Við tengjum iðulega kvef við veturinn og flestir kvefast þegar kalt er í veðri á tímabilinu frá september til apríl.
Þegar við förum úr húsi með blautt hár eykst hitatapið frá höfðinu því líkaminn reynir að láta bleytuna gufa upp. Líkaminn kólnar fyrir vikið og okkur verður kalt.
Slímhimnur viðkvæmari
Sumar rannsóknir gefa til kynna að okkur hætti frekar við veirusýkingum þegar okkur verður kalt.
Tilgátan er sú að kuldinn valdi því að slímhimnurnar í efri hluta barkans dragist saman sem svo leiði til þess að slímhimnurnar verði viðkvæmari gegn sýkingum, auk þess sem ónæmiskerfið vinnur slælegar þegar líkamshitinn lækkar.
Þrír þættir ráða því hvort við kvefumst
Aldurinn:
Börnum er mest hætt við kvefi því ónæmiskerfi þeirra hefur enn ekki komst í tæri við algengustu kvefveirurnar. Gömlu fólki með skerta heilsu er einnig hætt við að fá kvef.
Lifnaðarhættir:
Á veturna lifum við í meira nábýli við aðra innanhúss. Fyrir vikið berst smit auðveldar, t.d. í skólum.
Inniloft:
Ef loftið er þurrt, t.d. af völdum loftræstingar, getur kvefveira borist lengri vegalengd gegnum loftið og fyrir vikið smitað fleiri.
Kvef er afar algengt og jafnframt bráðsmitandi. Fullorðið fólk fær gjarnan kvef tvisvar til fimm sinnum á ári en börn jafnvel sex til tíu sinnum.
Hver sá sem er með kvef nær að smita sex aðra að meðaltali. Á veturna dveljum við í meira nábýli hvert við annað innandyra og þær ríflega 200 ólíku kvefveirur sem fyrirfinnast fá fyrsta flokks skilyrði til að dreifast.
Þrjú vopn gegn kvefi
Þrenns konar varnir í munni, nefi og slímhimnum í efri hluta barkans veita áhrifamikla vörn gegn kvefi.
1. Slím og bifhár bremsa veiru
Slím og bifhár torvelda veirum að nálgast frumur slímhimnunnar. Slímið er losað úr kirtlum í slímhimnunni.
Slímlagið á það til að þorna upp og skerðast ef loftið er þurrt.
2 . Frumur vara við
Viðvörunarbúnaður í formi viðtaka á yfirborði frumnanna er virkjaður af veiru og kallar á aðstoð frá ónæmiskerfinu.
Aðvörunarkerfið virkar ekki hjá börnum því ónæmiskerfið hefur svo litla reynslu.
3. Vopn gegn veiru
Efnavopn á borð við ensím, eitur og boðefni losna úr frumunum og gera veiruna skaðlausa.
Efnavopn varnarbúnaðarins skerðast ef okkur verður kalt.
Vísindamenn telja líka að kvefveiran veiki ónæmissvörun frumanna sjálfra. Árið 2015 sýndu líffræðingar frá Yale háskólanum fram á að viðvörunarkerfi líkamans virkar verr við lægra hitastig.
Fruma sem kvefveira hefur ráðist á gerir venjulega ósýktum nágrannafrumum sínum viðvart, sem þá undirbúa varnir sínar, en þegar hitastigið lækkar virkjast nágrannafrumurnar ekki í sama mæli.