Lifandi Saga

Rómverjar hefndu sín grimmilega: Gyðingar hraktir frá landi sínu í heilögu stríði

Ísrael er ungt ríki – aðeins 75 ára – og ástæðuna fyrir að gyðingar voru hraktir frá landi sínu og sendir í útlegð í 1.800 ár er hægt að finna í blóðugu valdatafli um ríkið Júdeu.

BIRT: 11/12/2023

„Messías var kominn til Júdeu“.

 

Þetta var meirihluti gyðinga sannfærður um þegar uppreisnarleiðtoginn Símon Bar Kochba sameinaði gyðinga í heilögu stríði gegn rómverska hernámsveldinu árið 132 e.Kr.

 

Nú átti Messías, hinn smurði konungur sem guð hafði valið, að endurvekja ríki gyðinga.

 

„Skyndilega tók öll Júdea þátt í uppreisn og alls staðar mátti skynja óeirðir meðal gyðinga. Þeir komu saman í stórum hópum og létu í ljós óbeit sína á Rómverjum og margar framandi þjóðir fylktu sér í lið með þeim. Engu var líkara en að öll jörðin tæki þátt í uppreisn“, ritaði rómverski sagnfræðingurinn Dio Cassius.

 

Símon Bar Kochba leit á sjálfan sig sem Messías og kunngjörði að komið væri að frelsun gyðinga. Hann lýsti yfir gyðingaríki sem hann sjálfur væri konungur yfir og lét slá mynt með myndum af hinu helga musteri gyðinga í Jerúsalem.

 

Strax í fyrstu bardögunum tókst uppreisnarmönnum úr hópi gyðinga að þurrka út alla 22. hersveitina, rösklega 5.000 hermenn.

 

Ástandið í Júdeu var svo alvarlegt fyrir rómverska heraflann að kalla þurfti út liðsauka hvaðanæva úr Rómarveldi. Nú skyldi brjóta á bak aftur endalaus uppþot gyðinganna í eitt skipti fyrir öll.

1.200 ára frelsisbarátta

– 1020 f.Kr.

Sameinaða konungdæmið Ísrael var stofnað, samkvæmt biblíunni.

 

– 922 f.Kr.

Konungdæminu var skipt í Norðurríkið og Suðurríkið. Assýríumenn brutu Norðurríkið á bak aftur um 721 f.Kr.

 

– 586 f.Kr.

Suðurríkið var í blóma, allt þar til Babýlóníumenn kollvörpuðu því árið 586 f.Kr.

 

– 539 f.Kr.

Gyðingasvæðin lutu stjórn Persa.

 

– 331 f.Kr.

Makedónar réðu ríkjum í Palestínu, allt þar til gyðingar gerðu uppreisn um 142 f.Kr. og settu á laggirnar ríkið Júdeu.

 

– 63 f.Kr-135 e.Kr.

Rómverjar lögðu undir sig land gyðinga sem varð að rómverska héraðinu Júdeu.

 

Ókunnugir réðu ríkjum í Júdeu

Þetta var alls ekki í fyrsta sinn sem gyðingar risu upp gegn Rómverjum. Uppreisnin árið 132 e.Kr. markaði hápunkt margra ára kúgunar þessarar litlu þjóðar.

 

Júdea var hernumin af Rómverjum hartnær 200 árum áður, þ.e. um 63 f.Kr. Rómverjar komu til valda lénskonungi sem sá til þess að innheimta skatta af gyðingum fyrir hönd Rómverjanna.

 

Mörgum árum síðar komu Rómverjarnir til valda rómverskum landstjóra sem hafði aðalaðsetur sitt í hinni helgu borg gyðinga, Jerúsalem.

 

Rómverjarnir studdu gyðingaaðalinn í Júdeu, svo og þá mörg þúsund rómverska og gríska landnema sem bjuggu þar.

 

Með þessu móti sáu Rómverjar til þess að íbúarnir héldust sundraðir í svo miklum mæli að nánast óhugsandi væri að þeir gætu sameinast um uppþot gegn rómverska hernámsveldinu.

 

Í maí árið 66 e.Kr., hartnær 70 árum fyrir uppreisn Símonar Bar Kochbas, brutust út gífurleg mótmæli í borginni Cæsarea í norðurhluta Júdeu. Óeirðirnar breiddust hratt út í áttina til Jerúsalem.

Uppreisn gyðinga gegn rómversku hernámssveitunum voru einhver þau grimmilegustu átök sem vitað er um í fornöld.

Gyðingar myrtu 6.000 Rómverja

Harkan í uppreisninni kom Rómverjum verulega á óvart. Vorið og sumarið 66 e.Kr. náðu uppreisnarhermennirnir stórum hluta af Júdeu á sitt vald. Þetta sama haust fór rómverski herinn hins vegar að láta til sín taka.

 

Landstjórinn í Sýrlandi fór landleiðina til Júdeu með 30.000 manna her í því skyni að brjóta á bak aftur uppreisnina.

 

Hinn 27. október var rómverski herinn fyrir utan Jerúsalem og næstu daga þar á eftir tókst Rómverjum að rjúfa varnarvirki gyðinganna og þröngva sér leið að helgasta stað gyðinga, musterinu í miðborginni.

 

Þegar sigurinn leit út fyrir að vera í höfn stöðvuðu Rómverjar áhlaupið og hörfuðu með herinn aftur til borgarinnar Cæsarea.

 

Um leið og Rómverjar hurfu frá Jerúsalem komu fyrstu skæruliðarnir úr hópi gyðinga í ljós. Í hefðbundnum bardögum höfðu léttvopnaðir uppreisnarmennirnir ekki roð við þrautþjálfuðum Rómverjunum, gráum fyrir járnum.

 

Innan um klettana og ólífulundina í Júdeu voru þeir hins vegar í essinu sínu og fyrr en varði úði allt og grúði í hermönnum gyðinga.

Gyðingar áttu góðu gengi að fagna í umsátursárásum á vopnaða rómverska leiguliða á bersvæði.

Það sem átti að verða skipulagt undanhald Rómverjanna breyttist í fjögurra daga martröð sem minnti einna helst á það að ganga svipugöngin látlaust.

 

Gyðingarnir réðust til atlögu hvað eftir annað. Þegar rómversku atvinnuhermennirnir loks voru komnir í örugga höfn höfðu þeir skilið eftir sig ógrynnin öll af vopnum, brynjum og birgðum. Og hartnær 6.000 af félögum þeirra lágu örendir úti í óbyggðum Júdeu.

 

Um var að ræða mesta sigur gyðinga í 200 ár og einn mesta ósigur sem Róm hafði beðið.

 

Sigur endaði í borgarastríði

Uppþotið árið 66 e.Kr. hafði brotist út alveg fyrirvaralaust. Fyrir bragðið samanstóð uppreisnarher gyðinga af mörgum hópum sem aðhylltust ólíkar stjórnmálaskoðanir og höfðu ólík markmið.

 

Meðal uppreisnarmannanna leyndust allt frá róttækum ofsatrúarmönnum, leigumorðingjum og byltingarsinnuðum bændum yfir í íhaldssama fulltrúa aðalsins og prestastéttarinnar.

 

Velgengni hersins í upphafi uppreisnarinnar hafði að einhverju leyti dregið úr andstæðunum. Nú var hins vegar aðeins tímaspursmál hvenær þær gerðu aftur vart við sig.

 

Í borginni Tíberías brutust reglulega út götubardagar milli róttækra og hófsamari uppreisnarmanna.

 

Ástandið var sýnu verra í borginni Sepphoris. Þar óttuðust borgarar úr hópi gyðinga róttæku uppreisnarmennina meira en Róm og báðu því Rómverja um hernaðarvernd.

 

Niðurstaðan varð sú að Rómverjar eignuðust nú virki nálægt víglínunni í miðju óvinalandinu.

Uppreisnin gegn Rómverjum leið fyrir það að gyðingar gátu hvorki komið sér saman um stjórnmál né markmið. Ósamkomulagið endaði oft í blóðugum innri bardögum.

Gyðingarnir börðust innbyrðis

Uppreisnarseggirnir í fyrstu uppreisninni árið 66 skiptust í hópa sem hver hafði sitt ólíka markmið. Gyðingarnir vörðu iðulega meiri tíma í innbyrðis bardaga en að berja á Rómverjum. Í Jerúsalem var um að ræða fjóra aðalhópa:

 

 • Bændur fylltu stærsta uppreisnarhópinn en einir 10-15.000 hermenn í Jerúsalem voru af stétt bænda. Hópnum stýrði herstjórinn Símon Bar Giora sem gaf fátækum land og leysti þræla úr haldi.

 

 • Giscala-uppreisnarmennirnir lutu stjórn Jóhannesar frá borginni Giscala. Hann aðhylltist enga augljósa stjórnmálaskoðun, heldur hafði góða raun af að berja á Rómverjum í héraðinu Galíleu, allt þar til óvinurinn óx honum yfir höfuð. Hópurinn taldi um 6.000 menn í Jerúsalem.

 

 • Ofsatrúarmenn sem kenndu sig við Zelot, voru trúræknir skæruliðar sem hugðust beita vopnum til að stofna guðs ríki á jörðu. Þeir lutu stjórn manns að nafni Eleazar ben Símon en um var að ræða um 2.400 hermenn í Jerúsalem. Fámennið þar var vegið upp af heittrú þeirra og skorti á málamiðlunum.

 

 • Hinir íhaldssömu lutu stjórn fyrrum æðsta prests að nafni Ananus. Hann gerðist einn af leiðtogum gyðinga í uppreisninni gegn Rómverjum árið 66. Ananus var andvígur hinum heittrúuðu zelotum sem létu taka hann af lífi í bardögum í Jerúsalem árið 68.

Róm sendi Vespasían

Maðurinn sem fékk það hlutverk að brjóta uppreisnina á bak aftur var 57 ára gamall hershöfðingi að nafni Vespasían. Honum tókst að sækja fram í landi gyðinga vorið 67 e.Kr.

 

Hörmungarnar úti fyrir Jerúsalem höfðu orðið sökum þess að gyðingar höfðu fengið að berjast á eigin forsendum en innrás Vespasíans var gerð á forsendum Rómverja.

 

Vespasían fyrirskipaði hermönnum sínum að brenna uppskeruna, eyðileggja kornforðana og drepa öll húsdýr á þeim svæðum sem hermennirnir fóru yfir.

 

Rómversku hersveitirnar létu til skarar skríða gegn uppreisnarmönnunum, í bæjum og borgum. Gyðingarnir stóðust Rómverjunum og yfirburða tækni þeirra ekki snúning og virki gyðinganna féllu hvert á fætur öðru.

 

Síðustu miklu uppreisnarbækistöðvarnar var að finna í klettaborginni Gamala. Þar vörðu íbúarnir sig af miklu hugrekki gegn ofureflinu og tókst að brjóta fjölmargar árásir Rómverjanna á bak aftur.

 

Þegar íbúarnir að lokum gerðu sér grein fyrir að endalokin væru nær leituðu þeir skjóls á klettasyllu yfir djúpum dal. Þar kusu margir þeirra að kasta sér niður í hyldýpið umfram það að ganga óvininum á hönd.

Hinn gamalreyndi, rómverski herforingi Vespasían náði að knésetja uppreisnarhópa gyðinga.

Þegar svo Rómverjar smám saman öðluðust yfirráð yfir svæðum gyðinga flýðu uppreisnarmennirnir til Jerúsalem, þar sem lokabardaginn átti eftir að eiga sér stað. Þar biðu 25.000 uppreisnarmenn úr hópi gyðinga eftir rómverska hernum sem nálgaðist óðfluga.

 

Uppreisnarher gyðinga í Jerúsalem var litríkur samtíningur af íhaldssömum þjóðernissinnum, ofsatrúarmönnum og byltingarsinnum.

 

Stór hluti þeirra hafði átt þátt í að sigrast á Rómverjum áður og voru uppfullir af baráttuanda.

 

Í augum margra var líkt og bardaginn snerist um baráttuna milli ljóss og myrkurs. Gyðingarnir voru þess fullvissir að herskarar himinsins myndu koma þeim til aðstoðar þegar Rómverjarnir réðust til atlögu við þessa helgu borg.

 

Og hinn 23. apríl árið 70 e.Kr. stóð „myrkraherinn“ fyrir utan borgarmúrana á Jerúsalem og laut nú stjórn Títusar, sonar Vespasíans.

 

Árásin á Jerúsalem

Rómverjarnir byrjuðu á því að útbúa þrjár gríðarstórar skábrautir úr jarðvegi fyrir utan múra borgarinnar. Þegar skábrautirnar voru fullgerðar var komið með múrbrjóta og umsátursbúnað sem nota átti til að brjóta niður borgarmúrana.

 

Sagnfræðingurinn Jósefus lýsir því þannig að „djúp örvæntingarstuna“ hafi heyrst um alla Jerúsalemborg þegar fyrstu hljóðin frá múrbrjótunum dunuðu gegnum bæinn. Þeir vissu að Rómverjar myndu héðan í frá ekki sýna gyðingum minnstu miskunn.

Rómverski hershöfðinginn Títus er þekktastur fyrir Títusarbogann í Róm, minnisvarði um sigurinn í Jerúsalem. Boginn var málaður af Ítalanum Giovanni Volpato árið 1780 og er boginn byggður inn í arkitektúrinn í kring.

Eftir heillar viku vinnu braust stærsti múrbrjótur Rómverjanna, sá sem kallaðist Viktor, gegnum borgarmúrinn. Í lok maí voru Rómverjarnir farnir að nálgast musterissvæðið og voru nú staddir fyrir framan innsta virkið í Jerúsalem sem kallaðist „Antonía“.

 

Rómverjar hófust aftur handa við að reisa skábrautir og að tveimur vikum liðnum voru risavaxnir múrbrjótarnir á sínum stað fyrir neðan múrana. Enn og aftur hljómuðu drunurnar frá umsátursbúnaðinum.

 

Skyndilega brast jarðvegurinn. Múrbrjótar, skábrautir og menn, allt hvarf niður í dýpið. Gyðingarnir höfðu grafið göng undir Rómverjunum án vitundar þeirra síðarnefndu og þegar þeir kveiktu í bjálkunum sem styrktu göngin brast jarðvegurinn og allt hrundi.

 

Uppreisnarmennirnir höfðu eyðilagt meira á einu augabragði en sem nam tveggja vikna verkfræðivinnu Rómverjanna. Rómverjarnir bjuggu hins vegar yfir mörgum ráðum til að brjóta borgina á bak aftur.

 

Gyðingar átu hálm

Hershöfðinginn Títus hörfaði með hermennina út úr bænum og lét reisa átta kílómetra langa borgarmúra, með alls 13 virkisturnum, hringinn í kringum Jerúsalem. Síðan þurftu Rómverjarnir einungis að bíða þess að íbúarnir í Jerúsalem yrðu matarlausir. Þess þurfti ekki að bíða lengi.

 

Hersveitirnar í borginni höfðu yfir miklum matarforða að ráða og sömu sögu var að segja af efnamiklum gyðingum borgarinnar. Hins vegar bjuggu einnig um 200.000 almennir borgarar í Jerúsalem sem engan aðgang höfðu að slíkum birgðum.

LESTU EINNIG

Þetta sumar, árið 70 e.Kr., versnaði ástandið dag frá degi. Íbúar borgarinnar tíndu illgresi, suðu leðurbelti, borðuðu hálm úr útihúsunum og rótuðu í hrossataði eftir ómeltu korni. Ofan í sultinn bættust svo sjúkdómar.

 

Að lokum reyndist ekki gerlegt að greftra öll líkin og var þeim hent út fyrir borgarmúrana. Ekki leið á löngu áður en dalurinn umhverfis Jerúsalem var þakinn líkum sem rotnuðu í sumarhitanum og illa þefjandi vessi rann úr grotnum búkunum.

 

Margir reyndu að flýja en aðeins örfáum tókst að komast í gegnum lokanir Rómverjanna. Efnaðir gyðingar sluppu oft með skrekkinn ef þeir náðust. Þeir gátu borgað og höfðu jafnframt margir hverjir verið andsnúnir uppreisninni.

 

Einstaka voru þó svo ólánsamir að hlaupa beint í flasið á sýrlenskum eða arabískum hjálparsveitum Rómverjanna sem skáru þá á hol því þeir héldu að flóttamennirnir hefðu gleypt gull sitt og gersemar.

 

Almennum gyðingum var engin miskunn sýnd. Brátt fór að vaxa upp skógur umhverfis Jerúsalem: Þúsundir krossa sem látnir eða deyjandi gyðingar voru negldir við. Með þessari aðferð hugðust Rómverjar brjóta á bak aftur baráttuvilja uppreisnarmannanna.

 

Þessi samsetning árása, sults, sjúkdóma og grimmdarverka gerði sitt gagn og í lok sumars árið 70 e.Kr. var rómverski herinn kominn að sjálfu musterinu, helgasta stað gyðinga.

 

⇑ Rómverjar brenndu musteri gyðinga til grunna

Þegar Rómverjar höfðu svelt Jerúsalembúa í þrjá mánuði réðust þeir á musterisbyggingar borgarinnar í júlí árið 70 e.Kr. Eftir heiftarlega bardaga brann sjálft musterið til grunna.

1
Ytri musterisveggur
2
Skábraut Rómverjanna
3
Rómverskir hermenn
4
Ytri musterisgarður
5

Uppreisnarmenn úr hópi gyðinga

6
Musterið

Musterið brann til grunna

Á meðan blóðugir og óskipulegir götubardagar geisuðu umhverfis musterið hirti einn rómversku hermannanna logandi spýtu upp af götunni. Hann klifraði upp á herðar félaga síns og kastaði kyndlinum inn um glugga á musterinu.

 

Vistarveran sem glugginn var á reyndist vera geymslurými sem var fullt af bókrollum úr pergamenti, papírushandritum og fatnaði. Ekkert hafði rignt svo vikum skipti og eldurinn braust út með leifturhraða.

 

Innan skamms var musterið orðið fullt af örvæntingarfullum gyðingum sem reyndu að verja það gagnvart Rómverjunum sem hugðust ryðjast inn, jafnframt því sem þeir gerðu tilraun til að bjarga brennandi helgiritunum úr logunum.

 

Uppreisnarmennirnir gáfust margir hverjir upp þegar þeir áttuðu sig á að musterið væri þeim glatað og skynjuðu að nú væri fátt eitt í stöðunni. Skyndilega blasti við Rómverjunum sjón sem fyllti þá örvæntingu.

 

Á þökum súlnaganganna umhverfis brennandi musterið stóðu hundruð karla, kvenna og barna. Umvafin eldi stóðu þau og störðu til himins. Allt til hins síðasta væntu þau að þaðan myndi hjálp berast.

 

Hjálpin kom hins vegar ekki og logarnir gleyptu þau.

Í bardaganum um musterið árið 70 duldust gyðingarnir í göngum undir byggingunum.

Rómverjar fögnuðu sigri

Heima í Rómarborg var sigrinum fagnað með stórkostlegustu sigurgöngu í sögu borgarinnar. Þeir knésettu voru hvorki barbarar frá Gallíu né Germaníu, heldur gamalt og háttsett menningarríki sem reist hafði hallir, musteri og stórar borgir.

 

Hópgangan mjakaðist áfram um götur borgarinnar svo tímunum skipti og þúsundir Rómverja þyrptust saman til að fylgjast með skrúðgöngunni.

 

Þeir sáu þar töflur sem sýndu helstu bardagana og borgirnar sem höfðu verið hermundar í þessari fjögurra ára löngu styrjöld í landi gyðinganna. Þúsundir hermanna gengu fram hjá, ásamt því að sýna gersemarnar sem rómverski herinn hafði rænt.

 

Einir 700 fangar úr röðum gyðinga voru jafnframt dregnir gegnum göturnar. Þessir tilteknu fangar höfðu verið valdir fyrir þær sakir að þeir voru sérlega hávaxnir, sterklegir og fallegir.

 

Þegar sjöarma kertastjakar og aðrar musterisgersemar voru leiddar í ljós ætlaði fagnaðarlátum mannfjöldans aldrei að linna.

 

Í Júdeu voru Jerúsalem og musteri gyðinganna í rústum. Enga prestastétt var lengur að finna í borginni. Íbúunum hafði fækkað niður í þriðjung af því sem var og hundruð þúsunda gyðinga höfðu annað hvort fallið í valinn eða verið fluttir á brott.

Eftir sigurinn á gyðingum héldu Rómverjar stærstu sigurgöngu í sögu borgarinnar þar sem þeir sýndu m.a. sjö arma kertastjaka gyðinga frá musterinu í Jerúsalem. Myndin af sigurgöngunni er á innanverðum Títusarboganum í Róm.

Rétt fyrir utan Jerúsalem settu Rómverjar á stofn búðir fyrir fyrrverandi hermenn Rómverja og var þeim úthlutað jarðskika í þakklætisskyni fyrir herþjónustu þeirra. Þá voru að sama skapi reistar borgir hér og þar í Júdeu sem enga gyðinga var að finna í.

 

Gyðingar voru í raun réttri ekki lengur til sem þjóð. Baráttuvilji gyðinganna hafði þó ekki verið brotinn á bak aftur enn. Þeir biðu þess einfaldlega að nýtt tækifæri gæfist til að losna undan oki Rómverjanna.

 

Hadrían bannaði umskurð

Árið 130 e.Kr., þ.e. 60 árum eftir að fyrstu gyðingauppreisninni lauk, kom rómverski keisarinn Hadrían til Jerúsalem sem enn var rústir einar.

 

Hann óskaði þess að byggja upp nýja og nútímalega borg á svæðinu sem kallast skyldi Aelia Capitolina. Sem sárabætur fyrir hið skemmda musteri gyðinga hugðist hann reisa nýtt musteri til heiðurs rómverska guðinum Júpíter.

 

Gyðingaheimurinn brást við með því að fussa og sveia. Hadrían áleit sjálfan sig vera hliðhollan gyðingum en líkt og við á um svo marga fyrir hans tíð skildi hann hvorki gyðinga né trúarbrögð þeirra.

 

Trúarbrögð Rómverja voru sveigjanleg og breytileg, í þeim var unnt að taka upp nýja guði og Rómverjar áttu sér meira að segja gyðju skolpræsanna í Róm. Slík þjóð gæti aldrei skilið til fullnustu ástríðufull tengsl gyðinga við guð þeirra.

 

Jafnframt því að áforma að reist skyldi hof í Jerúsalem innleiddi Hadrían enn fremur blátt bann við umskurði.

 

Í augum Rómverja og Grikkja var hvers kyns sjálfslimlesting viðurstyggileg en gyðingar á hinn bóginn túlkuðu bannið sem meðvitaða ögrun. Næstu tvö árin mótmæltu íbúar Júdeu enn og aftur og undirbjuggu síðasta stríðið gegn Róm, það sem mestum eyðileggingum olli.

Líkt og fyrirrennarar hans áður gat Hadrían engan veginn skilið hvers vegna gyðingar væru ófúsir til að tilbiðja aðra guði en sinn eigin.

Síðasta mannmarga uppreisnin hafði í raun verið ein allsherjar ringulreið stríðandi fylkinga og manna. Að þessu sinni sameinuðust uppreisnarseggirnir allir að baki Símoni Bar Kochba sem hafði stöðu spámannsins Messíasar og leiddi gyðinga sem slíkur í endanlegri baráttu fyrir frelsi.

 

Uppreisnin árið 66 e.Kr. hafði verið af trúarlegum toga. Að þessu sinni álitu margir uppreisnarmannanna að þeir ættu í heilögu stríði við Rómarborg.

 

Trúarofstæki gyðinganna færði uppreisnarhernum nánast himneskan styrk í baráttunni gegn rómversku hersveitunum sem verið höfðu ósigrandi til þessa.

 

Í hverri viku streymdu tugþúsundir nýliða af gyðingaættum í herinn sem að lokum taldi mörg hundruð þúsund hermenn.

 

Síðasta vígi gyðinga

Hadrían keisari lét senda eftir einum reyndasta hershöfðingja Rómarborgar, Júlíusi Severus. Severus var nýkominn frá Bretlandi og hafði mikla reynslu af skæruhernaði.

 

Vegna þess hve mikla yfirburði uppreisnarmennirnir höfðu, hvað snerti fjölda og trúarhita þeirra, reyndi Severus að komast hjá því að mæta þeim í opnum bardaga. Þess í stað einangraði hann litla hópa uppreisnarmanna og lokaði fyrir birgðaleiðir þeirra.

 

Hann skipulagði jafnframt nýtt vegakerfi í Júdeu til þess að auðvelda flutninga rómversku hermannanna. Severus murkaði lífið úr uppreisninni, hægt en bítandi.

 

Uppreisnarleiðtoginn Símon Bar Kochba lék enn lausum hala. Hann og ofstækisfyllstu hermennirnir hans héldu til í klettavirkinu Bethar.

 

Nú var aðeins tímaspursmál hvenær Rómverjarnir kæmu og umsátrið um Bethar-virkið var síðasta mikla aflraunin meðan á stríðinu stóð.

„Hestarnir óðu í blóði upp að nasavængjum og blóðið streymdi niður klettana og áfram út í hafið sem litaðist rautt“.
Rómverskar heimildir um umsátrið við Bethar-virkið.

Það þótti svo mikilvægt að ráða niðurlögum Bar Kochba og skæruleiða hans að sjálfur Hadrían keisari tók þátt í umsátrinu.

 

Hugrekki uppreisnarmannanna og trúarhiti þeirra dugði ekki lengur gegn hersveitum Rómverja. Gyðingar létu aldrei deigan síga, heldur létu lífið í klettavirkinu. Samkvæmt rómverskri heimild létu þeir lífið af völdum hungurs og sults.

 

Ef marka má rómverskar heimildir hjuggu Rómverjarnir alla íbúana til dauða „allt þar til hestarnir óðu í blóði upp að nasavængjum og blóðið streymdi niður klettana og áfram út í hafið sem litaðist rautt“.

 

Stríðið hræddi jafnvel Rómverja

Falli Jerúsalemborgar árið 70 e.Kr. var fagnað með einhverri þeirri stórfenglegustu sigurathöfn sem þekkst hafði í Rómarborg. Eftir uppreisnina 60 árum síðar sem kennd hefur verið við Bar-Kochba, fóru Rómverjar hvorki í sigurgöngur né reistu sigurminnisvarða.

 

Hið gríðarlega ofstæki og grimmd sem einkennt höfðu uppreisnina olli meira að segja skelfingu meðal Rómverjanna sjálfra sem þó voru vanir stríðsrekstri og þeir voru engan veginn stoltir af að hafa farið með sigur af hólmi í þessari styrjöld.

 

Sumir Rómverjar vildu ekki einu sinni kannast við að hafa borið sigur úr býtum.

 

Í bréfi sem rithöfundurinn Cornelius Fronto ritaði keisaranum Markusi Aurelíus einum þrjátíu árum síðar kallaði hann Bar Kochba-uppreisnina einn af ósigrum Rómarborgar.

„Í því felst enginn heiður að sigrast á fólki sem guðirnir hafa yfirgefið.“
Hershöfðinginn Títus um sigurinn á gyðingum.

Hugsanlega leið mörgum svipað og við átti um hershöfðingjann Títus en þessi orð eru höfð eftir honum um 70 árum eftir fall Jerúsalemborgar:

 

„Í því felst enginn heiður að sigrast á fólki sem guðirnir hafa yfirgefið.“

 

Stríðið var hvorki meira né minna en stóráfall fyrir gyðinga. Rómverski sagnfræðingurinn Dio Cassius lýsti stríðinu á þennan veg:

 

„Fimmtíu mikilvægustu virki þeirra og 985 þekktustu borgirnar voru jöfnuð við jörðu. Alls 580.000 manns létust í átökum og bardögum en engin leið var að koma tölu á alla þá sem dóu af völdum sults, sjúkdóma og bruna.

 

Ef allt er upptalið má segja að nánast gjörvöll Júdea hafi verið lögð í eyði“.

 

Með þessum þremur setningum lýsti rómverski sagnfræðingurinn tortímingu heillar þjóðar.

 

Hadrían hrakti gyðinga frá Júdeu

Júdea sem slík var ekki til lengur. Þess í stað setti Hadrían keisari á laggirnar nýtt hérað sem hann kallaði Sýrland-Palestínu sem nefnt var í höfuðið á fornum erkióvinum gyðinganna, fílistum.

 

Landið var nánast gjörsneytt gyðingum. Til viðbótar við alla þá gyðinga sem höfðu verið drepnir í uppreisninni voru þúsundir seldir í þrældóm eða sendir til rómverska heimsveldisins þar sem þeir enduðu sína daga í rómverskum saltnámum.

 

Þeir sem komust lífs af, flýðu. Þeir lánsömu gengu til liðs við gyðingabúðir í Egyptalandi og Írak. Margir lögðu land undir fót og héldu út í óvissuna í Evrópu.

Gyðingar dreifðust um gjörvallan heim:
Þegar Rómverjar brutu á bak aftur fyrstu gyðingauppreisnina árið 70 e.kr., flýðu tugþúsundir gyðinga til rómversku héraðanna í Norður-Afríku, Litlu-Asíu og Ítalíu. Þar söfnuðust þeir mestmegnis saman í stærri borgum. Eftir uppreisnina um 135 e.Kr. brottvísuðu þeir hundruðum þúsunda gyðinga frá Júdeu en þúsundir annarra flýðu af frjálsum vilja.

Hadrían bannaði gyðingum að berja Jerúsalemborg augum í því skyni að tryggja að gyðingaríki risi aldrei upp úr öskunni. Broti á þessu var refsað með dauðanum.

 

Um leið og uppreisnin var afstaðin var rabbíni að nafni Akiba ben Jósef tilbúinn til að fórna lífi sínu fyrir það eitt að líta á Jerúsalem sem hann unni svo heitt, í hinsta sinn.

 

Rabbínanum tókst að laumast inn í borgina þar sem hann rétt sá musterisrústunum bregða fyrir áður en hermenn komu auga á hann og vörpuðu honum í fangelsi.

 

Á meðan Rómverjar pyntuðu Akiba til dauða þuldi hann ævaforna bæn gyðinga, „Shema Yisrael“, – Heyr Ísrael, að herrann er guð þinn, herrann einn.

 

Rabbíninn aldni gat ekki vitað að Ísrael ætti ekki eftir að vera til sem ríki næstu 1.800 árin. Gyðingar voru nú þjóð á flótta, án lands og án verndar.

Baráttan um Musterishæðina

 

Hæðin í gamla borgarhluta Jerúsalem er aðeins um hálfur ferkílómetri en mikilvægi hennar er gríðarlegt. Um aldir hafa gyðingar, múslimar og kristnir barist um Musterishæðina sem er einn helgasti staður allra þriggja trúarbragðanna.

 

Lestu meira

Lestu meira um uppreisn gyðinga

L. Powell & E. Cline: Bar Kokhba – The Jew Who Defied Hadrian and Challenged the Might of Rome, Pen & Sword, 2021

 

Flavius Josephus: The Great Roman-Jewish War, Dover Publications, 2004

HÖFUNDUR: JAN INGAR THON , NIELS-PETER GRANZOW BUSCH

© Osprey Publishing,© akg-images/Peter Connolly,© Metropolitan Museum of Art/Gift of Joseph H. Durkee, 1899,© Metropolitan Museum of Art/Gift of Mrs. Charles Wrightsman, 2009,© emilio morenatti/ap/ritzau scanpix,© Shutterstock,

Náttúran

Af hverju eru lauf trjáa með mismunandi lögun?

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Vinsælast

1

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

2

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

3

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

4

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

5

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

6

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

1

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

4

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

5

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Náttúran

Topp 5: Hvaða dýr stunda lengsta mökun?

Lifandi Saga

Sósíaldarwinistarnir lýstu yfir stríði gegn fátækum

Lifandi Saga

BNA á barmi borgarastyrjaldar: Nasista-prestur vildi bylta lýðræðinu

Lifandi Saga

Bretar knúðu fram frjálsa verslun með fallbyssum

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Maðurinn

Ný rannsókn: Áhrif framhjálds á konur koma á óvart

Maðurinn

Hve lengi hefur krabbamein hrjáð mannkynið?

Maðurinn

Við getum lifað án heilastofns

Náttúran

Vísindamenn kortleggja nú heimshöfin

Heilsa

41 næringarríkustu fæðutegundir jarðar

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Skógarhöggsmenn hafa yfirtekið svæði ættflokksins sem skapar ýmsar hættur fyrir hann.

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is