Lifandi Saga

England og Frakkland: Bestu óvinir í þúsund ár

Brexit, Waterloo og Hundrað ára stríðið – allt frá innrás Vilhjálms hins sigursæla árið 1066 hafa „froskar“ og „tjallar“ verið erkióvinir. Ekki einu sinni baráttan gegn Hitler gat stöðvað eilífar erjur þeirra. Hér færðu skýringuna á 1000 ára eilífri samkeppni.

BIRT: 07/04/2024

Snemma á níunda áratug 19. aldar flykktist yfirstéttarfólk til litla hafnarbæjarins Folkestone á suðurströnd Englands.

 

Erfingi krúnunnar, Edward 7., William Gladstone forsætisráðherra, borgarstjóri Lundúna og erkibiskupinn af Kantaraborg eru meðal þeirra fyrirmenna sem heimsóttu bæinn. Í hlífðarfatnaði stigu fínu herramennirnir inn í lítið stálbúr og var það svo látið síga djúpt niður í jörðu.

 

Mikill áhugi þeirra stafaði af því að þarna var verið að framkvæma heilmikið verkfræðiafrek. Eins tonna þung vinnuvél, 10 metra löng og búin mannhæðarháum stálbor, boraði sig í gegnum kalklag jarðvegsins. Stefnan er sett í austur, undir Ermarsund, með frönsku ströndina sem takmark.

 

„Borinn nær að bora rúma níutíu metra á mánuði en mun brátt auka þann metrafjölda verulega,“ segir í tímaritinu „The London Illustrated News“ í mars 1882. Samkvæmt áætluninni verða Ermarsundsgöngin fullgerð eftir fjögur ár.

Þegar upp úr árinu 1880 átti stór bor að bora göng undir Ermarsundið.

Jarðgöngin áttu að tengja saman erkifjendurna.

Frá því seint á 18. öld höfðu Bretar og Frakkar vonast eftir að geta þróa með sér varanleg tengsl. En árið 1875 varð tækni þess tíma orðin það þróuð að löndin tvö skrifuðu undir samning um verkefni að gerð Ermarsundsganganna.

 

Fyrstu tilraunaboranir í Dover lofuðu góðu og árið 1881 voru jarðborvélar látnar grafa sig niður sitt hvoru megin við sundið til að gera úttekt á hvort verkefnið væri mögulegt. Borarnir voru knúnir með þrýstilofti og brautarteinar voru lagðir fyrir aftan þá svo hægt væri að fjarlægja jarðveginn jafn óðum með vörulestarvögnum.

 

Fyrirtækið „Submarine Continental Railway Company“ greindi frá því að borunarhraði þeirra í hverri viku yrði u.þ.b. 90 metrar og að sá hraði myndi aukast með tímanum. Borinn var 2,13 metrar í þvermál og var u.þ.b. 30 metra fyrir neðan sjávarbotninn.

 

Á meðan borarnir tveir unnu sitt starf var fyrirtækið sem stóð að verkefninu að smíða nýja bora til að stækka þvermálið í rúma fjóra metra svo starfsmenn í göngunum gætu klætt hliðar þeirra með steypu og komið í veg fyrir að grjóthrun truflaði vinnuna.

 

Þegar verkefninu átti að ljúka árið 1886 áttu sérstakar þrýstiloftsknúnar lestir að fara í gegnum göngin á klukkutíma en hætt var við verkefnið árið 1882. Þá höfðu aðeins u.þ.b. 3,5 km af heildarvegalengdinni verið boraðir sem er rúmlega 35 km.

 

Ein ástæðan var að breskir stjórnmálamenn og hernaðarsérfræðingar óttuðust að herskáir Frakkar myndu nota göngin til að leggja undir sig Bretlandseyjar.

 

Stöðva þyrfti jarðgangagerðina þegar í stað, ályktaði breska þingið í júní 1882. Borvélarnar þögnuðu og gráhvítt rykið settist nú niður í yfirgefnum jarðgöngunum.

 

Hin ókláraða jarðgangavinna er aðeins eitt af mörgum dæmum um viðkvæmt samband Frakklands og Englands. Í næstum 1.000 ár hefur ótti, vantraust og afbrýðisemi herjað á löndin – með víðtækum afleiðingum fyrir þau bæði, aðra í Evrópu og umheiminn allan.

Franski hertoginn lagði England undir sig

Örlög landanna tveggja urðu að eilífu tengd árið 1066, þegar Englandskonungurinn Játvarður hinn góði dó án þess að skilja eftir sig erfingja.

 

Meðal þeirra sem gerðu tilkall til hásætisins var Vilhjálmur hertogi af Normandí. Á þessum tíma voru konungar Englands hins vegar valdir af sérstöku ráði sem kallað var witan (vitringarnir) og benti ráðið á mág hins látna konungs, Haraldur Guðinason.

 

Ríki Vilhjálms hertoga, Normandí, var formlega háð franska konunginum en í raun var svæðið sjálfstætt – byggt víkingum og frökkum. Hann dreymdi um að auka völd sín og var England augljóst skotmark.

 

Vilhjálmur safnaði saman her og þann 27. september árið 1066 kom hann með 8.000 hermenn til bæjarins Pevensey á suðurströnd Englands. Um tveimur vikum síðar, 14. október, sigraði hann enska herinn og drap Harald Guðinason.

Veggteppi sýnir ósigur Englendinga

Árið 1066 sigraði Vilhjálmur hertogi af Normandí enska herinn í Hastings og tók við völdum í landinu. Orrustan var gerð ódauðleg um árið 1070 á útsaumuðu, 70 metra löngu veggteppi.

1. Frakkar ráðast á Englendinga         

Herirnir tveir eru nánast jafnstórir en hermenn Vilhjálms eru staðsettir á hæð og það veitir þeim yfirburði. Þegar Normannar ná yfirhöndinni stráfella þeir veikburða ensku hermennina með öxum, sverðum og spjótum.

2. Haraldur konungur drepinn

Eftir að hafa drepið stóran hluta enska hersins ráðast Normannar á Harald Guðinason. Enski konungurinn deyr þegar hann fær ör í augað og hogginn niður af normönskum hermanni.

3. Englendingar flýja

Með dauða Haraldar Guðinasonar er orrustan ráðin. Englendingar sem eftir lifa verða að flýja vígvöllinn sem stráður er líkum og afskornum útlimum. Orrustan stóð í um átta klukkustundir.

Á jóladag lét Vilhjálmur, sem vegna sigra sinna fer í sögubækurnar sem hinn sigursæli, krýna sig konung í Westminster Abbey í Lundúnum.

 

Konungsskiptin voru hræðileg reynsla fyrir íbúa Englands sem Vilhjálmur stjórnaði með harðri hendi.

 

„Konungur elti uppi óvini sína, drap marga og eyðilagði bæði heimili og akra,“ skrifaði munkur ensku Benediktarreglunnar Ordericus Vitalis.

 

Vilhjálmur byggði virki í nokkrum enskum borgum til að þvinga fólk til hlýðni. Þar á meðal var Tower of London sem franskir smiðir reistu – með kalksteini úr námum nálægt frönsku borginni Caen.

 

Langbogarnir sigruðu riddara á hestum

Vilhjálmur og normönsku aðalsmenn hans gengu í hjónaband beggja vegna sundsins sem styrkti enska konungsvaldið. Eftir tæpa öld réð England því yfir helmingi Frakklands.

 

Stríð um yfirráð yfir Frakklandi var framundan og til að tryggja að allir menn á Englandi væru tilbúnir í bardaga árið 1363 kynnti Edward III konungur „Bogfimi-lögin“. Lögin skylduðu hvern vinnufæran mann til að æfa sig með boga og örvum á sunnudögum og helgidögum.

 

Þjálfunin bar árangur. Í orrustunni við Azincourt í Frakklandi árið 1415 mættu enskir ​​langbogamenn Hinriks 5., franska riddarahernum sem var í herklæðum og járnbrynjum.

„Englendingar eru blanda manna og dýra. Eini munurinn sem ég sé á milli þeirra og villimannanna í Afríku er sá að þeir síðarnefndu hlífa veikara kyninu“.
Robert-Martin Lesuire, franskur rithöfundur, 1760.

Kvöldið fyrir orrustuna hafði úrhellisrigning breytt vígvellinum í forarpytt og þungir riddarar Frakka á hestbaki áttu erfitt með að komast í gegnum leðjuna. Á meðan riddararnir sátu fastir í drullunni létu ensku langbogamennirnir örvunum rigna yfir þá og unnu stórsigur.

 

En stríðsgæfa þeirra snerist við 14 árum síðar, þegar franski herinn undir forystu stríðsmeyjunnar Jóhönnu af Örk hertók borgina Orléans og smám saman endurheimti franski herinn hertekna hluta álfunnar.

 

Þegar Hundrað ára stríðinu svokallaða lauk árið 1453 réðu Bretar aðeins svæðinu í kringum Calais – þar sem Ermarsund er þrengst.

England og Frakkland hafa átt í ótal stríðsátökum – þar á meðal Hundrað ára stríðinu (1337-1453) sem stóð í raun í 116 ár.

Hatur leiddi til margra styrjalda

Í um það bil 1.000 ár voru England og Frakkland svarnir óvinir. Fjandskapurinn hefur ítrekað leitt til mannskæðra styrjalda þar sem þúsundir létu lífið.

 

-1066:Normanar leggja undir sig England

Fjandskapur milli Englendinga og Frakka hefst þegar hertogi Normana, Vilhjálmur, drepur enska konunginn í orrustunni við Hastings árið 1066 og leggur undir sig eyjar konungsríkisins.

-1337: Deilan stendur í 116 ár

Gríðarleg átök um landeignir blossa upp árið 1337, þegar Játvarður III lýsir sig konung Frakklands. Hundrað ára stríðið kostar England öll hertekin svæði í Frakklandi nema Calais.

-18. öld: Bretar tilbúnir í langvinnt stríð

Á 18. öld gerðu Frakkland og England tilkall til sömu svæða í Norður-Ameríku. England er ríkara og því betur í stakk búið til langvinnra átaka en Frakkland sem endar á því að tapa stríðinu.

-1815: Napóleon sigraður við Waterloo

Metnaður Napóleons Frakkakeisara var að verða valdamesti maður Evrópu – og markmið Breta var að stöðva hann. Það tókst eftir meira en áratuga hernað árið 1815 við Waterloo þar sem Belgía er í dag.

– 1945: Bandamenn í átökum

Frakkland hefur alger yfirráð í Sýrlandi þegar uppreisn brýst út í landinu árið 1945. Franski herinn beitir gríðarlegri hörku í bardögum gegn uppreisnarmönnum og því sendir Churchill breska herinn á vettvang til að stöðva átökin.

Friðarfundi lauk með glímukeppni

Hundrað ára stríðið batt enda á drauminn um sameinað enskt-franskt ríki fyrir fullt og allt. Á hinn bóginn voru löndin tvö nánast jafningjar eftir stríðið og gættu þau af mikilli ákefð að forðast að hinn aðilinn næði hernaðarlegu eða pólitísku forskoti.

 

Snemma á 16. öld öðlaðist hins vegar Ottómanveldið stóraukin völd á svæðum hinnar kristnu Evrópu. Ógnin varð til þess að Hinrik 8. Englandskonungur og Frans 1. Frakklandskonungur reyndu að halda friðinn.

 

Konungarnir hittust á akri á landamærum Frakklands og enska Calais. Þar reistu báðir aðilar stórar tjaldbúðir en fyrir fundinn þurftu starfsmenn að skoða svæðið vandlega þannig að hvorug tjaldbúðin stæði hærri en hin.

 

Nú kepptust báðir aðilar við að sjá hver þeirra væri glæsilegri. Hundruð tjalda spruttu upp á svæði sem síðan þá hefur verið kallað Gold Brocade Camp (Hinar gullnu tjaldbúðir glitvefnaðar) vegna dúksins sem ofinn var gullþráðum og notaður í tjöldin og fatnað þátttakenda. Samanlagt eyddu konungarnir tveir rúmum tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna á núvirði til að heilla hvorn annan upp úr gullskónum.

Þegar Hinrik 8. Englandskonungur hitti Frans 1. Frakklandskonung reistu þeir báðir risastórar tjaldbúðir með gylltum tjöldum.

Friðarfundurinn hófst í notalegu andrúmslofti. Um leið og Hinrik 8. og Frans 1. stigu af hestum sínum féllust þeir í faðma og gengu hönd í hönd til fyrsta fundarins.

 

Til að forðast vandræðalegar aðstæður tryggðu skipuleggjendur hátíðarinnar að konungarnir tveir héldu alltaf með sama liði þegar skemmtidagskráin bauð upp á skylmingakeppnir og burtreiðar. Hins vegar gátu konungarnir tveir ekki alltaf haldið aftur af skapi sínu.

 

Í glímukeppni tveggja franskra glímumanna varð Hinriki heitt í hamsi og vildi glíma. Hann tók í kraga Frans og reyndi að snúa honum. Frans var hins vegar vanur glímumaður og endaði á því að skella Hinriki í gólfið. Sem betur fer fyrir friðarástandið á milli konunganna tveggja skoraði Hinrik strax á Frans í einvígi með langbogum. Þá varð Frans að gefast upp – hann gat ekki einu sinni strekkt upp bogastrenginn á þessum stóru bogum.

 

Fundinum lauk 24. júní, eftir að konungarnir tveir höfðu ausið yfir hvorn annan dýrum gjöfum í formi m.a. gullkista og dýrra reiðhesta. En friðurinn var skammvinnur. Á leiðinni heim hitti Hinrik 8. hinn þýsk-rómverska keisara  Karl 5. og gerði samning við hann – og árið eftir réðust þeir á Frakkland.

 

Stríðið barst til Ameríku

Ófriðurinn var ekki bundinn við meginland Evrópu. Á 18. öld sendu bæði England og Frakkland kaupmenn og hermenn til Norður-Ameríku til að nýta sér auðæfi hins nýja heims.

 

Í Ameríku jókst spennan á milli þeirra og 28. maí árið 1754 réðst bresk hersveit á franskan leiðangur sem hafði komið sér upp búðum á akri þar sem er Pennsylvanía í dag.

 

Á meðan á árásinni stóð drap indíáni einn, sem var bandamaður Breta, Mingo höfðingi, franska liðsforingjann Joseph Coulon de Villiers de Jumonville með öxi sinni og indíánarnir flettu höfuðleðrinu af níu frönskum stríðsföngum. Sá atburður hóf nýtt stríð.

Allur heimurinn var vígvöllur óvinanna

England og Frakkland létu sér ekki nægja að berjast um land og völd í Evrópu. Ófriður landanna náði yfir allan heiminn og barist var bæði á sjó og á landi.

1. Bretar tóku sér alvald á Indlandi

Bæði England og Frakkland komu á fót verslunarsvæðum á Indlandi á 17. öld en Englendingar hröktu Frakka fljótt á brott sem urðu að gefa upp eigur sínar árið 1763. Þaðan í frá þurftu þeir að versla undir enskri vernd.

2. Arðbær eyja í hættu

Í frelsisstríðinu í Bandaríkjunum 1780 reyndu Frakkar að hernema hina ríku nýlendu Breta, eyjuna Jamaíku. Áætlunin mistókst þegar Bretar sigruðu Frakka í mikilli sjóorrustu. Eyjan var svo undir breskum yfirráðum til ársins 1962.

3. Nýlenduveldin skiptu Afríku milli sín

Árið 1898 gerðu bæði enskur og franskur leiðangur tilkall til virkisins í Fashoda í Súdan. Í stað þess að fara í stríð samþykktu löndin að láta vatnaskilin milli Nílar og Kongófljóts mynda mörk yfirráðasvæða þeirra.

Sögusagnir um árásina bárust til Frakklands. Mingo indíánahöfðingi átti að hafa þvegið hendur sínar með heilaslettum úr franska liðsforingjanum Jumonville Frakkar vildu meina að þetta væri Englendingum að kenna.

 

„Englendingar eru blanda manna og dýra. Eini munurinn sem ég sé á milli þeirra og villimannanna í Afríku er sá að þeir síðarnefndu hlífa veikara kyninu“, skrifaði franski rithöfundurinn Robert-Martin Lesuire árið 1760.

 

Reiði Frakka dugði þeim þó ekki til sigurs því Bretar unnu sigur og í stríðslok 1763 gátu þeir kallað sig ríkjandi nýlenduveldi heimsins.

 

En þar með hafði ekki síðasta orðið verið sagt í því máli. Stríðið hafði tæmt breska ríkiskassann og voru því nýlendurnar skattlagðar ótæpilega. Óánægjan kraumaði og í apríl 1775 risu nýlendubúar í Ameríku upp í vopnaðri uppreisn.

 

Frakkland studdi uppreisn

Uppreisnarmenn höfðu þó ekki efni á því að heyja stríð. En þeir gátu fengið aðstoð. Í desember 1775 hitti franskur sendimaður Benjamin Franklin –  sem síðar varð stjórnmálamaður.

 

Skömmu síðar barst fyrsta sendingin yfir Atlantshafið. Sendingarnar frá Frakklandi voru keyptar á lánsfé og innihéldu m.a. einkennisbúninga, skotfæri og vopn fyrir 25.000 hermenn.

 

Ánægjan var mikil í Frakklandi – eins og sést í bréfi sem utanríkisráðherra landsins skrifaði Lúðvík 16 vorið 1776:

 

„Guðleg forsjá hefur valið þennan tíma fyrir niðurlægingu Englands. Það er kominn tími til að hefna alls þess illa sem landið hefur beitt nágranna sína og keppinauta frá upphafi aldarinnar“.

„Af hverju að stytta vegalengd sem þegar er of stutt?“
Forsætisráðherra Bretlands, Palmerston lávarður, um að byggja jarðgöng til Frakklands, 1858.

Að sögn franska utanríkisráðherrans ætti að „færa England niður í annars flokks veldi og frelsa alheiminn undan gráðugum harðstjóra Englands sem rændi öllum völdum og öllum auði“.

 

Hlutur Frakklands í sjálfstæði Bandaríkjanna var umtalsverður. Með sigri sínum í Saratoga í október árið 1777 sneri leiðtogi uppreisnarhersins, George Washington hershöfðingi, gangi stríðsins við. Samkvæmt sagnfræðingum var um 90 prósent vopna og megnið af byssupúðri uppreisnarmanna franskt.

 

Bretar urðu að játa sig sigraða árið 1783 og Frökkum til mikillar ánægju var friðarsamningur undirritaður við hátíðlega athöfn í París.

 

Yfirráð á hafinu skiptu öllu máli

Stríðið hafði gert bæði löndin fátæk en í Frakklandi varð ástandið sérstaklega ógnvekjandi þegar ofsafengin haglél eyðilögðu uppskerur árið 1788.

 

Örvæntingarfullir íbúar beindu reiði sinni að Lúðvíki 16. og aðalsstéttinni sem bjó í fínum hverfum og auðlegð á meðan fólkið svalt. Þann 14. júlí 1789 réðust uppreisnarmenn inn í Bastille-virkið og hófu frönsku byltinguna.

 

Í Bretlandi voru viðbrögðin ýmist kátína, spenna eða andstyggð. En þegar byltingin þróaðist smám saman yfir í óstöðvandi blóðbað varð enska yfirstéttin logandi hrædd.

 

Bretar urðu enn hræddari þegar hinn metnaðarfulli Napóleon Bonaparte lýsti sig sem aðalræðismann Frakklands og kom lögum og reglu á í stjórnlausu landinu. Svo lagði hann á ráðin um heimsyfirráð.

 

Napóleon vissi að lykillinn að því að ná yfirráðum á höfunum væri að leggja England undir sig og næstu árin dreymdi hann stöðugt um að fara yfir Ermarsund og hertaka eyjaríkið.

 

Innrásin varð þó aldrei að veruleika og í orrustunni við Trafalgar í október 1805 unnu Bretar stórsigur á franska flotanum.

Hertoginn af Wellington sængaði svo í ofanálag með tveimur fyrrum ástkonum Napóleons.

Breski sigurvegarinn varð heltekinn af Napóleon

Árið 1815 sigraði breski hershöfðinginn Arthur Wellesley, hertoginn af Wellington, Napóleon með afgerandi hætti í orrustunni við Waterloo. Wellington sjálfur varð hins vegar heltekinn af manninum sem hann sigraði.

 

Hertoginn af Wellington varð þekktur í sögubókunum sem maðurinn sem sigraði Napóleon í Waterloo. En þegar hann var spurður, sagði Wellington engan vafa um hvorn þeirra tveggja hann taldi meiri hermann og yfirmann.

 

„Á okkar tímum, í fortíðinni og um alla tíð, Napóleon,“ svaraði hann.

 

Wellington gat ekki fengið nóg af neinu sem Napóleon hafði snert. Eftir dauða keisarans eignaðist hann, auk styttu og nokkurra andlitsmynda af Napóleon, sverð sem keisarinn hafði átt – auk eftirlíkingar af borðbúnaði keisarans sem samanstóð af 102 hlutum. Á einum tímapunkti réði hann meira að segja yfirkokk Napóleons.

 

Og eins og það væri ekki nóg þá tældi hann tvær ástkonur keisarans, óperusöngkonuna Josephinu „Giuseppinu“ Grassini og leikkonuna Marguerite Weimer.

 

Sem betur fer fyrir Wellington kusu báðar dömurnar félagsskap hans frekar en Napóleons.

Án þess að tapa einu einasta skipi sökktu Bretar 22 skipum sem tilheyrðu Frökkum eða bandamönnum þeirra. Orrustan batt enda á allar vonir Frakka um yfirráð á heimshöfunum. 10 árum síðar, árið 1815, varð Napóleon að viðurkenna endanlegan ósigur á vígvellinum í Waterloo þar sem Belgía er í dag.

 

Í stríðinu varð franski hershöfðinginn helsti skúrkur Breta og fékk viðurnefnið “Boney”.

 

„Ef þú ferð ekki með kvöldbænina þína, mun Boney koma og sækja þig!“ hótuðu foreldrar óþekkum börnum sínum.

 

Eftir ósigurinn bað Napóleon auðmjúklega breska konungsprinsinn, George, um sakaruppgjöf en svarið var blátt áfram nei.

 

Þess í stað var Napóleon sendur til St. Helena – afskekktrar eyju í Suður-Atlantshafi. Þar gætti hans 3.000 manna herlið undir stjórn Sir Hudson Lowe, fyrrverandi liðsforingja sem skipaður var landstjóri eyjarinnar.

 

Lowe gerði upptækar allar gjafir sem sendar voru til Napóleons og reyndi almennt að gera hinum fallna keisara lífið leitt.

 

Jarðsprengjur í göngunum

Langt friðartímabil fylgdi í kjölfar Napóleonsstríðanna. Samband landanna varð svo gott með tímanum að Frakkar og Bretar fóru að tala um enn varanlegri tengsl. Hins vegar voru ekki allir á sama máli hvað þá hugmynd varðar.

 

„Af hverju að stytta vegalengd sem þegar er of stutt?“ spurði forsætisráðherra Bretlands, Palmerston lávarður, þegar Frakkar lögðu til jarðgöng milli landanna tveggja árið 1858.

 

Þrátt fyrir gagnrýnisraddir samþykktu þjóðþing landanna árið 1875 að hefja jarðgangnagerð. En vantraustið hvarf ekki. Göngin yrðu hörmuleg fyrir England, þrumaði hershöfðinginn Sir Garnet Wolseley.

 

„Sama hvaða víggirðingar og varnir við reisum, mun hættan á því að her frá meginlandinu hertaki göngin í skyndiárás alltaf vera til staðar,“ benti hann á.

„Ég myndi ekki segja að viðhorf hans séu fasískt en þau eru að minnsta kosti einræðisleg“.
Tilvonandi forsætisráðherra Bretlands, Harold Macmillan, eftir fund með Charles de Gaulle árið 1943.

Járnbrautarbrautryðjandinn Sir Edward Watkin sem stýrði verkinu, lagði til að göngin yrðu gerð örugg með jarðsprengjum sem hægt væri að virkja frá London ef Frakkar gerðu árás. Hann lagði einnig til viðbragðsáætlanir sem fólu í sér að hleypa sjó í göngin eða fylla þau af reyk.

 

En samkvæmt grein í „The Sunday Times“ frá 16. apríl 1882 var það ekki aðeins óttinn við innrás sem heltók Breta:

 

„Með daglegum lestum milli Parísar og London munu óánægðir íbúar stórborganna tveggja hefja samskipti sem mun leiða til mjög óásættanlegra áhrifa hérna megin við Ermarsundið“.

 

Rúmum tveimur mánuðum síðar, 28. júní 1882, ákvað breska þingið að stöðva jarðgangnagerðina. Óttinn við Frakka var of mikill.

 

Gömul óvild sveimaði yfir

Í heimsstyrjöldunum börðust Bretar og Frakkar í sama liði en metingurinn milli þeirra gleymdist hvorki á árunum 1914-1918 né frá 1940.

 

Hershöfðingi Frakklands, Charles de Gaulle, flúði til London eftir fall Frakklands og varð leiðtogi frjálsa franska hersins. Frakkar voru bandamenn Breta gegn Þýskalandi en de Gaulle átti sér sögu. Hann var afkomandi Jehan de Gaulle – riddara sem var einn riddaranna sem sat fastur í leðjunni árið 1415 þegar enskir ​​langbogamenn hófu árás sína á Azincourt.

 

De Gaulle fannst erfitt að gleyma fortíðinni, því allt stríðið óttaðist hann að Bretar myndu ráðast inn í frönsku nýlendurnar í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Öllum tillögum Breta mætti de Gaulle með tortryggni á meðan hann reyndi opinskátt að beina stríðinu í átt sem myndi styrkja stöðu Frakklands.

 

Churchill, fyrir sitt leyti, leit á hinn frjálsa franska herafla de Gaulle´s sem uppreisnarmenn úr hópi bandalagsherja. Mennirnir tveir lentu í svo miklum erjum að árið 1943 trúði Churchill aðstoðarforsætisráðherra sínum fyrir því að „ég mun biðja samstarfsmenn mína að íhuga vandlega hvort við ættum ekki að eyða de Gaulle sem stjórnmálaafli“.

 

Það sama ár skipaði Churchill öryggisþjónustunni MI5 að fylgjast með heimili de Gaulle í London. Ætlunin var að koma í veg fyrir að hann heimsækti frjálsa franska herinn í Norður-Afríku og myndi þar með sniðganga sameiginlegar ákvarðanir bandamanna.

 

„Hann fær ekki að ferðast og við munum beita valdi ef þörf krefur,“ sagði Churchill við Anthony Eden utanríkisráðherra í febrúar 1943.

Í seinni heimsstyrjöldinni andaði köldu á milli Winston Churchill og Charles de Gaulle.

Churchill var ekki einn um álit sitt. Breski diplómatinn og síðar forsætisráðherrann Harold Macmillan sagði eftir fund með de Gaulle í júní 1943:

 

„Hann er einræðisherra í eðli sínu. Eins og Loðvík 8. eða Napóleon. Hann trúir því innst inni að hann eigi að stjórna og að allir aðrir eigi að hlýða. Ég myndi ekki alveg segja að afstaða hans sé fasísk en hún er einræðishyggja í öllu falli“.

 

De Gaulle taldi sig ekki þurfa að biðjast afsökunar á mótlætiskenndri hegðun sinni. Þegar Anthony Eden, utanríkisráðherra, benti á á fundi árið 1943 að hershöfðinginn hefði valdið Bretum meiri angist en allir aðrir evrópskir bandamenn til samans, hneigði hershöfðinginn bakið stoltur.

 

„Ég efast ekki um það. Frakkland er öflug þjóð,“ svaraði hann brosandi.

 

Hin ísköldu samskipti Churchill og de Gaulle urðu til þess að breski forsætisráðherrann neitaði að lokum að upplýsa Frakka um áætlanir D-dagsins í júní 1944. Það var fyrst þegar Anthony Eden hafði afskipti af málinu og næstum því neyddi Churchill til að ræða við de Gaulle að leiðtoga Frakklands var loks sagt frá innrásaráformunum.

 

Það gerðist tveimur dögum fyrir innrásina þegar leiðtogarnir tveir hittust í lestarvagni í Portsmouth á Englandi. Churchill bauð upp á kampavín og bauð í kjölfarið de Gaulle í mat.

 

„Þakka þér fyrir en ég vil helst borða einn með starfsfólkinu mínu,“ svaraði de Gaulle fúll í bragði.

 

De Gaulle hefndi sín eftir stríðið

D-dagur boðaði sigur bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni en jafnvel þegar stríðinu var að ljúka gátu Bretar og Frakkar ekki enn verið sammála. De Gaulle kvartaði mikið yfir því að þýska borgin Köln væri á bresku en ekki frönsku hernámssvæði.

 

Eftir stríðið varð de Gaulle Frakklandsforseti og kom fram við Breta sem annars flokks Evrópubúa. Tvisvar – 1963 og 1967 – beitti hann neitunarvaldi gegn inngöngu Breta á evrópska efnahagssvæðið.

„Fallhlífarhermenn geta hertekið gangnaopið og varið hann nógu lengi til að innrásarher geti komist í gegnum göngin.“
Þingmaður um hættuna við jarðgöngin undir Ermarsund, 1974.

Tillaga Breta um samevrópska minningarathöfn vegna 150 ára afmælis orrustunnar við Waterloo árið 1965 var hafnað af de Gaulle. Bretar neyddust því til að setja upp mun látlausari minningarathöfn. Við þá lausn voru Frakkar sáttir.

 

„Það er eins og þeir þurfi að biðjast afsökunar á að hafa unnið,“ sagði franska blaðið „Le Monde“.

 

De Gaulle lést árið 1970 og aðeins þremur árum síðar gengu Bretar inn í evrópska efnahagssvæðið.

 

Erkióvinir leystu deiluna

Árið 1974 hófu Bretar og Frakkar gerð jarðgangna undir Ermarsund. Hins vegar voru margir Bretar efins. Þeir óttuðust enn franska innrás.

 

„Fallhlífarhermenn geta hertekið gangnaopið og varið það nógu lengi til að innrásarher geti komist í gegnum göngin. Þannig geta þeir farið fram hjá náttúrulegum vörnum okkar sem hafa varið landið okkar í 1.000 ár,“ sagði Alan Clark þingmaður Íhaldsflokksins árið 1974.

 

Niðurstaðan varð sú að stöðva þurfti framkvæmdir enn og aftur – þar til sáttmáli milli Bretlands og Frakklands árið 1986 tryggði að hægt væri að hefja framkvæmdir að nýju.

 

Loks vorið 1994 voru göngin tilbúin. Þann 6. maí vígðu Elísabet Bretlandsdrottning og François Mitterrand Frakklandsforseti hin tæplega 50 km löngu göng.

 

MYNDSKEIÐ: Sjáðu Elísabetu og Mitterand vígja göngin

Nú voru gömlu erkióvinirnir aðeins í 35 mínútna lestarferð frá hvor öðrum.

 

Í dag þurfa ferðamenn hins vegar að sætta sig við nokkuð lengri ferðatíma. Með útgöngu Breta úr ESB árið 2020 jókst vantraust milli Bretlands og Frakklands aftur. Nýjar inngöngureglur, aukið landamæraeftirlit og viðskiptahömlur gætu endurvakið aldagamla andúð þeirra á milli.

Útganga Breta úr ESB hefur leitt til mikilla biðraða við Ermarsundsgöngin.

Brexit ógnar viðkvæmri vináttu

Frá árinu 1994 hafa Ermarsundsgöngin tengt Frakkland og Bretland saman. Vegna ESB-aðildar landanna gat fólk og varningur flætt frjálslega yfir landamærin – en Brexit hefur bundið enda á það.

 

Með úrsögn Breta úr ESB í febrúar 2020 breyttust reglurnar við Ermarsundsgöngin í grundvallaratriðum. Landamæraeftirlit og flóknar tollareglur hægðu á ferðum og flutningabílar þurftu að bíða við göngin í marga daga eða vikur á meðan bílstjórar skiluðu af sér nauðsynlegum pappírum og skjölum.

 

Ári síðar varð ágreiningur um fiskveiðar til þess að hitna fór í hamsi. Fyrir Brexit fengu franskir ​​sjómenn að minnsta kosti 30 prósent af afla sínum í breskri lögsögu en þegar Bretar neituðu að endurnýja fjölda fiskveiðisamninga árið 2021 brutust út miklar deilur.

 

„Þetta er ekki stríð en þetta er barátta,“ sagði sjávarútvegsráðherra Frakklands, Annick Girardin. Franskir ​​sjómenn sigruðu þó orrustu þessa með því að hóta að loka göngunum.

 

Deilan hefur sett mark sitt á samfélögin. Samkvæmt dagblaðinu „The Guardian“ sögðu 56 prósent Breta í ágúst 2021 að þeim líkaði við franska nágranna sína. Í nóvember sama ár var það hlutfall komið niður í 47 prósent. Fyrir Frakka voru tölurnar 53 prósent og svo 46 prósent.

LESTU MEIRA UM HINA ERFIÐU NÁGRANNA

Stephen Clarke: 1000 Years of Annoying the French, Black Swan, 2015

 

 

Robert and Isabelle Tombs: That Sweet Enemy, Pimlico, 2007

 

Robert Gibson: Best of Enemies, Impress Books, 2004

 

HÖFUNDUR: ELSE CHRISTENSEN , ANDREAS ABILDGAARD

© PA Images/Imageselect & Shutterstock,© Image on website of Ulrich Harsh, © Look and Learn/Bridgeman Images & Shutterstock,© Granger/Imageselect,© Ms 6 f.243 Battle of Agincourt,© ClassicStock/Imageselect,© Niday Picture Library/Imageselect,© Keystone France,© Royal Collection/Hampton Court,© Francis Hayman, © Thomas Whitcombe,© Joseph Morewood Staniforth,© Published by John Bell, after Rose Emma Drummond, Élisabeth Louise Vigée Le Brun & Thomas Lawrence,© akg-images/Imageselect,© Frank Augstein/AP/Ritzau Scanpix

Heilsa

Líkamleg snerting er mikilvæg milli föðurs og ungabarns

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Maðurinn

Vísindamenn vara við langvarandi notkun á snuði

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

NÝJASTA NÝTT

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Jörðin

Af hverju er ís svona háll?

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Vinsælast

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

3

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

4

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

4

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

5

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

6

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

Jörðin

Leiða loftslagsbreytingar til fleiri jarðskjálfta?

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Tækni

Vandamál sem gat orðið aðkallandi

Maðurinn

Efnaskiptin eru stöðug frá 20 til 60 ára aldurs

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Maðurinn

Úmamí – fimmta frumbragðtegundin

Maðurinn

Eru fingraför óhjákvæmilega ólík?

Maðurinn

Frestar þú leiðinlegum verkefnum? Samkvæmt vísindamönnum er það slæm hugmynd

Læknisfræði

Hversu gamalt er Viagra?

Jörðin eftir manninn

Hvað verður um jörðina þegar við verðum horfin? Að sögn vísindamanna munu úlfaflokkar dreifast hratt á meðan borgirnar hrynja og sökkva. Hins vegar munu síðustu ummerki mannkyns standa til enda alheimsins.

Jörðin

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

 • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
 • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
 • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
 • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
 • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
 • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
 • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
 • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

 • Fullur aðgangur að visindi.is
 • Frábærar myndir og myndbönd
 • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
 • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
 • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is