglusveitin var þekkt undir heitinu „Gangster Squad“ og í 15 ár eltist hún við konung undirheimanna – Mickey Cohen.

BIRT: 11/05/2023

Jack O‘Mara er dálítið óstyrkur á taugum þegar hann stígur inn í fundarherbergið á kalsasömu haustkvöldi í nóvember 1946. Yfirmaður hans hafði verið fámæltur þegar hann hringdi og bað O‘Mara um að koma á stöðina án tafar og hann átti helst von á einhvers konar ofanígjöf.

 

Það kemur honum þess vegna á óvart að sjá 17 aðra lögreglumenn þegar hann opnar dyrnar. Í hinum enda herbergisins stendur lögreglufulltrúinn Willie Burns og hann tekur til máls.

 

„Lögreglustjórinn hefur beðið okkur um að stofna sérstaka sveit lögreglumanna,“ útskýrir hann.

 

Hlutverk sveitarinnar verður að uppræta skipulagða glæpastarfsemi í borginni. Árum saman hafa glæpagengin herjað á Los Angeles með morðum, ofbeldi, ólöglegum spilavítum, fíkniefnasölu og vændi.

 

„Þið fáið úthlutað svona vopnum,“ segir Burns og bendir á Thompson-vélbyssur sem liggja á borði fyrir framan hann og meðan hann talar tekur hann eina vélbyssuna upp og plokkar hana í sundur með ámóta fumlausum handtökum og hann væri að hnýta á sig skóna.

 

Lögreglumönnunum verður ljóst að þeir eiga að vinna í útjaðri lagarammans eða jafnvel utan við hann. Þeim er ætlað að leggja til hliðar allar þær reglur sem lögreglumönnum ber annars að halda í heiðri og grípa til óvandaðri meðala í baráttunni við harðsoðna ofbeldismenn glæpagengjanna.

 

En opinberlega er þessi sérsveit lögreglunnar ekki til. Því slær Burns strax föstu.

 

Lögreglumennirnir fá viku til að ákveða sig og aðeins sjö ákveða að taka þátt undir stjórn Burns, þeirra á meðal O‘Mara. Þessir átta menn mynda síðan afar óhefðbundna lögreglusveit.

 

En þrátt fyrir mikilvægið fá þeir hvorki skrifstofu né lögreglubíla. Þeir fara um í tveimur gömlum fólksbílum og nöfn þeirra er aðeins að finna á starfsmannalistum stöðvanna þar sem þeir störfuðu áður.

 

Sveitin fær ekki einu sinni nafn. Í upphafi er hún kölluð „sérsveitin“ en síðar fær hún heitið OCID (Organized Crime Intelligence Division). Í daglegu tali er hún kölluð Gangsterasveitin, „Gangster Squad“.

„Bugsy“ Siegel var árið 1947 skotinn fjölmörgum skotum af óþekktum morðingja þar sem hann var í heimsókn hjá ástkonu sinni.

Los Angeles var paradís gangstera

Þegar sérsveitin „Gangster Squad“ var stofnuð 1946 hafði Los Angeles lengi haft orð á sér fyrir að vera unaðsreitur fyrir skipulagða glæpastarfsemi.

 

Bæði olíulindir og ekki síður hraður vöxtur kvikmyndaiðnaðarins olli mjög hraðri fólksfjölgun framan af 20. öld.

 

Auðlegðin, fólksfjöldinn og nálægðin við eiturlyfjamarkaðinn í Mexíkó laðaði að sér glæpastarfsemi.

 

Meðal margra aðfluttra var Benjamin Bugsy Siegel. Hann græddi stórfé á spilum, vændi, eiturlyfjum og annarri glæpatengdri starfsemi og var óumdeildur konungur undirheimanna í LA framan af fimmta áratugnum.

 

Árið 1942 græddi hann hálfa milljón dollara á dag á ólöglegum kappreiðaveðmálum. Siegel var líka hluti af áberandi yfirstétt í Hollywood og meðal vina hans voru Clark Gable og Cary Grant.

 

Borgaryfirvöld og lögregla í Los Angeles voru gegnsýrð af spillingu og glæpagengin höfðu því frítt spil.

 

Með mútum, dýrum veislum og aðgengi að vændiskonum gátu glæpaforingjar áunnið sér pólitískan stuðning og velvild innan lögreglunnar.

Lögin sett til hliðar

Á eftirstríðsárunum var Los Angeles eins konar frumskógur spillingar og lögleysu.

 

Þar voru í það minnsta 1.800 ólöglegir veðmangarar, 600 vændishús og 200 ólögleg spilavíti sem löðuðu að sér bæði almenna borgara og ferðamenn.

 

Iðulega kom til átaka um yfirráð yfir þessum gróðafyrirtækjum og morð voru algeng.

 

Afar sjaldan tókst að koma lögum yfir glæpamennina, þar eð enginn þorði að bera vitni af ótta við hefnd.

 

Við þetta bættist svo að bæði lögreglumenn og stjórnmálamenn voru á mála hjá glæpasamtökum.

 

Jack O‘Mara og félagar hans fengu nú nánari innsýn í verksvið sitt.

 

Þeir máttu ekki handtaka neinn – það áttu þeir að eftirláta almennu lögreglunni. Að öðru leyti höfðu þeir frjálsar hendur og þeir skildu það svo að meginreglan væri sú að engar reglur giltu.

 

Þetta frelsi nýtti gangsterasveitin sér til hins ýtrasta, svo sem þegar til stóð að hrekja afbrotamenn á brott úr borginni.

 

Meðal algengustu aðferðanna var að slá grunaða menn niður og ganga í skrokk á þeim eða halda þeim fram af hárri brú.

 

Þegar lögreglumennirnir heimsóttu rakara sem var grunaður um að reka spilabúllu í bakherberginu, brutu þeir innanstokksmuni í smátt og fjarlægðu höfuðhár hins grunaða með bitlausum rakhníf.

 

O‘Mara var 29 ára og eins og klæðskerasniðinn í hlutverkið. Hann fann upp sínar eigin aðferðir til að hræða líftóruna úr misyndismönnum.

 

Ásamt félaga sínum fleygði hann krimmanum inn í bíl og keyrði svo af stað. Á leiðinni rökræddu félagarnir tveir hvað þeir ættu að gera við fórnarlambið. Niðurstaðan varð alltaf sú að fara með hann „uppeftir“ – upp á hæðina í útjaðri Los Angeles.

 

Að lokum var numið staðar og O‘Mara þvingaði gangsterann niður á hnén. Án þess að segja orð stakk hann skammbyssuhlaupinu inn í eyrað á skelfingu lostnum manninum.

 

Í myrkrinu heyrðist ekkert annað en hraður andardráttur mannsins þar til O‘Mara rauf þögnina.

 

„Þarftu að hnerra? spurði hann ógnandi. „Finnurðu hnerrann koma? Stóran … og háværan hnerra?

 

Þessi aðferð O‘Mara dugði til þess að margir flúðu borgina með skottið milli lappanna.

 

„Við gerðum margt sem við yrðum dæmdir fyrir í dag,“ sagði O‘Mara löngu síðar, þá kominn á eftirlaun.

Mickey Cohen hafði svo gott lag á að nýta sér fjölmiðla að stór hluti fólks leit þennan glæpaforingja jákvæðum augum.

Mickey Cohen elskaði að vera í sviðsljósi fjölmiðla og var á hundruðum forsíðum blaða um ævina.

Konungur undirheimanna

Afbrotamennirnir sem Gangsterasveitin eltist við fyrstu mánuðina voru þó ekki merkilegri en svo að O‘Mara lýsti þeim sem flösu – smákrimmar sem voru ámóta lítilvægir og pirrandi flösukorn á jakkakraganum.

 

Meinið sjálft var annað. Glæpaforingjar sem stýrðu hinum ólöglegu viðskiptum.

 

Þegar konungur undirheimanna í Los Angeles, Benjamin „Bugsy“ Siegel, lét lífið fyrir fjölmörgum byssukúlum 1947, var það hægri hönd hans, Mickey Cohen sem tók við.

 

En helsti keppinauturinn, Jack Dragna, þóttist sjá gullið tækifæri til að taka öll völd og í allmörg næstu ár ríkti stríðsástand á götum Los Angeles.

 

Mickey Cohen var afar skartgjarn maður. Hann klæddist dýrum jakkafötum, var alltaf með silkibindi, í sokkum sem voru innfluttir frá Frakklandi og hattarnir hans kostuðu 275 dollara stykkið.

Jack O,Mara ásamt öðrum lögreglumanni að yfirfara margvíslega muni sem hald hafði verið lagt á 1946, skömmu áður en O‘Mara gekk til liðs við Gangsterasveitina.

Á kvöldin ferðaðist hann milli næturklúbba ásamt vinum sínum í heilum flota af kádiljákum. Það var á allra vitorði að þessi velmegun kom ekki úr viðskiptum hans með fatnað, heldur átti rætur að rekja til vændishúsa, spilavíta og fjárkúgunar.

 

Allir vissu líka að tveimur árum áður, meðan Cohen var enn lífvörður Siegels, hafði hann drepið veðmangarann Maxie Shaman, að því er sagt var vegna spilaskuldar.

 

Þá slapp Cohen við refsingu með því að sannfæra réttinn um að hann hefði banað Shaman í sjálfsvörn.

 

Lögreglunni var nánast ómögulegt að hafa hendur í hári Cohens. Hann þekkti alla sem einhvers máttu sín í Los Angeles og var líka einkar laginn við að fága ímynd sína.

 

Ef saksóknari eða forvitinn blaðamaður komst óþægilega nálægt, lék hann hlutverk hins ofsótta sakleysingja og þóttist lítið skilja, m.a. vegna takmarkaðrar menntunar.

 

„Það er bara vegna þess að ég hef aldrei gengið í neinn af þessum fínu skólum,“ svaraði hann sakleysið uppmálað, þegar hann var staðinn að því að gefa mjög loðin svör eða þurfti að draga eitthvað til baka.

 

Cohen borgaði fyrir hlerun

Gangsterasveitin reyndi fyrst uppáhaldsaðferð sína við Cohen, að beita ógnunum.

 

Á einn bílanna voru settar falskar númeraplötur frá Illinois, heimaríki hinnar frægu glæpaborgar Chicago en þar átti Cohen marga óvini.

 

Síðan var ekið hægt að verslun Cohens og þegar þangað var komið stungu þeir byssuhlaupum út um hálfopna gluggana. Nokkrir vina Cohens fleygðu sér strax niður á gangstéttina.

 

En það kom fljótt í ljós að til að hræða glæpamann á borð við Cohen þurfti meira en þetta og nú var gerð önnur áætlun:

 

Þegar Cohen var að heiman braust tæknikunnugur lögreglumaður inn í húsið til að koma fyrir hljóðnema í klæðaskáp.

„Ég útskýrði að við værum í L.A. og við sættum okkur ekki við neitt þrugl.“

Jack O‘Mara um aðferðir við að hræða glæpamenn.

Menn höfðu hins vegar ekki séð fyrir þau áhrif sem hljóðneminn hafði á sjónvarpstæki Cohens.

 

Tækið var af nýjustu og dýrustu gerð en greinilega jafnframt mjög næmt því hljóðneminn kom myndinni alltaf til að titra þegar Cohen skipti yfir á rás númer 2.

 

Glæpaforinginn fékk reiðikast.

 

„Komdu og fjarlægðu þetta fjandans rusl eða sendu einhvern sem getur gert við það! öskraði hann í símann þegar hann hringdi í seljanda sjónvarpsins.

 

Lögreglumennirnir heyrðu símtalið í gegnum hljóðnemann í klæðaskápnum og skömmu síðar stóðu tveir menn, dulbúnir sem sjónvarpsvirkjar, á tröppunum hjá Cohen.

 

Meðan þeir þóttust stilla rásirnar á sjónvarpstækinu, skiptu þeir út hljóðnemanum og settu í staðinn nýjan á öðru tíðnisviði sem ekki olli neinum truflunum í sjónvarpinu.

 

Áður en þeir fóru lofuðu þeir að koma einu sinni í viku til að ganga úr skugga um að allt virkaði rétt. Þetta gerði þeim kleift að skipta um rafhlöður í hljóðnemanum. Og Cohen var svo rausnarlegur að gefa þeim 50 dollara í þjórfé.

 

Lögreglumennirnir hentu gaman að því að Cohen hefði sjálfur borgað þeim fyrir hlerunina en sannanir fengu þeir ekki.

 

Mögulega hafði Cohen grunað eitthvað, því frá hljóðnemanum heyrðist aðallega hundgá eða saklaust hversdagsspjall.

Fræga fólkið

Cohen naut vináttu ýmissa stórstjarna í Hollywood og var einkum mjög náinn Frank Sinatra. Þegar tók að halla undan fæti hjá söngvaranum um 1950, setti hann upp mikinn viðburð þar sem Sinatra söng. Cohen átti einnig í sambandi við Marilyn Monroe og sumir segja í von um kunningsskap við John F. Kennedy en það fær varla staðist – og varð aldrei.

Trú

Trúboðsræðumaðurinn Billy Graham var hin trúarlega ofurstjarna Bandaríkjanna á 6. áratugnum. Gyðingurinn Mickey Cohen vakti áhuga Grahams þegar hann lét í það skína að hann kynni að gerast kristinn. Þau umskipti urðu aldrei en blaðamenn þreyttust ekki á að skrifa um þessa tvo menn og það jók á frægð Cohens, einkum meðal kristinna íhaldsmanna.

Konur

Mickey Cohen hafði yndi af að sýna sig með fagra konu sér við hlið. Iðulega sat hann til borðs með nektardansmeyjum og vonarstjörnum hvíta tjaldsins í stórveislum og lét iðulega mynda sig með þeim á næturlífinu. Einkum flutti lífstílstímaritið Life mikið af fregnum um ýmis ævintýri hans.

Forsíðuefni blaðanna.

,,Ef ég hræki á gangstétt er það strax komið á forsíður blaða”, fullyrti Mickey Cohen. Og það var ekki svo langt frá sannleikanum. Allar fréttir tengdar honum seldu blöð.

Á tímabili fékk Cohen jafnvel að tjá sig í stóru dagblöðunum án þess að það yrði véfengt og eitt dagblaðið fékk gangsterinn til að skrifa greinar í blaðið.

Fékk útfararkrans

Meðan Gangsterasveitin var að reyna að finna eitthvað á Cohen, leiddu fjölmörg atvik í ljós hversu mikil spilling ríkti í lögreglunni og hvers vegna svo erfitt var að ná tangarhaldi á glæpaforingjanum.

 

M.a. kom í ljós að margir lögreglumenn höfðu þegið mútur frá eigendum vændishúsa og verið boðið í fínar veislur.

 

Þegar mútur dugðu ekki til, reyndi Cohen að hræða menn. Willie Burns, yfirmaður Gangsterasveitarinnar, fékk t.d. sendan útfararkrans.

 

Kransinn var með nafni konu hans og Burns var ekki í neinum vafa um hver stæði á bak við sendinguna.

 

En ekkert var unnt að sanna og það varð smám saman ljóst að þótt Gangsterasveitinni leyfðust hvers konar bellibrögð, voru þessir lögreglumenn hreinir byrjendur í samanburði við Cohen.

Í nánast örvæntingarfullri tilraun til að finna eitthvað saknæmt fóru lögreglumennirnir að stöðva Cohen á götu og leita á honum.

 

Aðferðin var ekki hættulaus því Cohen var fljótur að úthrópa þessar ofsóknir lögreglunnar en þetta bar nú samt ákveðinn árangur.

 

Með þessu móti tókst lögreglumönnunum að klófesta ýmsa reikninga sem sýndu að Cohen hafði miklu meira ráðstöfunarfé en eðlilegt gat talist fyrir eiganda fataverslunar.

 

T.d. greiddi hann innanhússarkitekti 49.329 dollara fyrir vinnu við einbýlishús sitt. Hann hafði líka greitt 800 dollara fyrir skó.

 

En Cohen útskýrði að hann hefði síður en svo fengið þessa peninga út úr óheiðarlegri starfsemi, heldur hefði hann bara fengið 300.000 dollara lán.

 

„Ef það er ólöglegt að taka nokkur þúsund dollara lán, þá er ég sekur,“ svaraði hann gleiðbrosandi þegar hann var spurður út í þetta.

 

Mútað í báðar áttir

Cohen var þess fullviss að aldrei yrði unnt að sanna ólöglega starfsemi sína.

 

Hann hafði nefnilega sett upp ofn í bakgarðinum og þar lét hann einn varða sinna, Neal Hawkins, brenna kvittanir og reikninga sem hefðu getað afhjúpað hina miklu neyslu.

 

Það sem gangsterinn vissi ekki, var að Hawkins var líka á launum hjá Gangsterasveitinni og gaf O‘Mara skýrslur.

 

Það var Hawkins sem skaffaði nauðsynlegar sannanir til að hægt var að dæma Cohen og koma honum í fangelsi 1951.

 

Dómurinn hljóðaði upp á fjögur ár innan við rimlana. Dálítill sigur en fjarri því að vera nóg fyrir Gangsterasveitina.

„Ef það er ólöglegt að taka nokkur þúsund dollara lán, þá er ég sekur.“

Mickey Cohen svarar því hvaðan peningar hans komi.

Þrátt fyrir mikla vinnu hafði enn ekki tekist að fá neinn dæmdan fyrir morð.

 

Í óopinberri skýrslu var því slegið föstu að á árunum 1900-1951 hefðu í Los Angeles verið framin 57 glæpatengd morð en aðeins eitt þeirra taldist upplýst.

 

Meðan Cohen sat inni, tók Gangsterasveitin til óspilltra málanna við að ryðja undirheima borgarinnar.

 

Það var nú töluvert auðveldara þar eð ekki var neinn höfðingi á borð við Cohen. Hins vegar vissu menn að svo yrði ekki að eilífu og enginn reiknaði með að Cohen kæmi sem löghlýðinn borgari úr fangelsinu.

 

Gangsterasveitin var svo heppin að glæpaforinginn var ekki búinn að reikna út að Hawkins væri á mála hjá lögreglunni.

 

Og nú var gerð ný áætlun: Skömmu áður en Cohen losnaði bauðst Hawkins til að smyrja og hreinsa byssurnar hans, þannig að þær yrðu tiltækar þegar foringinn losnaði.

 

Cohen leist vel á hugmyndina og Hawkins sótti sjö skammbyssur heim til hans. En í stað þess að hreinsa byssurnar fór Hawkins ásamt O‘Mara með byssurnar á skotsvæði lögreglunnar.

 

O‘Mara skráði seríunúmer þeirra allra og lét skjóta úr þeim öllum, þannig að til væru samanburðarkúlur ef á þyrfti að halda.

 

Áður en O‘Mara skilaði Hawkins byssunum, skrúfaði hann þær sundur og rispaði bókstafi í málminn. Síðan læsti hann listann með seríunúmerunum og merkjunum inni í skáp á lögreglustöðinni.

 

Nú var bara að bíða þar til skammbyssurnar yrðu notaðar við næsta morð – og þá ætti að vera hægt að læsa Cohen inni fyrir lífstíð.

Barsmíðar, gripdeildir og ógnun urðu helstu vopn sveitarinnar

Aðeins árangur skipti máli hjá Gangsterasveitinni í Los Angeles. Lögum og dómsúrskurðum þurftu þeir ekki að hlíta í baráttu sinni við að koma skipulagðri glæpastarfsemi fyrir kattarnef.

Gripdeildir:

Lögreglumennirnir hikuðu ekki við að gera sig seka um beinan þjófnað. Í heimsókn til eins hinna grunuðu stal Jack O‘Mara svörum við brúðkaupsboðskortum dóttur eins af glæpaforingjunum í Los Angeles. Þannig komst hann yfir nöfn og heimilisföng helstu glæpamanna í Los Angeles og Detroit. Jafnframt tókst honum að skjalfesta tengsl þessara manna.

Hlerun:

Gangsterasveitin faldi hljóðnema og annan hlerunarbúnað, ekki aðeins heima hjá glæpaforingjunum sjálfum, heldur líka hjá ástkonum þeirra. Í einu tilviki var hljóðnemi falinn í rúmi konu sem vitað var að átti vingott við Jack Dragna.

Ofbeldi:

Lögreglumennirnir hikuðu ekki við að ganga í skrokk á grunuðum. Einu sinni fleygðu þeir manni niður bratta hlíð. Maðurinn lifði af en var illa farinn. Eftir þetta fylgdust þeir með manninum – nöktum og beinbrotnum – reyna að sníkja peninga til að komast burtu úr borginni. Slík sjón vakti ótta margra afbrotamanna við sveitina.

Mannrán:

Annað veifið tóku lögreglumennirnir brotamann og fóru með hann upp í hæðirnar utan við borgina þar sem þeir sviðsettu aftöku. Frásagnir þessara manna af lífhræðslu sinni og hörku Gangsterasveitarinnar breiddust út meðal afbrotamanna sem ekki vissu hvers þeir mættu vænta sjálfir.

Ógnanir:

Lögreglumennirnir hótuðu mönnum stundum lífláti. Að láta mann hanga niður af brú var ein uppáhaldsaðferðanna við að hræða óvelkomna. Þeir gerðust marg oft brotlegir við lög en fórnarlömbin vissu vel að þeim yrði ekki trúað ef þau kærðu.

Innbrot og skemmdir:

Lögreglumennirnir skirrðust ekki við að brjóta upp dyr til að komast inn á heimili afbrotamanns. Eyðilegging var þeim heldur ekki framandi. T.d. lögðu þeir rakarastofu í rúst til að hræða eigandann sem var grunaður um að reka spilastofu.

Mútur:

Það var vel þekkt að glæpamenn mútuðu lögreglu en Gangsterasveitin notaði líka mútur. Sveitin hafði 25.000 dollara í seðlum til að greiða fyrir upplýsingar um menn í undirheimunum. En peningarnir voru líka notaðir til að tryggja bein samskipti.

Fokdýrar plöntur

Ekkert benti þó til að sá draumur O‘Mara rættist. Þegar Cohen var látinn laus 1955 var ekki annað að sjá en að hann væri harðákveðinn í að lifa strangheiðarlegu lífi.

 

Hann annaðist rekstur sinn af natni en meðal fyrirtækja hans voru næturklúbbar, spilasalir og meira að segja ein gróðrarstöð.

 

Þótt allt virtist ganga löglega fyrir sig og Cohen orðinn frómur góðborgari hafði Gangsterasveitin áfram augun á þessum gamla erkióvini sínum, enda benti sumt til þess að fyrirtækin væru í rauninni skálkaskjól.

 

Þannig virtist t.d. enginn með nokkru móti geta hafnað tilboði um plöntukaup af gróðrarstöð Cohens, því ef menn vildu ekki kaupa plönturnar hótaði hann ofbeldi og illverkum.

 

Cohen tókst að halda hinni fáguðu framhlið flekklausri í nokkur ár en það breyttist 2. desember 1959. Síðdegis þennan dag hringdi glæpaforinginn Jack Whalen í fyrrum meðlim Gangsterasveitarinnar, Jerry Wooters.

 

Hann hafð verið rekinn úr sveitinni eftir að hann þótti kominn í of náin tengsl við undirheimana. Whalen leit nánast á Wooters sem son og taldi sig geta treyst honum fullkomlega.

 

Whalen var nú helsti keppinautur Cohens og eftir að sá síðarnefndi hafði reynt að snuða hann á veðhlaupabrautinni var óhjákvæmilegt að skærist í odda.

 

„Ég er í slæmri klípu. Geturðu hjálpað mér?“ spurði hann Wooters í von um að fá liðsinni Gangsterasveitarinnar til að steypa Cohen af stalli.

 

Skömmu áður hafði Whalen hringt í Cohen og hótað honum en Cohen tilkynnti honum pollrólegur að hann yrði á Rondell-veitingahúsinu um kvöldið og Whalen gæti bara komið þangað.

 

Til að bjarga heiðri sínum átti Whalen ekki annarra kosta völ en að mæta en Wooters neitaði að hjálpa honum.

 

Þess í stað hringdi hann í fyrrum samstarfsmenn sína og upplýsti þá um yfirvofandi átök í undirheimunum.

Cohen átti brynvarinn Cadillac

Sem glæpaforingi varð Cohen fyrir árásum keppinauta sinna. Hann fékk sér því brynvarinn bíl sem var öruggari en forsetabíllinn. Aðeins eitt smáatriði gleymdist.

 

Þegar mikið kúlnaregn boraði sig í gegnum bíl Mickeys Cohen að nóttu til í júlí 1949, ákvað hann að nú væri nóg komið.

 

Hann keypti glænýjan Cadillac og lét brynverja hann svo vel að á endanum varð hann öruggari en bíll sjálfs Bandaríkjaforseta.

 

Nú þurfti Cohen hvorki að óttast byssur né sprengjur – hélt hann.

 

Þetta var unnið í leynum og að verki loknu vóg bíllinn fjögur tonn. Þegar lögreglumenn skoðuðu ökutækið varð niðurstaðan sú að þetta væri fremur brynvarinn flutningavagn en fólksbíll og þyrfti því sérstakt leyfi til að fara um göturnar – og það leyfi fékk Cohen aldrei.

 

Honum var fullljóst að sæist hann á bílnum yrði hann handtekinn á staðnum.

 

Bíllinn stóð því í bílskúrnum allt þar til lögreglan gerði hann upptækan vegna skattaskuldar. Nú er bíllinn á Southward-bílasafninu á Nýja-Sjálandi.

Framrúðunni

var skipt upp í tvennt og hægt að opna út þannig að riffilhlaupi mætti stinga út.

Hver hurð

var klædd 20 mm stálhúð og vóg 45 kg. Brynvörnin var prófuð með því að skjóta á bílinn með öflugustu rifflum sem lögreglan hafði yfir að ráða en hún haggaðist ekki.

Rúðurnar

voru gerðar úr 4,5 cm þykku, skotheldu trefjagleri.

Gólfið

var stálstyrkt og átti að þola að sprengja spryngi undir bílnum.

Dekkin

kostuðu 400 dollara stykkið og voru sögð skotheld.

Framrúðunni

var skipt upp í tvennt og hægt að opna út þannig að riffilhlaupi mætti stinga út.

Hver hurð

var klædd 20 mm stálhúð og vóg 45 kg. Brynvörnin var prófuð með því að skjóta á bílinn með öflugustu rifflum sem lögreglan hafði yfir að ráða en hún haggaðist ekki.

Rúðurnar

voru gerðar úr 4,5 cm þykku, skotheldu trefjagleri.

Gólfið

var stálstyrkt og átti að þola að sprengja spryngi undir bílnum.

Dekkin

kostuðu 400 dollara stykkið og voru sögð skotheld.

Morð truflar veislu

Eins og oft áður hélt Mickey Cohen hirðveislu á Rondell-veitingahúsinu. Klukkan 23.28 kom Whalen askvaðandi að borðinu þar sem Cohen sat ásamt ástkonu sinni, Sandy Hagen og tveimur lífvörðum Sam LoCigno og George Piscitelli.

 

En áður en Whalen náði að borðinu, hitti byssukúla hann í ennið og hann féll dauður á gólfið. Gestir veitingahússins flúðu í skelfingu.

 

Kl. 00.10 bárust lögreglunni tíðindin. Enn eitt gengjamorð hafði verið framið í borginni. Mickey Cohen vísaði því á bug að hann hefði átt nokkurn þátt í atburðinum.

 

„Ég sat bara og var að borða pasta,“ sagði hann við lögregluþjónana sem mættu á staðinn.

 

„Ég heyrði allt í einu skot og ég get alveg sagt ykkur að ég hafði nóg að gera við að reyna að koma mér í skjól.“

 

Sessunautar hans þrír við borðið sögðust líka einungis hafa heyrt skothljóð. En aðrir vitnisburðir sýndu fljótlega að Cohen og sessunautar hans höfðu logið.

 

Þannig lýsti einn gesturinn því hvernig Cohen hefði þrifið í sig í þeirri trú að hann væri meðal samærismanna Whalens.

Tímamót urðu í rannsókninni þegar lögreglan fann þrjár skammbyssur í plastpoka utan við veitingahúsið skömmu síðar.

 

Þegar leitað var að merkingunum sem O‘Mara hafði gert, kom í ljós að Cohen átti tvær af þessum byssum.

 

Sex dögum síðar gaf vinur Cohens, LoCigno, sig fram og kvaðst hafa skotið Whalen í sjálfsvörn.

 

Nú töldu lögreglumennirnir í Gangsterasveitinni sig vissa um að hremma Cohen.

 

Vissulega kvaðst LoCigno hafa banað Whalen en margt benti til að honum hefði verið borgað fyrir að taka sökina á sig og skammbyssurnar tengdu Cohen málinu.

 

Við réttarhöldin lagði O‘Mara byssurnar fram og þótt það væri ekki Cohen sem var fyrir rétti, gaf O‘Mara sterklega til kynna að hann hefði í rauninni borið ábyrgð á dauða Whalens.

 

Sjálfur laug Cohen um 100 sinnum fyrir rétti, m.a. þegar hann sagði: „Ég hef aldrei átt neinar skammbyssur.“

Cohen á leið um borð í fangabátinn til Alcatraz eftir fangelsisdóminn 1962.

Skattsvik felldu glæpaforingjann á endanum

Aldrei tókst að fá Cohen dæmdan fyrir morð en hinn langi armur laganna náði þó að lokum á honum taki.

 

Árið 1961 var Cohen dæmdur til 15 ára fangelsisvistar fyrir skattsvik. Það urðu reyndar einnig örlög hins annars ósnertanlega stórgangsters Als Capone 1931.

 

Alls voru kvödd 194 vitni og réttarskjölin voru 8.000 vélritaðar síður. Vitnin báru að Cohen hefði stráð seðlum í kringum sig.

 

Að sögn vitna var venjulegt að Cohen bæri um 30.000 dollara í seðlum á sér. Hann hafði hins vegar aldrei skilað skattframtali sem gæti skýrt nándar nærri svo mikla peninga.

 

Dómurinn hljóðaði upp á 15 ára fangelsi sem hann afplánaði á hinni frægu fangelsiseyju Alcatraz og síðan í ríkisfangelsi í Atlanta í Georgíu.

 

Eftir níu ár, 1972, var Cohen látinn laus. Og hann var ekki gleymdur. Sjónvarpsstöðvar kepptust um að fá hann í viðtöl og æviminningar hans urðu metsölubók.

 

Cohen lést úr hjartaslagi 1976 eftir langvarandi veikindi. Opinberlega skildi hann eftir sig dánarbú upp á 3.000 dollara.

Gagnsterasveitin öllum gleymd

Þann 31. mars 1960 var LoCigno dæmdur í ævilangt fangelsi.

 

Spurningin um meðsekt Cohens varð til þess að rétturinn tók málið upp að nýju árið eftir og þá hrundu sannanir lögreglunnar eins og spilaborg.

 

Tæknirannsóknir sýndu nú að engin af þeim skammbyssum sem fundust, var sú sem notuð hafði verið gegn Whalen.

 

Dómstóllinn taldi meira að segja skýr embættisglöp hafa verið framin með því að leggja þær fram. Niðurstaðan varð sú að LoCigno var sýknaður. Úrslitin lögðust svo þungt á O‘Mara að hann hætti í lögreglunni fáum dögum síðar.

 

En Cohen sá reyndar heldur ekki fram á bjartari daga. Sama ár var hann dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir skattsvik.

 

Stuttu eftir að sá dómur féll var Gangsterasveitin endanlega leyst upp. Stórglæpamennirnir höfðu misst tökin á Los Angeles og hjá lögreglunni vildu menn helst gleyma því sem fyrst að hafa í 15 ár starfrækt lögreglusveit sem starfaði utan laga og réttar.

 

Þegar Cohen gaf út æviminningar sínar 1975, rifjaði hann upp þetta gamla morð:

 

„Sam LoCigno hefði ekki hitt vegg í danssal. Sá sem skaut Whalen var afburðaskytta.“ Og hann gat ekki stillt sig um að bæta við: „Og sjálfur var ég fjandi góður með skammbyssu!“

Lestu meira um gangstersveitina og Mickey Cohen

  • Paul Lieberman: Gangster Squad, St. Martins’s Griffin, 2012

 

  • Brad Lewis: Hollywood’s Celebrity Gangster, BookSurge Publishing, 2009

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen & Bue Kindtler-Nielsen

© The Granger Collection/Ritzau Scanpix,Getty Images,© Martha O’Mara,© University of Southern California/Getty Images,© BL Press,AP/Ritzau Scanpix,Los Angeles Public Library,© Bettmann/Getty Images

Alheimurinn

Mistök geta verið banvæn fyrir geimfara 

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

Maðurinn

Af hverju sjá sumir drauga en aðrir ekki?

Náttúran

Hvaða rándýr étur flest fólk?

Heilsa

Er flotsaur til marks um góða heilsu?

NÝJASTA NÝTT

Tækni

Ormar spinna þræði sex sinnum sterkari en skothelt kevlarefni

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Tækni

Ormar spinna þræði sex sinnum sterkari en skothelt kevlarefni

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

Maðurinn

Hve mikið gagnamagn rúmast í heilanum?

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Eitilhörð samkeppni um að leysa ráðgátur sólkerfisins

Læknisfræði

Soðnir kettir læknuðu nánast allt á miðöldum

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Maðurinn

Með skönnun má spá fyrir um þunglyndi

Maðurinn

Með skönnun má spá fyrir um þunglyndi

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Vinsælast

1

Tækni

Eru eineggja tvíburar erfðafræðilega eins?

2

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

3

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

4

Náttúran

Kisulóra er villiköttur

5

Lifandi Saga

Greitt fyrir Pepsi-Cola með sovéskum kafbátum

6

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

1

Náttúran

Sníkill gæðir okkur fegurð

2

Læknisfræði

Ný tækni lokkar krabbafrumur úr felum

3

Lifandi Saga

Fimm heppnustu manneskjur sögunnar

4

Jörðin

Hvenær var hnettinum skipt í tímabelti?

5

Lifandi Saga

Mömmustrákur tryggði bandarískum konum kosningaréttinn

6

Lifandi Saga

Hermaður sá heiminn á hvolfi eftir heilaskaða

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Tækni

Brennandi gas gaf vélinni ofurkrafta

Maðurinn

Þessi tvö efni geta átt þátt í að lækka líffræðilegan aldur okkar

Lifandi Saga

Hin dularfulla María Magdalena var nákomin frelsaranum

Menning og saga

Múmía hræddi líftóruna úr vörðum

Náttúran

Topp 5: Hvaða könguló er stærst?

Náttúran

Tuttugu arma sædýr fannst við suðurskautið

Maðurinn

Styrktu alla þrjá þætti greindarinnar

Jörðin

Evrópsk ofureldstöð virðist undirbúa gos

Ormar spinna þræði sex sinnum sterkari en skothelt kevlarefni

Vísindamenn hafa skapað níðsterkt silki sem með seiglu og sveigjanleika gæti orðið valkostur við gerviefni á borð við pólýester og nælon.

Tækni

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is