Um miðjan nóvember 2022 fór fjöldi jarðarbúa yfir 8 milljarða.
Mannfjöldinn hefur þó lengst af verið miklu minni.
Fyrir nærri milljón árum virðist sem forfeður okkar hafi orðið fyrir stórum áföllum sem fækkuðu frummönnum niður í einungis 1.300 í nærri 100 þúsund ár og minnstu munaði að tegundin dæi alveg út.
Þetta eru alla vega niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtist í vísindatímaritinu Science þar sem vísindamennirnir reyna að rekja orsakirnar.
Elstu beinaleifar af Homo sapiens eru um 300.000 ára gamlar og fundust í helli í Marokkó í Norðvestur-Afríku.
Fáar uppgötvanir beinaleifa valda því þó að enn ríkir mikil óvissa um þróun ættartrés mannsins fram að tilkomu nútímamanna.
,,Alvarlegur flöskuháls”
Í leit að einhverjum skýringum rannsökuðu vísindamenn frá Kína, Ítalíu og Bandaríkjunum erfðamassa ríflega 3.150 núlifandi einstaklinga af ýmsum kynþáttum og þjóðernum, m.a. 40 samfélagshópum utan Afríku.
DNA-raðirnar reyndust sýna nokkuð dramatíska sögu.
Í erfðaefninu mátti sjá ummerki þess að forfeður nútímamanna hefðu lent í „alvarlegum flöskuhálsi” á tímabilinu frá því fyrir 930 þúsund árum þar til fyrir 813 þúsund árum og þessum forfeðrum þá fækkað um heil 98,7%.
Það er mat vísindamannanna að hamfarirnar hafi verið svo ógnvænlegar að á 117.000 ára tímabili hafi mögulega ekki nema um 1.280 frjóir einstaklingar verið uppi samtímis. Þetta leiddi af sér skyldleikaræktun og takmarkaði fjölbreytileika gena fram úr hófi.

Afarlítil stofnstærð með aðeins 1.280 einstaklingum gæti, að sögn rannsakenda, hafa gefið tilefni til alveg nýrrar tegundar, eins og t.d. Homo heidelbergensis, sem er talinn vera beinn forfaðir Homo sapiens.
Ástæðurnar fyrir þessari gríðarlegu fækkun eru taldar loftslagsbreytingar með mjög kólnandi veðurfari, útbreiðslu jökla og jafnframt langvarandi þurrkatímabil víða á hnettinum.
Vísindamennirnir vita ekki af hverju loftslagsbreytingarnar stöfuðu en fyrir 813 þúsund árum hófst hægfara fjölgun einstaklinga í kjölfarið þannig að fjöldi frummanna tuttugufaldaðist upp í um 30.000.
Björgunin gæti hafa falist í uppgötvun elds en væntanlega líka hlýnun með tilheyrandi gróðri og fjölgun veiðidýra.